Óli Ólsen Færeyingur

Morgunblaðið - 04. mars 1965

Óli Ólsen — Minning - Fæddur 8. nóvember 1899. Dáinn 21. mars 1964.

Maki hans: Þuríður Pálsdóttir, og synir þeirra:

 • Hlustið, hlustið, hve hljótt er allt,
 • og heyri ei nokkuð, né greini.
 • Jú, einhver grætur, það gustar svalt —
 • grætur og biður í leyni.
 • Harmaðu ekki, en horfðu mót sól,
 • herrann mun sefa þinn kvíða
 • og vinurinn trygglyndi, er veitti þér skjól
 • í vorlöndum ástanna bíða.
Óli Ólsen

Óli Ólsen

 • Vor skylda er að mæta, það mennirnir sjá,
 • hann mátti ekki tefja hér lengur.
 • Hann vildi þó gjarnan vera þér hjá
 • og vernda, hinn góði drengur.
 • Hans lund var svo blíð, hans gleði svo góð
 • og gaman að heyra hann og skilja.
 • Við minnumst þess vina um vorkvöldin hljóð
 • og viðkvæmni er örðugt að dylja.
 • Og móðirin aldna svo mun blíð og klökk,
 • hans minnist á æskunnar löndum.
 • Við kveðjum hann líka með kærleik og þökk,
 • er kom hér að íslenskum ströndum.
 • Og sof þú í friði, Guð signi þinn blett
 • og sorg þinna ástvina lini.
 • En sálin þín dagghreina lyftir sér létt
 • í ljómandi vormorgunskini.

(Guðný Árnadóttir f rá Skógum).

ÞÓ AD nú séu liðnir margir mánuðir síðan vinur minn Óli Ólsen, hvarf af sjónarsviði þessa heims, er enn ódeyfð sú tilfinning, sem snart mig er ég frétti andlát hans: undrun yfir atvikum lífs og dauða og söknuður eftir góðan dreng, sem mig hefði fýst að sjá og hitta, ef leiðir mínar lægju aftur að Íslandsströndum. Fáum dögum áður en við hjónin héldum brott frá Íslandi áttum við ánægjulega kvöldstund með þessum vinum okkar, Óla og Þuríði konu hans. Við kvöddumst með kveðjunni: Sjáumst aftur.

Mennirnir álykta, en guð ræður. Það er ekki svo að skilja, að ég efist um, að leiðir okkar Óla eigi eftir að liggja saman í annarri veröld. En hitt dylst mér eigi, að Ísland  er nú fátækara I góðum dreng, og að við vinir hans getum ekki glatt okkur við þá tilhugsun að eiga með honum gleði á góðri stund hér í þessum heimi.

Óli Ólsen var fæddur í Færeyjum og ólst þar upp við þá hörðu lífsbaráttu, sem landar hans hafa löngum fengið að reyna. Hann var ekki gamall er leið hans lá að heiman á sjóinn. Og yfir hafið barst hann síðan til þeirrar hafnar, sem um mörg ár átti eftir að vera heimili hans og starfsvettvangi. Hvort Óla mun hafa órað fyrir, er hann sá Ísland rísa úr hafi í fyrsta sinn, að þetta ætti eftir að verða hans framtíðarland, þykir mér ólíklegt.

En örlaga-þræðirnir eru fléttaðir af undarlegu afli, sem ósjaldan er sterkara mannlegum áformum og útreikningum. Óli var ungur maður, er hann kom til Siglufjarðar í fyrsta sinn, en á þeim stað áttu örlög hans og saga eftir að mótast. Þar kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Þuríði Pálsdóttur frá Skógum í Reykjahverfi, en hún hafði þá um skeið starfað á Siglufirði.

Þótt þau væru bæði aðkomufólk á þeim stað, ákváðu þau að setjast þar að og stofna heimili. Og svo vel festust rætur þeirra beggja í Siglfirskri mold, að ekki var sársaukalaust að losa þar rætur síðar, og alltaf leitaði hugurinn annað slagið í fjörðinn, þar sem þau höfðu átt svo mörg hamingjuár. Um það leyti sem Óli og Þuríður stofnuðu heimili á Siglufirði sló lífæð landsins óvíða hraðar en þar.

Þau lifðu því tvenna tíma í sögu þess staðar, bæði hina ævintýralegu blómatíma, og einnig þögnina, sem lagðist þar yfir verksmiðjur og vinnustöðvar eftir að silfur hafsins hafði brugðist. Þau voru bæði rík af reynslu og minningum, er þau loks fluttu frá Siglufirði til Reykjavíkur, en samt þakklát. Siglufirði gleymir enginn, sem þar hefur verið. Bæði söknuðu þau þaðan margra vina og einnig þess andrúmslofts, sem einkennir staðinn.

Blómatímar Siglufjarðar voru liðnir, þegar mig bar þar að strönd, og árin þrjú, sem ég dvaldist þar, voru ár atvinnuleysis og erfiðleika fyrir byggðina. Engu að síður er mér minningin um Siglufjörð kær, og þá ekki síst vegna þess manndóms og menningar, sem einkenndi byggðina og fólkið. Meðal bestu vina minna þar voru

Óli og Þuríður. Heimili þeirra laðaði að sér gesti, enda gestrisnin frábær, og allt einkenndist þar af hlýleik og snyrtimennsku. Heimili þeirra í Mávahlíðinni eftir að þau fluttu til Reykjavíkur einkenndist og ( af hinu sama. Óli og Þuríður kynntust og erfiðleikum, en samt voru árin, sem þau áttu saman rík af sólskini og hamingju. Tveir efnilegir synir drógu ekki úr hamingjunni, og þá ekki heldur tengdadætur og barnabörn nú hin síðari ár.

Það varð hlutskipti Óla að verða þegn lands, sem ekki var hans ættland. Óli var trúr erfðum ættlands síns, en þó var hann orðinn mun meiri Íslendingur í hug og hjarta. Óli var gæddur ríkri eðlisgreind, og þótt löng skólaganga kæmi ekki í hans hlut, ávaxtaði hann vel sitt pund. Hann las talsvert í tómstundum sínum, og oft dáðist ég að, hve vel hann fylgdist með öllu, sem var að gerast í kringum hann, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Þessi fróðleiksfýsn hans ásamt næmri og öfgalausri dómgreind einkenndi hann mjög, svo það var bæði gróði og gaman að eiga tal við hann.

Óli hafði ríkan áhuga fyrir landsmálum. En öll línumennska var mjög fjarri hans eðli. Honum var tamara að virða málin fyrir sér frá fleiri en einni hlið og yfirvega þau hleypidómalaust en að ánetjast einsýnni flokksmennsku. Kirkjumaður var hann góður og tryggur. Honum var það bæði eðlilegt og kært að sækja helgar tíðir. En í því sem öðru var öll sýndarmennska honum fjarri og þá ekki siður smásmygli og stafkrókar guðfræðinnar. Trúin var honum líf og reynsla, og útsýn hans til hins ókomna björt og fögur. Óli var góður samferðamaður um lífsins vegu. Glaðværð hans og manndómsþrek gerðu hann hugþekkan öllum, sem honum kynntust.

Vinátta hans var traust og einlæg. Ég sakna þess að sjá ekki þennan vin minn, ef mig skyldi einhvern tíma bera aftur að Íslandi. Gegn því tjáir ekki að mögla. Og hitt er líka meira virði að vita, að enn hefur Óli numið nýtt land, þar sem hógværð hans og mannkostir munu ávinna honum stað um aldur. Á því landi kunna leiðir að liggja saman- á ný. Ég bið honum allrar blessunar og þakka honum kynni, sem engan skugga bar á.

Konu hans, sonum, tengdadætrum og barnabörnum sendi ég mínar innilegustu kveðjur.

Glenboro, Mamtóba, Sr. Kristján Róbertsson

Óli Ólsen f. 8/11/1899 og kona hans Þuríður Pálsdóttir f. 11/9/1902 og synir þeirra Kjartan Ólason f. 3/4/1936 og Páll Ólason f. 22/7/1937