Ragnheiður Sæmundsson

mbl.is 4. janúar 1994 | 

Áttræð Ragnheiður Sæmundsson frá Siglufirði Föðuramma mín, Ragnheiður

Áttræð Ragnheiður Sæmundsson frá Siglufirði Föðuramma mín, Ragnheiður Sæmundsson, frá Siglufirði, átti afmæli 2. janúar síðastliðinn. Hún varð áttatíu ára. Amma ólst upp að Hallgilsstöðum í Hörgárdal, dóttir Jóns St. Melstað bónda og Albínu Pétursdóttur. Hún er þriðja í röðinni úr hópi 7 systkina. Systkini ömmu eru: Unndór, fyrrum endurskoðandi í Reykjavík, Pétur og Valdimar, sem lengi ráku samnefnt fyrirtæki á Akureyri, Stefán, fyrrum bóndi á Hallgilsstöðum, Dýrleif, húsmóðir á Akureyri, og Eggert, bílstjóri. Unndór og Valdimar eru látnir.

8. júní 1934 giftist amma afa mínum, Sigurjóni Sæmundsson, prentsmiðjueiganda og fv. bæjarstjóra á Siglufirði. Þau eignuðust tvö börn, Stellu Margréti, gift Ingvari Jónassyni víóluleikara, og föður minn, Jón Sæmund Sigurjónsson, hagfræðing í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, kvæntur Birgit Henriksen.
Við, barnabörnin hennar ömmu, erum fjögur: Sigurjón Ragnar, Vigfús, Anna og svo undirrituð. Barnabarnabörn ömmu eru orðin fjögur.

Ragnheiður Sæmundsson - Ljósmynd Kristfinnur

Ragnheiður Sæmundsson - Ljósmynd Kristfinnur

Stórum hluta ævi sinnar hefir amma varið í að hugsa um okkur, börnin sín, en einnig hefir hún alltaf stutt afa í bókaútgáfunni. Amma var lengi stjórnarmaður í Slysavarnafélaginu Vörn og sat í stjórn kvenfélags Sjúkrahúss Siglufjarðar. Áður fyrr lék hún í fjölmörgum leikritum með Leikfélagi Siglufjarðar og á að baki langt söngstarf með kirkjukórnum.

Á tímamótum sem þessum er margs að minnast. Fyrsta minningin um ömmu er þegar hún og afi komu að heimsækja okkur í Þýskaland. Þegar von var á þeim voru tilhlökkunin og fagnaðarfundirnir ávallt miklir. Þá var gjarnan farið í verslunarleiðangra eða styttri ferðalög og mikið borðað úti. Ferðirnar urðu ekki síst eftirminnilegar fyrir það hversu skemmtilegur ferðafélagi amma var. Hún var alltaf með sniðugar sögur á takteinum, sagði brandara eða setti upp skrítna svipi og hermdi eftir þekktu fólki.

Löngu eftir að við fluttumst heim frá Þýskalandi héldum við áfram að ferðast með ömmu og afa. Fyrir u.þ.b. 10 árum ferðuðumst við amma t.d. um Evrópu þvera og endilanga og er þessi ferð ein dýrmætasta perlan í fjársjóði minninga um skemmtilegar samverustundir með ömmu. Við keyrðum m.a. um falleg fjallahéruð Sviss og spásseruðum á göngugötunni í Nissa. Greinilegt var hversu gaman amma hafði af því að ferðast.

Einnig hefir alltaf verið gaman að heimsækja ömmu og afa á Sigló. Heima hjá ömmu er gott að gleyma sér í ævintýraheimi bókanna sem hún og afi hafa gefið út. Það var líka amma sem fyrst kenndi mér að spila á píanó og hefir "F¨ur Elise" ósjaldan hljómað á Suðurgötunni án þess að amma kveinkaði sér undan öllum æfingunum.

Reyndar er það ekki í eðli ömmu að kvarta og kveina. Það sást best á áralangri baráttu ömmu við illvígan augnvírus sem leiddi að lokum til þess að nema varð á brott veika augað hennar. Á þeirri þrautagöngu heyrði ég ömmu aldrei kvarta eða barma sér.

Eitt er það einkenni ömmu, að henni finnst ákaflega gaman að spjalla við fólk. Af því leiðir að það er hægt að tala um allt milli himins og jarðar við ömmu og alltaf hefir verið gott að leita ráða hjá henni. Amma hefir alltaf hvatt og stutt okkur barnabörnin í því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur. Mér er minnisstætt nú síðast í haust, þegar mig langaði að taka þátt í ræðukeppni Orators, félags laganema, en hefði næstum hætt við allt saman vegna sviðsskrekks. Eftir eitt símtal við ömmu var ég hætt við að hætta við. Amma sagði: "Stundum er bara best að hugsa sem minnst og láta vaða. Ef þú tekur ekki þátt, þá veist þú ekki, hvers þú ferð á mis." Eftir stutta umhugsun sá ég að amma hafði rétt fyrir sér ­ eins og svo oft áður.

Amma hefir jafnan þótt kona með sínu lagi, sérstæð og raunar ólík öllum fjöldanum. Hún er hrein og bein, og fer aldrei í felur með skoðanir sínar, en heldur þar fast á ef svo ber undir. Amma er kvenna kátust, ófeimin og orðheppin. Með svipuðum orðum var langafa mínum lýst af samsveitungi sínum, þegar hann varð áttræður. Nú þegar amma er áttræð fer vel á því að lýsa henni á sama máta enda þóttu þau feðgin, amma og langafi, mjög lík hvort öðru.

Elsku amma, til hamingju með merkisafmælið. Ég vona að afmælisdagurinn hafi verið þér eftirminnilegur gleðidagur.

Ragnheiður Jónsdóttir.