Guðrún Sveinsdóttir

Mjölnir - 12. tölublað (20.10.1964)  -   Börn Guðrúnar: neðst á síðunni hér

Guðrún Sveinsdóttir fæddist 18. desember 1907 á Akureyri. Dáin 18/9 1964

Foreldrar hennar voru Margrét Kristjánsdóttir og Sveinn Hallgrímsson.

Á öðru ári fór hún til hjónanna Friðrikku Þorsteinsdóttur og Jóns Jónassonar. Þau áttu heima að Grund í Haganesvík þar til þau fluttu til Siglufjarðar árið 1920, en hér starfaði Jón hjá verslun Halldórs Jónassonar fram á elliár. Hjá þessum heiðurshjónum ólst Guðrún upp og naut sömu umönnunar og þeirra eigin börn.

Á unga aldri kenndi Guðrún þess meins, sem að lokum leiddi til andláts hennar. Guðrún fór fyrst á heilsuhælið að Kristnesi árið 1938. Þar fékk hún nokkurn bata, en þó ekki meiri en svo að hún þurfti oft síðar að leita hælisvistar um lengri eða skemmri tíma, bæði á Kristneshæli, Reykjalundi og Vífilsstöðum, en á síðastnefnda staðnum lést hún 18. sept. sl.

Guðrún Sveinsdóttir

Guðrún Sveinsdóttir

Þegar heilsan leyfði, og reyndar endranær, starfaði Guðrún að saumaskap og var eftirsótt til slíks, enda sameinaðist þar snilldar handbragð og góður smekkur. Meðan hún dvaldi á Kristneshæli, veitti hún m. a. saumastofunni þar forstöðu frá því hún var stofnsett. Guðrún var félagslynd og vann mikið starf í þeim félögum, sem hún var meðlimur í, en þó mun hún hafa starfað mest og best í félagssamtökum berklasjúklinga og þar lagði hún sig alla fram meðan kraftar entust.

Ég, sem þessar línur rita, kynntist Guðrúnu ekki nærri nóg til að geta gert minningargrein um hana eins góð skil og ég vildi, enda á þetta aðeins að vera stutt vinarkveðja frá mér og eiginkonu minni, en þær voru vinkonur og samvistum á Kristnesi og Vífilsstöðum. Samt kynntist ég henni nóg til að sjá mannkosti hennar, sem voru miklir og að vísu augljósir. Guðrún var hæglát í fasi og prúð og bauð af sér góðan þokka.

Eitt af því minnisstæðasta við Guðrúnu finnst mér fallegu augun. „Augun eru spegill sálarinnar," segir einhvers staðar, og út úr augum hennar skein góðvild, einlægni, einurð og kímni. Ég held það sé frekar sjaldgæft, þegar talað er um einhvern að honum fjarverandi, að ekkert nema gott eitt sé um viðkomandi sagt. En þannig heyrði ég ávallt um Guðrúnu talað. Það eitt segir sína sögu.

Guðrúnu voru góðar gáfur gefnar og hún hafði yndi af Iistum. Góðar bókmenntir og leiklist voru henni unaður á erfiðum dögum. Hún hafði sínar ákveðnu skoðanir á þjóðfélags og dægurmálum, en setti þær fram með þeirri hógværð, sem henni var lagin, svo þeim var veitt athygli. Kímni hennar var sérstæð, því að það var sú sanna hægláta kímni, sem öllum kom í gott skap en engan særði, enda hefði annað verið andstætt eðli Guðrúnar. Oft mun þessi gáfa hafa hjálpað Guðrúnu yfir erfiðan hjalla, og það, að geta séð broslegu hliðarnar líka, gert lífið bærilegra.

Hjálpsemi hennar og góðvild kom ef til vill best í ljós, þegar hún sjálf var veik og miðlaði öðrum, sem veikari voru, af hjartagæsku sinni og sálarró. Guðrún giftist aldrei, en hún eignaðist fimm börn. Eitt þeirra dó í æsku, en hin, þrjár dætur og einn sonur, lifa, og eru öll einkennd bestu eiginleikum móður sinnar.

Í sumar var heilsu Guðrúnar þannig háttað, að hún gerði sér fulla grein fyrir því að hverju rak, en hún tók því með hugarró og einurð. Lyndiseinkenni hennar breyttust ekki við það að horfast í augu við dauðann. Hún hafði barist eins og hetja, en vissi, að senn var getan þrotin, og tók því æðrulaust. Hún skýrði sínum nánustu og vinum sínum frá þessari vissu sinni, svo að engum þyrftu endalokin að koma á óvart.

Guðrún sat mörg þing S. I. B. S., en síðasta þingið gat hún ekki setið af framangreindri ástæðu. En hún sendi þinginu eina þá fegurstu og smekklegustu kveðju, sem hægt var, og sem lýsir henni svo vel: Hún sendi blómakveðju. Og þannig mun minningin um Guðrúnu Sveinsdóttur búa um sig í hjörtum vina hennar -og vandamanna, eins og fallegt blóm, og dafna þar vel, því að slíku blómi vilja allir hlúa.

Bragi Magnússon.
------------------------------------------

Hinn 18. september síðastliðinn barst sú fregn, að Guðrún Sveinsdóttir hefði þann dag látist á Vífilsstaðahæli. Þrátt fyrir það, að Guðrún hafði tekið sjúkdóm sinn fyrir 25 árum og dvalið langdvölum á Kristensi og Vífilsstaðahælum, mun þó vandamenn og vini hafa sett hljóða við fregnina. Þannig er það æði oft, þegar dauðinn knýr dyra.

Guðrún var fyrir margra hluta sakir mjög óvenjuleg kona. Hún var góðum gáfum gædd, listfeng og smekkvís, lífsglöð, með sérlega þroskaða kímnigáfu og einstaka hæfileika til að sjá broslegu hliðina á hverjum hlut. Þó því væri ekki flíkað, var Guðrún vel hagmælt, skrifaði stundum bráðskemmtilega og snjalla skemmtiþætti, og sendibréf hennar voru oft hreinasta snilld.

Atvinna Guðrúnar var saumaskapur, og stundaði hún þessa vinnu áfram í veikindum sínum meðan kraftar leyfðu. Um nokkurt skeið veitti hún forstöðu saumastofu sjúklinga á Kristneshæli. Við þessa atvinnu komu sjálfsagt oft að góðum notum listfengi hennar og smekkvísi. Var hún fræg fyrir snilldarhandbragð sitt, en afkastaði þó verkum sínum á ótrúlega skömmum tíma.

Sterkustu eðlisþættir Guðrúnar hygg ég þó að hafi verið gjafmildin og hjálpsemin, og samúðin með þeim, sem eitthvað voru útundan í lífinu. Fróðlegt væri að vita, hve margar flíkur ;Guðrún hefur sniðið og saumað um ævina fyrir sjúklinga, sem með henni hafa dvalið á hælum, — og raunar margra aðra, sem þurftu slíka hjálp, — án þess að fá aðra borgun en hlýtt handtak og þakklátt bros.

Þegar þessi hjálp er höfð í huga og þá ekki síður sú hjálp, sem Guðrún veitti með þreki sínu og glaðlyndi þeim, sem veikindin voru að yfirbuga, þá gæti ég trúað, að með sanni mætti segja, að það væru ekki margir, sem hefðu gert eins mikið fyrir jafn marga og hún. Börnum sínum reyndist Guðrún umhyggjusöm og fórnfús móðir, en þau umvöfðu hana ást ríki og hlýju, sem voru hinni sjúku konu styrkur og gleði í hinum annars þungbæru veikindum hennar.

Kornung stúlka fékk Guðrún áhuga fyrir stjórnmálum. Að sjálfsögðu skipaði hin ríka réttlætiskennd hennar og samúð með öllum, sem erfitt áttu, henni í flokk hinnar róttæku verkalýðs hreyfingar, og vann hún þar af lífi og sál um margra ára bil.

Nú við leiðarlok eru það ekki ástvinir og nánir frændur einir, sem kveðja með hlýhug og söknuði, heldur og gamlir samstarfsmenn og félagar og ótal margir aðrir, sem í stórri þakkarskuld standa.

Þ.G.  (sennilega; Þóroddur Guðmunsson)
------------------------------------------------------

Börn hennar: 

  • Ríkharður Jón Ásgeirsson, (Rikki) f. 18. febrúar 1926, d. 17. febrúar 2007

  • Brynja Gestsdóttir, f. 17. nóvember 1927, búsett í Reykjavík, og

  • Kolbrún Pálsdóttir, f. 10. apríl 1932, d. 1. apríl 2011
     
  • Haraldur Sigurgeirsson, f. 26. september 1938, d. 9. janúar 2009,
     
  • Jósef Sigurgeirsson, f. 13. nóvember 1943.

  • Sigurlína Sigurgeirsdóttir f. á Siglufirði 16. júní 1935 - d. 12. febrúar 2014.