Harry Pedersen

mbl.is - 25. maí 2008 | Minningargrein

Harry Pedersen fæddist á Siglufirði 7. febrúar 1936. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Vestmannaeyjum 21. apríl 2008

Foreldrar Harry voru Johan Pedersen fisksali f. 11.11. 1906 í Noregi, d. 21.11. 1968 og Stefanía Guðmundsdóttir f. 3.8. 1906 á Tjörnum í Sléttuhlíð, d. 21.2. 1973

Bræður Harry:.

 • Willy Pedersen f.10 ágúst 1937 - d 20. febrúar 2021
 • Guðmundur Elí Pedersen, 9.10. 1947.
  Hálfbróðir, faðir; Johan Petersen
 • Stefán Birgir Pedersen ljósmyndari á Sauðarkrók, f.7.12. 1936.

Harry giftist eiginkonu sinni, Margréti Jónsdóttir, f. 9.10. 1931, þann 9.10. 1961.
Þau eignuðust 3 börn;

Harry Pedersen - ókunnur ljósmyndari

Harry Pedersen - ókunnur ljósmyndari

 • Stefán Jóhann Pedersen, f. 5.3. 1958.
 • Andvana fætt barn, f. 31.5 .1963.
 • Karólínu Pedersen, f. 12.11. 1964.

Harry ólst upp á Siglufirði að 14 ára aldri, þá flutti hann til Reykjavíkur með foreldrum sínum og bræðrum. Hann starfaði um skeið í fiskbúð hjá föður sínum. Einnig starfaði Harry á Keflavíkurflugvelli og í svampdýnugerð hjá Gunnari Pálssyni.

1971 flutti Harry með eiginkonu sinni og börnum til Vestmannaeyja. Hann stundaði sjómennsku á bátunum Auði VE 133, Sæfaxa VE 25 og lengst á Haferni VE 23.
Einnig vann hann hjá Skipaviðgerðum með sjómennskunni og eftir að hann hætti á sjó. Harry bjó í Vestmannaeyjum fram að dánardegi sínum.

Útför Harrys fór fram frá Landakirkju 29. apríl í kyrrþey.
-----------------------------------------

Mér finnst svo ótrúlegt að þú sért farinn.

En maður veit aldrei hver er næstur og sjaldnast er hægt að vera viðbúinn andláti ástvinar. Þegar ég hringdi til ykkar morguninn þann 21. apríl átti ég von á að heyra í þér segja „Já, halló“, en svo var ekki. Presturinn svaraði í símann og tilkynnti mér að þú værir dáinn. Þessu átti ég svo ekki von á. Fyrir mér varstu eins og óhagganlegur klettur og stóðst alltaf uppréttur nánast sama hvað bar á. Þú hefur alltaf verið svo umhyggjusamur og sýnt að þér þykir vænt um mig. Ég finn þess vegna fyrir svo miklu þakklæti fyrir að fá að hafa haft þig sem afa minn.

Undanfarnar vikur hafa ótal minningar um þig streymt upp á yfirborðið; ferðalögin sem ég hef farið með þér og ömmu, öll skiptin sem þið komuð í heimsókn til okkar í Noregi, sá tími sem þið leyfðuð mér að búa hjá ykkur þegar ég flutti aftur til Íslands 2003, sögurnar sem þú sagðir mér þegar ég var lítill o.s.frv. Ég mun aldrei gleyma þessu og á svo erfitt með að trúa því að ég muni aldrei hitta þig aftur. Að ég muni aldrei fá símtal frá þér aftur þar sem þú spyrð mig hvernig sé í vinnunni, hvort bíllinn sé í lagi eða hvort ég sé búinn að borða kvöldmat.

Ég hefði ekkert á móti því að fá annað svona símtal frá þér! Síðasta skiptið sem ég hitti þig var í febrúar. Ég ákvað að skreppa til Eyja í heimsókn til ykkar, þú tókst eins og alltaf svo vel á móti mér. Og þegar heim til ykkar var komið var saltkjöt á boðstólum. Daginn eftir áttirðu afmæli, ég ákvað að fara með þér í bakaríið svo við gætum keypt köku handa þér. Ég veit að þú hafðir lúmskt gaman af því, en þú sagðir að það þyrfti ekkert að gera neitt fyrir þig.

Mér fannst ekkert nema sjálfsagt að gera eitthvað fyrir þig á afmælisdaginn. Sama dag átti ég flug aftur upp á land en ég efast um að það hafi verið tilviljun að ég varð veðurtepptur, ég er svo feginn að hafa fengið aukadag hjá ykkur í Eyjum. Einnig er ég mjög þakklátur fyrir að þessir þrír yndislegu dagar hafi verið okkar síðasti tími saman.

Ekki hefði mig grunað þegar ég kvaddi þig á bryggjunni í Eyjum að þetta væri allra seinasta skiptið sem ég sæi þig og tæki utan um þig.

Síðasta símtalið frá þér var 3 dögum áður en þú fórst, þú vildir bara heyra í mér og spjalla um ferðalagið til Noregs sem þú og amma færu í eftir viku. Þú varst svo spenntur og þú hlakkaðir svo til að hitta okkur úti í Noregi. Enda var erfitt þegar ég kom til Eyja eftir andlát þitt að sjá 3 töskur á stofuborðinu með dóti sem þú varst búinn að pakka niður. Þú varst svo yndislega skipulagður og lifðir fyrir ferðalögin til Noregs. Mig langar bara að koma á eilífu þakklæti fyrir allt og allar minningarnar með þér. Eitthvað sem ég mun muna til æviloka.

Hér að lokum vil ég minnast þín með broti úr eyjalagi Oddgeirs Kristjánssonar og Ása í bæ, „Glóðir“.

 • Við hvert orð og óm er minning fest,
 • atvik sem mig glöddu dýpst og best.
 • Öllu sem ég ann og sakna mest
 • ómar þessir segja frá.

Minning þín lifir, elsku afi.

Þinn dóttursonur,  Magnús Jóhann.

Stefanía Guðmundsdóttir - Guðmundur Pedersen - Wily Pedersen -Johan Pedersen og - Harry Pedersen

Stefanía Guðmundsdóttir - Guðmundur Pedersen - Wily Pedersen -Johan Pedersen og - Harry Pedersen