Guðrún María Jónsdóttir

mbl.is 21. ágúst 2004 | Minningargrein

Guðrún Jónsdóttir fæddist á Minna-Grindli í Fljótum 14. júlí 1913.
Hún lést á Kjarnalundi á Akureyri 11. ágúst 2004.

Guðrún var dóttir hjónanna Þórunnar Sigríðar Jóhannesdóttur og Jóns Þorbergs Jónssonar.

Föður sinn missti Guðrún ung, en hann fórst með þilskipinu Maríönnu árið 1922.
Móðir hennar lést 94 ára að aldri 1982.

Systkini Guðrúnar sem á legg komust eru

 • Björg Lilja, f. 1909, látin,
 • Jóhannes, f. 1911, látinn,
 • Sæunn, f. 1917,
 • Óskar Friðjón, f. 1921, látinn,
 • Jón Kári Jóhannesson, f. 1923, látinn og
 • Soffía Sigurbjörg Jóhannesdóttir, f. 1928.
Guðrún María Jónsdóttir

Guðrún María Jónsdóttir

Í æsku létust systkinin Sveinbjörn, Jóna Friðrika og Óskar Hartmann.

Guðrún giftist 1932, Gesti Pálssyni f. 12. apríl 1908, d. 4. júní 1951. Hann var sonur Guðfinnu Ágústu Jónsdóttur og Páls Björnssonar. Guðrún og Gestur bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði. Síðar bjó Guðrún á Akureyri og á tímabili á Sauðárkróki.

Börn Gests og Guðrúnar eru:

1) Viktoría Særún Getsdóttir, f. 17. janúar 1933,
börn hennar eru
 • Maríanna Friðjónsdóttir,
 • Gestur Helgi Friðjónsson og
 • Sigríður Karlsdóttir.
2) Jón Þórir Gestsson, f. 11. júlí 1934, kvæntur Jóhönnu Valberg,
börn þeirra eru
 • Guðrún Sigríður,
 • Jóna Björg og
 • Erlingur.
3) Matthías Ólafur Gestsson, f. 14. júlí 1937, kvæntur Helgu Eiðsdóttur,
börn þeirra eru
 • Mjöll, Drífa,
 • Muggur og
 • Dögg.

  Langömmubörnin eru 20 og langalangömmubörnin 2.

Guðrún verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 16.
--------------------------------

Amma mín. Þú ert hjartadrottningin mín, alltaf svo falleg og fín. Góð fyrirmynd og endalaus uppspretta ljúfra minninga.

Þegar ég var lítil hélt ég alltaf að orðið amma þýddi þig. Amma hafði stór og mjúk brjóst, falin undir hvítri, nýstraujaðri og næstum brakandi svuntu. Amma hafði hár niður á rass, sem alltaf var kirfilega fléttað og sat rétt á höfðinu, líka undir peysufatahúfu. Amma ilmaði af nýbökuðu brauði, heimagerðri sultu eða einhverjum indælum mat. Amma hafði stóran og hlýjan faðm, sem tók á móti glöðu sem hryggu barni. Amma var öruggt hæli í veröld, sem stundum var bæði leiðinleg og ljót.

Amma mín vissi allt. Endalaus fjársjóður útskýringa, skemmtilegra frásagna úr raunverulega lífinu og ævintýra. Amma mín gat á tíræðisaldri sagt sögur, sem skiptu máli, af fólki og atburðum með rót í þjóðarsálinni. Amma mín var þjóðarsálin holdi gædd, þessi gamla þjóðarsál, sem mundi ekki bara tímana tvenna, heldur þrenna og ferna.

Amma mín gat flutt þann fróðleik áfram til okkar sem yngri vorum á skiljanlegan hátt, svo við tókum það til okkar. Hún átti það til að segja: "Það er engin skömm að því að vera fátækur. En það er skammarlegt að vera illa þrifinn og í rifnum fötum." Amma mín kunni þá góðu kúnst að líta alltaf vel og virðulega út, þrátt fyrir á stundum þröngan efnahag.

Og hún var snillingur í því að þvo smókingskyrtur þannig að þær þurfti alls ekki að strauja. Látlaus, skapandi hegðunin og hnífskarpur heilinn var látlaust notaður í þágu hversdagslífsins. Hvernig átti að sulta, tína fjallagrös og blóðberg eða elda fisk á alveg einstaklega gómsætan hátt. Og þessa vitneskju gaf hún áfram til "allsnægtakynslóðarinnar" - okkar.

Amma mín var fjölmiðill af bestu gerð. Hún kenndi, sagði frá og svo þurfti hún alls ekki á síma að halda til að vita hvernig högum okkar í fjölskyldunni var háttað. Hana dreymdi, hún skynjaði og hún vissi allt, alveg fram á síðasta dag. Rúmlega níutíu ára þekking í líkama, sem týndi stóru bústnu brjóstunum, umgerðin minnkaði einhvern veginn smám saman eftir því sem árin liðu á meðan sálin varð stærri, sterkari og kærleiksríkari.

Hún var ennþá amman þrátt fyrir að yfirbragðið breyttist. Holdgervingur þeirrar þversagnar, að við viljum öll eldast, en viljum helst ekki verða líkamlega gömul og úrvinda. Amma mín var orðin þreytt á líkama, ekki sál. Sálin hennar flýgur nú til himins þar sem hún mætir honum afa mínum aftur eftir rúma hálfa öld.

Táningurinn ég yfirheyrði eitt sinn ömmu mína um það af hverju hún hefði aldrei gifst aftur eftir að afi dó - og hún svaraði um hæl. "Það er einfalt. Á meðan konurnar í kringum mig áttu 10 og 12 börn, eignuðumst við afi þinn þrjú. Þegar konurnar í kringum mig höfðu ekki úr neinu að moða vegna þess að kaupið var drukkið upp, kom hann afi þinn alltaf með launaumslagið og lagði til fjölskyldunnar. Ég var heppin og vænti þess ekki að ég gæti nokkurn tíma orðið heppnari með mann. Hann afi þinn var nefnilega einstakur." Já, hún amma mín var trygglynd og stóð föst á sínu.

Á innan við ári hefur litla fjölskyldutréð mitt týnt rótinni, sem var hún amma mín, og yngstu greininni, syni mínum. Ég kveð hana ömmu mína í dag. Minning Guðrúnar Maríu og Atla Thors lifir í hjarta mínu að eilífu. Takk fyrir að þið voruð hluti af lífi mínu.

Maríanna Friðjónsdóttir.