Jón Jóhannsson skipstjóri

Morgunblaðið - 14. desember 1989 Minning

Jón Jóhannsson skipstjóri -  Fæddur 18. nóvember 1904 - Dáinn 2. desember 1989

  • Hin langa þraut er liðin,
  • nú loksins hlaustu friðinn,
  • og allt er orðið rótt,
  • nú sæll er sigur unninn
  • og sólin björt upp runnin
  • á bak við dimma dauðans nótt.
  • (Vald. Briem)

Í dag fer fram útför móðurbróður míns, Jóns M. Jóhannssonar, er lést eftir langvarandi og erfið veikindi á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund þann 2. desember sl.
Hann fæddist 18. nóvember 1904 að Sauðanesi í Svarfaðardal, sonur hjónanna Þóru Baldvinsdóttur og Jóhanns Gunnlaugssonar.

Jón Jóhannsson skipstjóri

Jón Jóhannsson skipstjóri

Börn þeirra voru sex, fimm komust til fullorðinsára.
Þau  voru auk Jóns, Sveinn, Axel, Baldvina, og Lára móðir mín, sem var elst og er nú ein eftir af systkinahópnum.

Nonni eins og ég var vön að kalla hann ólst upp í foreldrahúsum og stundaði sjóinn með föður sínum eins og þá var títt.
Um tvítugt fór hann til Hafnarfjarðar og nam smíðar. Hann var með fyrstu nemendum Iðnskólans í Hafnarfirði.

Til Siglufjarðar flutti hann árið 1930, þá húsasmíðameistari, og setti þar á stofn verkstæði.

Nonni var hamingjumaður í sínu einkalífi. Kvæntist ágætiskonu, Oddnýju Nikódemusdóttur, og eignaðist með henni þrjú mannvænleg börn eru:

  • Þóra Jónsdóttir, skrifstofustúlka,
  • Valgerður Jónsdóttir, kennari, og
  • Björgvin Sveinb Jónsson, efnafræðingur.

Þau eru öll fjölskyldufólk. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin fimm.

Við smíðar vann Jón í átta ár og þótti sérstaklega vandvirkur og nákvæmur í starfi sínu.
Aldrei hafði hann þó svo mikið að gera að hann færi ekki niður á bryggju þegar bátarnir komu að.
Heilsunnar vegna hætti hann við verkstæðið og fór til sjós.

Í Stýrimannaskólann í Reykjavík fór hann svo 42 ára gamall og lauk þaðan skipstjóraprófi. Sjóinn stundaði hann meðan heilsan leyfði, ýmist sem skipstjóri eða stýrimaður á ýmsum skipum og síðast var hann með sína eigin trillu.

Til Reykjavíkur fluttu þau hjónin 1972. Þar vann hann sem vaktmaður og síðan sem eftirlitsmaður við byggingu Sundskála. Að lokum kveð ég svo elskulegan móðurbróður minn með söknuði og þakklæti fyrir alla þá vinsemd, sem hann sýndi mér frá því ég fyrst man eftir mér.
Það. er margs að minnast frá heimili þeirra hjóna í gegnum árin. Eiginkonu hans, börnum og fjölskyldum þeirra sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning hans.
Lára.
------------------------

Við þetta má bæta að Jón var skipverji á Síldar og olíu flutningasipinu Haferninum á árunum 1968´69.
Fyrst þar skráður sem háseti og einnig sem timburmaður, er hann leysti mig af, er ég fór í frí.

Hann var góður félagi og tók virkan þátt í bæði vinnu og frístundum á milli vakta, kátur og hress.
Steingrímur Kristinsson.

Oddný Nikódemusdóttir og Jón Jóhannsson - Ljósmynd Steingrímur Kristinsson