Kristinn Georgsson (Kiddi G.)

mbl.is - 26. júní 2021 | Minningargrein

Kristinn Georgsson (Kiddi G.) fæddist á Akureyri 31. desember 1933. Hann lést 13. júní 2021.

Kristinn var sonur Georgs Pálssonar og Hólmfríðar I. Guðjónsdóttur.

 • Systkini: Soffía Georgsdóttir, f. 1931, og
 • Ingvar Georgsson, f. 1943, d. 2014.

Þann 9.4. 1955 kvæntist Kristinn Hönnu Stellu Sigurðardóttur, f. 26.11. 1935, d. 21.12. 1997.

Börn Kristins og Hönnu Stellu:

1) Inga Sjöfn Kristinsdóttir, f. 28.7. 1954, maki Þorgeir Ver Halldórsson,börn Ingu:
 • Ásta, f. 1972,
 • Kristinn Ingvar, f. 1975,
 • Eygló, f. 1982, og
 • Ólafur Magnús, f. 1992.

2) Fríða Birna Kristinsdóttir, f. 9.10. 1955, maki Jón Gunnar Jónsson,börn þeirra:
 • Hanna Kristín, f. 1980,
 • Lísa Marín, f. 1983, og
 • Gunnar Snær, f. 1989. 

3) Georg Páll Kristinsson, f. 8.2. 1961, maki Líney Hrafnsdóttir,börn þeirra:
Kristinn Georgsson (Kiddi G.)

Kristinn Georgsson (Kiddi G.)

 • Hrafnhildur, f. 1979, d. 2008,
 • Hanna Stella, f. 1984, og
 • Alvilda María, f. 1987.

Kristinn eignaðist 13 langafabörn og eitt langalangafabarn.
Eftirlifandi sambýliskona er Ester G. Karlsdóttir.
Hún á fjögur börn.

Kristinn var á Akureyri til 7 ára aldurs, fjölskyldan flutti þá til Siglufjarðar og bjó hann þar alla tíð. Kristinn gekk í Barnaskóla Siglufjarðar, Iðnskóla Siglufjarðar, lauk prófum 1953, var á námssamningi hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, lauk sveinsprófi í vélvirkjun og rennismíði 1955, öðlaðist meistararéttindi 1965. Lauk vélstjóranámi hjá Fiskifélagi Íslands 1958. Lauk meiraprófi 1958 og öðlaðist ökukennararéttindi 1969. Einnig átti hann og keyrði leigubíl til margra ára.

Kristinn starfaði alla sína tíð hjá vélaverkstæði Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, hann var einstaklega vandvirkur og eftirsóttur til vinnu, mikill fagmaður, nánast allt lék í höndum hans. Hann var mjög félagslyndur, gekk snemma til liðs við karlakórinn Vísi og söng þar í mörg ár, var m.a. félagsmaður í Kiwanisklúbbnum Skildi og björgunarsveitinni Strákum. Hann var félagi í Frímúrarareglunni.

Hann gekk til liðs við Slökkvilið Siglufjarðar sem vélgæslumaður 1962 og var slökkviliðsstjóri 1991-2003. Kristinn hafði mikinn metnað varðandi slökkvistöðina og tækjabúnað hennar, það var umtalað hve mikil regla og snyrtimennska var þar viðhöfð. Kristinn setti mikinn svip á bæinn sinn, léttur og lífsglaður, mikið fyrir glens og grín. Árið 1997 keypti hann sér mótorhjól og tók að ferðast um allt Ísland og víða erlendis. Var hann félagi í nokkrum mótorhjólaklúbbum.

Útför hans fór fram í kyrrþey frá Siglufjarðarkirkju 19. júní 2021.

Elsku pabbi.

 • Englar guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn
 • vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.
 • En minning þín hún lifir í hjörtum hér
 • því hamingjuna áttum við mér þér.

 • Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú
 • þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.
 • Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund
 • og gaman var að koma á þinn fund.

 • Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til
 • nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.
 • Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn
 • þá gleður okkar minning þín, elsku pabbi minn.

 • Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut
 • gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.
 • Og ferðirnar sem förum við um landið út og inn
 • Er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Kveð þig með mikinn söknuð í hjarta.
Það er margs a minnast og síðustu dagar hafa minnt mig á hvað lífið getur verið hverfult. Ég er þakklát fyrir allar góðu samverustundirnar.
Elsku pabbi minn, ég mun ætíð sakna elsku þinnar og vináttu.

Inga Sjöfn Kristinsdóttir.

_________________________________________

Þá er horfinn af vettvangi, góður vinur minn, vinnufélagi og frændi:
Kristinn Georgsson

Hann mun seint gleymast.
Ég sakna þín minn kæri vinur, ég kveð þig og minnist þín í huga. 

Steingrímur Kristinsson