Leifur Eiríksson

mbl.is - 2. september 2021 | Minningargreinar 

Leifur Eiríksson fæddist á Siglufirði 23. nóvember 1939.
Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 28. ágúst 2021.
Foreldrar hans voru Eiríkur Guðmundsson, verkstjóri og trésmiður, f. 28. júní 1908, d. 9. maí 1980 og Herdís Ólöf Jónsdóttir húsfreyja, f. 11. ágúst 1912, d. 1. september 1996.

Systkini Leifs:

  • Sigurlína, f. 30. ágúst 1932, d. 28. ágúst 2016.
  • Friðrik, f. 5. október 1934, d. 15. nóvember 2017.
  • Jón, f. 30. apríl 1937, d. 15. febrúar 2005.
  • Gylfi, f. 11. maí 1945.
  • Jóhanna, f. 9. september 1946.
  • Bergur, f. 22. janúar 1949, d. 16. maí 2004.
  • Guðný, f. 9. maí 1951.
  • Ása, f. 1. júní 1954, d. 24. febrúar 2019.
  • Kristín, f. 4. júlí 1955.
Leifur Eiríksson  - ókunnur ljósmyndari

Leifur Eiríksson - ókunnur ljósmyndari

Leifur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Öldu Jónsdóttur, 9. september 1967 á Ísafirði, f. 11. janúar 1942.
Foreldrar hennar voru Jón Jóhannesson, f. 7. nóvember 1900, d. 2. júlí 1973 og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1. júlí 1906, d. 24. janúar 1974.

Börn Leifs og Öldu eru:

  • Eiríkur, f. 29. maí 1966, maki Laufey Vilmundardóttir.
    Börn Eiríks eru:
  • Leifur, f. 11. desember 1989, maki Erla Björnsdóttir,
    barn þeirra
  • Eiríkur Björn, f. 29. október 2010.
  • Eva Rut, f. 13. febrúar 1992, maki Emil Freyr Guðmundsson,
    börn þeirra
  • Ævar Nói, f. 18. september 2018 og
  • Brynjar Áki, f. 27. september 2020. Börn Eiríks og Laufeyjar: Brynjar, f. 10. júlí 2004, d. 10. júlí 2004, Birta, f. 20. febrúar 2007. Börn Laufeyjar eru Sævar og Andri. Jón, f. 6. apríl 1971, maki Gígja Gylfadóttir, f. 28. júlí 1965. Börn Jóns eru Dagný Alda, f. 19. ágúst 2001 og Jón Bjartur, f. 11. júlí 2010. Börn Gígju eru Styrmir og Sölvi. Gunnhildur, f. 3. október 1974, börn Aron Ingi, f. 5. apríl 2001 og Daníel Orri, f. 2. apríl 2005. Linda, f. 15. apríl 1978, börn Davíð Már, f. 6. október 2006 og Logi Freyr, f. 29. september 2009.

Leifur ólst upp á Siglufirði. Hann sinnti ýmsum störfum til sjós og í landi. Hann lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík í kjötiðn og vann alla sína starfstíð við þá iðn, lengst hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Leifur verður jarðsunginn frá Lindakirkju í dag, 2. september 2021, og hefst athöfnin kl. 13.

  • Við þökkum fyrir ástúð alla,
  • indæl minning lifir kær.
  • Nú mátt þú vina höfði halla,
  • við herrans brjóst er hvíldin vær.
  • Í sölum himins sólin skín
  • við sendum kveðju upp til þín.

(H J)

Megi minning um einstakan eiginmann lifa.

Þín Alda.
-------------------------------------------

Okkur systur langar að minnast pabba með nokkrum orðum. Það er svo skrítið hvernig hugurinn hefur farið á flug eftir að þú kvaddir, ótal ljúfar og skemmtilegar minningar sprottið fram. Þú varst mjög stoltur af því að vera Siglfirðingur og þegar við ólumst upp var farið að minnsta kosti einu sinni á hverju sumri þangað. Þú hafðir áhuga á dýrum og náttúrunni og við munum vel eftir öllum ferðalögunum innanlands þegar fræddir þú okkur um landið.

Okkur er það alltaf minnisstætt þegar við keyrðum Skagafjörðinn, þá vorum við alltaf spurðar um eyjarnar, Drangey, Málmey og Þórðarhöfða. Eins þegar við keyrðum Kjalarnesið sagðir þú okkur alltaf frá súrheysturnunum þremur sem þú byggðir. Við segjum sonum okkar líka frá þessu í hvert skipti sem við keyrum þarna fram hjá.

Þú varst mikill skákmaður, tefldir mikið og kenndir bæði börnum og barnabörnum mannganginn.

Þú varst mikill barnakarl og hafðir unun af barnabörnunum. Þú áttir alltaf Prins Póló til þess að lauma að okkur. Þegar krakkarnir voru minni var oft ansi fjölmennt í heimsókn, þá áttir þú það til að segja þegar við vorum að fara komið endilega fljótt aftur, það er svo notalegt þegar þið farið.

Þrátt fyrir að minnið hafi verið farið að bresta þá mátti samt alltaf sjá glitta í þig. Eins og þegar þú hermdir eftir fólki, því þú varst ágætiseftirherma eða þegar þú sagðir við mömmu það er alltaf sama forvitnin í henni.

Við vitum að þú ert hjá okkur og heldur áfram að leiða okkur í gegnum lífið. Við viljum þakka fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér.

Þínar dætur Gunnhildur og Linda.
---------------------------------------

  • Elsku pabbi,
  • Þó sorgin sé sár,
  • og erfitt er við hana að una.
  • Við verðum að skilja,
  • og alltaf við verðum að muna,
  • að Guð hann er góður,
  • og veit hvað er best fyrir sína.
  • Því treysti ég nú,
  • að hann geymi vel sálina þína.
  • Þótt farin þú sért,
  • og horfin ert burt þessum heimi.
  • Ég minningu þína,
  • þá ávallt í hjarta mér geymi.
  • Ástvini þína, ég bið síðan
  • Guð minn að styðja,
  • og þerra burt tárin,
  • ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís H. Jónsdóttir)

Við kveðjum pabba með söknuði og biðjum góðan Guð um að vernda þig. Þín verður sárt saknað, minning þín lifir.

Eiríkur, Jón, Gunnhildur og Linda.

  • Endar nú dagur, nótt er nær,
  • náð þinni lof ég segi,
  • að þú hefur mér, Herra kær,
  • hjálp veitt á þessum degi.
  • Vertu yfir um og allt um kring
  • með eilífri blessun þinni,
  • sitji Guðs englar saman í hring
  • sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Elsku afi, við þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér. Þín verður sárt saknað.

Þín barnabörn,

Aron Ingi, Daníel Orri,

Davíð Már, Logi Freyr, Dagný Alda, Jón Bjartur, Birta, Leifur og Eva Rut.