Magnús Magnússon

Mjölnir: Minningarorð

Magnús Magnússon-- Þann 25. okt. 1967 lést í Sjúkrahúsi Siglufjarðar Magnús Magnússon, Norðurgötu 17, eftir erfiða legu. Magnús var fæddur á Gili í Öxnadal 24. sept. 1894, sonur Magnúsar Magnússonar bónda þar og Jóhönnu Þorsteinsdóttur konu hans.

Þriggja ára gamall fór hann í fóstur, að Bakkaseli, til Vigdísar Jónsdóttur, og var hjá henni til 14 ára aldurs, en þá varð hann háseti á handfærabát frá Akureyri. Næstu ár dvaldist hann á ýmsum stöðum við Eyjafjörð, m. a. á Dalvík, en fluttist þaðan til Akureyrar með bróður sínum, Snæbirni, og átti síðan heima á Akureyri í sex ár.

Hjá Snæbirni nam hann fyrst járnsmíðar, meðferð véla og skyld störf, og urðu þessar atvinnugreinar æfistarf hans eftir það, lengst vélgæsla, fyrst á skipum, en síðan í landi, einkum í síldarverksmiðjum hér á Siglufirði, hjá dr. Paul, Gránu og Rauðku. Hann var traustur og samviskusamur í starfi, átti gott með að lynda við vinnufélaga og yfirmenn og þess vegna vinsæll starfsfélagi.

Magnús Magnússon

Magnús Magnússon

Magnús fluttist hingað til Siglufjarðar 1923 og átti hér heima eftir það til dauðadags. Sama ár og hann kom hingað kvæntist hann Salbjörg Jónsdóttir, ættaðri frá Stórholti í Fljótum, hinni ágætustu konu. Salbjörg lést 18. okt. í fyrra.

Eignuðust þau þrjú börn:

  • Jóhann Magnússon,
  • Kristín Magnúsdóttir og
  • Vigdís Magnnúsdóttir,
    sem öll staðfestust utan Siglufjarðar,
    en að auki ólu þau upp dótturdóttir sína,
  • Magna Sigbjörnsdóttir, sem er gift hér í bænum.
    Varð hún og maður hennar, Ómar Möller, og þeirra börn, þeim Magnúsi og Salbjörgu til mikillar styrktar og ánægju í ellinni.

Að vísu var Magnús einn þeirra jafnlyndu manna, sem yfirleitt láta alls ekki í ljós hvort þeim þykir betur eða miður, en þó mátti á honum finna, að honum þótti vænt um heimili þeirra Mögnu og Ómars og það athvarf, sem hann átti hjá þeim. Magnús mun strax á unglingsárum og jafnvel barn hafa vanist því að verða að treysta mest á sjálfan sig og geta ekki sótt til annarra meira en hann verðskuldaði.

Hann mun því snemma hafa fastmótað skoðanir sínar um stöðu sína í samfélaginu og afstöðu sína til annarra manna. Hann var dulur, fáskiptinn hversdagslega, æðrulaus og gerði sér far um að vera sem minnst háður öðrum í persónulegu lífi. En jafnframt gerði hann sér ljóst, að í félagslegum efnum átti hann algera samstöðu með fram sinn skerf eins og að ljúka verki, sem hann var byrjaður á.

Hann var þeirrar skoðunar, að það sem hann ynni á vettvangi verkalýðsmála og í stjórnmálasamtökum, væri hann að vinna fyrir sjálfan sig og sína, og gerði það síðan án þess að vænta þakklætis eða launa, og líka án þess að spyrja nokkurn álits. Hann var einn þeirra manna, sem sjaldan lofa nokkru, en efna ævinlega það, sem þeir lofa, en oft meira. Þau Salbjörg og Magnús voru meðal stofnenda Kommúnistaflokks Íslands og síðar meðal stofnenda Sósíalistaflokksins.

Þau voru líka meðal stofnenda verkalýðsfélaganna hér í bænum. Lengst af munu þau hafa átt sæti í stjórnum eða trúnaðarmanna ráðum þessara samtaka, og alltaf voru þau meðal bestu og virkustu meðlimanna, sóttu vel fundi og ræktu af fyllstu samviskusemi og trúmennsku öll þau félagsstörf, sem þau tóku að sér. — Hinsvegar þýddi ekki að kjósa Magnús til neins þess starfs, sem hann taldi sér ekki henta að vinna. Væri hann kjörinn til starfa án hans vitundar, sagði hann strax til um, hvort hann tæki starfið að sér eða ekki, og eftir það varð engu breytt. Fortölur voru algerlega þýðingarlausar gagnvart honum, Nú eru þessi ágætu hjón bæði gengin til hinstu hvíldar, að lokinni starfsamri ævi.

Börn þeirra og aðrir afkomendur syrgja ástvini, sem alltaf var athvarf hjá.

Bæjarfélagið hefur misst ágæta borgara, og samtök alþýðunnar í bænum eiga á bak að sjá traustum félögum, sem unnu öll sín skyldustörf undanbragðalaust  og af fullkominni trúmennsku. En það léttir söknuðinn að vita, að þau áttu enga ólokna reikninga þegar þau kvöddu lífið; þau höfðu alltaf gert skyldu sína við samfélagið og samferðamennina, og oft meira. Þau skilja því aðeins eftir í hug okkar, sem þekktum þau, virðingu, þakklæti og góðar minningar.

B. S.  (Benedikt Sigurðason)