Matthías Ólafur Gestsson

mbl.is 28. nóvember 2014 | Minningargrein

Matthías Gestsson var fæddur á Siglufirði 14. júlí 1937. Hann lést 17. nóvember 2014.

Foreldrar hans voru Gestur Pálsson, sjómaður og verkamaður, f. 12. apríl 1908, d. 4. júlí 1951, og Guðrún María Jónsdóttir, húsmóðir og verkakona, f. 14. júlí 1913, d. 11. ágúst 2004.

Systkini Matthíasar eru

  • Viktoría Særún Gestsdóttir, f. 17. janúar 1933, og
  • Jón Þórir Gestsson, f. 11. júlí 1934.

Matthías kvæntist 1. desember 1962, Helgu Eiðsdóttur íþróttakennara. Hún var fædd á Þóroddsstað í Kinn 27. september 1935, dóttir hjónanna Eiðs Arngrímssonar og Karítasar Friðgeirsdóttur. Helga lést á Akureyri 15. júní 2014.

Börn Helgu og Matthíasar eru

Matthías Gestsson - ókunnur ljósmyndari

Matthías Gestsson - ókunnur ljósmyndari

1) Mjöll Mathíasdóttir, f. 1965, gift Þorgrími Daníelssyni.
Þeirra synir eru
  • Brandur, f. 1990, og
  • Dagur, f. 1993.
2) Drífa Matthíasdóttir, f. 1968, gift Hannesi Indriða Kristjánssyni.
Synir þeirra eru
a) Kristján Páll, f. 1988, sambýliskona hans er Inga Dís Sigurðardóttir og
þeirra sonur er: 
  • Hannes Bjarnar, f. 2013
b) Jóhann Helgi, f. 1990, unnusta hans er Elín Dóra Birgisdóttir, og 
c) Ingólfur Þór, f. 1999.
3) Muggur Matthásson, f. 1970,
4) Dögg Matthíasdóttir, f. 1975, gift Örvari Má Michelsen,
þeirra dóttir er
  • Tara, f. 2013,
    Örvar á soninn
  • Breka Hjörvar, f. 2010.

Sonur Helgu Eiðsdóttur:
  • Ingimar, f. 1961, var ættleiddur af Árna Friðgeirssyni og Kristínu Benediktsdóttur. Ingimar er kvæntur Sigurlínu Jónsdóttur. Þeirra börn eru Kristín, f. 1980, sambýlismaður Jón Óli Ólafsson, og Árni, f. 1991.

Matthías ólst upp á Siglufirði og lauk þar gagnfræðaprófi 1954. Hann lærði húsgagnasmíði á Akureyri og tók sveinspróf í þeirri grein 1958. Stundaði skíðakennaranám í Noregi 1959. Á yngri árum var hann liðtækur skíðamaður og keppti aðallega í göngu og stökki.

Hann lauk prófi sem smíðakennari úr handavinnudeild kennaraskólans 1960 og útskrifaðist sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1961. Þá kenndi hann við Héraðsskólann á Reykjum Hrútafirði 1961-62. Helga og Matthías fluttu í Árskógarskóla 1962 og var hann skólastjóri þar 1963-65.

Frá 1965 bjuggu þau og kenndu í Þelamerkurskóla en fluttu til Akureyrar 1967 og áttu sitt heimili þar upp frá því. Matthías hóf þá kennslu við Oddeyrarskóla en lengst kenndi hann smíðar við Glerárskóla meðan heilsa leyfði. Hann var einnig ökukennari og kenndi á bíl um árabil. Á árunum 1968-73 rak hann Myndver, ljósmynda og auglýsingastofu á Akureyri. Hann tók mikið af myndum, bæði ljósmyndum og kvikmyndum og ferðaðist víða um land vegna þess. Matthías var virkur í félagsstörfum.

Hann starfaði lengi með hestamannafélaginu Létti, skipulagði hestamót og sinnti dómarastörfum. Þá gaf hann út þrjár bækur með hestamyndum og viðtölum við hestamenn. Barn að aldri gekk hann til liðs við Góðtemplararegluna á Siglufirði en síðar varð hann félagi í stúkunni Brynju nr. 99 á Akureyri, gegndi þar trúnaðarstörfum og starfaði á öllum stigum reglunnar.

Útför Matthíasar verður gerð frá Glerárkirkju á Akureyri, í dag, 28. nóvember 2014, kl. 11. Jarðsett verður á Þóroddsstað.

Kæri vinur.

Þá er hún runnin upp, kveðjustundin sem ekki verður undan vikist, og þúsund minningar streyma fram og minna á sig hver með sínum hætti.

Fyrstu kynnin má rekja til 1960 og síðan sífellt og áfram til dagsins í dag. Einkenni þessara tengsla eru heimsóknir mínar og minna og margvíslegar ferðir um Norðurland allt, sem nánast alltaf tengjast Matthíasi og Helgu Eiðsdóttur, konu hans og þeirra börnum. Það yrði löng talning upp að skrá og verður ekki gert hér, heldur látið duga að þakka fyrir sig með þjóðlegum hætti og látið vita að það er geymt en ekki gleymt. Kær þökk.

Sem dæmi um óvenjulega fjölhæfni Matthíasar Gestssonar má þó nefna sveinsréttindi í húsgagnasmíði, kennsluréttindi sem handavinnukennari, íþróttakennari ÍKÍ, ökukennari, réttindi sem myndatökumaður o.fl. Á hverju og einu þessara sviða kom hann rækilega við sögu, eins og t.d. að annast í heilan áratug gerð mynda á Landsmótum hestamannafélaganna, en slík myndataka gerir miklar kröfur til þekkingar í hrossarækt og reiðmennsku. Svipaða sögu má segja um myndatökur sem hann annaðist í heimavistarskólum um land allt.

Matthías Gestsson rakti ættir sínar og uppruna til Siglufjarðar en þar má m.a. sjá í annálabókum um glæsilegan árangur hans í skíðagöngu og skíðastökki hér áður fyrr.

Kveðjustund er á vissan hátt heilög stund. Lifir með þeim einstaklingum sem eftir standa og bera þess sífellt merki að hafa fengið að njóta endalausrar gestrisni og hlýju Matthíasar, Helgu og barna þeirra, og minnir okkur öll á hið fornkveðna sem segir „að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“.

Þökk og aftur þökk.

Þorkell St. Ellertsson og fjölskylda.