Margrét María Jónsdóttir

mbl.is - 22. september 2012 | Minningargreinar | 2106 orð | 1 mynd

Margrét María Jónsdóttir fæddist í Hnífsdal 19. ágúst 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 16. september 2012.

Foreldrar hennar voru hjónin Arnfríður Sigríður Kristjánsdóttir, f. 10. júlí 1894 á Kambsneseyri í Súðavíkurhreppi, d. 6. sept. 1972, og Jón Eiríksson, f. 9. des. 1880 á Moldhúsum í Bessastaðahreppi, d. 10. maí 1972.
Önnur börn þeirra:

 • Eiríkur Helgi, f. 18. ágúst 1918, d. 18. maí 1985.
 • Kristján Jón, f. 8. sept. 1921, d. 8. okt. 2002.
 • Jóna Guðrún, f. 6. júní 1930.
  Sonur Arnfríðar Sigríðar var
 • Magnús Sigurðsson, f. 25. sept. 1911, d. 9. apríl 2004.

Margrét María bjó lengst af á Siglufirði.
Eiginmaður hennar var Guðmundur Jónasson, f. 10. febrúar 1918, bústjóri á Hólsbúinu og síðar útibússtjóri KEA á Siglufirði.
Börn Margrétar Maríu og Guðmundar:

Margrét María Jónsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Margrét María Jónsdóttir - ókunnur ljósmyndari

1) Jónas, f. 27. júlí 1956, hagfræðingur; kona hans er Anh-Dao Tran, f. 8. febrúar 1959, menntunarráðgjafi, og
dóttir þeirra er
 • Heiðrún Giao-Thi, f. 23. maí 1991.

2) Arnfríður, f. 12. janúar 1961, prófessor; maður hennar er Gunnar Rúnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur, f. 4. apríl 1961, og
börn þeirra
 • Guðmundur Már, f. 12. mars 1991,
 • Anna Rún, f. 15. maí 1997, og
 • Margrét Tekla, f. 27. nóvember 2004.
 • 3) Jón Eiður, bankamaður, f. 21. ágúst 1964, en hann lést 1. janúar 1990.

Margrét María lauk prófi frá Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði árið 1949. Hún starfaði við kennslu, fatasaum, bústörf og verslunarstörf á Ísafirði og á Siglufirði. Hún flutti árið 2004 til dóttur sinnar í Kópavogi og dvaldi síðast á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Útför Margrétar Maríu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 22. september 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Það er gott að horfa um farinn veg er ég minnist tengdamóður minnar Margrétar Maríu Jónsdóttur. Frá upphafi kynna okkar sem telja nú vel þrjátíu ár hef ég notið trausts og virðingar hjá henni og við ræktað djúpa gagnkvæma vináttu á milli okkar. Hún Magga barst aldrei á né gerði tilkall til mikils fyrir sig en stóð eins og klettur að baki þeim sem henni voru falin til umsjár, barna sinna og síðan tengdabarna og barnabarna. Hún hafði ríkan metnað fyrir okkar hönd, gladdist þegar vel gekk en oflofaði aldrei. Hún flaggaði aldrei vegtyllum eða gerði mannamun á nokkurn hátt. Hún hvatti börn sín og okkur öll í fjölskyldunni til að sýna hógværð en að rækja um leið vel þær skyldur sem við hefðum hvert sem starf okkar væri.

Trúmennsku og hreinlyndi taldi hún meðal stærstu mannkosta og hvar sem henni þótti á einhvern hallað tók hún afstöðu gegn órétti og yfirgangi. Hún var stolt af því að vera verka- og sjómannsdóttir úr Hnífsdal, skarpgreind og flestum minnugri á hvaðeina sem hún lagði sig eftir, skoðanaföst en ruddi engum um með afstöðu sinni. Hún var trúkona og tjáði mér nýverið að hún hefði beðið bænir á hverjum degi ævi sinnar, falið ástvini sína og málefni Guði á hendur. Í huga hennar var ekki efi um að Guð lætur sig varða allt sem okkar er og veitir styrk þegar þrengst og þyngst kann að virðast.

Hún stóð enda styrkum fótum með Guðmundi manni sínum þótt þau fyndu svo mikið til við missi yngsta barns síns Jóns Eiðs. Hann lést aðeins tuttugu og fimm ára gamall eftir þunga baráttu við illvígt krabbamein fyrir bráðum tuttugu og þremur árum. Þau gerðu á engan veg lítið úr eða viku sér undan sárum sorgarinnar en tóku skýra afstöðu með lífinu. Þau fólu drenginn sinn Guði og báðu þess að mega áfram reynast okkur sem eftir lifðum trygg og traust. Þar naut Guðmundur Möggu við og hún hans er þau fetuðu sig áfram hönd í hönd, vissulega hrygg en æðrulaus um leið.

Þeim mun þyngra sem var undir fæti þeim mun styrkari stóð hún. Hún var sem klettur, ekki hörð heldur skjól og vegvísa sem gott var að fylgja. Síðustu árin höfum við notið þess að þau byggju í húsinu hjá okkur. Það hefur verið ómetanlegt fyrir okkur Arnfríði og börnin okkar að eiga skjól niðri hjá ömmu og afa, hlé þar sem gott var að koma og endurnærast í hljóðri nærveru Möggu og Guðmundar afa sem nú hefur misst svo mikið.

Það var missir fyrir okkur þegar þau fluttu á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð fyrir bráðum ári en um leið mikill fengur fyrir þau. Það var ekki auðveld ákvörðun en hana tók Magga sjálf, vitandi svo vel hvers þau þurftu með og ófeimin við að horfast í augu við hvað eina sem við var að eiga. Í Sunnuhlíð hafa þau notið umönnunar sem ber fagurt vitni þeirri umhyggju sem heilbrigðisþjónusta okkar er reist á. Ég þakka starfsfólki Sunnuhlíðar af heilum hug einstaka umönnun, lipurð og umhyggju í garð okkar allra og bið Guð að blessa þau. Þá þökkum við stuðning fjölskyldu og vina og felum Guði minningu Margrétar Maríu Jónsdóttur.

Gunnar Rúnar Matthíasson.
----------------------------------------------------

Í dag verður móðursystir okkar Margrét María Jónsdóttir lögð til hinstu hvílu á Siglufirði.

Magga, eins og hún var alltaf kölluð, var fjórða í röð fimm systkina sem fædd voru og uppalin í Hnífsdal og er móðir okkar eina systkinið sem eftir lifir.

Eftir að hafa lokið námi við Húsmæðraskólann á Ísafirði var Magga frænka ráðin sem hannyrðakennari við skólann, enda sérlega myndarleg í höndunum. Hún réð sig síðar til starfa á Hólsbúinu við Siglufjörð árið 1949. Þar kynntist hún Guðmundi föðurbróður okkar sem þá var bústjóri á Hóli.

Magga og Guðmundur gengu í hjónaband 1952 og áttu því 60 ára brúðkaupsafmæli fyrr á þessu ári. Á Hóli bjuggu þau í nokkur ár en lengst af bjuggu þau á Eyrargötunni allt þar til þau fluttu til barna sinna og barnabarna í Kópavoginn í lok árs 2004. Í desember á síðasta ári fluttu þau á Dvalarheimilið Sunnuhlíð. Þar hafa þau dvalið við mjög gott atlæti og notið frábærrar umönnunar hjá því góða fólki sem þar starfar.

Við systkinin höfum alltaf átt öruggt skjól hjá þeim Möggu og Guðmundi og hafa þau reynst okkur einstaklega vel í gegnum tíðina enda heimili þeirra nánast okkar annað heimili. Mikill samgangur hefur ætíð verið milli fjölskyldna okkar, og ómetanlegt að eiga þau að. Þau fylgdust alltaf vel með okkur og okkar börnum og höfðu mikinn áhuga á hvernig okkur gengi í námi og starfi.

Við systkinin kveðjum nú Möggu frænku að sinni, með þakklæti og virðingu í huga. Gott er að eiga í minningunni frábæran dag sem við stórfjölskyldan áttum með Möggu á 85 ára afmæli hennar fyrir nokkrum dögum. Ljóst var þá að það gæti farið að líða að leiðarlokum. Söknuðurinn er mikill en nú er hennar þrautum lokið. Við erum þess fullviss að endurfundir Möggu og Jóns Eiðs frænda okkar, yngsta barns þeirra Guðmundar, sem lést fyrir aldur fram hafi verið góðir.

Við sendum Guðmundi, Jónasi, Addý og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um yndislega frænku mun lifa með okkur. Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku frænka.

 • Ég sendi þér kæra kveðju
 • nú komin er lífsins nótt,
 • þig umvefji blessun og bænir
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því,
 • þú laus ert úr veikinda viðjum
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér,
 • og það er svo margs að minnast
 • svo margt sem um hug minn fer.

 • þó þú sért horfinn úr heimi
 • ég hitti þig ekki um hríð,
 • þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Guð blessi minningu Möggu frænku. 

Ólöf, Helga, Ásta Jóna, Kristín, Jónas og Inga Margrét.
----------------------------------------------------------------------

Litlu íslensku sjávarþorpin hafa í gegnum tíðina alið upp margan góðan borgarann sem reynst hefur happasæll fyrir þjóðina. Þar á meðal er litla vestfirska þorpið Hnífsdalur sem hvílir í faðmi fagurra blárra fjalla við Ísafjarðardjúp. Í þessum þorpum þurftu menn að virkja hvern einstakling og nýta samstöðu í baráttu við óblíða náttúru og harða sjósókn. Lífið var bundið því hvað aflaðist. Hafið gaf og hafið tók.

Við þessar aðstæður fæddist og ólst upp hún Margrét María Jóndóttir sem við söknum, minnumst og kveðjum í dag. Margrét var næstyngst í fjögurra alsystkina hópi og einn hálfbróður áttu þau að auki. Faðir hennar vann við ýmis störf er tengdust sjósókn en móðirin sá um húshald eftir því sem kraftar leyfðu.

Margrét fór í Húsmæðraskólann á Ísafirði. Síðar varð hún kennari við þann skóla. Nokkrum árum síðar leiddu forlögin hana í annan fjallasal en hennar heimabyggð. Þessi nýju heimkynni voru í norðanverðum Tröllaskaga – Siglufjörður síldaráranna. Þetta var í lok kaupakonualdarinnar. Margrét réðst sem kaupakona að Hólsbúinu en þar var rekið stórt kúabú á vegum Siglufjarðarbæjar.

Að afloknu fyrsta sumrinu á Hóli sneri Margrét sér að nýju að kennslu í Húsmæðraskólanum á Ísafirði. Að vetri liðnum kom hún aftur svo einhver ósýnilegur strengur hefur myndast ef til vill við fjallahringinn fagra eða eitthvað annað sem engin vitni voru að. Rétt eftir að síðasta öld var hálfnuð giftu þau sig kaupakonan að vestan og bústjórinn á Hóli, Guðmundur Jónasson.

Á Hóli settu þau upp heimili sitt og bjuggu þar sín fyrstu ár með dugnaði og meðfæddri trúmennsku. Nýlega héldu þau upp á sextíu ára brúðkaupsafmæli sitt. Að nokkrum árum liðnum fluttu þau niður í bæinn og keyptu sér íbúð að Eyrargötu 22. Þegar þangað kom gerðist Guðmundur útibússtjóri hjá KEA og vann þar til starfsloka.

Þau Margrét og Guðmundur eignuðust þrjú mannvænleg börn, Jónas, Arnfríði og Jón Eið. Þau urðu fyrir þeirri óbærilegu lífsreynslu að missa yngsta soninn þá er hann var 25 ára eftir að illvígur sjúkdómur hafði herjað á um tíma. Jón Eiður var hvers manns hugljúfi og var sárt saknað af vinum og vandamönnum. Slíkur missir skilur eftir ólæknandi sár sem aldrei gróa.

Eftir áföll lífsins hefur heilsu Margrétar hrakað mjög. Hún hefur ekki borið á borð veikindi sín og sársauka, hún var ætíð veitandi ekki þiggjandi. Hún hlífði sér aldrei og hin síðari ár gerði hún meira af vilja en mætti. Í lok síðasta árs fluttu þau í Sunnuhlíð þar sem hlúð var að þeim með ágætum sem orð fá ekki lýst.

Fjölskyldur okkar tengdust bæði fjölskyldu- og vinaböndum. Það verður tómlegt að koma að Eyrargötu 22, engin Magga frænka eins og margir kölluðu húsmóðurina. Við sem eftir erum stöndum í þakkarskuld fyrir langa vegferð á lífsbrautinni. Nú skilur leiðir að sinni. Eftir sitja fölskyldur og syrgja nákominn ættingja og vin. Við huggum okkur við það að leiðir Möggu liggja nú á Guðs vegum og í þeirri von og trúarvissu þökkum við enn samfylgdina og sendum börnum hennar og Guðmundi blessunarkveðjur.

Guðrún og Skúli.
-------------------------------------------------

Við fráfall Margrétar Maríu Jónsdóttur, föðursystur minnar, hverfur hugurinn aftur meira en hálfa öld, til sumarsins 1956. Drengur á níunda ári er kominn til sumardvalar til frænku sinnar á Hóli við Siglufjörð. Umhverfið er í senn kunnuglegt og framandi. Kaupstaðurinn Siglufjörður er næstum eins og heimabærinn Ísafjörður: sjór, höfn og bátar. Hér er landað síld en ekki þorski, ýsu og steinbít. Allt á Hóli er hins vegar nýtt fyrir kaupstaðarbarninu. Sextíu kýr eru í fjósi; tveir menn mjólka kvölds og morgna en sjást sjaldan yfir daginn nema þegar mikið liggur við í heyskapnum. Í eldhúsinu ríkir Gunna ráðskona. Yfir öllu saman vaka síðan bústjórinn Guðmundur og Magga frænka með ákveðni, trúmennsku og hógværð.

Drengurinn er uppivöðslusamur og kjaftfor, veit allt og getur allt. Óumbeðinn tekur hann að sér að leiðbeina heimilisfólkinu á rétta vegu í stjórnmálum, ekki síst Guðmundi sem er að mati drengsins þjóðhættulegur framsóknarmaður, sem tekur virkan þátt í að ýta okkur sjálfstæðismönnum út úr stjórn landsins þetta sumar. Ég hafði grun um að Magga væri samstiga bónda sínum í því máli.

Sjaldan á ævinni hef ég samt fundið til jafn mikils öryggis. Aldrei var ég skammaður en með mildum aga kennt að virða skoðanir annarra. Ætíð vissi ég að Magga og Guðmundur myndu vernda mig eins og Gunna systir hennar og Skúli hennar maður höfðu gert á Blönduósi sumarið áður. Hjá þeim fjórum átti fjölskyldan skjól þegar mest á reyndi: Eiríkur föðurbróðir minn, Arnfríður amma og Jón afi, Sæmi bróðir minn. Mér hefur ætíð fundist þau öll elska mig eins og ég væri þeirra eigin sonur.

Með æðruleysi tókst Magga á við mikið andsteymi, veikindi og sorgir. Þungbærastur var sonarmissirinn. Jafnvel þá var Möggu þakklætið ofarlega í huga og oft minntist hún á vináttu vinnufélaganna við Jón Eið. Ást þeirra hjóna var mikil gæfa og samheldni stórfjölskyldunnar með ágætum. Sonurinn Jónas og dóttirin Arnfríður bera með sér festu og kærleika foreldranna.

Margrét María Jónsdóttir verður til grafar borin í Siglufirði hjá syni sínum og foreldrum. Haustið er vissulega komið en í minningunni verður ávallt sumar yfir frænku minni. Trú, von, kærleikur og þrautseigja var hennar aðalsmerki. Ég hef ekki fundið betra veganesti.

Með djúpu þakklæti kveð ég frænku mína. Megi minningin um farsælt líf góðrar konu sefa sorgina og veita huggun við fráfall hennar.

Svanur Kristjánsson.