Páll Ólason

mbl.is 23. október 2017 | Minningargreinar

Páll Ólason fæddist á Siglufirði 22. júlí 1937. Hann lést á Landspítalanum 10. október 2017.

Foreldrar hans voru hjónin Óli Ólsen frá Skálavík á Sandey í Færeyjum, f. 8. nóvember 1899, d. 21. mars 1964, og Þuríður Pálsdóttir frá Skógum í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu, f. 11. september 1902, d. 9. júlí 1968.

Bróðir Páls var

  • Kjartan Ólason, f. 3. apríl 1935, d. 5. mars 2008. Eiginkona Kjartans er Kristín Valgerður Matthíasdóttir.

Eiginkona Páls Ólasonar var Súsanna Kristín Stefánsdóttir, f. 27. september 1938, d. 2. júní 2009.

Þau gengu í hjónaband 27. september 1958.

Páll Ólason - ókunnur ljósmyndari

Páll Ólason - ókunnur ljósmyndari

Foreldrar hennar voru Stefán Ottó Helgason og Ingibjörg Sigurgeirsdóttir. Þau eru bæði látin. Börn Páls og Súsönnu eru:

  • 1) Stefán Ottó, f. 6. mars 1958, d. 1. mars 1989.

  • 2) Þuríður, f. 24. október 1960, maki Knútur Kristinsson, f. 2. janúar 1958.
    Börn þeirra eru

  • a) Súsanna Kristín, f. 16. október 1981, maki Auðunn Jónsson, f. 27. maí 1982, börn þeirra eru Knútur Þór, f. 12. apríl 2006, Agnes Lind, f. 2. apríl 2009, og Friðrik Óli, f. 26. október 2012,

  • b) Hólmfríður, f. 16. maí 1984, maki Ingólfur Finnbogason, f. 28. janúar 1982, börn þeirra eru Soffía, f. 17. nóvember 2012, og Finnbogi, f. 15. september 2016,

  • c) Páll Óli, f. 5. janúar 1991.

Páll ólst upp á Siglufirði og lauk þaðan gagnfræðaprófi árið 1954. Hann hóf nám í húsgagnabólstrun á Siglufirði árið 1956 en flutti til Reykjavíkur ári síðar ásamt Súsönnu eiginkonu sinni og lauk þar námi. Páll og Súsanna hófu búskap í Reykjavík og bjuggu þar í þrjú ár en fluttu þá til Hafnarfjarðar og bjuggu þar samfellt í 42 ár, þar til þau fluttu í Kópavoginn þar sem þau voru búsett síðustu æviárin.

Páll vann við bólstrun hjá Ragnari Björnssyni bólstrara í Hafnarfirði til ársins 1967. Hann hóf störf hjá Íslenska álverinu í Straumsvík árið 1969 og starfaði í álverinu þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2004. Ásamt því að vinna í álverinu vann hann í hjáverkum við bólstrun í mörg ár hjá fyrrum meistara sínum Jóni Haraldssyni. Hann vann einnig nokkur sumur við hvalveiðar á Hvali 9.

Páll var mörg ár í Bridgefélagi Hafnarfjarðar og spilaði einnig með Félagi eldri borgara í Gullsmára í Kópavogi í nokkur ár eftir að hann lét af störfum.

Páll starfaði m.a. með Alþýðuflokki Hafnarfjarðar. Páll var félagi í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar til margra ára og var einnig félagi í Oddfellow-reglunni.

Útför Páls fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 23.október 2017, og hefst athöfnin klukkan 15.
---------------------------------------------

  • Þótt minn elskulegi faðir
  • og kæri vinur
  • hafi nú kallaður verið heim
  • til himinsins sælu sala
  • og sé því frá mér farinn
  • eftir óvenju farsæla
  • og gefandi samferð,
  • þá bið ég þess og vona
  • að brosið hans blíða og bjarta
  • áfram fái ísa að bræða
  • og lifa ljóst í mínu hjarta,
  • ylja mér og verma,
  • vera mér leiðarljós
  • á minni slóð
  • í gegnum
  • minninganna glóð.
  • Og ég treysti því
  • að bænirnar hans bljúgu
  • mig blíðlega áfram muni bera
  • áleiðis birtunnar til,
  • svo um síðir við ljúflega
  • hittast munum heima á himnum
  • og samlagast í hinum eilífa
  • ljóssins yl.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Blessuð sé minning þín, elsku pabbi.

Þuríður.
--------------------------------------------------------

Nú hefur ljósið hans afa slokknað og eftir sitja ótal dýrmætar minningar. Fyrsta orðið sem kemur upp í hugann hvernig lýsa eigi afa er stríðinn. Hann hafði mjög gaman af því að stríða okkur og öllum í kringum sig og hafði alltaf húmorinn í lagi, alveg fram á síðustu stundu. Hann hafði gaman af því að segja okkur frá gömlu tímunum, frá æskuárunum á Siglufirði og þegar hann var á hvalbátunum.

Það var alltaf gaman að koma til ömmu og afa á Vesturvanginn. Þegar við komum í heimsókn og afi var ekki kominn heim úr vinnu sátum við og horfðum á klukkuna og töldum niður hvenær rútan hans afa úr vinnunni kæmi svo við gætum hlaupið út á stoppistöð til að taka á móti honum. Þegar við gistum hjá ömmu og afa fengum við alltaf Draum og voru Góukúlur heldur ekki langt undan þar sem afi laumaði sér í eina og eina kúlu með kaffinu.

Amma og afi voru dugleg að ferðast með okkur og fóru með okkur út um allar trissur. Í þessum ferðum var mikið spilað þar sem spilamennska var stórt áhugamál hjá afa. Afi kenndi okkur að veiða og ein eftirminnileg ferð er þegar við fórum til Þingvalla og gistum þar í tjaldi. Svið voru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum þannig að afi dró fram prímusinn og sauð handa okkur svið. Ekki kannski týpíski útilegumaturinn en hann vakti mikla lukku.

Afi var mikill Arsenal-maður og undanfarin ár var fótbolti hans helsta áhugamál. Árið 2007 varð afi sjötugur og þá fór hann með pabba og Palla til London að sjá Arsenal spila við Manchester United á Emirates sem var þá glænýr. Pabbi og Palli eru báðir United-menn og því hafði afi virkilega gaman af því að Arsenal fór með sigur af hólmi.

Þrátt fyrir að afi væri orðinn áttræður þá brást minnið honum aldrei. Alltaf hringdi hann í okkur á afmælisdögum til að óska okkur til hamingju með daginn. Hann var talnaglöggur með eindæmum og gat þulið upp ótrúlegustu hluti, allt frá gengi erlendra gjaldmiðla á áttunda áratugnum til kosningaúrslita síðustu ára. Hann hafði mikinn áhuga á pólitík og það kom oftar en einu sinni fyrir að umræður við matarborðið snerust um pólitík. Hann var mikill krati og þegar við vorum yngri þá vissum við öll af því og þekktum rauðu rósina sem einkenndi Alþýðuflokkinn þrátt fyrir að hafa litla þekkingu á stjórnmálum.

Við erum afskaplega þakklát fyrir að hafa haft hann sem afa okkar. Hann var einstaklega góður afi og við munum sakna hans mikið. Amma og afi voru ákaflega samheldin. Veikindi ömmu tóku mjög á hann og því var mikið tekið frá honum við fráfall hennar. Við erum fullviss um að amma og afi hafi átt ánægjulega endurfundi í nýju lífi og sú vitneskja slær á söknuðinn sem situr eftir.

Góða ferð, elsku afi, og skilaðu kveðju til ömmu.

Súsanna Kristín, Hólmfríður og Páll Óli.
----------------------------------------------------------------

Það var alltaf ánægjulegt að hitta Palla og tók hann alltaf á móti okkur með bros á vör og í stellingum til að ræða málefni líðandi stundar eða einfaldlega til að heyra hvað væri að gerast í lífi okkar Hólmfríðar. Það var fátt sem Palli lét sér óviðkomandi og varð maður að vera tilbúinn að skeggræða pólitík eða

hvað það sem bar hæst þá stundina nema hans helsta áhugamál, sem var enski boltinn. Það tók Palla ekki langan tíma að sjá að ég hafði ekkert til málanna að leggja í þeim efnum. Það er nú ljóst að hér eftir verður tómarúm í matarboðunum í Berjarimanum og fjölskylduferðum upp í bústað sem verður seint fyllt og söknuður að því að sjónarmið og sögur Palla muni ekki verða fleiri.

Ingólfur Finnbogason.
----------------------------------------------------------

HINSTA KVEÐJA

  • Nú legg ég augun aftur,
  • ó, Guð, þinn náðarkraftur
  • mín veri vörn í nótt.
  • Æ, virst mig að þér taka,
  • mér yfir láttu vaka
  • þinn engil, svo ég sofi rótt.
    (Sveinbjörn Egilsson)

Þín langafabörn; Knútur Þór, Agnes Lind, Friðrik Óli, Soffía og Finnbogi.

Óli Ólsen f. 8/11/1899 og kona hans Þuríður Pálsdóttir f. 11/9/1902 og synir þeirra Kjartan Ólason f. 3/4/1935 og Páll Ólason f. 22/7/1937

Óli Ólsen f. 8/11/1899 og kona hans Þuríður Pálsdóttir f. 11/9/1902 og synir þeirra Kjartan Ólason f. 3/4/1935 og Páll Ólason f. 22/7/1937