Tengt Siglufirði
12. júní 2013 | Minningargreinar
Guðný Þorsteinsdóttir fæddist á Siglufirði 17. janúar 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 2. júní 2013.
Foreldrar hennar voru Sigurlína Halldóra Sigurðardóttir, f. í Vík í Héðinsfirði 14.8. 1884, d. 10.2. 1967 og Þorsteinn Pétursson, f. á Dálksstöðum á Svalbarðsströnd 25.2. 1879, d. 21.2. 1952.
Þau áttu heimili að Aðalgötu 9 á Siglufirði. Systkini Guðnýjar voru:
Þau eru öll látin.
Á æskuheimilinu bjó einnig fóstursystir Þorsteins, föður Guðnýjar,
Ágústa
Jósefsdóttir, frá 1916-1959, barnfóstra systkinanna og hjálparhella foreldranna.
Guðný giftist 18. september 1948 Sigurði Njálssyni, forstjóra, f. 27. mars 1922, d. 23. janúar 2012. Hann var sonur Njáls Jónassonar og Ólafar Þorkelsdóttur.
Sigurður Njálsson var einnig Siglfirðingur og gekk líka í Verslunarskólann og útskrifaðist þaðan 1941. Hjónaband þeirra var einstaklega fallegt.
Þau
eignuðust þrjú börn,
Anna Sjöfn er gift Guðmundi Páli Ásgeirssyni, f. 1947, þau eiga Guðnýju, f. 1980. Börn Guðmundar eru Magnús Jóhann, f. 1969 og Hulda Ásgerður, f. 1972. Magnús er kvæntur Lottu Johannssen, þau eiga Nóru Melkorku og Mölvu Rósu. Hulda er gift Johan Ivarsson, þau eiga Emily Auði og Alexöndru Huldu. Ólafur Njáll er kvæntur Birnu Hildi Bergsdóttur, f. 1959, þau eiga Signýju, f. 1984, Kristínu, f. 1988, og Daníel, f. 1993. Signý er í sambúð með Leon Má Hafsteinssyni, þau eiga Natalíu Rán og Emilíu Brá. Kristín er í sambúð með Margeiri Þór Margeirssyni.
Guðný lauk námi frá Verslunarskóla Íslands 1943. Síðan dvaldi Guðný um skeið í Svíþjóð og Bandaríkjunum hjá ættingjum sínum. Guðný og Sigurður áttu heima á Túngötu á Siglufirði uns fjölskyldan flutti suður 1958 og settist að á Rauðalæk í Laugarneshverfi í Reykjavík.
Árið 1966 fluttu þau í Mávanes í Garðabæ og þaðan 1992 í Efstaleiti í Reykjavík. Í apríl síðastliðnum flutti Guðný á Ísafold, þar sem hún bjó sér fallegt heimili. Guðný hóf störf hjá Öryggiseftirliti ríkisins 1978 sem varð að Vinnueftirliti ríkisins 1981 og var yfirbókari til ársins 1991.
Hún vann ýmis sjálfboðaliðastörf fyrir Rauða krossinn, m.a. hafði hún lengi umsjón með bókasafni sjúkrahótels Rauða krossins og var í stjórn Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar RKÍ um skeið og hlaut gullnælu félagsins fyrir störf sín. Hún vann ötullega fyrir Hringinn, og einnig spilaði hún bridds með Vinahjálpinni á Hótel Sögu. Siglfirðingafélagið naut krafta hennar um langa hríð.
Útför Guðnýjar fer fram frá Grafarvogskirkju
í dag, 12. júní 2013, kl. 15.
---------------------------------
Tengdamóðir okkar, Guðný Þorsteinsdóttir, er látin eftir langt og viðburðaríkt líf. Í minningunni vakna fyrst myndir af henni og Sigurði Njálssyni heitnum, tengdaföður okkar, glöðum í bragði að koma úr eða á leiðinni í einhverjar ævintýraferðir eða mannfagnaði. Ekki síður minnumst við allra ferðanna sem við fórum með þeim og samverustunda hjá þeim og á heimilum okkar í gegnum tíðina.
Guðný var glæsileg kona og mörgum kostum gædd, skarpgreind, hnyttin og hárbeitt í tilsvörum þegar svo bar undir og naut sín þar sem margir voru saman komnir. Hún las mikið og var ljóðelsk. Hún réð krossgátur á íslensku og dönsku og las dönsku blöðin reglulega.
Hún var myndarhúsmóðir eins og Halldóra mamma hennar hafði verið, hafði máltíðir á réttum tíma og kökuhlaðborð virka daga sem helgar. Það var alltaf ný til tekið á hennar heimili og enginn hlutur á röngum stað. Guðný var ævinlega vel til höfð. „Man skal lide pin for at være fin,“ sagði hún stundum kímin og fór frekar í flotta skó en þægilega ef valið stóð þar á milli.
Guðný hélt fjölskyldunni vel saman, t.d. með kaffiboði á hverjum sunnudegi og einnig ræktaði hún samband sitt við systkini sín, maka þeirra og systkinabörn og ræddi í síma við systkinabörn alveg fram á síðasta dag. Guðný var fádæma gestrisin og viðræðugóð við alla.
Í minningunum eru þau alltaf saman Sigurður og Guðný. Sigurður sá ekki sólina fyrir henni og ekkert viðvik fannst honum of stórt eða of smátt ef það kynni að gleðja hana.
Aðdáunin var gagnkvæm og ást þeirra öflug og hlý í gegnum allt líf þeirra saman. Sigurður lést í janúar 2012 og tilvera Guðnýjar tapaði við það lit sínum og léttleika. Bæði saknaði hún Sigurðar, návistar hans og umhyggju, og einnig fór heilsu hennar hratt hrakandi. Reyndi þá á umönnun og samstöðu systkinanna Halldóru, Önnu Sjafnar og Ólafs Njáls. Höfum við tengdabörnin dáðst að umhyggjusemi þeirra og elju þessa síðustu mánuði.
Guðný var nýlega flutt á hjúkrunarheimilið Ísafold og var ákaflega ánægð með nýja heimilið og góða aðhlynningu. Hún var ung í anda til síðasta dags, varð aldrei gömul, hafði bara lifað lengi.
Birna Bergsdóttir, Guðmundur Páll Ásgeirsson og Viðar Símonarson.
----------------------------------------------------------
Elsku amma. Það er margt sem fer í gegnum huga minn þessa daga og margt sem rifjast upp. Öll sunnudags kaffiboðin, veiðiferðirnar, jólaboðin og afmælin. Já það er ekki hægt að segja að við fjölskyldan hittumst sjaldan og það var eitt það besta sem þið afi kennduð mér var að rækta fjölskylduna. Nú þegar þið eruð bæði farin og hugurinn reikar eru það þessar stundir sem eru það dýrmætasta sem þið gáfuð okkur.
Takk fyrir mig og allan þann tíma sem við áttum saman.
Bestu kveðjur, Signý.
-------------------------------------------------------
Elskulega, fyndna, uppáhaldsfrænkan mín hefur kvatt okkur í bili. En síðustu sextán mánuðirnir hafa verið henni erfiðir eftir fráfall eiginmanns hennar. Við hefðum alveg getað sagt okkur það sjálf að það gat aldrei orðið langur tími á milli hennar og Sigga. Þau hjón voru mjög náin og héldu vel utan um kærleika sinn og umhyggju hvort fyrir öðru. Því getum við verið viss um að það eru miklir fagnaðarfundir hjá þeim hjónum ásamt öðrum horfnum fjölskyldumeðlimum.
Þær eru margar skemmtilegar og fyndnar minningarnar sem ég á um hana frænku mína sem því miður er ekki hægt að telja upp hér. En Guðný hafði alveg ótrúlega skemmtilegan húmor og margar þær skemmtilegustu setningar sem hægt er að hugsa sér komu frá henni. Við grétum oft úr hlátri í fjölskylduboðunum þegar frænka fór af stað, þvílíkur orðaforði sem þá fór á flug. Það vildi enginn missa af þeim boðum sem Guðný og Sigurður héldu eða mættu í.
Ég er svo lánsöm að hafa átt sérstakan sess hjá frænku, hún kallaði mig alltaf „DíCí“ og ég hana „Aunty Guðný“. Frá því ég man fyrst eftir mér hefur hún alltaf verið mér nálæg og hugsað vel um mig og síðar fjölskyldu mína bæði í gleði og sorg. Guðný var líka „stóra frænkan“ í stórfjölskyldunni og var alltaf boðin og búin að aðstoða þegar þess var þörf.
Við stórfjölskyldan höfum haldið mörg ættarmótin og þar hafa Guðný og Sigurður skipað stóran sess og verið hrókar alls fagnaðar. Það er yndislegt að eiga í minningunni, að fyrir tveimur árum vorum við öll saman komin eina helgi á ættarmóti á Siglufirði. Á laugardeginum í blíðskaparveðri var gengið út í Vík í Héðinsfirði sem var einu sinni ættaróðalið okkar og Guðný mjög stolt af. En frænka hafði gaman af að rifja upp og segja sögur úr ættinni.
Ég kveð þig, elskulega frænka mín, og þakka þér alla þá elsku sem þú hefur gefið mér og mínum. Inga Þórunn sendir þér stórt knús frá Berlín og Indriði og fjölskylda senda hlýjar kveðjur frá Lundi.
Þórdís Pétursdóttir.
-----------------------------------------------------------------------
Guðný er fallin frá síðust í systkinahópnum, ég finn til mikillar samúðar, það er ekki auðvelt að rifja upp án þess að það vakni hugsanir um mömmu, Guðný var uppeldissystir og frænka mömmu sem mömmu þótti alltaf svo mikið vænt um. Móðir mömmu, Óskar Pálínu Önnu Hallgrímsdóttur „Dídí“ 1931-1990, var Herdís Lárusdóttir 1911-1980 dóttir Pálínu Önnu Sigurðardóttur 1878-1918, sem var systir Sigurlínu Halldóru Sigurðardóttur 1884-1967 sem tók að sér uppeldi mömmu, þær tvær systurnar mamma og Guðný innan um bræðurna, voru áþekkar í útliti, báðar rauðhærðar og glaðlegar. Í kveðju til mömmu rifjar Guðný upp að lítil rauðhærð hnáta hafi lætt hönd í lófa „frænda“ Þorsteins Péturssonar á sumardaginn fyrsta 1936, Guðný hefur þá verið 11 ára og mamma þá rétt að verða 5 ára, en þá flutti mamma til frændfjölskyldunnar í Aðalgötu 9 á Siglufirði.
Guðný var glæsileg, hnyttin og skemmtileg, ég kunni virkilega að meta skondin tilsvör hennar, hún studdi móður mína við að sjá um mig, um tíma kallaði ég Guðnýju mömmu, hún var mér svo góð. Ég er uppalin á Rauðalæk þar sem þær áttu báðar heimili í um átta ár og eftir að Guðný flutti með sína fjölskyldu í Arnarnesið var ég mikið þar sem barn sem og í sumarhúsinu á Þingvöllum. Guðný var fagurkeri og listnæm, glæsilegt heimili þeirra hjóna bar vott um það, sem og mikla alúð og hlýleika. Þegar ég var barn var allri stórfjölskyldunni boðið í Mávanesið á jóladag sem tengdi fjölskyldurnar saman og sennilega var það þar sem við hittumst oftast öll í einu.
Mig langar til að kveðja þessa yndislegu frænku mína með sama ljóði og ég kvaddi mömmu.
(Hallgrímur Pétursson)
Við fjölskyldan Hreinn Sumarliðason, Sirrý, Gústa, Jóna Magga, börn og barnabörn sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til allrar fjölskyldu Guðnýjar og aðstandenda.
Ágústa Hreinsdóttir.
-----------------------------------------------------
Elskuleg frænka mín og vinkona, Guðný Þorsteinsdóttir, er látin. Móðir mín, Bryndís Ásgeirsdóttir, og Guðný voru bræðradætur. Guðný ólst upp á Siglufirði, yngst í stórri fjölskyldu. Við kynntumst ekki fyrr en árið 1947, þegar ég var tólf ára en Guðný tuttugu og tveggja ára, en þá um sumarið fór hún með fjölskyldu minni til ársdvalar í Bandaríkjunum.
Ég laðaðist strax að þessari greindu, fallegu og skemmtilegu frænku minni, ekki síst vegna þess að hún var mjög glaðlynd og gædd óvenju góðri kímnigáfu.
Þessi tími er í minningunni samfellt ævintýri. Margs er að minnast.
Við vorum nýkomin vestur þegar Guðný villtist í hverfinu þar sem við bjuggum enda húsin hvert öðru lík. Hún tók það til ráðs að ganga inn á biðstofu hjá lækni og bíða þar til hún var ein eftir. Læknirinn brást vel við þegar hún tjáði honum vanda sinn og ók henni um hverfið þar til þau fundu húsið okkar.
Ég minnist þess líka þegar sóknarpresturinn á Siglufirði kom í heimsókn. Móðir mín og Guðný voru með steik í gasofni. Ekki vildi betur til en svo að sprenging varð í ofninum um það bil er prestur knúði dyra og varð honum starsýnt á útganginn á þeim er þær tóku á móti honum rjóðar í kinnum með nælonsokkana í tætlum um fæturna.
Fljótlega fóru Guðnýju að berast bréf að heiman og var skrifað utan á þau öll með sömu rithönd. Bréfunum fjölgaði er á leið og einn góðan veðurdag birtist bréfritarinn sjálfur, myndarmaður frá Siglufirði, Sigurður Njálsson. Tveimur mánuðum eftir heimkomuna voru þau Guðný og Sigurður gengin í hjónaband.
Ég hygg að fá hjónabönd hafi verið farsælli en þeirra Guðnýjar og Sigurðar en á heimili þeirra og barnanna þriggja ríkti kærleikur og gleði.
Fjölskyldan stóð alltaf þétt saman og ekki síst þegar veikindi tóku að herja á.
Guðný glímdi lengi við illvígan sjúkdóm. Í þeirri baráttu naut hún hjálpar frábærra lækna og ekki síst umhyggju fjölskyldu sinnar. Sigurður féll frá fyrir rúmu ári. Eftir það reyndi æ meira á trausta aðstoð barna og tengdabarna sem aldrei brást.
Þrátt fyrir erfiða tíma glataði mín kæra frænka aldrei lífsgleðinni, og andlegum kröftum hélt hún til hins síðasta.
Guðný hefur nú lagt upp í þá för sem bíður okkar allra og ég veit að á áfangastað er henni fagnað. Við Palli óskum fjölskyldu hennar Guðs blessunar.
Sigrún Erla Sigurðardóttir.
-----------------------------------------------------------
Fallin er frá heiðurs- og sómakonan Guðný Þorsteinsdóttir, föðursystir okkar, eða Guðný frænka eins og hún var ávallt kölluð af öllum í ættinni, enda var hún höfuð ættarinnar til margra ára.
Hún hafði góða yfirsýn yfir ættina og þekkti alla með nafni jafnt stóra sem smáa. Ættarmótin í Efstaleitinu voru eftirminnileg þar sem foreldrar okkar, ásamt Guðnýju og Sigurði, bjuggu seinni hluta ævinnar. Samgangur var mikill og hittust þau nær daglega.
Fyrstu minningar okkar af Guðnýju frænku eru frá því að við vorum sex ára, þá lakkaði hún á okkur táneglurnar, þar sem við stóðum uppi á klósettsetunni alsælar með þetta dekur.
Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Guðný og Sigurður á Siglufirði, en þegar þau komu til Reykjavíkur gistu þau hjá okkur á Nesveginum. Okkur þótti það ekki leiðinlegt þar sem þau voru alltaf svo skemmtileg, kát og falleg, auk þess sem þau voru greinilega ástfangin alla tíð. Þau voru fyrirmyndarhjón sem eftir var tekið.
Þau voru áhugasöm um alla skapaða hluti og fylgdust vel með allri list, enda bar glæsilegt heimili þeirra þess glöggt vitni.
Það var ætíð notalegt að koma til þeirra hjóna, því þau tóku á móti manni með opnum örmum, hlýju og glaðværð. Gestrisnin var þeim í blóð borin og höfðu þau mikla ánægju að veita vel í mat og drykk.
Það er óhætt að segja að Guðný frænka hafi lifað lífinu lifandi allt fram á síðasta dag. Hún fylgdist vel með fréttum, bókmenntum og skemmtanalífinu og ekki mátti opna nýtt kaffihús öðru vísi en að hún kæmi þar við, „svona aðeins að skreppa“ eins og hún sagði. Ýmislegt var haft eftir henni, sögur, brandarar og orðatiltæki, sem hún gjarnan bjó til, eins og til dæmis: „Aldrei hef ég vitað annað eins, nema þá eins!“.
Hún hafði einstakt lag á því að segja skemmtilega frá og hafði stórkostlega kímnigáfu og kunni að færa sögur, af mönnum og málefnum, í skemmtilegan búning.
Hvíl í friði elsku Guðný, þú munt lifa áfram í hjörtum okkar.
(Ása Ketilsdóttir)
Halldóra (Dóra) og Guðrún (Rúna).
-----------------------------------------------------------------------
Í stórbrotinni náttúru Siglufjarðar voru æskustöðvar Guðnýjar Þorsteinsdóttur föðursystur okkar. Þar ólst hún upp og mótaðist af umhverfinu og iðandi mannlífi síldaráranna. Glæsileg kona með stórt hjarta og sterka nærveru. Einstakt lundarfar var hennar aðalsmerki, glettin, glaðbeitt og stríðin.
Á kveðjustund kemur fyrst upp í huga okkar bræðra þakklæti fyrir hlýjuna, væntumþykjuna og kærleikann sem hún deildi svo ríkulega með okkur.
Lífsförunautur Guðný var Sigurður Njálsson sem féll frá fyrir rúmu ári. Liðlega 60 ára hjónaband þeirra var einstakt. Þar var ástin, gagnkvæm virðing og tillitssemi í forgrunni alla tíð. Návist þeirra var notaleg, ávallt skemmtileg og stutt í húmorinn. Einkar samrýmd hjón sem áttu farsælt hjónaband á langri og viðburðaríkri ævi. Einstök fyrirmynd okkar hinna sem litu upp til þeirra og nutum alls þess sem hjarta þeirra gaf.
Sterkt í minningunni á uppvaxtarárum okkar eru jólaboðin þar sem stórfjölskyldan kom saman. Guðnýju var afar umhugað um þau og voru síðustu boðin haldin á heimili hennar uns fjöldinn varð of mikill. Síðan þá hefur stórfjölskyldan hist reglulega á ættarmótum. Góð arfleið sem hún á ríkan þátt í. Síðast var ættarmót haldið á Siglufirði fyrir tveimur árum. Þar voru þau Guðný og Sigurður geislandi af gleði og með nærveru sinni gerðu ættarmótið ógleymanlegt. Hár aldur og heilsubrestur stöðvaði þau ekki í að hitta ættingjana. Mikið þrekvirki hjá þeim þar sem einbeittur vilji skipti sköpum.
Guðný hafði mikinn áhuga á sögu fjölskyldunnar og lagði sig fram um að kynna sér hana. Til hennar voru auðsóttar upplýsingar um forfeður, ættingja hérlendis eða í Vesturheimi. Stundum þegar við hittumst hafði hún frumkvæði að því að miðla þessum upplýsingum því henni var umhugað um að við þekktum rætur okkar.
Á heimili Guðnýjar var gestrisnin í fyrirrúmi og áhugi á öllu því sem snerti velferð okkar. Þau hjónin fylgdust mjög vel með málefnum samfélagsins og glaðbeittar samræður um menn og málefni einkenndu heimsóknir til þeirra. Fyrir okkur bræðurna skipti miklu fjölmargar heimsóknir með foreldrum okkar í sumarbústað þeirra hjóna við Þingvallavatn. Bátsferðir, veiði, sólbað, spil við arininn og aðrar skemmtilegar stundir með þeim hjónum og börnum þeirra eru góðar minningar sem fylgja okkur. Á skilnaðarstundu dvelur hugur okkar hjá systkinunum Halldóru, Önnu Sjöfn, Ólafi Njáli og fjölskyldum þeirra.
Blessuð sé minning kærrar frænku okkar.
Þorsteinn Skúli og Guðmundur Ingi Ásmundssynir.
----------------------------------------------
Guðný Þorsteinsdóttir settist í 2. bekk Verslunarskóla Íslands haustið 1940. Þá hófust kynni okkar sem stóðu óslitið til hennar hinsta dags.
Þau kynni þróuðust í vináttu. Hún hófst með daglegri samveru í skólabekk, dafnaði með margvíslegum samskiptum um áratuga skeið og lauk með daglegum samtölum í síma þar til yfir lauk. Sú saga vináttu okkar og Guðnýjar verður ekki rakin í stuttri kveðju en hún geymist og vermir til lífstíðar.
Samvistum lauk um tíma þegar við útskrifuðumst úr Verslunarskólanum vorið 1943 en þær hófust á ný þegar hún fluttist með börnum sínum og maka til höfuðborgarinnar.
Strax í skóla vakti Guðný athygli af ýmsum ástæðum. Hún var afburða vel greind, glæsileg á velli, glaðleg, félagslynd og frjálsleg í fasi. Hún sópaði að sér vinsældum bekkjarsystkina og annarra.
Fyrir norðan hafði hún gengið að eiga æskufélaga sinn, Sigurð Njálsson, og með þeim hjónum komu suður börn þeirra Halldóra, Anna Sjöfn og Ólafur Njáll.
Nýr þáttur varð til í vináttu okkar við Guðnýju og fjölskyldu hennar. Þar kenndi margra grasa. Gagnkvæmar heimsóknir með spilum og spjalli, tjaldferðir um landið að sumarlagi til London í viðskiptaerindum og skíðaferð til Austurríkis. Lengst verður þó minnst fjölmargra laxveiðiferða í flestar ár Borgarfjarðar og vestur í Dali. Sigurður var snjall og kappsamur við veiðarnar en sumarkvöldin við árnar eftir veiði voru ekki síður minnisstæð. Þá var lagið tekið yfir léttri skál og fljótlega kom í ljós að Guðný hafði ljúfa söngrödd auk þess sem hún kunni alla amerísku slagara stríðsáranna eins og Faðirvorið.
Þeim Guðnýju og Sigurði vegnaði vel enda Sigurður harðduglegur og fylginn sér en hún eins og klettur við hlið hans. Sjaldan var nafn annars þeirra svo nefnt að hitt fylgdi ekki með. Þau byggðu sér glæsilegt hús í Arnarnesi og síðan veglega íbúð við Bústaðaveg. Á báðum stöðum var gestum fagnað við útidyr, þeir leiddir í stofu til veitinga sem ekki voru skornar við nögl. Þau hjón kunnu sannarlega að taka á móti gestum svo að ekki varð betur gert. Veitti stundum ekki af nokkrum dögum til að jafna sig eftir veislur þeirra. Engum gat leiðst í návist þeirra hjóna. Hún hafði leiftrandi kímnigáfu og var hafsjór af fróðleik um menn og málefni líðandi stundar og gamansögur hafði hún á færibandi.
Eftir öll þessi ár skilja nú leiðir um stund. Eitt sinn skal hver maður deyja. Undan því verður ekki skotist. Stundum getur staðið svo á m.a. vegna fráhvarfs maka eða langvarandi heilsubrests að þau tímamörk séu ekki ástæða til að valda harmi ef haft er í huga að hinn látni hafi trúað því og treyst að handan markanna myndu ástvinir hittast á ný.
Það breytir þó ekki því að andlátinu fylgir söknuður, mikill söknuður þeirra sem eftir standa með minningarnar einar.
Þannig er við andlát Guðnýjar Þorsteinsdóttur. Söknuður okkar er sár en honum fylgir þakklæti fyrir yfir 70 ára vináttu sem aldrei bar á skugga.
Vinum okkar Halldóru, Önnu Sjöfn, Ólafi Njáli og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Benta og Valgarð Briem.
--------------------------------------------------------
mbl.is - 18. júní 2013 | Minningargrein
Guðný Þorsteinsdóttir fæddist á Siglufirði 17. janúar 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 2. júní 2013.
Útför Guðnýjar fór fram frá Grafarvogskirkju 12. júní 2013.
Með láti Guðnýjar föðursystur minnar urðu kaflaskil í fjölskyldu okkar. Guðný var yngst barna Halldóru og Þorsteins afa okkar og ömmu sem öll eru nú látin. Öll systkinin eru fædd í Aðalgötu 9 í Siglufirði en það hús byggði amma Guðnýjar, Guðný Pálsdóttir, í byrjun síldarævintýrisins í upphaf síðustu aldar, alein og af miklu harðfylgi þar sem hún var þá orðin ekkja og hafði fyrir mörgum að sjá.
Í því húsi seldi hún síldarkaupmönnum innlendum og erlendum og útgerðarmönnum sem komnir voru til bæjarins fæði. Halldóra móðir Guðnýjar tók við þessu starfi móður sinnar og stýrði því með miklum myndarskap alla tíð og nutu börn hennar góðs af þessu rausnarheimili þar sem fólk allsstaðar af landinu kom og keypti fæði og sumir gistu líka yfir síldarvertíðina. Í þessu umhverfi ólst Guðný upp og kynntist hún miklum fjölda fólks sem þroskaði hana sem heimsborgara.
Guðný og hennar eiginmaður, Sigurður Njálsson, áttu ótal vini bæði innlenda og erlenda og voru þau ávallt höfðingjar heim að sækja, samhent og miklir gleðigjafar. Þá skipti ekki máli hver átti í hlut, allir nutu sömu alúðar og gestrisni. Ég sem þessar línur rita fór ekki varhluta af því. Þegar ég var í Stýrimannaskólanum var ég svo heppinn að öll föðursystkini mín voru búsett hér og naut ég höfðingsskapar þeirra allra og maka þeirra, þar sem ég var fjarri heimahögum.
Á ég þessu elskulega fólki mikið að þakka og á góðar minningar um þau öll. Guðný var mjög minnug og þau hjónin bæði – gaman var að heyra hana segja frá eftirminnilegum konum og körlum frá Siglufirði og nær hefði verið að hljóðrita sögurnar til varðveislu fyrir komandi kynslóðir. Með þessum hjónum eru gengnir miklir öðlingar sem gott er að minnast.
Votta ég og fjölskylda mín, börnum og barnabörnum Guðnýjar og Sigurðar okkar dýpstu samúðar um leið og við þökkum fyrir alla hlýju í okkar garð. Móðir mín saknar nú góðrar vinkonu og alls mágfólksins í hárri elli sinni. Guð blessi minningu allra barna Halldóru og Þorsteins.
Þorlákur Ásgeir Pétursson og fjölskylda.