Njáll Hallgrímsson Hlíðarveg 44

Mjölnir - 06. september 1956

Njáll Hallgrímsson  Hlíðarveg 44
8. maí 1956 lést hér einn af þekktustu íbúum þessa bæjar, Njáll Hallgrímsson Hlíðarvegi 44. Njáll Hallgrímsson var fæddur á Akureyri 4. júlí 1891. Hingað til Siglufjarðar fluttist  hann árið 1908. Njáll undi strax hag sínum hér vel, enda átti hann heima í Siglufirði ætíð síðan.

Árið 1913 giftist hann eftirlifandi konu sinni Jóhandínu  Sæby héðan frá Siglufirði, mestu myndar- og dugnaðar konu. Var hjónaband þeirra með ágætum.

Þau hjón eignuðust tvö börn, — dreng, sem dó ungur, og dóttur,
Hallfríði Njálddóttir, sem hér er búsett og gift Sverri Guðmundssyni skipstjóra, og sem Jóhandína dvelur nú hjá.

Þau hjón tóku til fósturs dreng, en sem dó innan við fermingu úr umgangsveiki, sem hér gekk.

Njáll Hallgrímsson

Njáll Hallgrímsson

Njáll Hallgrímsson stundaði margskonar störf, þó aðallega verkamannavinnu og fyrst framan af sjómennsku. Njáll vann um mörg ár hjá Sören Goos, dönskum manni, sem rak hér umfangsmikla síldarsöltun og síldarbræðslu í mörg á r og byggði og átti gömlu síldarverksmiðjuna Rauðku. —

Njáll var þar mörg ár pressuformaður og vann ég þar undir stjórn hans. Það var ekki talið vandalaust að stjórna þar verkum, enda slysahætta mikil, ef ekki var gætt ýtrustu varfærni. Þá var síldin pressuð i dúkum, en tekin úr körum, þar sem hún var soðin í. Njáll var ágætis verkstjóri og mér er það minnisstætt, hvað honum var umhugað um það, að við settum okkur sem best inn í verkið, lærðum rétt og ákveðin handtök. —

Ætíð boðin og búinn til að leiðbeina okkur um á hvern hátt við gætum forðast bruna, en á því var all mikil hætta, ef ekki var viðhöfð gætni. Frá þeim tíma, sem við Njáll unnum saman í Rauðku gömlu, og reyndar víðar, hélst ágæt vinátta okkar á milli, enda unnum við oft saman eftir að ég fluttist hingað til Siglufjarðar.

Sérstaklega minnist ég þess, hvað Njáll fagnaði mér innilega og af miklum hlýhug, þegar hann vissi, að ég var alfluttur í bæinn. Það atvikaðist þá þannig, að þá strax vann ég undir verkstjórn Njáls við byggingu á síldarþró suður undir bökkum, sem Gísli Johnsen í Vestmannaeyjum lét byggja, og sem átti að verða byrjun á síldarverksmiðju, sem varð svo aldrei byggð. —

Frá þeim tíma á ég margar ágætar endurminningar um samstarf við Njál, sem mér kom þannig fyrir, að byggi yfir miklum mannkostum og vildi hvers manns götu greiða, eftir því sem efni og ástæður leyfðu. — Njáll Hallgrímsson var einn af þeim, sem lét lítið á sér bera en vann í kyrrþey að sínum hugðarefnum. Hann var öruggur verkalýðssinni og hafði ágætan skilning á þýðingu samtakanna fyrir hið vinnandi fólk. Þegar ég frétti um fráfall Njáls Hallgrímssonar fannst mér sem stórt skarð væri höggvið í vina og kunningjahóp minn.

Ég veit, að allir þeir hinir mörgu, innan og utan Siglufjarðar, sem voru vinir hans og kunningjar, hafa saknað vinar í stað, þegar þeim barst andlátsfregn hans, en mestur er þó söknuður og missir ágætrar eiginkonu, dóttur og tengdasonar og annarra nákominna ættingja, sem á svo snöggan hátt voru svipt besta vininum. En þannig er lífið; þar skiptast á skúrir og skyn, sorg og gleði.

Þetta er það sem allir mega búast við; þar kemur, ekkert manngreinarálit til. Þó alllangt sé liðið frá því að Njáll lést, vildi ég ekki láta hjá líða, að láta þessi fátæklegu kveðjuorð frá mér fara. Þau ber að skoða sem hinstu kveðju frá gömlum vin með þakklæti fyrir fjölmargar ánægjulegar samverustundir.

Blessuð sé minning þín, Njáll Hallgrímsson.

G, Jóh.