Kristín Margrét Konráðsdóttir (Ædda)

24. júlí 1999 | Minningargreinar

Kristín Margrét Konráðsdóttir Fædd 11 nóvember 1908 - Dáin 18 júlí 

Kristín Margrét Konráðsdóttir (Ædda) Fæddist að Tjörnum í Sléttuhlíð 11. nóvember 1908. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 18. júlí síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Anna Pétursdóttir, fædd 12. desember 1866, Fjalli í Sléttuhlíð, dáin 8. desember 1958, og Konráð Karl Kristinsson, fæddur 17. janúar 1854, Tjörnum í Sléttuhlíð, dáinn 30. mars 1945.

Eignuðust þau tólf börn og af þeim komust sex til fullorðins ára. Tvö lifa í hárri elli á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, þau Sigríður Jóhanna Konráðsdóttir, sem verður 99 ára á árinu, og Konráð Konráðsson, sem verður 95 ára.
Útför Kristínar Margrétar fer fram frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 24. júlí og hefst athöfnin kl. 14.
------------------------------------------------

Kristín Margrét Konráðsdóttir

Kristín Margrét Konráðsdóttir

24. júlí 1999 

Kristín Margrét Konráðsdóttir

  • Svanir fljúga hratt til heiða,
  • huga minn til fjalla seiða.
  • Vill mér nokkur götu greiða?
  • ­ Glóir sól um höf og lönd,
    (Stefán frá Hvítadal)

Losnað hefur úr fjötrum andi elskulegrar frænku minnar sem nú hefur kvatt þennan heim. Það varð mitt lífslán og veganesti að fá að kynnast Æddu, eins og hún var jafnan kölluð. En fyrir nær átján árum bauð hún faðm sinn og hjartahlýju ungum manni sem kom ókunnugur inn á heimilið, tók sál hans traustataki og sleppti aldrei. Mér er það minnisstætt hvað hún hélt lengi í hönd mína er við hittumst fyrst.

Á fundum okkar var margt spjallað og gjarnan barst talið að æskuslóðum hennar í Sléttuhlíðinni þar sem hún óf sín tryggðabönd, þar sem ástvinir margir og ættingjar áttu rætur sínar og þar sem gengin voru hin fyrstu og síðustu spor. Og ég efa það ekki að þangað fór hugurinn margar ferðir til að hlusta á vorið koma, til að fylgjast með heyönnum í sveitinni eða til að horfa á svanina á tjörnunum heima þar.

Það yrði langt mál að ætla að fara að lýsa öllum mannkostum þessarar einstöku konu. Fyrst og fremst kemur mér þó til hugar þessi fádæma hjartagæska sem engan lét ósnortinn. Þá var tryggð hennar og umhyggja fyrir fjölskyldunni svo fölskvalaus að aðdáun vakti. Til marks um það finnst mér ég geta sagt frá því, þegar og eftir að leiðir skildu kom ég þó nokkrum sinnum í heimsókn til Æddu.

Ég taldi mig eiga þar málsvara í erfiðu persónulegu málefni. Rök mín og klókindaleg orðræða voru þó sem högg á vatni, óbilandi tryggð hennar við fjölskylduna var svo hrein og tær. Það var ekki einu sinni hægt að láta sér gremjast. Þá gætti hún þess sérstaklega að finna fjölskyldumyndunum stað, þar sem hægt væri að horfa á þær á degi hverjum. Það segir heldur ekki svo lítið.

Öllum þótti vænt um Æddu sem henni voru svo lánsamir að kynnast. Hún hafði sérstakt dálæti á börnum og þau hændust að henni. Oft var líka einhverju skotið í lítinn munn. Ég á henni þakkir fyrir sérstaka alúð og vináttu sem hún sýndi syni mínum. Hjá henni fann hann athvarf og deildu þau saman hugðarefnum sínum.

Á unga aldri mátti hún takast á við vanmátt sinn til líkamlegs atgervis og vera rúmliggjandi æ síðan. Af fullkomnu æðruleysi og dugnaði tók hún við hlutskipti þessu og sinnti því af þeim hetjuskap sem kunnugt er.

En nú eru svanirnir hennar Æddu flognir og við stöndum eftir með hugann fullan af þakklæti. Hún hefur lagt á djúpið og skilið víða eftir sig söknuð og vota hvarma. Í hljóðri bæn þökkum við samfylgdina og biðjum henni Guðs blessunar.

Við vottum Fanneyju og Skarphéðni svo og öllum aðstandendum hennar innilega samúð.

Reynir, Ingibjörg, Drífa, Friðrik og Þórhildur.
----------------------------------------------------

24. júlí 1999 

Kristín Margrét Konráðsdóttir

Kristín Margrét Konráðsdóttir Hún Ædda var galdrakona. Hún bjó yfir einhverjum töframætti sem aðrir fullorðnir höfðu ekki. Það kom aldrei til greina annað en að hlýða því sem hún Ædda sagði. Við krakkarnir gátum verið með alls konar óþekkt og uppátæki en Æddu gegndum við skilyrðislaust. Þetta er kannski enn merkilegra fyrir þá sök að hún Ædda lá rúmföst, hafði lamast þegar hún var á fermingaraldri og steig aldrei í fæturna eftir það. Ég sá Æddu fyrst þegar ég kom barnung með móður minni í heimsókn til Siglufjarðar.

Ædda hét að sjálfsögðu ekki Ædda en nafnið myndaðist þegar ungar systurdætur hennar voru að reyna að segja frænka og það festist við hana meðal yngri kynslóðarinnar. Mér fannst þessi kona strax mjög merkileg og skynjaði þennan sterka persónuleika þótt ung væri. Seinna átti ég eftir að kynnast henni betur. Ég var komin á þann aldur að ég átti að fara að læra handavinnu í skólanum og móður minni, sem er mikil hannyrðakona, blöskraði sinnuleysi mitt gagnvart þessari mikilvægu námsgrein.

Allar mínar norðlensku frænkur voru löngu farnar að prjóna og hekla og sauma hverja dýrindisflíkina á fætur annarri en ég kunni ekki einu sinni að taka lykkjuna og sýndi heldur enga tilburði til að læra neitt slíkt. Nú voru góð ráð dýr og þá var gripið til þess eina ráðs sem duga mætti. Ég var send norður í læri til hennar Æddu. Ædda var nefnilega undrakennari. Hún kenndi öllum börnunum í fjölskyldunni að lesa og fylgdist með námi þeirra dag frá degi. Sjálfsagt hefur enginn tölu á öllum þeim börnum sem nutu leiðsagnar hennar í tímans rás. Stúlkunum kenndi hún hannyrðir og var sjálf mikil hagleikskona.

Ég man hversu dáleidd ég gat setið við rúmstokkinn hjá henni og horft á hvernig langir, fimir fingur hennar léku sér að heklunálinni og sköpuðu hvert listaverkið á fætur öðru. Ædda bjó í herberginu sem sneri út að sjónum. Þar var stjórnstöðin. Allar máltíðir voru snæddar inni hjá Æddu. Þá var dregið fram stórt borð og allur matur og borðbúnaður borinn þangað úr eldhúsi jafnvel oft á dag. Ædda lá við endann og aðrir fjölskyldumeðlimir sátu síðan í kringum borðið. Þarna voru dægurmálin rædd fram og aftur, ekki síst pólitíkin. Ædda lá ekki á skoðunum sínum í þeim efnum frekar en öðrum.

Hún hafði alla tíð lifandi áhuga á öllu sem gerðist í þjóðfélaginu, allt frá kosningum til knattspyrnu. Síldarævintýrið var enn í fullum gangi á þessum tímum og Ædda þurfti að fá skýrslu um hversu miklu hver bátur hefði landað. Hins vegar þurfti ekki að segja henni hvaða bátar hefðu komið inn, hún þekkti þá alla. Ædda átti nefnilega töfraspegil og í honum sá hún alla báta og skip sem sigldu inn fjörðinn og sumir trúðu því að hún sæi hreinlega allt sem gerðist á Siglufirði í þessum spegli.

Ædda átti líka ýmis önnur galdratæki. Eitt þeirra var "bíllinn" hennar. Mikið öfundaði ég hana af honum. Ég veit eiginlega ekki hvers konar tæki þetta var, í minningunni líkist þetta einna helst samblandi af kerru og mótorhjóli með tveimur  hjólum að aftan og einu að framan. Við krakkarnir þráðum mikið að fá að aka þessum bíl. Á góðviðrisdögum fór Ædda út að aka. Hún ók ekki langt því að vegfarendur þurftu svo mikið að ræða við hana og þótti okkur, hinu smáa fylgdarfólki hennar, sem vildi bruna áfram þetta heldur þreytandi. Ógæfa Æddu og gæfa hennar voru samofnar.

Ógæfa hennar var að fá lömunarveikina kornung á tímum þegar fatlaðir voru litnir hornauga og lítil sem engin hjálpartæki til að létta hreyfihömluðum lífið. Gæfa hennar var að eiga einstaka fjölskyldu sem með ótrúlegri fórnfýsi gerði henni kleift að búa alla tíð heima innan um sína nánustu og rækta og nýta hæfileika sína í þágu systkinabarna sinna, fjölskyldna þeirra og vina. En gæfa hennar var líka að vera gædd sterkri skapgerð, óbugandi viljastyrk og löngun til að lifa lífinu lifandi.

Guð blessi minningu Margrétar Konráðsdóttur.

Hafdís Ingvarsdóttir.
-------------------------------------------

24. júlí 1999

Kristín Margrét Konráðsdóttir

Kristín Margrét Konráðsdóttir Fyrir rúmum 40 árum ákváðu nokkrir fatlaðir einstaklingar norður á Siglufirði að stofna með sér samtök til að berjast fyrir réttindum fatlaðra. Þessi samtök sem hlutu nafnið Sjálfsbjörg uxu og efldust í tímans rás um allt land.

Meðal stofnendanna var hún Margrét eða Ædda eins og hún var alltaf kölluð af fjölskyldu sinni og vinum.

Hún hafði fatlaðast af völdum lömunarveiki eins og svo mörg okkar, og bjó hjá Önnu systur sinni á Laugarveginum og fjölskyldu. Þar sem við bjuggum í nágrenni og höfðum svo lík áhugamál, myndaðist góð vinátta milli okkar sem hélst alla tíð. Hún Ædda var margfróð, enda fylgdist hún vel með þjóðmálum og öllu sem fram fór, og var í stöðugu símasambandi við vini og frændfólk um land allt, þó að hún héldi sig mest í sinni heimabyggð.

Hún starfaði ekki utan heimilisins, en var þó sívinnandi í handavinnu og við kennslu yngri nemenda fjölskyldunnar. Oft hringdi hún í mig til að ræða kennslu og uppeldismál sem hún hafði mikinn áhuga á, hún fylgdist með breytingum í skólamálum auk alls annars.

Sjálfsbjörg Siglufirði naut krafta hennar á svo margan hátt, ekki síst í handverkinu þegar við unnum á basar okkar. Fyrir það þökkum við og allt samstarf í gegnum árin, ekki síst fjölskyldu hennar fyrir dyggan stuðning alla tíð.

Síðustu ár bjó hún hjá Fanneyju systurdóttur sinni og manni hennar Skarphéðni og átti þar góða ævi meðan kraftar entust. Gott var að koma á heimili þeirra, fagna merkum tímamótum, eða bara til að spjalla.

Nú er einn hlekkurinn farinn úr keðju okkar við fráfall Æddu en við reynum að tengja saman á ný og halda brautryðjendastarfinu áfram.

Ég sendi fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Vertu sæl og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Valey Jónasdóttir.
-----------------------------------------

24. júlí 1999 

Kristín Margrét Konráðsdóttir

Kristín Margrét Konráðsdóttir Í dag, 24. júlí, er til moldar borin háöldruð frænka mín, Kristín Margrét Konráðsdóttir, níræð að aldri. Fimmtán ára gömul, 7. ágúst 1924, fékk hún lömunarveiki og lamaðist upp að hálsi. Nokkru síðar fékk hún mátt í hendurnar.

Fyrstu fjögur árin eftir veikindin lá Ædda, eins og hún var kölluð af fjölskyldunni, á Sauðárkróksspítala en hinn 9. október 1928 tók Anna systir hennar hana að sér og bjó hún hjá henni og hennar fjölskyldu í 35 ár. Þaðan flutti hún til Fanneyjar, systurdóttur sinnar, og Skarphéðins, manns hennar, og bjó þar í rúm 35 ár eða þar til hún fór í Sjúkrahús Siglufjarðar 4. maí sl.

Ædda fékk vélknúinn hjólastól árið 1955, sem gerði henni kleift að ferðast um bæinn á góðviðrisdögum. Hún var þó aldrei ein á stólnum vegna þess að það þurfti að gangsetja hann með sveif og við það aðstoðuðum við krakkarnir hana. Að launum sátum við aftan í stólnum og fórum með henni hvert sem hún fór. Ædda hafði mikið yndi af börnum og lærðum við krakkarnir í fjölskyldunni hjá henni þegar við komum heim úr skólanum. Var ekki til að tala um að við færum út að leika okkur fyrr en við vorum búin með lærdóminn.

Handavinnu stundaði hún mikið og skipta stykkin hennar hundruðum í gegnum árin. Prýða þau mörg heimili í landinu. Ædda horfði mikið á sjónvarp sér til dægrastyttingar og fylgdist vel með fréttum. Íþróttirnar voru í miklu eftirlæti hjá henni og voru Arsenal og Valur hennar lið. Hafði hún gaman af að ræða leikina eftir að hún hafði séð þá í sjónvarpinu. Ég minnist þess að þegar ég var lítill drengur kom það fyrir að hún gætti mín. Sat ég þá uppi í rúminu hjá henni tímunum saman, þar sem hún sagði mér sögur og fór í leiki.

Einhvern veginn fann ég á mér vanmátt hennar, að hún gæti ekki gengið, hvað þá hlaupið á eftir mér og var ég ætíð rólegur hjá henni. Þetta lýsir því hvað hún hafði gott lag á börnum, þau hændust að henni, voru góð við hana og hlýddu henni. Það er skrýtið að koma heim til foreldra minna þar sem rúmið hennar er autt og engin Ædda til staðar. Litlu börnin, sem voru vön að heimsækja Æddu sína, grípa nú í tómt, skilja ekkert í þessu og sakna hennar sárt. Mestur er þó söknuður mömmu og pabba. Þau eru búin að annast hana í öll þessi ár og eiga hjartans þakkir skildar fyrir einstaka umönnun.

Elsku Ædda, ég þakka þér samfylgdina og allt sem þú gerðir fyrir mig og fjölskyldu mína í gegnum árin. Guð geymi þig og blessi.

Þinn frændi,  Guðmundur Skarphéðinsson.
____________________________________

24. júlí 1999 

Kristín Margrét Konráðsdóttir

Nú veit ég að sumarið sefur í sál hvers einasta manns. Eitt einasta augnablik getur brætt ísinn frá brjósti hans, svo fjötrar af

Kristín Margrét Konráðsdóttir

  • Nú veit ég að sumarið sefur
  • í sál hvers einasta manns.
  • Eitt einasta augnablik getur
  • brætt ísinn frá brjósti hans,
  • svo fjötrar af huganum hrökkva
  • sem hismi sé feykt á bál,
  • uns sérhver sorg öðlast vængi
  • og sérhver gleði fær mál.

(Tómas Guðmundsson.) 

Elsku Ædda, þú varst alltaf rómantísk sál. Hesturinn í sögunum okkar átti að heita Sólfaxi og stúlkan Sóley. Bjartsýni og ást þín á lífinu, á fólkinu þínu, heimaslóðum þínum í Skagafirði og á Siglufirði varði til æviloka. Það var alltaf sól á Siglufirði. Þú varst til þegar við fæddumst og einhvern veginn fannst okkur eins og þú yrðir alltaf hér og það verður þú í huga okkar.

Þú kenndir okkur að lesa, kenndir okkur handavinnu, hjálpaðir okkur við lærdóminn, rúntaðir með okkur eins og drottning um bæinn í stólnum þínum, hélst fyrir okkur litlu jólin þar sem þú gerðir handa okkur kórónur og við sungum og dönsuðum ... minningarnar eru óteljandi. Þú eignaðist aldrei börn en börnin í fjölskyldunni voru þín. Þú vissir alltaf hvar við vorum, þú vaktir yfir velferð okkar. Þú varst svo ánægð og hreykin þegar okkur gekk vel. Síðan þegar við eignuðumst börnin okkar varstu þeim eins og þú varst okkur. Alltaf að gauka einhverju að þeim, spyrja hvernig þeim gengi, heyra í þeim.

Velferð þeirra var þér ofarlega í huga og ráðin frá þér voru mörg varðandi uppeldi, mataræði og önnur mál sem þau snerti. Og við áttum að hugsa vel um mennina okkar, það fannst þér alltaf mikið atriði. Þú vildir að við værum hamingjusamar. Þú sagðir okkur sögur frá barnæsku þinni og þær voru lifandi fyrir augum okkar. Öll smáatriði voru á hreinu og þú lýstir staðháttum eins og þú hefðir átt þar leið hjá í síðustu viku. Þú varst einstök manneskja. Í lífi þínu voru mörg áföllin en skap þitt yfirvann allt.

Við reyndum oft að setja okkur í þín spor og ímynda okkur hvernig líf þitt væri, en það var ekki hægt. Alltaf reyndir þú að líta á björtu hliðarnar, að kvarta var ekki þinn stíll. Það var reisn yfir þér. Þú varst hörð á þínum skoðunum en virtir annarra. Þú hlustaðir og hafðir áhuga á því sem aðrir sögðu og lést vita ef þú varst ekki sammála. Það var oft sem við vorum ekki sammála, en það var allt í lagi. Þú varst örlát, bæði af sjálfri þér og eigum þínum og áttir fleiri vini en nokkur sem við þekkjum.

Elsku Ædda, svo lengi sem við lifum munum við aldrei gleyma þér. Það er ekki hægt að gleyma svona manneskju. Þú varst einstök og verður það alla tíð í huga þeirra sem þig þekktu. Við munum sakna þess að heyra ekki í þér og hitta þig ekki hjá ömmu og afa.

Elsku amma og afi. Þið hugsuðuð um Æddu á mjög óeigingjarnan hátt í 35 ár með aðstoð barna ykkar. Missir ykkar er mikill og erfitt að ímynda sér ykkur án hennar. Guð gefi ykkur styrk á þessari stundu. Ættingjum og vinum Æddu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Jóna Guðný, Margrét Fjóla og Kristín Anna.
----------------------------------------------------------

24. júlí 1999

Kristín Margrét Konráðsdóttir Þakklæti er mér efst í huga þegar ég kveð þig, elsku Ædda. Þakklæti fyrir að hafa átt þig að og fyrir allt það góða sem þú gerðir fyrir mig og mína.

Líf Æddu var oft erfitt. Aðeins 15 ára gömul veiktist hún af lömunarveiki og var bundin hjólastól upp frá því. Þetta var henni, óhörnuðum unglingi afar erfitt. Að þurfa að dveljast í Sjúkrahúsi Sauðárkróks næstu árin, fjarri foreldrum og nánustu ættingjum. Á þessum tíma voru samgöngur erfiðar og voru heimsóknirnar á Sauðárkrók því fáar.

Ædda var okkur systkinunum sem amma, þótt hún væri í raun ömmusystir okkar. Hún var góðum gáfum gædd og kom það okkur systkinum og börnum okkar oft til góða. Hún miðlaði af reynslu sinni og þekkingu. Meðal áhugamála Æddu voru handbolti og fótbolti og gat hún sagt þér allt sem þú vildir vita því tengdu. Lestur góðra bóka, að ógleymdri handavinnunni hennar styttu henni stundir í gegnum árin.

Ædda var samofin öllu mínu lífi frá því ég man eftir mér. Árin eftir að hún kom af Sjúkrahúsi Sauðárkróks dvaldist hún hjá ömmu og afa, en síðustu 36 ár ævi sinnar dvaldist hún á heimili foreldra minna. Það var henni dýrmætt að vera með fólkinu sínu og eiga foreldrar mínir miklar þakkir skildar.

Síðustu tvo mánuðina dvaldist Ædda í Sjúkrahúsi Siglufjarðar, uns hún lést, sunnudaginn 18. júlí síðastliðinn. Minningarnar sem ég á um þig verða mér fjársjóður nú þegar þú ert horfin. Ég og dætur mínar söknum þín mikið.

  • Sorg og gleði auður er,
  • öllum þeim er vilja.
  • Ég á margt að þakka þér,
  • þegar leiðir skilja.

Takk fyrir allt, elsku Ædda. 
Þín
Anna Margrét.
----------------------------------------------

24. júlí 1999 | 

Kristín Margrét Konráðsdóttir Elsku Ædda, nú er hvíldin komin og þjáningarnar að baki. Ædda var aðeins 15 ára gömul þegar hún veiktist og fékk lömunarveikina og hefur hún verið rúmföst síðan.

Ég kynntist Æddu sem ung stúlka þegar ég bjó með henni hjá ömmu minni Önnu og afa Venna á Laugavegi 5. Æddu voru þau hjón búin að annast allan sinn búskap eða þar til árið 1965. Þá dó amma mín. Þá komu þau hjón Fanney og Skarphéðinn og tóku Æddu til sín og önnuðust hana fram á síðasta dag og eiga þau hjón miklar þakkir skildar.

Æddu þótti gaman að hafa börnin í kringum sig og kenndi hún mér að lesa ásamt fleiri börnum í fjölskyldunni. Hún var mikil hannyrðakona og er fjöldinn allur af börnum vítt og breytt um landið sem bera húfur heklaðar af henni fyrir utan allar hannyrðirnar sem hún er búin að gefa ættingjum og vinum.

Þegar Ædda var ung eignaðist hún stól sem hún gat keyrt um bæinn og vorum við krakkarnir búin að sitja í ansi margar ferðir með henni. Þetta eru ógleymanlegar bæjarferðir. Ædda var ógift og barnlaus. Að lokum viljum við minnast hennar með þessari vísu:

  • Allar stundir okkar hér
  • er okkur ljúft að muna.
  • Fyllstu þakkir flytjum þér
  • fyrir samveruna.

Hvíl þú í friði, elsku Ædda.

Fanney Hafliðadóttir og fjölskylda.
-------------------------------------

Mjölnir - 17. nóvember 1948   Fertugsafmæli

Fimmtudaginn 11. 1948. átti fertugsafmæli Kristín Konráðsdóttir, Laugavegi 5 hér í bæ. Heimsóttu hana margir vinir og kunningjar, og aðrir, sem vottuðu henni sinn vinarhug á annan hátt, tók hún á móti gestum sínum, kát og létt í lund eins og að vanda, enda þótt hún hafi verið það fötluð vegna lömunar s.l. 24 ár, að hún hafi ekki getað í fætur stigið og orðið því að njóta annarra hjálpar til þess að færa sig úr stað. — Dvelur hún á heimili systur sinnar Anna Konráðsdóttir og manns hennar Vernharður Karlsson. Margrét er bókhneigð, les mikið og f ylgist vel með málum, og á verkalýðshreyfingin þar öruggan málsvara, þar sem hún tekur þátt í umræðum um þau mál, því hún er bæði rökviss og orðheppin. Vill Mjölnir færa afmælisbarninu sínar bestu hamingjuóskir og vonar, að ókomin ár megi verða henni sem sólbjartur sumardagur.------------------------

Mjölnir - 19. nóvember 1958

Fimmtugsafmæli átti Margrét Konráðsdóttir 11. nóvember 1958. Margrét er greind og góðviljuð kona, sem nýtur óskiptrar virðingar allra sem hana þekkja. Aðeins 16 ára gömul varð hún fyrir þeirri raun, að veikjast af lömunarveiki og varð að dveljast fjögur ár á sjúkrahúsi, náði nokkrum bata, en hefur þó æ síðan verið með lamaða fætur. En Margrét varð ekki beisk í lund við þessa reynslu, heldur er hún mjög glaðlynd og skemmtileg.

Að lokinni sjúkrahúsvist fluttist hún á heimi systur sinnar og Vernharðs  Karlssonar mágs sín og hefir nú dvalið þar í 30 ár. Þau hjónin hafa reynst Margréti með eindæmum vel, og samá er að segja um allar 4 dætur þeirra Vernharðs og Önnu. Öll fjölskyldan hefur umvafið hana hlýju og umhyggju, en Margrét aftur á móti endurgoldið með hollráðum, glaðlyndi og elskulegri framkomu.

Það var gestkvæmt í „Vennahúsinu" um kvöldið þ. 11 nóv. s.l. Margir komu til að árna afmælisbarninu allra heilla. Sjálf var afmælisbarnið kát og glöð að vanda, ferðaðist milli gestanna í hjólastólnum sínum og hvatti gestina ' óspart til að gera sér gott af hinum höfðinglegu veisluföngum. Sátu margir gestir langt fram yfir miðnætti og undu sér vel.

„Mjölnir" óskar Margréti allra heilla í framtíðinni og fjölskyldu hennar.