Ólöf Jónsdóttir Hlíðarhúsi Siglufirði

Morgunblaðið - 25. október 1980   Minning:

Ólöf Jónsdóttir Siglufirði - minning Miðvikudaginn 15. október 1980 kvaddi mín elskulega tengdamóðir þennan heim, 89 ára að aldri.

Ekki hefði það verið henni að skapi að ég færi að stinga niður penna henni til lofs. Ég ætla mér heldur ekki þá dul, heldur aðeins að drepa á nokkur æviatriði hennar og draga fram nokkra eðlisþætti, er svo ríkir vóru í fari hennar. Jafnframt að þakka fyrir að hafa kynnst slíkri mannkostakonu, sem hún var. í þau 38 ár, er við áttum samleið, féll aldrei skuggi á okkar samskipti og er ég þó ekki gallalaus maður. Fyrir það vil ég þakka.

Ólöf var fædd 15. maí 1891 að Stóru-Brekku í Fljótum, Skagafirði.
Foreldrar hennar vóru hjónin Anna Kristjánsdóttir og Jón Þorláksson, bóndi og smiður.

Þau fluttu búferlum aldamótaárið að Hóli í Siglufirði með börn sín fjögur:

Ólöf Jónsdóttir Hlíðarhúsi - ókunnur ljósmyndari

Ólöf Jónsdóttir Hlíðarhúsi - ókunnur ljósmyndari

  • Björn Jónsson,
  • Sigríður Jónsdóttir,
  • Ólöf Jónsdóttir og
  • Margrét Jónsdóttir.

Skömmu eftir komuna þangað tóku þau í fóstur ársgamalt stúlkubarn,

  • Sigfúsínu Sigfúsdóttur.

Nú eru systkinin öll látin nema Sigfúsína, sem búsett er í Reykjavík í skjóli barna sinna. Mjög kært var með þeim Ólöfu og henni. Ólöf stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík veturna 1909—11 og var sú skólaganga gott veganesti á lífsleiðinni.

Ólöf dvaldi vetrarlangt hjá Sören Goos og fjölskyldu í Kaupmannahöfn við heimilisstörf.

24. febrúar 1917 giftist hún Birni Jóhannessyni, bónda og skipstjóra, frá Heiði í Sléttuhlíð, og Guðbjargar Björnsdóttur hreppstjóra á Skálá í sömu sveit.
Björn Jóhannsson og Ólöf Jónsdóttir eignuðust 2 dætur:

  • Guðbjörg María Björnsdóttir, ekkju eftir Axel Guðmundsson, fulltrúa, búsett í Reykjavík og
  • Margrét Björnsdóttir.   

Margrét er gift er undirrituðum. Börnin okkar fimm eiga margar hugljúfar minningar frá æskuárum sínum, er þau lögðu leið sína í Hlíðarhús, til Ólafar ömmu, til að læra að draga til stafs og lesa móðurmálið sitt. Það var þeirra fyrsta skólaganga.
Amma Ólöf var óþreytandi, svo og systir hennar Sigríður, að leiðbeina og gefa ráðleggingar. Þau virtu og elskuðu Björn afa sinn meðan hans naut við.

Oftlega brugðu þær systur upp svipmyndum frá uppvaxtarárum sínum og systkina sinna og var hlýtt á með eftirtekt, eftir því sem ungir hugir leyfðu og skildu þau, að líf á þeim liðnu dögum var ekki einvörðungu dans á rósum. Þá var iðjusemi, trúmennska og nægjusemi þungamiðja hins daglega lífs. Ólöf var fróðleiksfús og las mikið, eingöngu góðar bókmenntir. Hún unni íslenskum fróðleik og ættfróð var hún í besta lagi. Hún var umtalsgóð í hvívetna en hafði fastmótaðar skoðanir.

Hún átti til að bera í ríkum mæli þá mannkosti, sem hennar kynslóð varðveitti, trúmennsku og skyldurækni. Hún var myndarleg til allra verka, hvort heldur vóru hannyrðir eða önnur störf. Saumaði t.d. nokkra íslenska búninga. Nutu börn okkar góðs af þessum myndarskap, því marga flíkina saumaði hún og prjónaði á þau. Matreiðslukona var hún ágæt og eftirsótt til að standa fyrir matarveislum við hátíðleg tækifæri, bæði í heimahúsum og á hátíðarhöldum í bænum. Eignaðist hún marga góða vini við þá iðju, er héldu tryggð við hana meðan hún lifði.

Björn og Ólöf og dæturnar áttu heimili í Hlíðarhúsi. Þar bjuggu og Sigríður, systir Ólafar, og maður hennar, Snorri Stefánsson, framkvæmdastjóri síldarverksmiðjunnar Rauðku, og dóttir þeirra Anna Snorradóttir.

Ég held að óhætt sé að segja að þetta sambýli hafi verið til sérstakrar fyrirmyndar, þar sem reglusemi og góðir siðir skipuðu öndvegi.
Eftir fráfall Sigríðar systur sinnar, 27. desember 1972, annaðist Ólöf heimilishald í Hlíðarhúsi, með aðstoð Önnu dóttur Snorra, sem býr í næsta húsi. Þarna átti Ólöf gott heimili og var þakklát forsjóninni fyrir það að geta orðið að liði.

Ólöf starfaði mikið að slysavarnarmálum og var fyrr á árum félagi í kvennadeild Slysavarnarfélagsins Varnar í Siglufirði. Sigfúsína fóstursystir hennar heimsótti vinina í Hlíðarhúsi og vóru þá fagnaðarfundir. Guðbjörg dóttir hennar hafði og fyrir vana hin síðari ár að dvelja í sumarfríum í Hlíðarhúsi. Veittu þessar heimsóknir gagnkvæma ánægju. Þrátt fyrir háan aldur var Ólöf með óskerta sálarkrafta til hins síðasta.

Sjón og heyrn hafði hún ágæta. Hún var og trúuð kona og æðrulaus og fól sig Guði á vald án hiks eða kvíða. Þegar á móti blés á lífsleiðinni treysti hún á þann, sem öllu ræður, og því, að upp birti senn. Ólöf dvaldi á Sjúkrahúsi Siglufjarðar síðustu þrjá mánuðina sem hún lifði. Vil ég koma á framfæri þakklæti hennar til lækna og hjúkrunarliðs fyrir sérstaka umönnun í veikindum hennar, svo og til þeirra, er heimsóttu hana.

Á öld tækni og hraða verða mannlegar tilfinningar oft að víkja fyrir kuli breyttra tíma. Þá er gott að minnast þessarar góðu konu, sem átti svo mikinn kærleik og hlýju í fari sínu, ekki síst gagnvart samborgurum og nánustu skyldmennum. Mættum við eiga fleiri hennar líka. Guð blessi minningu hennar.

Siglufirði 23. október 1980. Óli J. Blöndal.
----------------------------------

Morgunblaðið - 06. nóvember 1980

Ólöf Jónsdóttir frá Hlíðarhúsi

Hún fæddist 15. maí 1891 að Stóru Brekku í Fljótum, dóttir hjónanna Önnu Kristjánsdóttur og Jóns Þorlákssonar bónda þar. Fluttist síðan með foreldrum sínum til Siglufjarðar aldamótaárið. Hún gekk í barnaskóla á Siglufirði og komst seinna 2 vetur í Kvennaskólann í Reykjavík. Þá vann hún fyrir sér við ýmis störf eins og þá var títt og nam í skóla lífsins.

Til Kaupmannahafnar komst hún einn vetur og vann fyrir sér á heimili Sörens Goos, en það var á heimsstyrjaldarárunum fyrri og var hún 3 vikur á leiðinni heim með skipi. Ólöf giftist 1917 Birni Jóhannessyni frá Heiði í Sléttuhlíð og eignuðust þau tvær dætur. Þær eru Guðbjörg María, ekkja eftir Axel Guðmundsson, Reykjavík og Margrét gift Óla Blöndal, Siglufirði. Ömmubörnin hennar eru 5 og langömmubörnin 11 auk þess sem börnin mín kölluðu hana ömmu. En nú er hún Ólöf frænka dáin. Það bærast viðkvæmir strengir í sál minni er ég skrifa þessi orð.

Ég hefi aðeins átt eina frænku um dagana, það finn ég nú. Þessi góða, prúða og trúaða kona, sem ég hefi þekkt og haft náið samband við síðan ég man eftir mér, var mín eina sanna frænka. Mamma og frænka, það sagði ég svo oft. Það var eins og þær væru einhvern veginn svo óaðskiljanlegar, systurnar, samheldnin og samvinnan var svo einstök. Þó áttu báðar sína menn og börn.

En ef önnur gat ekki unnið hin sjálfsögðu heimilisstörf vegna veikinda eða annarra orsaka, þá var hin reiðubúin að bæta þeim á sig. Þessi störf voru ekki fólgin í því að setja þvott í sjálfvirka vél eða renna ryksugu yfir gólfteppi. Nei, þau voru fólgin í því að mjólka kúna fyrir hina, gefa hænsnunum eða kynda miðstöðina auk matreiðslu og annarra venjulegra innanhússtarfa. Aldrei var neitt gefið eftir, allt þetta var svo sjálfsagt. Samt sem áður var nægur tími til þess að veita okkur börnunum uppfræðslu á hinum ýmsu sviðum og kenna okkur að trúa á sigur hins góða í lífinu.

Systkinin 4 sem fluttu úr Fljótum með foreldrum sínum vorið 1900 til Siglufjarðar og komu inn fjörðinn á tveim árabátum í glampandi morgunsól tóku tryggð við staðinn. Fyrst settist fjölskyldan að á Hóli, en þar bættist fimmta systkinið við er Sigfúsína Sigfúsdóttir var tekin í fóstur. Sex árum síðar fluttist fjölskyldan á Siglunes, en þar bjuggu tvö systkinanna, Björn og Margrét, síðar ásamt sínum fjölskyldum. Systurnar Sigríður og Ólöf, sem ég áður nefndi mömmu og frænku, bjuggu hins vegar í Siglufirði það sem eftir var ævinnar og lengst í Hlíðarhúsi, en sambýli þeirra þar varði 48 ár.

Nú síðastliðin 8 ár hefir frænka staðið ein við eldavélina og matreitt sama bragðgóða matinn handa sér og Snorra mági sínum. En nú eru kraftar hennar þrotnir og matarlyktin góða frá frænku horfin. Hún var mikil matreiðslukona og var fengin til að matreiða í ótal veislum um dagana. Hún var t.d. 75 ára þegar hún matreiddi í veislu fyrir mig og var ekki hægt að finna annað en hún væri fullfær um það.

Og henni frænku var fleira til lista lagt, hún saumaði t.d. peysuföt fyrir 50 ára afmæli Siglufjarðarkaupstaðar. 1968 saumaði hún upphlut handa mér þótt hún væri 77 ára. Hún var sístarfandi meðan kraftar entust, og hér á Siglufirði dó hún hinn 15. október sl. Þeim fækkar nú óðum nítjándu aldar hetjunum sem komist hafa óbugaðar gegnum storma þessa lífs, lifað tvær heimsstyrjaldir, kreppu, snjóflóðavetur og frostavetur svo að eitthvað sé nefnt.

Við hljótum að líta til þeirra með virðingu og þökk. Systkinin fjögur eru nú öll gengin veginn til hins eilífa lífs. Elsku frænku minni þakka ég samfylgdina ásamt Snorra föður mínum og fjölskyldu minni. Við þökkum guði fyrir líf hennar. Blessuð sé minning mætrar konu.

Anna Snorradóttir, Siglufirði.
-------------------------------------

Siglfirðingur 21. maí 1966

Ólöf Jónsdóttir, Hlíðarhúsum, 75 ára Frú Ólöf Jónsdóttir, Hlíðarhúsum, varð 75 ára 15. maí s1966. Hún er fædd áð Stóru Brekku í Fljótum, Skagafirði Foreldrar hennar voru hjónin frú Anna Kristjánsdóttir og Jón Þorláksson, þá búandi þar. Siglufjörður hefur fengið margan mætan borgarann úr Skagafirði, ekki síst úr Fljótum, og ekki mun ofsagt, að meir en helmingur Siglfirðinga séu innfluttir Skagfirðingar eða af Skagfirðingum komnir í ættir fram.

Ein í þeim mæta hópi var frú Ólöf, sem hingað flutti með foreldrum sínum, þegar þau fluttu að Hóli í Siglufirði. Frú Ólöf stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík og sótti þangað trausta og farsæla menntun. Hún dvaldi og um tíma í Kaupmannahöfn, en manni sínum, Birni heitnum Jóhannessyni, giftist hún 1917. Hann lést árið 1961. Þeim hjónum varð tveggja dætra auðið, Guðbjargar, sem búsett er í Reykjavík, ógift, og Margrétar, sem gift er Óla J. Blöndal, kaupmanni hér í bæ.

Þessi mæta kona, er bæjarbúum öllum að góðu kunn, og nýtur hér í bæ bæði verðskuldaðrar virðingar og vin áttu. Hún er ein þeirra, sem sinna sínum störfum og viðfangsefnum í kyrrð, og án þess að berast á, en vex af eigin verðleikum og framkomu. Frú Ólöf hefur um langan aldur starfað innan Slysavarnardeildar kvenna hér í Siglufirði, Varnar, og reynst þar traustur og góður félagi. Það, að hún skyldi einmitt velja sér félagsmálastörf á þessum vettvangi, lýsir henni betur en mörg orð. Ég árna þessari mætu konu heilla í tilefni af þessum merku tímamótum og velfarnaðar á ókomnum árum.

Stefán Friðbjarnarson.