Sonja Guðlaugsdóttir

mbl.is - 2. júní 2018 | Minningargreinar  

Sonja Guðlaugsdóttir fæddist á Siglufirði 12. júní 1936. Hún lést á Borgarspítalanum í Fossvogi 17. maí 2018.

Foreldrar hennar voru Þóra María Amelía Björnsdóttir, f. á Oddeyri, Akureyrarsókn, Eyjafirði 4. nóvember 1897, d. 27. mars 1976, og Guðlaugur Gottskálksson, f. í Nesi í Flókadal í Skagafirði 1. október 1900, d. 6. febrúar 1977.

Af tíu börnum foreldra sinna var Sonja sú níunda í röðinni.
Fimm systkina hennar létust fyrir tveggja ára aldur en þau voru

 • Marzelia Birna, f. 1923, d. 1924,
 • Marzelia Birna, f. 1925, d. 1927,
 • Björn Stefán, f. 1927, d. 1927,
 • Gottfreða Sólveig, f. 1930, d. 1930, og
 • Þóra Hafstein, f. 1933, d. 1934.

Þau systkina hennar sem náðu fullorðinsaldri eru

 • Regína Guðlaugsdóttir, f. 1928, en eiginmaður hennar var Guðmundur Árnason, f. 1929, d. 2014

 • Helena Guðlaugsdóttir, f. 1932, d. 2012, en eiginmaður hennar var Ronald Whitaker, f. 1933, d. 2016

 • Birgir Guðlaugsson, f. 1941, d. 2007, en eftirlifandi eiginkona hans er Erla Svanbergsdóttir, f. 1944, og

 • Birgitta Guðlaugsdóttir, f. 1945, en eiginmaður hennar er Magnús Ingjaldsson, f. 1942.
Sonja Guðlaugsdóttir

Sonja Guðlaugsdóttir

Eftirlifandi eiginmaður Sonju er Þórður Sigurðsson, f. á Siglufirði 16. október 1936.
Sonur þeirra er

 • Guðlaugur Þór Þórðarson, f. 19. desember 1967, giftur Ágústu Johnson, f. 2. desember 1963. Börn þeirra eru tvíburarnir
 • Sonja Dís Johnson Guðlaugsdóttir og
 • Þórður Ársæll Johnson Guðlaugsson, f. 2002.
  Ágústa á tvö börn úr fyrra hjónabandi, þau
 • Önnu Ýri Johnson Hrafnsdóttur, f. 1991, og
 • Rafn Franklín Johnson Hrafnsson, f. 1994.

Sonja ólst upp á Siglufirði og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Að loknu námi vann hún á skrifstofu Kaupfélags Siglfirðinga og í iðnaðardeild Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS). Hún flutti í Borgarnes árið 1965 þar sem hún vann meðal annars á skrifstofu Kaupfélags Borgfirðinga, hreppsskrifstofunni og sýsluskrifstofunni. Hinn 23. febrúar 1988 stofnaði hún bókhalds- og tölvuþjónustuna í Borgarnesi og vann við það á meðan kraftar leyfðu.

Útför Sonju fer fram í dag, 2. júní 2018, frá Borgarneskirkju klukkan 11.
------------------------

Elskuleg móðir mín er fallin frá. Söknuður og þakklæti er mér efst í huga þegar ég minnist hennar. Mamma var kletturinn í lífi mínu og fyrirmynd í einu og öllu. Hún var alltaf til staðar, ást hennar og umhyggja átti sér engin takmörk.

Ég á einstaklega góðar æskuminningar, það var gæfa að búa við frelsi til athafna, frelsi til að reka sig á, gera mistök – þroskast. Ég skildi það eflaust ekki þá en þetta frelsi var aðeins mögulegt í skjóli mömmu og pabba. Mamma studdi mig í blíðu og stríðu, hún hvatti mig til að vera sjálfstæður. Hún kenndi mér þrautseigju, að gefast aldrei upp. Æskuárin eru endalaus uppspretta jákvæðra minninga og þar eiga mamma og pabbi stærstan hlut að máli.

Mamma og pabbi hvöttu mig áfram í öllu því sem tók mér fyrir hendur með æði misjöfnum árangri, hvort sem um var að ræða námið, skákina, íþróttirnar, tónlist, dans eða önnur viðfangsefni þar sem ég átti jafnvel enn minna erindi. Þau vildu að ég reyndi að sigrast á erfiðleikum en ekki að gera bara það sem lá beinast við. Eftir að ég flutti að heiman héldu þau áfram að styðja mig í blíðu og stríðu. Hvatning mömmu og aðhald var mér styrkur allt til hennar síðasta dags.

Mamma var mjög pólitísk og lá ekki á skoðunum sínum. Hún var sjálfstæðismaður af gamla skólanum, þoldi illa hroka og yfirlæti en vildi að stjórnmálamenn hugsuðu fyrst og fremst um þá sem minna mega sín. En þrátt fyrir afdráttarlausar skoðanir gerði hún aldrei greinarmun á fólki eftir stjórnmálaskoðunum. Hún sá gott í öllum – eiginleiki sem ég dáðist alltaf að og hef reynt eftir fremsta megni að tileinka mér.

Án þess að hún hafi sjálf haft um það mörg orð, þá hafði mamma í heiðri kristin gildi, einkum náungakærleikann. Ég gleymi því ekki þegar hún svaraði umkvörtunum mínum um hrekkjusvínin með þeim orðum að ég þyrfti að vera góður við þau. Mamma var einstaklega góð við börn og mikill dýravinur, hvort tveggja eiginleikar sem ég lærði af henni að lýstu vel innri manni.

Mamma tilheyrði þeirri kynslóð sem vann störf sín af dugnaði, heiðarleika og fórnfýsi. Mamma var sterk kona, vann það sem þá var nefnt karlastarf, og hún var mér slík fyrirmynd að ranghugmyndinni um að konur væru ekki jafnokar karla laust aldrei niður í kollinn á mér, þótt slík viðhorf hefðu verið nokkuð almenn á þeim tíma.

Við mamma vorum alla tíð náin. Fram á síðasta dag leitaði ég til hennar, í skjólið sem ég alltaf átti hjá henni. Hún sagði mér alltaf til syndanna ef henni þótti ástæða til og brýndi mig til góðra verka. Ég fann mjög sterka þörf til að fara til hennar á mæðradaginn síðasta og við áttum góða stund saman. Hún kvaddi skjótt, aðeins örfáum dögum síðar.

Þótt þessi sé lífsins gangur þá er missirinn mikill, ekki síst fyrir pabba. Þau voru alla tíð afskaplega samhent og hann sér nú á eftir sínum besta vini og lífsförunaut.

Eftir standa minningarnar, fallegar og ljúfar, um yndislega konu, móður og ömmu. Fyrir allt sem mamma var mér, allt sem hún kenndi mér og skjólið sem ég alltaf átti hjá henni, fæ ég aldrei fullþakkað.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
------------------------------------------

Elskuleg tengdamóðir mín er fallin frá, 81 árs að aldri. Hún hafði átt við veikindi að stríða undanfarna mánuði og lést á Landspítalanum eftir stutta legu.

Það var mín gæfa að kynnast Sonju fyrir um 20 árum þegar við Guðlaugur Þór, einkasonur hennar, fórum að rugla saman reytum. Lánsamari hefði ég ekki getað verið, að eignast þessa traustu og sérlega indælu tengdamóður.

Tengdamóðir mín var gædd sterkum persónuleika. Hún var ákveðin, réttsýn, skarpgreind og fylgin sér. Hún var á undan sinni samtíð á margan hátt. Sem ung kona var hún eftirsótt á vinnumarkaði enda skarpgreind, harðdugleg og vinnusöm. Hún stofnaði síðar sitt eigið bókhaldsfyrirtæki og starfaði við það fram á síðasta dag.

Traust, hlýleiki og elskulegheit voru lýsandi fyrir Sonju, hún var einstaklega barngóð og dýravinur með eindæmum. Hjálpsemi og örlæti voru henni í blóð borin og mátti hún ekkert aumt sjá.

Hlutina gerði hún gjarnan af miklum myndarbrag og ömmuhlutverkið tók hún heldur betur með trompi. Þegar fyrstu og einu barnabörnin, tvíburarnir Sonja og Þórður, komu í heiminn var hún ekki lengi að búa upp herbergi á Böðvarsgötunni til að geta tekið á móti þeim í gistingu með allt það sem þurfti til að gera dvölina þar sem þægilegasta og ánægjulegasta. Þær urðu óteljandi heimsóknirnar í friðsældina til ömmu og afa í Borgó og margt var brallað. Sú samvera hefur haft ómetanlegt gildi fyrir börnin og óhætt að segja að amman hafi einnig notið hverrar mínútu.

Sonja hafði einstaka hæfileika til að kenna, fræða og vekja áhuga tvíburanna á öllu mögulegu. Með aðdáunarverðri þolinmæði og natni kenndi Sonja þeim allt milli himins og jarðar. Hvort sem það var stafrófið, að raða í uppþvottavélina, baka piparkökur, púsla eða gróðursetja í garðinum; hún var óþreytandi að leiðbeina, segja sögur, sýna og fræða þau um lífið, landið, menningu og siði, hvetja þau áfram og hrósa þeim. Árin með ömmu og afa verða þeim ómetanlegt veganesti út í lífið.

Með miklu þakklæti og trega kveð ég elsku tengdamóður mína.

Blessuð sé minning Sonju Guðlaugsdóttur.

Ágústa Johnson.
-------------------------------------------

Hún amma var ótrúleg kona. Við eigum óteljandi góðar minningar um hana. Hún kenndi okkur svo margt þegar við vorum lítil, að lesa, skrifa, púsla, sauma og t.d. þegar við vorum fjögurra ára kenndi hún okkur að læra kennitöluna okkar. Hún lagði alltaf mikla áherslu á að við myndum læra að spara peninga, safna og ekki eyða í vitleysu.

Við fengum oft að gista hjá ömmu og afa í Borgó, fórum með þeim í skemmtileg ferðalög á húsbílnum þeirra og upplifðum margt spennandi og alltaf var hún að fræða okkur og kenna okkur um allt mögulegt.

Við höfum lengi trúað því að hún amma gæti bókstaflega talað við hunda. Hún var alltaf mikill dýravinur og talaði við hann Patta, labradorinn sem þau áttu, eins og hann væri mennskur og hann virtist skilja hvert einasta orð sem hún sagði, jafnvel þó að hún hvíslaði. Hún meira að segja kenndi honum að segja „amma“.

Hún amma Sonja var mjög trúuð og kenndi okkur margar bænir og fræddi okkur um englana og Guð. Við kveðjum elsku ömmu Sonju með uppáhaldsbæninni sem hún kenndi okkur.

 • Vertu yfir og allt um kring,
 • með eilífri blessun þinni.
 • Sitji guðs englar saman í hring,
 • sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson frá Presthólum)

Blessuð sé minning þín, elsku amma.

Þín barnabörn, Sonja Dís og Þórður Ársæll.
---------------------------------------------------

Elsku Sonja, það er erfitt að setjast niður og skrifa kveðju til þín. Ég heyrði röddina þína nóttina eftir að þú kvaddir. Ég hrökk upp hvað eftir annað og heyrði í þér. Ég held að þú hafir verið að leggja mér lífsreglurnar í síðasta sinn. Þú kenndir mér margt um lífið og varst alltaf tilbúin að gefa mér góð ráð og hlusta á mig. Það er svo margt sem mig langar að segja.

Ég var bara nokkurra daga gömul þegar mamma og pabbi fóru með mig í fyrsta sinn í Borgarnes, á milli jóla og nýárs og þar voru teknar fyrstu myndirnar af mér. Mér hlotnaðist sá heiður að vera skírð í höfuðið á þér, elsku nafna mín. Ég man eftir hringferðinni sem við fórum í saman þó að ég hafi sennilega bara verið 4 ára.

Ég man eftir öllum heimsóknunum og þegar við fengum að gista, það var alltaf svo hlýlegt hjá þér og mér er appelsínugula ljósið í holinu alltaf mjög minnisstætt. Við hátíðleg tækifæri fengum við að fara í betri stofuna og þá lagðirðu fallegu dúkana á borðið sem þú hafðir saumað svo fallega út í. Það var alltaf spennandi að fara í Borgarnes en reglurnar voru mjög skýrar og þeim bar að fylgja.

Þú hugsaðir svo fallega um stóra fallega garðinn þinn og Sylvía mín hefur áhyggjur af að enginn muni hugsa um hann núna. Þegar ég varð eldri gat ég alltaf leitað til þín og fengið ráð. Þegar ég varð ófrísk af Róberti mínum þá varst þú svo spennt og komst með mér og mömmu í bæinn að kaupa ýmislegt sem vantaði til að stofna heimili handa litlu barni og þú tókst ekki annað í mál en að nú væri kominn tími á að ég myndi fá straujárn og strauborð; það væri nú eitt það nauðsynlegasta á heimili.

Þegar Róbert minn fæddist varstu svo glöð og það kom ekkert annað til greina en að þú værir amma í Borganesi. Ein stund er mér líka mjög minnisstæð en það er þegar þú komst mér á óvart í veislu við hátíðlegt tilefni í kjólnum sem Hella var í þegar hún hélt á mér undir skírn, svo gafstu mér fallega kjólinn sem ég passa svo vel upp á. Þegar við áttum sumarbústaðinn í Skorradal komum við reglulega í heimsókn. Svavar og Þórður fóru í golf og á meðan áttum við góðar stundir saman.

Þér leist strax vel á Svavar minn og samþykktir hann strax. Þú varst svo ánægð að heyra í mér á aðfangadag síðastliðinn þegar ég hringdi og sagði þér að við hefðum gift okkur deginum áður á afmælisdeginum mínum án nokkurs fyrirvara. Alltaf hringdir þú í mig á afmælisdaginn minn og passaðir upp á að ég fengi sérstaka afmæliskveðju í miðju jólaamstrinu þó svo að ég væri orðin fullorðin. Mér þótti einstaklega vænt um það og þú vissir það. Þú varst líka svo spennt að vita að ég væri að verða amma og Róbert minn að verða pabbi. Ég mun segja Krumma litla sögur af þér. Það er margt annað sem kemur upp í hugann sem ég er búin að segja þér í bænum mínum og ég veit að þú ert búin að heyra í mér, elsku frænka.

Þú varst einstök kona, ákveðin, heiðarleg, staðföst, hreinskilin og einstaklega kærleiksrík, hjartahlý og trúuð. Þér tókst að láta öllum líða eins og þeir væru einstakir. Þú varst mér svo mikið, uppáhaldsfrænka, amma fyrir öll börn sem komu til þín og góð vinkona. Það á eftir að vera erfitt að geta ekki tekið upp símann og hringt í þig. Ég veit að Biggi og Hella tóku vel á móti þér og það er ábyggilega mikið talað og hlegið. Ég elska þig og sakna þín, elsku Sonja mín.

Elsku Þórður, Gulli, Ágústa og börn. Hjartanlegar samúðarkveðjur.

Sonja, Svavar og börn.
--------------------------------------------

Það hefur reynst mér mjög erfitt að sætta mig við að aldrei aftur geti ég dinglað á Böðvarsgötunni og Sonja frænka, eða Sonja í Borgarnesi eins og ég kallaði þig alltaf, taki á móti mér með knúsi.

En ég næ að brosa í gegnum tárin þegar þær rifjast upp fyrir mér, allar skemmtilegu og dýrmætu minningarnar sem ég á um ykkur Þórð úr öllum heimsóknunum í Borgarnesið með mömmu og pabba. Þá fékk ég meðal annars að leika mér með kartöfluhausaleirinn, púsla (en ég deili einmitt þeirri dellu með þér), leigja mér mynd á vídeóleigunni, leika mér í garðinum ykkar og fara með pabba og Þórði að viðra hundana í fjörunni.

Ég man líka eftir því þegar ég fékk að taka tvær vinkonur mínar með í nokkurra daga berjaferð í Borgarnesið. Ég man að í berjamónum var ég svo hissa að þú varst alltaf aðeins í burtu frá okkur hinum en komst svo að því að þú varst að tryggja þér aðalbláberin því þú vildir þau eingöngu. Þú varst alltaf svo dugleg að vinna í garðinum ykkar og þú áttir garðhatt sem í hverri heimsókn var alltaf minna og minna eftir af þar til að lokum að höfuðið stóð upp úr hattinum og þú skelltir honum alltaf á þig, settir út mjöðmina og sagðir: „Er ég ekki fín?“ – og svo hlógum við öll.

Þú hafðir alltaf sterkar skoðanir á hlutunum og hafðir ákveðnar reglur og lærði ég margt í þessum heimsóknum eins og að fara vel með leikföng og hluti og grípa ekki fram í. Það var þó eitt sem aldrei náði í gegn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þínar en það var að kenna mér að hella upp á kaffi. Ég stóð þrjósk á mínu að ég þyrfti þess ekki þar sem ég ætlaði mér aldrei að drekka kaffi og að gestir gætu bara drukkið eitthvað annað í heimsókn hjá mér. Þú spurðir mig svo alltaf reglulega þegar ég heyrði í þér í síma hvort ég væri búin að læra að hella upp á og svo hlóstu, enda varstu mikill húmoristi.

Þú varst dugleg að hrósa mér bæði þegar við hittumst og í síma og talaðir alltaf svo fallega um börnin mín þrjú og veit ég að þú náðir til hjartans í Ísaki mínum sjö ára því þegar ég sagði honum að þú værir farin til Guðs þá sagði hann leiður: „Hún var krúttleg,“ en það segir hann aðeins um þá sem honum þykir vænt um.

Samband ykkar mömmu, litlu systur þinnar, var alveg einstakt og veit ég að missir mömmu er mikill. Þið töluðuð saman í síma nánast daglega og man ég að þegar ég var lítil og var að kalla á mömmu og fékk ekki svar þá sagði pabbi: „Hún er að tala við Borgarnes,“ og þá vissi ég að það væri góður klukkutími þangað til ég gæti talað við mömmu.

Það er erfitt að kveðja þig, svona stórkostlegan karakter og yndislega manneskju, en ég hugga mig við það að þér líði betur núna og þú dansir um í draumalandinu með foreldrum þínum og systkinum. Ég geymi allar dýrmætu minningarnar mínar um þig í hjartanu eins og gull, þar til við hittumst næst og búum til fleiri.

Elsku Þórður, Gulli og fjölskylda, mamma og aðrir aðstandendur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Megi minningin um dásamlega konu lifa.

Henrietta Þóra Magnúsdóttir.
-----------------------------------------------

Sonja var yndisleg, kona Þórðar frænda míns. Á mínu æskuheimili voru Þórður og Sonja yfirleitt nefnd í sömu andránni. Þau ákváðu snemma að ganga saman æviveginn. Glæsilegt par. Sonja var hluti af dásamlegri, fallegri og kraftmikilli fjölskyldu þeirra Þóru og Lauga Gosa á Siglufirði, eins og Guðlaugur Gottskálksson var kallaður. Hún og Þórður fóru saman suður að mennta sig og settust þar að, fyrst í Reykjavík og síðar í Borgarnesi þar sem þau bjuggu mestalla ævina og urðu miklir Borgnesingar. Sonja var atvinnurekandi og rak þar bókhaldsskrifstofu nánast alla tíð.

Ávallt var kært með foreldrum mínum og Þórði frænda og Sonju. Sá vinskapur náði líka til okkar systkinanna á Laugarveginum. Ég minnist ferðar, sem fjölskyldan fór til Reykjavíkur, sennilega upp úr 1960 og innlits til Sonju og Þórðar þar sem þau bjuggu þá í einu háhýsanna í Sólheimum. Mér fannst það svakalega flott og búseta í svo nýstárlegu húsi lýsandi fyrir framsækni þeirra hjóna.

Löngu seinna leit ég stundum inn hjá þeim í Borgarnesi og talaði líka oftlega við Sonju í síma. Það var afskaplega gaman að eiga orðastað við hana enda fylgdist Sonja vel með alla tíð og hafði komið víða við ef svo má segja. Sonja var líka rökviss, heiðarleg og veitti mér oft skemmtilega sýn á menn og málefni.

Húmorinn hennar var himneskur að mér fannst. Þegar þau hjón eignuðust einkasoninn Guðlaug Þór naut hún þess mjög. Sonja var ávallt til taks fyrir stráksa og færði bókhaldsþjónustuna á Böðvarsgötuna til að auðvelda það. Hún var vakin og sofin yfir velferð fjölskyldu sinnar og gladdist mjög yfir velgengni Gulla og barnabörnin áttu sannarlega stóran stað í hjarta hennar.

Ég er þakklát fyrir að hafa þekkt Sonju. Þegar ég leit inn hjá þeim hjónum síðastliðið haust gerði ég mér ekki grein fyrir að ég myndi ekki hitta Sonju aftur. Ég samhryggist Þórði frænda mínum, Guðlaugi Þór og fjölskyldunni allri. Þau hafa svo sannarlega misst mikið. Blessuð sé minning Sonju Guðlaugsdóttur.

Árdís Þórðardóttir

--------------------------------------------------------
5. júní 2018 | Minningargrein

Sonja Guðlaugsdóttir fæddist 12. júní 1936. Hún lést 17. maí 2018.

Útför Sonju fór fram 2. júní 2018.

Elsku Sonja mín, það er skrýtin tilfinning að geta ekki hringt í þig framar og spjallað eins og við gerðum nær daglega, um allt milli himins og jarðar og leystum málin ef okkur lá eitthvað á hjarta.

Margs er að minnast eftir langa samfylgd. Ég var 16 ára þegar ég kom til Reykjavíkur og bjó hjá ykkur Þórði á Brávallagötunni og áttum við margar ánægjustundir saman. Upp frá því varðst þú mín stoð og stytta í lífinu. Þið fluttuð síðan í Sólheimana og ég fylgdi með.

Árin liðu, þið fluttuð í Borgarnes, ég giftist Magnúsi og við fórum að búa í Kópavoginum. Árið 1967 varð viðburðaríkt í lífi okkar beggja, við eignuðumst hvor um sig okkar fyrsta barn, þú Guðlaug Þór sem þú gafst alla þína takmarkalausu ást og umhyggju, ég Birgi. Ræddum við mikið saman um uppeldi og umönnun barna. Árin liðu og ég hafði eignast þrjú börn, Birgi, Hákon og Sonju og síðar Henný.

Komum við oft í heimsókn og hlökkuðu þau alltaf jafn mikið til og myndaðist mikil vinátta með börnunum sem hefur haldist síðan. Fylgdist þú með börnunum mínum fjórum mennta sig og stofna fjölskyldu. Þú samgladdist okkur af heilum hug á gleðistundum. Þegar við Magnús eignuðumst barnabörn varðst þú amma í Borgarnesi eða Sonja frænka, sem gladdi þig mikið. Hamingjusöm varðstu svo, elsku Sonja, þegar sólargeislarnir ykkar Þórður Ársæll og Sonja Dís fæddust og þú varðst amma.

Áhugamálin voru mörg; bókmenntir, listir og leikhús enda fróð um flesta hluti. Þú naust hannyrða og að púsla og liggja fjölmörg listaverkin eftir þig. Garðvinnan var þín hugleiðsla. Þú naust þess að ferðast, en ferðalaganna á húsbílnum naustu af öllu hjarta og heillaði hálendið þig mest, enda mikill náttúruunnandi sem kom best í ljós í ógleymanlegu ferðalagi okkar um hringveginn.

Þetta var tjaldferðalag með öllu tilheyrandi, finna tjaldstæði, tjalda og koma öllum í ró sem reyndist auðvelt eftir viðburðaríkan sólskinsdag. Við keyrðum Austfirðina, skoðuðum náttúrufegurðina, kirkjur og sögufræga staði og tjölduðum síðast í Ásbyrgi. Héldum svo á Siglufjörð í faðm fjölskyldunnar. Þú varst einstaklega góð manneskja og sagðir börn og dýr það dýrmætasta í lífinu. Þú máttir ekkert aumt sjá án þess að bregðast við og sýndir það í verki. Elsku systir mín, þú varst mjög trúuð, hreinskilin, heiðarleg og ákveðin. Gast verið snögg upp á lagið og vildir hafa allt á hreinu í samskiptum við fólk.

Við rifjuðum oft upp kvöldið þegar ég var 10 ára og átti að vera sofnuð. Ég heyrði ykkur Þórð koma inn í eldhús til mömmu og pabba svo leyndardómsfull að ég lagði við hlustir og viti menn þið voruð búin að trúlofa ykkur. Sofnaði ég alsæl með leyndarmálið sem enginn vissi nema mamma, pabbi og ég.

Það fyllir mig alltaf stolti að þú varst beðin að vera fjallkonan 17. júní á Siglufirði og þú varst svo falleg í skautbúningnum með síða ljósa hárið þegar þú fluttir ljóð eftir Matthías Jochumsson.

 • Þá er hjartað sorgin skekur
 • góður guð í faðm sinn tekur
 • og leiðir þig inn í ljósið bjarta
 • er kveðjum við hér með sorg í hjarta
 • En bráðum kemur bjart og eilíft vor
 • og breiðir yfir öll þín gengin spor
 • hið bjarta ljós er inn í mistrið skín
 • til landsins þar sem ástvinir bíða þín

(BG)

Elsku Þórður, Gulli og fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Góður Guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Birgitta Guðlaugsdóttir og fjölskylda.