Ólöf Þorláksdóttir

Ólöf Þorláksdóttir, f.20. júní 1889 d. 17. januar 1985

Maki hennar var Bjarni Guðmundsson var f. 20. júlí 1890, d. 1. sept. 1919
Þau eignuðust 8 börn, meðal þeirra voru:

  • Guðmundur Bjarnason verkamaður, f. 25.10. 1916, d. 5.4. 1987,
    Maki hans var Maja Bjarnason, f. 3.9. 1916, d. 25.4. 2004.

  • Þóra Guðmunda Bjarnadóttir,  f. 29.8. 1912, d. 8.10. 1990  
    Maki hennar var, Friðrik Steinn Friðriksson, f. 11.12. 1908, d. 19.4. 1963.

----------------------------------------------------------------

Morgunblaðið - 20. June 1979

Ólöf Þorláksdóttir - 90 ára

Ólöf Þorláksdóttir

Ólöf Þorláksdóttir

  • "Fögur sál er ávallt ung
  • undir silfurhærum."

Gleðin er það fyrsta orð, er ég vil nefna í sambandi við níræðisafmæli tengdamóður minnar. Hún hefur einkennt líf hennar og hjálpað henni til að bera aldurinn vel. Ólöf Þorláksdóttir Hvanneyrarbraut 74 Siglufirði á níræðisafmæli um þessar mundir.

Hún er fædd í Stórholti í Fljótum 20. júní 1889 og ólst þar upp. En á unglingsárum var hún um tíma í Olafsfirði og Héðinsfirði en flutti þaðan til Siglufjarðar og hefur átt þar heima síðan.

Ung giftist Ólöf Þorláksdóttir, Bjarna Guðmundssyni á Bakka í Siglufirði en missti hann á besta aldri frá mörgum, ungum börnum, en alls hefur hún eignast 8 börn og eru 7 þeirra á lífi.  Þá fóru í hönd erfiðir tímar fyrir henni. -

Líf hennar hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hún hefur aldrei hlíft sér, og léttlyndi hennar hefur lyft henni yfir alla erfiðleika. Enn býr hún ein út af fyrir sig í íbúð og annast um sig sjálf níræð að aldri.

Enn hún býr í húsi með Guðmundu, dóttur sinni, og er hún þar í skjóli hennar og barna hennar, sem eru henni sérstaklega ræktarleg. Hjá henni er allt snyrtilegt og hreinlegt eins og jafnan áður, en snyrtimennska er henni í blóð borin. Hún hefur yndi af að hafa fallega hluti í kringum sig og blómunum sínum hlynnir hún að sér til yndisauka.

Hún ber aldur sinn sérstaklega vel og er létt á fæti er hún gengur um bæinn. Hún hefur notið lífsins síðustu áratugi síðan starfsþrek minnkaði og er alltaf glöð og reif, enda hefur hún að jafnaði búið við sæmilega góða heilsu. Sjón og heyrn eru enn góð miðað við aldur og hefur hún gaman af að líta sér í bók og hefur mikla ánægju af sjónvarpinu.

Áður fyrr fékkst hún talsvert við fatasaum, meðal annars saumaði hún íslenska búninginn um tíma. Enn er hún síprjónandi og prjónar mikið af tvíbönduðum vettlingum, sem hún gefur vinum sínum og ættingjum og það er engin skömm að handbragðinu á því verki. Fram að þessum tíma hefur hún oft farið í ferðalög með ýmsum félagasamtökum og hefur mjög gaman af því. Þá hefur hún mikla ánægju af að koma á mannamót því að hún er félagslynd. Þetta er aðeins stutt afmæliskveðja og vonum við hjónin að henni auðnist að heimsækja okkur í sumar eins og undanfarið með dóttur sinni.

Við sendum henni innilegar bléssunaróskir á þessum merku tímamótum og vonum að hún megi sem lengst halda heilsu sinni og þeirri hressandi glaðværð sem einkennir hana.

Eiríkur Sigurðsson.