Halldóra Ragna Pétursdóttir

mbl.is 30. maí 2019 | Minningargrein

Halldóra Pétursdóttir fæddist á Siglufirði 12. febrúar 1942. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði 20. maí 2019.

Foreldrar hennar voru Mundína V. Sigurðardóttir, f. 1911, d. 2000, og Pétur Baldvinsson, f. 1909, d. 1995.

Systkin Halldóru Rögnu eru

Halldóra Ragna giftist 25. maí 1963 Björgvini S. Jónssyni, f. 1942, d. 2014.
Foreldrar hans voru Unnur H. Möller, f. 1919, d. 2010, og Jón Ó. Sigurðsson, f. 1918, d. 1997.

Halldóra Ragna Pétursdóttir - ókunnur ljósmyndari

Halldóra Ragna Pétursdóttir - ókunnur ljósmyndari

Systur hans sammæðra eru;

 • Steinunn, f. 1943,
 • Brynja, f. 1944, og
 • Salbjörg, f. 1947.
 • Bræður hans samfeðra eru
 • Guðmundur Kr., f. 1959, og
 • Sigurður, f. 1972, móðir þeirra var Valdís Ármannsdóttir, f. 1930, d. 2014.

Börn Halldóru og Björgvins eru:

 • 1) Halldóra Salbjörg Björgvinsdóttir, f. 8. október 1960, gift Ólafi Þór Ólafssyni, f. 1959, 
  börn þeirra eru
 • a) Stella Dóróthea Björgvinsdóttir, f. 1983, gift Ómari Þór Lárussyni f. 1977,
  börn þeirra eru
 • Einar Björgvin, f. 2010,
 • Elmar Óli, f. 2013, og
 • Hrafntinna, f. 2018,
  sonur Ómars Þórs er
 • Arnar Freyr, f. 1998,

 • b) Sólveig Sara, f. 1993, unnusti Ingimar Guðnason, f. 1996,

 • c) Selma Dóra, f. 1995.

Sonur Halldóru Salbjargar frá fyrra sambandi er
 • Björgvin Davíð, f. 1976, d. 1992,
  faðir hans er Björn Valur Gíslason.
2) Jón Ólafur Björgvinsson, f. 20. janúar 1962,
synir hans eru
 • a) Pétur Friðrik, f. 1989, unnusta Josefin Nyman, f. 1987,
  börn þeirra eru
 • Ísold Pia Luna, f. 2015, og
 • Liljar Jón, f. 2018,

 • b) Sölvi Þór, f. 1993, unnusta Helga Olafsson, f. 1988. Móðir þeirra er Guðbjörg S. Jóhannesdóttir.
3) Sigurður Tómas Björvinsson, f. 23. mars 1963.
Börn hans eru
a) Sunna Mist, f. 1986, sambýlismaður Eyþór Gunnar Jónsson, f. 1983.
Sonur Sunnu frá fyrra sambandi er
Gabríel Máni, f. 2010, faðir hans er Ómar Ómarsson,

b) Teitur Ingi, f. 1989, dóttir hans er c) Dagur Bjarki, f. 1995, unnusta Ragna Sól Evudóttir, f. 1998. Móðir þeirra er Jenný Inga Eiðsdóttir,
 • Aría Valdís, f. 2015, móðir hennar er Silja Rut Jónsdóttir,

d) Atli Björn, f. 1999,

e) Unnar Steinn, f. 2003. Móðir þeirra er Birna Björk Árnadóttir.

Halldóra fékk mjög snemma að fara til sumardvalar hjá frænku sinni á Hóli í Ólafsfirði. Hún byrjaði einnig snemma að vinna fyrir sér, meðal annars við afgreiðslustörf og síldarsöltun, einnig starfaði hún í niðursuðuverksmiðjunni Siglósíld og við almenna fiskvinnslu og eftirlitsstörf í hraðfrystihúsi SR og Þormóðs ramma.

Þar á eftir starfaði hún við heimilishjálp hjá Siglufjarðarkaupstað og í lok starfsferils síns við aðhlynningu og ræstingar á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar. Hún söng meðal annars með Kirkjukór Siglufjarðar, Kvennakór Siglufjarðar og Vorboðakórnum. Hún starfaði lengi með Sinawikklúbbi Siglufjarðar og slysavarnadeildinni Vörn.

Útför Halldóru Rögnu fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 30. maí 2019, klukkan 14.
------------------------------------------

Elsku hjartans mamma mín, söknuðurinn og tómarúmið er mikið þessa dagana.

Eftir fráfall pabba urðum við mjög nánar og heimsóttum hvor aðra eða töluðum saman í síma á hverjum degi.

Í vetur fór heilsu þinni að hraka mikið og greindist þú með mjög svo erfiðan og ólæknandi sjúkdóm, og hefur baráttan við hann undanfarna mánuði verið virkilega erfið fyrir okkar báðar.

Nú er þrautagöngu þinni lokið og þú komin í ný friðsæl heimkynni þar sem ástvinir þínir taka á móti þér með útbreiddan náðarfaðminn sem veitir þér hlýju og drottins dásemdarfrið.

Yndislegu nafnarnir okkar, Björgvin Sigurður og Björgvin Davíð, leiða þig að ótrúlega fögrum og lygnum vötnum þar sem feitir silungar vaka við hvert áralag og himinhá fjöllin speglast í endalausri litadýrð og þið róið saman inn í blóðrautt glóandi sólarlagið.

 • Þegar angistin nístir þinn hug og hjarta,
 • og harmurinn brotið þig niður í parta.
 • Þá mundu að minningin,
 • myndaði í huga þinn,
 • hugljúfa brosið hennar bjarta.

(Halldóra S. Björgvinsdóttir)

Minningin er ljós í lífi okkar.

Halldóra S. Björgvinsdóttir  - (Dóra Sallý).
-------------------------------------------------------------

Okkur bræðurna langar til að minnast móður okkar í nokkrum orðum. Við munum mömmu standandi vaktina við eldhúsgluggann í Hafnartúninu þar sem við lékum lausum hala niðri í fjöru, úti á sjó og á öskuhaugunum. Svo vorum við dregnir heim eftir að hafa dottið í sjóinn, brenndir á eyrum eða með skurð á enni. En þetta var bara hluti af því að alast upp á Sigló.

Mamma var afar umburðarlynd og lítið fyrir skammir, jafnvel þótt við reyndum að sprengja upp húsið í tilraunum okkar í efnafræði. Hún var ein af þessum kjarnakonum sem byggðu upp síldarbæinn, byrjaði snemma í söltun á plani og svo eignaðist hún okkur systkinin í einum rykk.

Elsta dóttirin fæddist í október 1960, síðan kom miðsonurinn í janúar 1962 og svo sá yngsti í mars 1963. Sem sagt þriggja barna móðir 21 árs gömul.

Fljótlega þar á eftir, samhliða vinnu í Siglósíld, var hafist handa við að byggja stórt og mikið hús í Hafnartúni 6 í samvinnu við systur mömmu og hennar maka. Þetta hús var okkur öllum mikill gleðigjafi með fullt af börnum á öllum hæðum.

Mamma vann síðan bæði í gamla og nýja frystihúsinu hjá Þormóði ramma og skrapp heim í hádeginu og lagaði mat fyrir maka og skólabörnin sín. Kom síðan heim í lok vinnudags hlaðin vörum úr kaupfélaginu og við tóku heimilisstörf og áhugamál og heimaverkefni barnanna. Mamma stóð alltaf vaktina með pabba en hann hafði hún þekkt alla ævi enda voru þau fædd í sama litla bænum, sama mánuð og sama ár og hún átti í erfiðleikum með að finna sig í lífinu eftir andlát pabba.

Fórnfýsi og nægjusemi eru góð orð sem lýsa persónuleika mömmu því hún var ein af þessum yndislegu kjarnakonum Íslands sem fórna miklu og gefa mikið af sér fyrir vellíðan annarra. Að verða amma 35 ára fór henni bara vel en það varð henni líka mikið og langt sorgarferli að missa sitt fyrsta barnabarn þegar Björgvin Davíð lést í hörmulegu slysi aðeins 15 ára gamall. En það komu mörg barnabörn og barnabarnabörn til viðbótar og hún naut þess að vera amma og langamma.

Mamma átti sér ýmis áhugamál í gegnum tíðina. Söngur og kórastarf var þar lengi númer eitt.

Hún söng með kirkjukórnum, kvennakórnum á Siglufirði og svo með kór eldri borgara í Fjallabyggð síðustu ár. Farið var í mörg ferðalög eftir að pabbi smíðaði sinn eigin húsbíl og þá ferðuðust þau um landið þvert og endilangt árum saman. Svo kom hjólhýsið sem hefur reyndar staðið mest sumarlangt við Vatnsenda í Héðinsfirði síðustu árinn, langvarandi veikindi pabba enduðu lengri ferðalög.

Mömmu þótti ákaflega vænt um Héðinsfjörð og þar hitti hún marga ættingja úr móðurætt og hún talaði einnig oft um þann tíma þegar hún var í sveit hjá móðursystur sinni Kristínu og Gísla á Hóli í Ólafsfirði og þótti afskaplega vænt um þau og þeirra börn og var í raun hluti af þeirri fjölskyldu líka.

Elsku mamma, við söknum þín mikið og erum þér eilíft þakklátir fyrir að hafa stutt okkur í gegnum súrt og sætt og komið okkur heilum út í lífið.

Jón Ólafur Björgvinsson, Sigurður T. Björgvinsson.
--------------------------------------------------------------

Elskuleg æskuvinkona mín og skólasystir Dóra er látin. Eftir standa minningar um trygga, góða og hlýja vináttu liðinna ára. Vil ég minnast hennar með þessu fallega ljóði.

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt,
 • þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því,
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti,
 • þá auðnu að hafa þig hér,
 • og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer,

 • þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð,
 • þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Dóra Sallý, Nonni, Siggi Tommi og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur frá okkur Jóhannesi. Guð styrki ykkur. Blessuð sé minning Dóru.

Þín vinkona, Kristín G. Baldursdóttir.