Jón Sigurðsson á Eyri Siglufirði

Jón Sigurðsson  f. 17. júní 1914, d. 12. janúar 1982. 

Hinn 6. desember 1942 kvæntist Jón, Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir, Inga á Eyri eins og hún var oftast kölluð, var fædd á Vestdalseyri í Seyðisfirði 10. nóvember 1917.  Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði 7. maí 2004. 

Börn þeirra eru:

1) Sigurður Jónsson, f. 17. ágúst 1946, maki Sigrúnu Ólafsdóttur, f. 1942, og á hann eina fósturdóttur, 
 • Ólöfu Ingimundardóttur, f. 1964. 

2) Sveinbjörn Jónsson, f. 14. maí 1948, maki Björg Hjartardóttir,
börn þeirra eru
 • Ingibjörg, f. 1971, 
 • Jón Hjörtur, f. 1972, og 
 • Unnþór, f. 1974. 

Jón Sigurðsson á Eyri

Jón Sigurðsson á Eyri

3) Skúli Jónsson, f. 11. janúar 1951, maki  Þórunn Kristinsdóttir, f. 1960, d. 31. janúar 2018.
Börn þeirra eru
 • Bára Kristín Skúladóttir, f. 1980, 
 • Sigurður Davíð Skúlason, f. 1990, og 
 • Eyrún Sif Skúladóttir, f. 1991. 

4) Sævar Jónsson, f. 18. nóvember 1953, maki Álfheiður Heiða Sigurjónsdóttir, f. 1952, börn þeirra eru
 • Ólafur Smári, f. 1970, 
 • Jón Ingi, f. 1974, 
 • Ægir Kristinn, f. 1979. 
5) Oddfríður Jónsdóttir, f. 27. júlí 1955, maki Sigfús Tómasson vélstjóri, f. 1950, börn þeirra eru
 • Sigríður Gréta Sigfúsdóttir, f. 1978, 
 • Aðalheiður Sigfúsdóttir, f. 1984, og 
 • Herbert Ingi Sigfússon, f. 1990.  
  ________________________________________________

Jón Sigurðsson -  Fæddur 17. júní 1914 Dáinn 12. janúar 1982

Siglufjörður var um langan aldur höfuðstöðvar síldarútvegsins hér á landi, svo sem kunnugt er. Mátti þola bæði skin og skúrir, sem þessir duttlungafulla uppistaða atvinnuvegarins, síldin, olli, og bitnaði engu síður á landsmönnum öllum en íbúum Siglufjarðar. Á síldveiðum og síldarverkun var grundvöllur framtíðar Siglufjarðar reistur á.

Vonir og þrár íbúanna um betri og bjartari framtíð en fyrri kynslóða. Fleiri hagsbætur á öllum sviðum átti og skyldi verða árangur af fangbrögðum við „silfur hafsins", síldina. Svo var komið um nokkur árabil, að landsfeður biðu eftir, hver árangur síldarvertíðarinnar yrði hverju sinni svo afkomu ríkissjóðs yrði borgið.

Frá þessu er mikil og merk saga, sem ekki verður rakin hér, en þess má þó geta, að Norðmenn og nokkrir Danir áttu meiri eða minni þátt í framvindu og þróun síldveiðanna hér á landi svo sem kunnugt má vera þeim, er kynnt hafa sér atvinnusögu landsmanna. Það var fjörugt mannlíf í Siglufirði á síldarvertíðunum.

Fjöldi aðkomufólks beggja kynja streymdi til bæjarins og sóttu sumaratvinnu sína þangað og margir tugir skipa, innlendra og erlendra mönnuð vöskum og hressilegum sjómönnum, settu einnig svip á Siglufjörð. Mannhafið mikið og þungar öldur lífsins ólguðu og hrundu um gjörvalla byggðina og umhverfið. Höfnin eins og skógur, fögur sjón og áhrifamikil. Kyrrð og ró færðist yfir byggðina er haustaði. Sumargestir hurfu eins og farfuglarnir.

Siglfirðingar bjuggu sig undir vetrarmánuðina og héldu sumir hverjir á vertíð suður til að tryggja framfærslu sína og sinna og brúa bilið milli sumarannar og vetrarkyrrðar atvinnulífsins.

Það fór ekki hjá því að siglfirskir unglingar, sem ólust upp á þessum árum, yrðu með ýmsum hætti að meira eða minna leyti þátttakendur í þessu mannlífi, bæði með aðild sinni að koma síldinni í verð og fullnægja eigin þörfum fyrir saklaus brek og ærsl eða leik eftir því sem þeim datt í hug og athafnaþrá þeirra beindi þeim að, enda fór margar sögur af frískum og fjörugum strákum sérstaklega gjörningum þeirra og uppátækjum og framtakssemi að finna vettvang til athafna, sem endilega þurfi að fullnægja.

Mörg glettin og spræk dáð var þá drýgð og er rifjaðar voru upp liðnar stundir þessara framtakssemi á fullorðinsárunum yljaði slíkt aðilum því tímabilið var þeim kært og fast í minni. Mundu óskir sínar og vinir og hversu þær rættust. Sakleysið sjálft en engin sektarkennd þó á ýmsum óverðskulduðum brotnuðu framtakssamar og frumlegar athafnir þeirra. Sumir þessara félaga hafa þegar lotið lögmálum lífsins og nú hefur einn bættst í hópinn, Jón á Eyri.

Hann hefur hlýtt kalli hins æðsta dómara og kvatt lífið hér á jörðu. Jón á Eyri, en við Eyri var hann jafnan kenndur, var fæddur hinn 17. júní 1914, sonur hjónanna Sigurðar Jónssonar, sem var Skagfirðingur að ætt og uppruna, og Andreu Sæby, en Sæby, faðir hennar, var danskur og kom til Siglufjarðar frá Kaupmannahöfn um 1880. Dvaldist hann raunar fyrstu árin ytra á vetrum uns hann ílentist hér og er af honum kominn stór og dugmikill ættbogi í Siglufirði og víðar um land.

Þau hjón Andrea og Sigurður keyptu býlið Eyri í Siglufirði og reistu þar snemma timburhús, sem enn stendur. Við þá Eyri er Eyrargata kennd.
Jón ólst upp í föðurgarði við atlæti, sem þá var ríkjandi, við leik og störf eins og þá var títt og strax þegar afl og geta óx var tekið til við ýmis störf, sem til féllu og þannig létt undir við framfærslu fjölskyldunnar.

Minna var um bóknám almennt, en þó fullnægt skyldum og kvöðum þar um. Jón á Eyri var engin undantekning fremur en aðrir félagar hans sem þátttakandi í lífsháttum og venjum þeirra, sem þá voru að vaxa úr grasi. Einangrun staðarins á vetrum hafði óneitanlega áhrif á uppeldi og viðhorf auk ríkjandi skoðana á hversu ala skyldi upp börn, átti mikinn þátt í mótun uppvaxtaráranna.

Hin snögga fjölgun farandfólks á sumrum markaði og djúp spor og skildi margvísleg áhrif eftir. Frásagnir sæfara og ævintýri þeirra færð í töfrandi búning heillaði hina ungu drengi og enn meira en þeirra eigin hugmyndir og samskipti við gjálfrandi bárur við Þormóðseyri, sem þeir höfðu daglega fyrir sjónum. Það var því engin furða þó hugur margra þessara ungu manna stæði til sjómennsku og ævintýra hennar, þegar þeir stækkuðu og landvinnu við síldaraflann lauk.

Ekki dugði að vera iðjulaus hinn hluta ársins, því ekki fékkst brauð eða soðning með því móti. Jón valdi sjómennsku sem aðalatvinnu og stundaði hana árum saman. Sótti vertíðir suður á land á vetrum svo sem venja var þá. Einnig var hann um tíma hjá Skafta á Nöf í ferðum milli Siglufjarðar og Sauðárkróks og er það einn merkur þáttur í samgöngumálum Siglufjarðar þáttur Skafta og manna hans, sem þyrfti að skrá.

Á stríðsárunum sigldi Jón eins og margir vaskir stéttarbræður hans með fisk til Englands. Hann gerðist starfsmaður á siglfirsku togurunum, er þeir bættust í lítinn Siglfirskan flota og var til allra verka þar um borð vel liðtækur þó aðalstarf hans væri í vélarrúmi togaranna.

Jón hætti sjómennsku fyrir allmörgum árum og gerðist starfsmaður á vélaverkstæði Síldarverksmiðja ríkisins í Siglufirði og vann hjá því fyrirtæki uns yfir lauk. Þessir eru megin ættir í ævistarfi Jóns á Eyri utan heimilis. Mætti rekja nánar ýmsa kafla þeirra, því ekki var ætíð logn á þeim miðum, sem á var sótt eða á leiðum þeim, sem siglt var um. Köflum, sem brugðið gætu ljósi yfir framfarir og þróun atvinnutækja og aðbúnað á vinnustað frá því hann hóf þjónustustörf sín fyrir samfélagið og þar til yfir lauk.

Jón var einn þessara ónefndu í hinum þögla meirihluta þjóðarinnar, sem aðeins er getið í manntalsskýrslum, á vinnulistum eða í skipshafnarskrám. Þessi ónefndi meirihluti má alls ekki gleymast, því drjúg eru verkin hans, gildir og traustir hornsteinar, sem hann hleður og þjóðfélagið nýtur góðs af. Jón á Eyri var einn af þeirri kynslóð, sem taldi enga nauðsyn vera á því að alheimta daglaun að kveldi. Það mætti bíða betri tíða, enda var hann vinnufús og vinnuglaður að eðlisfari.

Sporléttur ef beðinn var um liðsinni þar sem þörf var og hann taldi sig kunna ráð til lausnar. Hjálpsemi hans og greiðasemi var alkunn. Jón var notalegur og hýr á góðri stundu í takmörkuðum hópi vina og kunningja, enda ekki allra. Einn þeirra samferðamanna sem gott var að eiga að vini, enda trölltryggur, hreinskiptinn og traustur. Hrjúfur á stundum eins og margur sæbarinn landinn, en átti heitt hjarta sem í brjósti sló. Var oft orðheppinn, snar í snúningum, snöggur upp á lagið, sem svo er nefnt. Kvikur í spori, sívalur meðalamaður. Einbeittur dugnaðarmaður.

Jón kvæntist árið 1942 Ingibjörgu Sveinbjörnsdóttur, ættaðri frá Seyðisfirði eystra. Er Ingibjörg dugnaðar myndarkona.
Eignuðust þau 5 börn, 4 syni og eina dóttur, sem öll eru uppkomin og eiga fjölskyldu nema einn sonanna, sem ókvæntur er.

Jón andaðist í Sjúkrahúsi Siglufjarðar þann 12. þ.m. eftir skamma legu þar. Hann var einn þeirra samferðamanna sem gott var að eiga að vini. Á ég um hann góðar og hugljúfar minningar, sem kært er að rifja upp og orna sér við, því það vex einnig þar gróður þó ekki hafi verið veitt safa skólabóka í jarðveginn. Nú þegar samfylgdinni er lokið skal hún þökkuð vini mínum Jóni á Eyri og tekið undir með skáldinu:

Ég finn til skarðs virt auðu ræðin allra.
sem áttu rúm á sama aldarfari."

Jón á Eyri hefur nú lagt úr höfn, út á eilífðarsæinn. Ég trúi því, að hann hljóti blíðan byr í sinni hinstu för og fái lendingu í höfn friðar og sælu. Við hjónin sendum eftirlifandi eiginkonu hans Ingibjörgu, börnum og fjölskyldum þeirra sem og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Baldur Eiríksson