Margrét Jóhannsdóttir

21. október 2010 | Minningargreinar 

Margrét Jóhannsdóttir fæddist 23. maí 1927 á Þrasastöðum í Stíflu, Skagafirði. Hún lést 30. september 2010

Foreldrar Margrétar voru Jóhann Guðmundsson bóndi á Þrasastöðum f. 29. maí 1898, d. 13. júlí 1983 og Sigríður Gísladóttir húsmóðir f. 8. júlí 1896, d. 4. desember 1977.
Systkini Margrétar eru

  • 1) Gyða f. 19. sept. 1923,
  • 2) Ástrún f. 2. apríl 1925,
  • 3) Gísli f. 5. ágúst 1929 d. 24. júlí 1964,
  • 4) Einar f. 5. júlí 1939, d. 7. apríl 1974.
Margrét Jóhannsdóttir

Margrét Jóhannsdóttir

Árið 1935 flutti hún með foreldrum sínum til Siglufjarðar. Hún gekk í barnaskóla á Siglufirði og lauk Gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Siglufirði. Árin 1946-1947 dvaldi hún í Svíþjóð við vinnu og stundaði síðan nám við hússtjórnarskóla. Margrét starfaði við skrifstofustörf hjá Síldarverksmiðjum ríksins á Siglufirði og hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga um skeið. Einnig stundaði hún nám við Hjúkrunarkvennaskóla Íslands 1954-1956.

Margrét giftist Jóni Finnbogasyni Arndal 14. apríl 1956, d. 30. janúar 1999.
Synir þeirra eru

1) Hlynur Jónsson Arndal hagfræðingur, f. 20. janúar 1957, kvæntur Auði Eyjólfsdóttur tannlækni,
börn þeirra eru
  • Karen Lísa f. 5. nóvember 1993 og
  • Jóna Margrét f. 21. desember 1999.
2) Ívar Jónsson Arndal verkfræðingur f. 28.maí 1959, kvæntur Elínu Helgu Káradóttur sjúkraþjálfara f. 8. nóvember 1960.
Börn þeirra eru
  • Margrét Helga f. 28. desember 1992 og
  • Jóhann Kári f. 8. janúar 1995.

Margrét og Jón bjuggu fyrst í Reykjavík, síðan Kópavogi en fluttu svo til Siglufjarðar þar sem þau bjuggu til 1966 þar til þau fluttu til Hafnarfjarðar þar sem þau ráku í sameiningu umboðsskrifstofu Brunabótafélags Íslands um langt skeið. Eftir að Vátryggingafélag Íslands hf. tók við rekstri Hafnarfjarðarumboðsins hætti Margrét störfum en Jón hélt áfram að starfa hjá Vátryggingafélagi Íslands.

Árið 1969 fluttu þau að Þrúðvangi 8, Hafnarfirði og bjuggu þar í 26 ár þar til þau fluttu að Nausthlein 3, Garðabæ þar sem Margrét bjó eftir andlát Jóns 1999.

Útför Margrétar Jóhannsdóttur hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Margrét var yngst af okkur þremur systrum. Bræður okkar sem voru yngri: Gísli Benedikt, fyrrverandi skrifstofustjóri hjá Síldarútvegsnefnd, lést af slysförum 35 ára að aldri og Einar vélstjóri, sem starfaði lengst af hjá Hafskip, fékk heilablóðfall sem varð hans banamein. Hann var þá 35 ára, ókvæntur og barnlaus. Margrét fékk sinn skammt af mótlæti á sínum yngri árum, en lífsbaráttan er sjaldan án þyrna.

Margrét giftist Jóni F. Arndal 1956. Hann var með farmannapróf frá Stýrimannaskóla Íslands og stundaði sjómennsku í nokkur ár. Síðar varð hann umboðsmaður Brunabótafélags Íslands í Hafnarfirði og í framhaldi af því svæðisstjóri Vátryggingafélags Íslands í Hafnarfirði. Hann lést 1999 eftir erfið veikindi.

Synirnir tveir Hlynur og Ívar eru vel giftir, eiga glæsileg heimili og efnileg börn. Mér er minnisstætt, þegar ég einu sinni sem oftar kom í afmælisveislu til systur minnar og settist við borðið sem var hlaðið girnilegum tertum, að ég hafði á orði að hún ætti ekki að hafa svona mikið fyrir þessu. Hún svaraði með nokkru stolti að sonardóttirin Margrét Helga sem þá mun hafa verið 16 eða 17 ára gömul, hefði séð um baksturinn.

Margrét var orðvör og tók aldrei undir ef hún heyrði einhverjum hallmælt. Hún var hlýleg í framkomu og umgekkst þá sem hún átti samleið með á lífsleiðinni með tillitssemi og vinsemd. Margrét vann ekki mikið utan heimilisins. Hún prjónaði, heklaði saumaði út og gerði marga fallega muni sem hún gaf vinum sínum og vandamönnum.

Ristilkrabbamein batt enda á lífsferil hennar. Hún vissi hvað framundan var og tók því með jafnaðargeði, stundaði handavinnuna og réð krossgátur sér til gamans.

Margrét dvaldi síðustu vikurnar á líknardeild Landsspítalans, en gat farið heim til sín þegar hún treysti sér til. Um dvöl sína á líknardeildinni sagði hún að það væri eins og að vera á fimm stjörnu hóteli.

Til hinstu stundar leið henni vel og yfir henni hvíldi ró þess sem býr sig undir svefninn. Sonum hennar og fjölskyldum sendi ég hlýjar kveðjur og bið þess að blessun Guðs vaki yfir þeim.

Gyða Jóhannsdóttir.
--------------------------------------

Móðursystir mín Margrét Jóhannsdóttir er látin. Frá því ég man eftir mér hefur Gréta frænka, eins og við kölluðum hana, skipað stóran sess í huga mínum og fjölskyldu minnar. Ég minnist hennar með lotningu fyrir lífinu, tilverunni og dauðanum.

Systur Grétu voru Gyða og Ástrún. Gréta var yngst þeirra. Yngri bræður voru Gísli og Einar, báðir látnir fyrir alllöngu. Þau voru börn Jóhanns Guðmundssonar og Sigríðar Gísladóttur frá Þrasastöðum í Fljótum og niðjar taldir til Þrasastaðaættar.

Gréta giftist Jóni Arndal 1956 og eignuðust þau strákana Hlyn og Ívar. Gréta og Jón hófu búskap sinn í Reykjavík. Þau bjuggu til skamms tíma á Siglufirði, en lengst af í Hafnarfirði. Jón lést árið 1999.

Gréta var búin miklum mannkostum. Skap hennar einkenndist af jafnaðargeði, hlédrægni, stóískri ró og hlýleika. Það var ávallt notalegt að heimsækja Grétu og Jón í Hafnarfirðinum. Á seinni árum urðu samskipti okkar og samverustundir meiri í gegnum synina Ívar, Hlyn og fjölskyldur þeirra. Einkum eru okkur Linn og börnum okkar, Iðunni og Jan, minnisstæðir áramótafagnaðir síðustu ára hér á Hörgslundinum, þar sem systurnar Gréta og Gyða, móðir mín, skipuðu sérstakan heiðurssess. Nærvera þeirra minnti okkur hin á ræturnar og skapaði festu í tilverunni.

Eiginleikar og mannkostir Grétu komu vel í ljós eftir að hún greindist með illkynja sjúkdóm fyrir um ári. Æðruleysi, blítt viðmót og þægileg útgeislun hennar hélst alveg fram á síðustu stund. Það var unun að fá að upplifa þessa eiginleika Grétu þessa síðustu mánuði, enda þótt þessi tími hafi verið erfiður. Minningin um Grétu vekur hlýhug í huga okkar sem eftir lifum. Fyrir hönd fjölskyldu minnar sendi ég Hlyni, Ívari og fjölskyldum þeirra hugheilar samúðarkveðjur.

Jóhann Ágúst Sigurðsson.