Tengt Siglufirði
mbl.is 26. september 2020 | Minningargreinar
Þórður Sigurðsson fæddist á Siglufirði 16. október 1936. Hann bjó á Böðvarsgötu 11 Borgarnesi. Hann lést í Brákarhlíð 4. september 2020.
Foreldrar hans voru Sigríður Anna Þórðardóttir, f. 5. okt. 1913 á Siglufirði, d. 3. ágúst 1992, og Sigurður Jóhannesson, f. 8. apríl 1905 á Skaga, d. 18. sept. 1972.
Þórður var elstur fjögurra bræðra.
Bræður
hans eru:
Þórður var giftur Sonju Guðlaugsdóttur frá Siglufirði, f. 12. júní 1936 d. 17. maí 2018.
Sonur þeirra
er
Þórður ólst upp á Siglufirði og eftir iðnnám þar flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann kláraði meistaranám í ketil- og plötusmíði og lengst af starfaði hann við það fag hjá Stálsmiðjunni. Einnig var hann til sjós bæði á togurum og millilandaskipum um árabil.
Hjónin Þórður og Sonja fluttust til Borgarness árið 1965 þar sem hann tók við starfi verksmiðjustjóra í Galvanó. Hann gerðist síðar lögreglumaður, kláraði lögregluskólann og var varðstjóri og yfirlögregluþjónn þar til hann lauk störfum sökum aldurs. Þórður var virkur forystumaður í félagsmálum í Borgarnesi, var alla tíð virkur í Björgunarsveitinni Brák og gegndi þar formennsku í fjögur ár eftir endurreisn í kringum 1970.
Hann var einn af stofnfélögum í Golfklúbbi Borgarness og starfaði með honum fram á síðustu ár. Hann gegndi formennsku frá 1986-1993. Hann var sæmdur gullmerki GSÍ 2013. Þórður var einnig einn af stofnfélögum flugklúbbsins Kára, starfaði og flaug um árabil.
Útför Þórðar verður í dag, 26. september 2020, klukkan 13 frá Borgarneskirkju.
Streymt verður frá útförinni á kvikborg.is: https://tinyurl.com/y2jvbluu/.
Virkan hlekk má nálgast á https://www.mbl.is/andlat/.
Lífshlaup pabba er á enda. Við endamarkið ríkir ekki sorg heldur þakklæti og söknuður. Það er hinn rétti gangur lífsins að fullorðið fólk fylgi foreldrum sínum síðasta spölinn. Nú eru þau bæði farin, mamma og pabbi, og ég veit að með þeim hafa orðið fagnaðarfundir að nýju.
Pabbi var ekki maður margra orða, hvorki í samskiptum við mig né aðra. En það sem hann sagði skipti þeim mun meira máli. Hann var hreinskilinn og gerði aldrei minnstu tilraun til að fegra hlutina. Pabbi var í senn hlýr og traustur, þolinmóður og gerði líka sanngjarnar kröfur. Hann vandaði um við mig þegar þess þurfti, hvatti mig og hrósaði.
Pabbi kenndi mér svo margt. Hann kenndi mér að meta náttúruna, kenndi mér að veiða og að bera virðingu fyrir bráðinni. Hann kenndi mér á landið og svo margt um mannfólkið. Pabbi lagði mér lífsreglur og innrætti mér gildi. Slíkt verður ekki lagt á hefðbundnar vogarskálar en það er þó verðmætara en flest annað.
Pabbi var yfirlögregluþjónn í Borgarnesi. Ég man að eitt sinn spurði ég hann hvort það væri ekki gaman að vera lögreglumaður. Hann svaraði því neitandi, það væri ekki gaman. Ástæðan var sú að lögreglumenn hittu gjarnan fólk sem ætti erfitt og væri að ganga í gegnum sínu verstu lífsreynslu oft á tíðum. Hann hafði hvorki þörf fyrir né ánægju af því að beita valdi sínu. Hann gerði það auðvitað ef á þurfti að halda. Þannig var honum sérstaklega illa við að foreldrar væru að hræða börnin sín með lögreglunni, því börn, jafnvel umfram fullorðna, þyrftu að treysta lögreglunni. Þetta lýsir vel því hvernig pabbi sinnti sínu starfi, hann vildi vera þjónn fólksins en ekki yfirvald.
Pabbi innrætti mér lífsgildi sem hafa verið mitt leiðarljós alla tíð, til að mynda að koma eins fram við alla, fara ekki manngreinarálit. Ég hitti fulltrúa erlends ríkis að máli um daginn og sá kvartaði mjög yfir því að ég hefði farið gagnrýnisorðum um stjórnarhætti og stöðu mannréttindamála í ríki hans. Ég sagði honum þá sögu af pabba. Þannig var að pabbi kom alltaf heim af löggustöðinni í hádegismat og gekk þá fram og til baka. Á leiðinni blasti við honum sama sjónin á hverjum degi í götu, en pabbi vinar míns lagði bílnum ólöglega á hverju einasta degi.
Og á hverju einasta degi skrifaði pabbi upp sektarmiða og lagði
á bílinn. Svo fór að þessi pabbi vinar míns bað mig á endanum að tala við pabba og fara þess á leit að hann hætti að sekta hann.
Svar pabba var á þessa leið:
Það er erfitt að vera lögreglustjóri í litlum bæ en þú verður að gæta þess að koma jafnt fram við alla, annars fer allt í vitleysu.
Ég ætla ekki að halda því fram að þessi litla saga hafi sannfært sendimann erlenda ríkisins en ég hugsa samt að hann hafi áttað sig á samhenginu.
En þannig er það, að lífsgildi foreldra okkar og annarra sem áhrif hafa á okkur móta okkur fyrir lífstíð. Fyrir þau lífsgildi sem mér voru innrætt af mínum foreldrum verð ég alltaf þakklátur. Þau studdu mig með ráðum og dáð en á sama tíma gerðu þau kröfur til þess að ég stæði á eigin fótum og að ég stæði í lappirnar. Á þeim tíma sem ég ólst upp í Borgarnesi léku allir krakkar sér saman, stórir og litlir á ólíkum aldri.
Ég minnist þess að hafa gjarnan verið tuskaður til af eldri strákum og þá greip ég gjarnan til þess ráðs að segja að pabbi minn væri lögga og hann myndi taka þá ef þeir létu mig ekki í friði. Oftast dugði þetta til en einhvern tímann kom ég heim eftir að hafa verið tuskaður nokkuð ærlega til af stærri strákum og bað pabba að nú um að beita sér í málinu. Hans svar var skýrt: Ef þú getur ekki barið þá, þá skaltu hlaupa. Aldrei að koma til mín með svona lagað.
Við kveðjustund rifjast þetta allt saman upp og svo miklu fleira. Söknuðurinn er mikill en minningarnar gera hann ljúfan frekar en sáran. Ég fæ pabba og mömmu aldrei þakkað að fullu allt sem þau voru mér.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
-----------------------------------------------
Þórður tengdafaðir minn hefur kvatt eftir erfið veikindi. Við fyrstu kynni fór ekki fram hjá mér að þar fór einstaklega heillandi og hlýr maður. Hann tók verðandi tengdadóttur af mikilli velvild og vinsemd vel og brá aldrei skugga á okkar samskipti enda Þórður einstakt ljúfmenni. Traustur, hlýr, sérlega úrræðagóður, hjálpsamur, skynsamur og réttsýnn eru lýsandi orð fyrir hann eins og ég kynntist honum.
Glettni og kímnigáfa þótti mér einkennandi í hans fari og hann nálgaðist viðfangsefni lífsins og tilverunnar af jákvæðni, yfirvegun og æðruleysi. Sjarmerandi glettnisblikið í auga, bros og góðlátleg stríðni var aldrei langt undan og alveg fram á síðasta dag.
Eitt af því sem ég kunni vel að meta í fari Þórðar var hve hreinskiptinn hann var og reyndi ekki að „sykurhúða“ hlutina. „Þú hefur fitnað drengur minn,“ átti hann til að segja góðlátlega við son sinn þegar honum þótti mittismál hans hafa stækkað óæskilega mikið. Skilaboðin voru einföld og skýr, sögð af hlýjum hug og hittu í mark.
Almennt spurður álits á málum sagði hann óhikað skoðun sína þó einhverjum kynni e.t.v. að þykja hún ögn óþægileg. Hreinskilni hans var mér mjög að skapi og þótti svo dásamlega hressandi þegar hann var til dæmis spurður „hvernig smakkast?“, þá kom svarið frá honum blátt áfram, en það gat t.d. verið „fínt en sósan er of þunn.“
Það var alltaf ánægjulegt að fá Þórð í mat til okkar í Logafoldina, enda mikill matmaður og naut þess út í ystu æsar að borða góðan mat – og því meiri rjómi því betra. Má segja að það hafi í raun verið rannsóknarefni eitt og sér hvað hann gat borðað óhemju mikið og alltaf í fínu formi.
Óhætt er að segja að Þórður hafi verið glæsimenni, áberandi hraustur og líkamlega sterkbyggður. Hann virtist leggja mikið í það ævilangt að halda líkamanum í góðu ástandi þrátt fyrir að veikindin gerðu honum erfitt fyrir í seinni tíð. Það virtist fátt bíta á þennan stæðilega mann. Það var aðdáunarvert að fylgjast með því síðustu ár hvernig hann tókst á við hinn erfiða sjúkdóm sem hann glímdi við í rúman áratug af þeirri yfirvegun sem einkenndi hann. Hann hélt sínu striki eins og honum frekast var unnt og af einbeitingu og kappi stundaði ýmsar æfingar og veigraði sér ekki við að iðka daglega æfingar með lóðum, kominn vel yfir áttrætt.
Tvíburarnir Sonja Dís og Þórður Ársæll voru einu barnabörn Þórðar og Sonju og ræktuðu þau samband sitt við börnin af mikilli natni og alúð. Fengu þau oft og iðulega að heimsækja afa og ömmu í Borgarnesi. Þórður var dásamlegur afi og augljóslega veitti það honum mikla gleði og ánægju að kynnast krökkunum og verja tíma með þeim. Amma og afi buðu þeim með sér í útilegu á húsbílnum og margar sundferðirnar voru farnar með afa í sundlaug Borgarness. Tvíburunum þótti afar vænt um afa sinn og áttu afar dýrmætt samband sem þau munu búa að um ókomin ár.
Þær voru alltaf ljúfar heimsóknir fjölskyldunnar í hæga, rólegheita lífið á Böðvarsgötunni og mikill söknuður að þær verða nú ekki fleiri.
Þakklæti fyrir góðar minningar er mér efst í huga á kveðjustund. Með sorg í hjarta kveð ég elsku tengdapabba.
Blessuð sé minning Þórðar Sigurðssonar.
Ágústa Johnson
-------------------------------------------------
Komið er að kveðjustund, elsku afi okkar hefur nú kvatt þessa jarðvist.
Afi Þórður var frábær afi og það er ótal margs að minnast.
Við vorum svo heppin að fá að dvelja oft í Borgarnesi nánast frá fæðingu og kynntumst ömmu Sonju og afa Þórði vel og ekki má gleyma labrador-hundinum skemmtilega, honum Patta.
Það sem kemur upp í hugann þegar við rifjum upp lífið á Böðvarsgötunni er afi með stóra gula kaffibollann sinn, drakk alltaf úr sama bollanum. Okkur fannst hann ætti að fá sér nýjan, en nei, ekki afi. Þó bollinn væri, að því er virtist, orðinn 100 ára, brúnn og lúinn, var hann góður og gildur og engin ástæða til að skipta.
Afi golfari. Hann afi var alltaf í golfi og var frábær golfari. Hann kenndi okkur að spila golf og leyfði okkur alltaf að keyra golfbílinn sinn frá því að við rétt sáum upp fyrir stýrið.
Afi og Patti. Patti var mjög fjörugur hundur og gat verið mjög erfiður að tjónka við og sá eini sem gat tamið hann var afi. Hann kenndi honum ótal kúnstir sem okkur þótti óskiljanlegt hvernig hann fór að því. Afi hafði alveg sérstakt lag á því að ala upp góða hunda.
Afi matargat. Honum afa þótti ótrúlega gott að borða og þegar okkur langaði ekki í meiri ýsu þá dró afi okkur að landi. Okkur þótti það ekki slæmt. Enginn borðaði jafn mikið og afi.
Afi var alltaf hress og kátur og sama hvað hann var orðinn slæmur af veikindum sínum í lokin þá náði hann alltaf að vera brosandi og hress þegar við komum í heimsókn til hans. Hann var alla tíð endalaust góður við okkur og það fór heldur ekki framhjá okkur hve góður hann var við ömmu og hugsaði alltaf vel um hana.
Vertu sæll elsku afi, takk fyrir allt. Við munum alltaf elska þig.
Þín Sonja Dís
og Þórður Ársæll.
-------------------------------------------------------
Þórður Sigurðsson, sem við kveðjum í dag, var elsti sonur Siggu föðursystur og elsta barnabarn vitavarðarhjónanna á Siglunesi nyrst á Tröllaskaga. Sérlega kært var á milli foreldra okkar alla tíð og hríslaðist sá vinskapur milli kynslóðanna. Þeir Þórðarnir voru miklir vélakarlar, sem batt þau bönd enn fastar.
Þórður frændi hefur alltaf verið nálægur frá því ég man fyrst eftir mér og fljótlega Sonja líka, sú frábæra kona, sem lést fyrir rétt tveimur árum.
Þau voru oftast nefnd í sömu andránni á æskuheimili mínu og þannig var það alltaf. Bæði dásamlegar manneskjur. Þórður var flinkur ljósmyndari og enn er uppi á vegg í stofunni á Laugarveginum gullfalleg ljósmynd af þeim hjónum ungum, sem hann hafði tekið sjálfur og sent foreldrum mínum fyrir langalöngu.
Fyrir mér var Þórður afskaplega traustur, agaður maður, sem ég man aldrei eftir að hafa séð reiðan. Hann var eiginlega eins og klettur. En hann átti sannarlega margar aðrar hliðar, sem hann var spar á að sýna. Þórður var glaðsinna og gat verið lúmskt fyndinn, jafnvel pínu prakkari. Hann elskaði náttúru Íslands, hafði gaman af veiðum og ferðaðist víða um landið með fjölskylduna og myndavélina. Þórður var mikill dýravinur og oftast var hundur á heimilinu.
Á efri árum heillaðist hann af golfinu og stundaði stíft meðan stætt var. Það var sérlega gaman að taka hús á þeim hjónum á Böðvarsgötunni þegar þau voru bæði heima og spjalla við þau og grínast um lífið og tilveruna.
Þórði og Sonju hlotnaðist mikil hamingja þegar þau tókust á við foreldrahlutverkið. Einkasonurinn Guðlaugur Þór, kraftmikill, frískur og fínn, varð þeim mikill gleðigjafi og ber foreldrum sínum einstaklega fagurt vitni. Þau voru enda stolt af stráknum og fjölskyldu hans alla tíð.
Ég hitti frænda minn síðast þegar ég leit inn hjá honum í Brákarhlíð stuttu áður en Covid skall á. Þangað flutti hann fljótlega eftir að Sonja lést. Elli kerling hafði því miður lagst þungt á Þórð frænda með parkinson þannig að hann þurfti skjól. Þórði leið vel í Brákarhlíð en vitanlega var hann ekki sáttur við líkamlegt ástand sitt.
Hugurinn var í góðu lagi, t.d. teiknaði Þórður og útskýrði fyrirkomulagið á vatninu í húsi fjölskyldunnar á Siglunesi eins og fagmaður. Fyrir nokkru greindist hann svo með krabbamein, sem lagði hann að velli á tiltölulega stuttum tíma.
Minningar mínar um Þórð Sigurðsson eru fjölmargar, góðar, bjartar og ljúfar, og fyrir þær er ég þakklát. Guðlaugi Þór og fjölskyldu votta ég samúð mína og minnar fjölskyldu. Blessuð sé minning Þórðar frænda.
Árdís Þórðardóttir.
--------------------------------------------
Þórður var föðurbróðir minn en líka miklu meira en það. Hann var hluti af pabba. Það var sjaldan minnst á Þórð án þess að minnast líka á pabba, taugin þeirra á milli var það sterk enda voru aðeins þrjú ár á milli þeirra í aldri. Við andlát pabba var því mikil huggun að hafa Þórð. Það var alltaf hægt að leita til hans og var hann einstaklega ráðagóður, hlýr og skemmtilegur. Á sumrin voru þeir bræður, Þórður og pabbi, oftar en ekki saman á Siglunesi.
Nesið var þeirra paradís og var sérstaklega gaman að vera þar með þeim, taka þátt í brasinu og hlusta á sögur frá fyrri tíð, minningar af fólkinu á Nesi og lífinu á Siglufirði. Þórður var glaður með nesferðina sumarið 2018 en þar átti hann ánægjulegan tíma með Gulla syni sínum, Þórði Ársæli, sonarsyni sínum, Valgeiri bróður sínum, Hilmari bróðursyni og Hafsteini Úlfari, syni mínum.
Borgarnes hefur alltaf verið fastur punktur í öllum ferðum norður á Siglufjörð og suður aftur. Frá því ég man eftir mér var alltaf stoppað hjá Þórði og Sonju, stundum stutt, bara rétt til að kyssa og knúsa, og stundum lengur. Eftir að við fluttum til Siglufjarðar var hvergi betra að stoppa á leið suður en í Borgarnesi. Bæði voru Þórður og Sonja höfðingjar heim að sækja og afskaplega barngóð.
Börnin mín fengu óskipta athygli og væntumþykju. Ekki var verra að til var tvennt af öllum leikföngum svo ágreiningur um leikföng kom aldrei upp. Því var hægt að drekka kaffi og spjalla í ró og næði. Mikill var missir Þórðar þegar Sonja lést fyrir tveimur árum enda höfðu þau fylgst að í gegnum lífið allt frá barnsaldri. Gulli annaðist föður sinn vel og var gaman að sjá glampann í augum Þórðar þegar hann sagði frá barnabörnunum, tvíbbunum sínum þeim Sonju Dís og Þórði Ársæli. Þau voru augasteinar hans og Sonju.
Með sorg í hjarta en miklu þakklæti kveð ég minn ástkæra föðurbróður og votta Gulla, Ágústu og börnum samúð mína svo og föðurbræðrum mínum þeim Valgeiri og Jónasi. Ég trúi því að Sonja hafi tekið vel á móti Þórði sínum svo og pabbi og að ég muni finna fyrir þeim bræðrum á Siglunesi næsta sumar.
Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir.
------------------------------------------------
Elsku Þórður, það verður skrýtið að fara ekki lengur í Borgarnes til þess að heimsækja þig, eða ég, „Mazza mág“, að hringja í þig, „Dodda mág“, og heyra í þér. En allt hefur sinn tíma, það vitum við öll. Þú fékkst loks hvíld eftir erfið veikindi og ert nú kominn í faðm elsku Sonju þinnar.
Samfylgd okkar er orðin löng. Þú komst inn í fjölskylduna fyrir 65 árum þegar þú trúlofaðist Sonju systur minni. Er það mér ógleymanlegt þegar þið komuð heim til mömmu og pabba, mjög laumuleg, þannig að ég fór að hlusta og heyrði þegar þið hvísluðuð því að mömmu og pabba að þið væruð búin að trúlofa ykkur. Ég átti þá að vera sofnuð. Þið voruð einstaklega fallegt og glæsilegt par.
Fljótlega fluttuð þið frá Siglufirði til Reykjavíkur og byrjuðuð að búa. Ég flutti til ykkar á Brávallagötuna 16 ára gömul og áttum við margar ógleymanlegar ánægjustundir saman. Þið voruð mér eins og aðrir foreldrar upp frá því og er ég ævinlega þakklát fyrir það. Síðan fluttum við í Sólheimana.
Árið 1965 fluttuð þið í Borgarnes og við Maggi byrjuðum að búa. Tveimur árum síðar eignuðumst við okkar fyrstu börn en það var mikill gleðidagur í lífi ykkar Sonju þegar sólargeislinn ykkar Guðlaugur Þór fæddist 19. desember 1967. Áttum við ófáar ferðirnar í Borgarnes upp frá því og var það alltaf jafn gaman. Minnast þau þess af hlýhug enda mynduðust órjúfanleg vinabönd milli ykkar og þeirra. Alltaf voru hundar í báðum fjölskyldum og urðu heimsóknirnar oft útivistarferðir um Borgarfjörðinn og víðar, í berjamó og fleira. Aldrei fór neitt okkar framhjá Borgarnesi nema koma við í extra góðu kaffi og meðlæti á Böðvarsgötu 11.
Áhugamálin voru mörg. Má þar nefna ljósmyndun og útivist og kom þar hraðbáturinn þinn oft við sögu og voru ófáar ferðirnar frá Reykjavík út í Viðey, vestur á Mýrar og upp í Borgarnes. Stangveiði og skotveiði var þér hugleikin enda minnist Magnús margra ánægjulegra ferða með þér. Síðast en ekki síst var golfið þér hugleikið og veitti þér margar ánægjustundir með góðum félögum og vinum og ekki síst holla útiveru. Húsbílaferðirnar voru ykkur mikils virði og fóruð þið víða. Við trúum því að þú munir leika golf á grænum grundum þar sem þú ert núna í sumarlandinu hjá Sonju elskunni þinni.
Þú starfaðir sem lögregluþjónn í Borgarnesi og síðar sem yfirlögregluþjónn og starfaðir sem slíkur þar til þú komst á aldur, enda fórst starfið þér vel úr hendi, svo einstaklega yfirvegaður og traustur sem þú varst. Þú sagðir oft: „Engin vandamál eru svo stór að ekki sé hægt að leysa þau, bara fara rétt að þeim.“ Hjá börnunum í fjölskyldunni varst þú alltaf „Doddi lögga“ og mikil virðing borin fyrir því.
Hamingjusamur varstu elsku Þórður þegar Guðlaugur og Ágústa eignuðust litlu sólargeislana ykkar, Þórð Ársæl og Sonju Dís, og þið urðuð afi og amma í Borgarnesi. Samverustundirnar með þeim urðu margar og gleðiríkar, enda voru þau oftar en ekki umræðuefnið þegar við hittumst yfir kaffibolla.
Við þökkum af alhug samveru liðinna ára við mætan mann og kveðjum með söknuði og sorg í hjarta.
Elsku Gulli, Ágústa, Þórður Ársæll, Sonja Dís, Anna Ýr, Rafn Franklín og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Góður guð gefi ykkur styrk í sorginni.
Birgitta, Magnús og fjölskylda.
-------------------------------------------------
Þórður Sigurðsson, einn af stofnfélögum Golfklúbbs Borgarness, er nú fallinn frá. Mig langar að minnast góðs vinar hér með nokkrum orðum.
Þórður var einn af frumherjum Golfklúbbs Borgarness sem stóðu að því að koma upp níu holu golfvelli á Hamri. Árið 1973 hafði verið stofnaður Golfklúbbur í Borgarnesi og fékk klúbburinn svæði í landi Hamars undir golfvöll.
Ærið verkefni var að gera landið hæft fyrir golfleik. Framherjarnir voru sveit vaskra manna sem unnu þrekvirki við að koma upp níu holu golfvelli á Hamri, allt í sjálfboðavinnu. Á eftir fylgdu endurbætur á Hamarshúsinu, sem var okkar klúbbhús í áraraðir.
Hann varði þar miklum tíma við þau verkefni og önnur sem þurfti að sinna; að slá flatir, fara með unglingana í mót, gera við vélar og tína stórgrýti upp úr vellinum svo fátt eitt sé nefnt.
Þórður var formaður Golfklúbbs Borgarness á árunum 1986 til 1993, formaður vallarnefndar á fyrstu árum klúbbsins. Golfklúbburinn á Þórði ótal margt að þakka fyrir gifturík störf í þágu klúbbsins.
Margar góðar minningar á ég með Þórði af golfvellinum á Hamri en þangað fór ég ungur að venja komur mínar. Þórður virtist kannski hrjúfur á yfirborðinu en undir því var ljúfur, vinsamlegur og traustur vinur sem hægt var að stóla á.
Oft á vorin var Þórður með hundinn sinn með sér á vellinum. Hundurinn var vel taminn og gerði það sem fyrir hann var lagt. Ef Þórður taldi höggið ekki nógu gott gat hann sent hundinn til að ná í boltann og þá var hægt að endurtaka höggið. „Sækja, sækja!“ var þá viðkvæðið og hundurinn hljóp af stað.
Sagan af því þegar Þórður fór með félögum úr Golfklúbbi Borgarness til Skotlands er minnisstæð. Þar voru leigðir tveir bílaleigubílar á flugvellinum fyrir hópinn. Þegar farið var af stað missir aftari bíllinn fljótt sjónar á fremri bílnum, sem Þórður var farþegi í. Á leiðarenda fara menn í aftari bílnum að kvarta yfir því hversu greitt hafi verið ekið. Þá segir Þórður:
„Hvað er að ykkur, hann fór aldrei yfir níutíu!“ En þarna sýndi hraðamælir bílsins mílur þannig að ökumaðurinn hefur allavega ekki farið hraðar en 145 kílómetra á klukkustund.
Það gustaði oft af Þórði í bókstaflegri merkingu þegar hann mætti á völlinn á bláa Volvonum. Beygjan af þjóðveginum inn á afleggjarann að Hamri var tekin á sæmilegum hraða og þyrlaðist þá upp ryk. Þessi beygja er stundum nefnd Þórðarsveigur frá þessum tíma.
Þórður náði góðum árangri í golfinu og var duglegur að stunda íþróttina. Oft í verðlaunasætum og hlaut viðurkenningar fyrir það.
Þegar heilsu fór að hraka fór hann um á golfbíl og fór oft út á völl í alls konar veðrum til að stunda sína íþrótt.
Ég vil þakka vini mínum og félaga fyrir þær mörgu góðu stundir sem við áttum saman, þær hafa gefið mér mikið. Við færum Guðlaugi Þór, fjölskyldu hans og öðrum ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíldu í friði kæri vinur.
F.h. Golfklúbbs Borgarness, Guðmundur Daníelsson, formaður.
--------------------------------------------------
Við andlát Þórðar frænda míns rifjast upp margar góðar minningar frá glöðum æskuárum á Siglufirði. Þórður faðir minn var yngsti bróðir Sigríðar Önnu, móður Þórðar. Þau misstu föður sinn, Þórð Þórðarson vitavörð á Siglunesi, árið 1923. Margrét Jónsdóttir, amma okkar, var þá 29 ára gömul sex barna móðir.
Miklir kærleikar og sterk tengsl voru alla tíð milli þeirra systkinanna. Öll tilefni voru notuð til að hittast, stórveislur haldnar um jól og áramót þar sem öll fjölskyldan kom saman og tíðar voru einnig ferðir á Siglunesið.
Þórður var elsta barnabarn Margrétar ömmu. Hann var dásamlegur frændi og sýndi mér sem litlu frænku mikla athygli og elskusemi. Þeir bræðurnir lánuðu bókaorminum allar þær bækur sem til voru á heimilinu og voru alltaf fúsir til að fara á háaloftið á Norðurgötunni til að uppfylla óskir um lestrarefni.
Þórður var glæsimenni svo eftir var tekið. Hann var heillandi persónuleiki, jákvæður, brosmildur og hlýr með glettnisblik í augum.
Hann var hjálpsamur drengur sem allra vanda vildi leysa, traustur og gefandi, vinsæll og vel látinn. Hann gekk að öllum verkum af einstakri natni, vandvirkni og reglusemi og var mikill og flinkur fagmaður.
Gifting þeirra Þórðar og Sonju Guðlaugsdóttur var stórviðburður í fjölskyldunni. Þau voru þá ung að árum, falleg bæði og jafnræði með þeim. Þau voru samhent í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, bæði í leik og starfi.
Árið 1967 var hamingjuár í lífi þeirra þegar þau eignuðust einkasoninn, Guðlaug Þór. Þórður faðir minn hafði komið til Reykjavíkur rétt fyrir jól það ár og við Jón og Jófríður dóttir okkar fórum með honum norður til Siglufjarðar til að halda þar jól.
Á leiðinni norður heimsóttum við Þórð og Sonju í Borgarnesi til að berja augum nýja fjölskyldumeðliminn. Það var ógleymanlegt að fá að taka þátt í gleði þeirra og hamingju við þessi tímamót.
Við hjónin hittum Þórð á heimili hans fyrir fáum misserum. Sonja var látin og heilsan mjög farin að bila. Hann bar sig vel að vanda en við skynjuðum vel umskiptin í lífi hans, sorg hans og söknuð. En brosin hans voru hlý sem fyrr og gleðin einlæg þegar hann horfði til framtíðar og ræddi um einkasoninn og fjölskyldu hans.
Við hjónin þökkum velvild og gæsku á liðinni tíð. Við vottum Guðlaugi Þór og fjölskyldu hans innilega samúð. Guð blessi minningu Þórðar Sigurðssonar.
Sigríður Anna Þórðardóttir.
-----------------------------------------------------
HINSTA KVEÐJA
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Minning þín lifir. Með kæru þakklæti fyrir allt.
Anna Ýr og Rafn Franklín.
---------------------------------------
mbl.is 12. október 2020 | Minningargrein
Þórður Sigurðsson fæddist 16. október 1936. Hann lést í Brákarhlíð 4. september 2020.
Útför Þórðar var 26. september 2020.
Það eru margar minningar sem sækja á hugann þegar Þórður Sigurðsson er kvaddur. Þessar minningar tengjast oftar en ekki golfinu. Hann er í mínum huga ákaflega kær félagi sem alltaf stafaði gott frá. Þegar við fluttum í Borgarnes 1979 fór ég fljótlega í heimsókn að Hamri, þar sem Golfklúbbur Borgarness (GB) hafði aðstöðu. Þar kynntist ég mörgum góðum mönnum sem ég vann með við uppbyggingu GB, spilaði með þeim og keppti við.
Einn þeirra var Þórður lögga sem var mikið hraustmenni og kraftmikill í öllu sem hann kom að. Hann var alveg einstaklega skemmtilegur og vandaður félagi með góða skaphöfn, var alltaf hvetjandi og jákvæður þannig að margir sóttust eftir að hafa hann sem spilafélaga. Þannig var það þau 13 ár sem við bjuggum í Borgarnesi. Við Þórður spiluðum oft saman og koma nú upp í hugann margar minningar, og vel ég hér tvö atvik sem bæði tengjast golfi.
Við fórum saman í nokkur skipti sem partnerar í stóra GR-haustmótið og gekk oft ágætlega, nema í eitt skiptið, þá mætti ég illa fyrirkallaður, og spilaði mitt versta golf allan hringinn. Þórður bara brosti og hvatti mig áfram alveg til loka, ekki eitt styggðaryrði. Þetta var lýsandi fyrir skaphöfn Þórðar, sem var heilsteyptur og ljúfur á hverju sem gekk. Hitt atvikið var þegar parakeppni átti að fara fram í GB og Þórð vantaði makker.
Hann kom til mín og spurði hvort Ásta Huld, sem þá var 12 ára og alveg óvön í golfi, mætti spila með sér. Það var auðvelt að leyfa það með þeim barngóða heiðursmanni. Svo fóru reyndar leikar að þau voru í efstu sætunum og Ásta hefur oft minnst þess síðan hvað hann var góður og skilningsríkur. Ég hitti Þórð fyrir fáum árum þegar ég kom að Hamri og við ákváðum að spila saman og var það skemmtilegur endurómur fyrri tíma.
Ég naut hringsins mikið með mínum gamla góða félaga. Þótt nokkuð væri af honum dregið líkamlega var sama góða skapið og ljúfmennskan enn til staðar. Þórður er nú farinn til fundar við Sonju sína og hugsanlega einnig að líta til Siglufjarðar sem var honum kær. Sértu kært kvaddur gamli vinur. Við þökkum góða samferð og sendum samúðarkveðjur til Guðlaugs og fjölskyldu.
Henrý og Ingibjörg.