María Sigríður Jóhanna Einarsdóttir - Sigga Einars

mbl.is - 17. maí 2019 | Minningargreinar

Sigríður Einarsdóttir fæddist á Siglufirði 3. apríl 1935. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi í Kópavogi 10. maí 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin Lovísa Helgadóttir, verkakona á Siglufirði, f. 6. desember 1908, d. 3. desember 1977, og Einar Indriðason, vélstjóri á Siglufirði, f. 22. september 1898, d. 13. apríl 1972. Sigríður ólst upp á Siglufirði.

  • Sigríður Einarsdóttir var annað barn þeirra hjóna, sem fyrir áttu soninn
  • Indriði Helgi Einarsson verkfræðingur, sem fæddist 1932 og lést af slysförum í janúar 1975.


Sigríður var skírð við útför nöfnu sinnar og föðursystur, Maríu Sigríðar Jóhönnu Indriðadóttur.

Sigríður Einarsdóttir - (Sigga Einars)

Sigríður Einarsdóttir - (Sigga Einars)

Sigríður lauk skyldunámi á Siglufirði og húsmæðraskólanámi á Ísafirði og Hallormsstað.
Hún giftist árið 1954 Sigurði Bárðarsyni, bifvélavirkja frá Akureyri, f. 1. ágúst 1930.
Foreldrar hans voru Stefanía Sigurðardóttir, f. 4. júní 1906, d. 24. ágúst 1983, og Bárður Bárðarson, f. 9. mars 1908, d. 20. ágúst 1978.

Börn Sigríðar og Sigurðar eru:

1) Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri, f. 1955, kvæntur Kristínu Ingólfsdóttur, lyfjafræðingi og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.
Dætur þeirra eru:
a) Hildur Einarsdóttir, rafmagnsverkfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Össuri, f. 1982. Sambýlismaður hennar er Sölvi Davíðsson lögfræðingur.
Þau eiga synina
  • Pétur, f. 2013, og
  • Birki, f. 2016.
b) Sólveig Ásta Einarsdóttir, nemi í rafmagnsverkfræði, f. 1994.

2) Stefanía Sigurðardóttir hagfræðingur, f. 1958, gift Andreas Resch kennara.
Sonur þeirra er
  • Einar Björn Resch kennari, f. 1989.

3) Helgi Steinar Sigurðsson rafmagnsverkfræðingur, 1967 kvæntur Robin Miller viðskiptafræðingi.
Dóttir þeirra er
  • Brynja Zoé Helgadóttir, f. 2010.
4) Gunnar Tjörvi Sigurðsson, tæknifræðingur og framkvæmdastjóri hjá Marel, f. 1971. Sambýliskona hans er Hilda Björk Indriðadóttir ritari.
Þeirra börn eru
  • Lovísa Rut Tjörvadóttir, nemi í véla- og iðnaðarverkfræði, f. 1997,
  • Dagmar Íris Hafsteinsdóttir, f. 2003 og
  • Sigurður Hermann Tjörvason, f. 2009.

Sigríður bjó lengst af ásamt Sigurði manni sínum á Grenivöllum 30 og Kotárgerði 17 á Akureyri og að Smáraflöt 46 í Garðabæ. Þau Sigurður fluttu í þjónustuíbúðir Hrafnistu í Boðaþingi 24 í Kópavogi en síðustu átta árin dvaldi Sigríður á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi.

Sigríður stundaði verslunarstörf og ýmis umönnunarstörf við heilsugæslu, skóla og sundlaugina í Garðabæ. Með föstu starfi sínu starfræktu Sigríður og Sigurður brauðgerð á heimili sínu í Garðabæ um 20 ára skeið og sérhæfðu sig í gerð norðlensks soðins brauðs.

Útför Sigríðar fer fram frá Garðakirkju í dag, 17. maí 2019, klukkan 11.

Sigríður tengdamóðir mín bjó lengst sinna fullorðinsára á Akureyri og síðar í Garðabæ. Æskuslóðirnar á Siglufirði áttu þó ávallt ríkan sess í hug hennar og hjarta. Hún átti þar enda ástrík uppvaxtarár og kynntist á síldarárunum þar lífsförunaut sínum Sigurði Bárðarsyni. Þessara góðu stunda var oft minnst, álags- og akkorðsvinnu í síldinni, fjörugs mannlífs og samvista við litríkar persónur. Tengslin við Siglufjörð héldust náin eftir að Sigga og Siggi stofnuðu sitt eigið heimili á Akureyri, heimsóknir í foreldrahús og unnið í síldarvertíðinni á sumrin.

Sigríður var forkur til vinnu, hvort sem hún var að salta síld eða sinna öðru. Í raun vann hún öll sín störf í akkorði, sló hvergi af fyrr en verkinu var lokið, vinnubrögðin ávallt vönduð og snyrtimennska í fyrirrúmi. Þegar þau Siggi byggðu húsin sín á Akureyri, á Grenivöllum og síðar í Kotárgerði, tók hún virkan þátt, naglhreinsaði og skóf timbur af kappi og gekk í önnur verk sem þurfti að sinna. Þegar við Einar eignuðumst okkar fyrstu íbúð lét Sigga ekki sitt eftir liggja til að hlúa sem best að ungri fjölskyldu. Hún skrapaði gamla málningu af innréttingum og gluggakistum og gaf gömlum gólfdúk nýtt líf.

Samband Sigríðar og Sigurðar er eitt það kærleiksríkasta og fegursta sem ég hef orðið vitni að. Þau voru afar samrýmd og nutu þess að vinna verkin saman. Um tíma bökuðu þau norðlenskt soðið brauð og seldu í verslanir á höfuðborgarsvæðinu á morgnana áður en þau héldu til sinnar dagvinnu, enda árrisul og vinnusöm með eindæmum. Sigga hafði sterka réttlætiskennd og mátti ekkert aumt sjá. Hún naut sín vel í umönnunarstörfum og var vel metin af skjólstæðingum og samstarfsfólki. Sigga var mikill náttúruunnandi og meiri hamhleypu til berjatínslu hef ég aldrei séð, nema ef vera skyldi Sigga tengdapabba.

Straumhvörf urðu fyrir tólf árum þegar Sigga veiktist af Alzheimer. Á fyrstu stigum sjúkdómsins leitaði hugur hennar sterkt til Siglufjarðar, hún þráði að fara þangað þrátt fyrir að allt hennar fólk væri löngu horfið á braut. Þótt erfitt væri að skilja vanlíðan hennar og þá skelfingu sem fylgir þessum skæða sjúkdómi, hefur Siglufjörður sennilega vakið tilfinningar um öryggi og skjól. Frá því Sigga fluttist á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi fyrir átta árum hefur Siggi setið hjá henni hvern einasta dag, talað við hana og strokið um vangann, sýnt henni ótakmarkaða elsku. Þó að sjúkdómurinn hafi smám saman tekið hana frá okkur var alltaf ljóst að hún fann sterkt fyrir návist Sigga og kærleik.

Í sveitinni okkar í Þverárhlíðinni hefur stórt aspartré vaxið af afleggjara sem Sigga gaf okkur úr garði sínum. Þrátt fyrir að taka á sig stöðuga og stífa norðaustanátt hefur tréð hennar Siggu vaxið þráðbeint og er sérlega blaðfagurt. Það er okkur ævarandi minning um þessa sterku, stoltu og fallegu manneskju. Ég þakka henni fyrir allt sem hún var okkur Einari og dætrum okkar í fjörutíu ára samfylgd. Megi hún hvíla í friði.

Kristín Ingólfsdóttir.
----------------------------------------------

Ég tel mig afskaplega lánsama að hafa fengið leiðsögn tveggja kynslóða í gegnum mín uppvaxtarár og voru ömmur mínar og afar stór partur af okkar daglega lífi. Ég var fyrsta barnabarnið í fjölskyldum foreldra minna og því gjörsamlega dekruð í bak og fyrir. Dekruð með þessum hefðbundnu hlutum eins og sælgæti og athygli en það sem eftir situr eru fjölmargar gæðastundir með þeim sem stóðu mér næst. Stundirnar hjá ömmu og afa í Smáraflötinni voru margar og góðar og gáfu mér tækifæri til að kynnast þeim náið og læra af þeim. Og auðvitað níðast á stóru frændum mínum sem höfðu óbilandi þolinmæði gagnvart mér.

Það var mér til happs í öllu dekrinu að í fjölskyldunni var ég líka umkringd afskaplega sjálfstæðum og hörkuduglegum konum sem sýndu mér ítrekað í verki að hvers konar bómullarmeðhöndlun í lífinu væri algjörlega óþörf. Amma Sigga var svo sannarlega í þessum hópi kvenskörunga. Vinnuhestur sem féll aldrei verk úr hendi en gaf sér á sama tíma ekki nokkru sinni það hrós sem hún raunverulega átti skilið.

Amma mátti aldrei aumt hjá nokkrum manni sjá. Hún vorkenndi öllum sem var hallmælt í útvarpinu og rauk til að aðstoða þá sem áttu bágt í kringum hana. Stundum fólst sú huggun í að láta undirritaða syngja Maístjörnuna fyrir viðkomandi. Það eru áhöld um að það hafi gert nokkrum manni gott en amma grét í hvert skipti og bað um uppklappslag: Maístjörnuna, aftur! Amma var mikil stemningskona þótt feimin væri og á ég henni það til dæmis að þakka að kunna svo gott sem alla íslenska sjómannavalsa og síldarævintýrislög.

Ég var nokkuð ung þegar hugtakið að koma til dyranna eins og maður er klæddur kom upp í íslenskutíma í skólanum. Án umhugsunar komu amma og afi mér til hugar og æ síðan hugsa ég hlýtt til þeirra þegar ég heyri þessi orð. Í mínum huga eru þau sem einstaklingar og sem par hin fullkomna lýsing á þessu orðasambandi og þannig hafa þau verið mér fyrirmynd og þörf áminning í gegnum tíðina.

Í minningunni voru amma og afi alltaf mjög samrýmd og gerðu flesta hluti saman. Hvort sem þurfti að setja í uppþvottavél, keyra út til verslana soðið brauð sem þau bökuðu saman í bítið hvern dag, vinna í sundlauginni eða þrífa í bankanum. Mér fannst þetta alltaf mjög fallegt. En þegar veikindin bönkuðu upp á hjá ömmu þá raunverulega skildi ég hvað felst í því að vera sálufélagar í blíðu jafnt sem stríðu.

Hvaða ástarsaga sem heimsbókmenntir eða kvikmyndir hafa fært okkur blikna í samanburði við þá ástarsögu sem við, sem fengum að fylgja Sigga og Siggu í gegnum þennan tíma, fengum að upplifa. Ástin, alúðin, umhyggjan og þolinmæðin sem afi sýndi ömmu var slík að hún breytti sýn minni á lífið og það samferðafólk sem við höfum tök á að velja okkur. Sú ást og þrá sem amma sýndi afa fram á síðasta sprettinn, þrátt fyrir að hún hefði að öðru leyti nánast horfið okkur hinum sjónum, var svo falleg og djúp.

Elsku afi minn, takk fyrir að kenna mér á lífið og sýna mér hvað raunverulega skiptir máli. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Hvíl í friði, elsku amma mín.

Þín Hildur.

Sigríður Einarsdóttir - ókunnur ljósmyndari, (fylgdi minningargrein)