Jósep Flóvenz frá Siglufirði

Morgunblaðið - 19. maí 1978

Jósep Flóvenz frá Siglufirði — (Jósef Flóvents  Jósep Flóvens)  Fæddur 11. janúar 1914 Dáinn 11. maí 1978

Jósep er dáinn. Í dag er hann jarðsunginn. Við gamlir félagar og vinir Jóspes Flóvens vissum af veikindum vinar okkar og að hverju rak, en samt kom þessi frétt okkur á óvart. Þó held ég að það, að Jósep væri alvarlega veikur, hafi komið okkur meira á óvart. Gátum ekki ímyndað okkur hann í því ástandi, svona sterkan, lífsglaðan og kíminn. Jósep Flóvens, sem andaðist á Landspítalanum 11. maí 1978 var fæddur á Sauðárkróki 11. janúar 1914, sonur hjónanna Flóvents Jóhannssonar og Margrétar Jósefsdóttur.

Flóvent var frá Bragholti í Eyjafirði, stundaði nám á Hólum, fór til frekara búfræðináms til Danmerkur, en gerðist að því loknu bústjóri og kennari á Hólum. Þá kvæntist hann Margréti Jósefsdóttur ættaðri frá Akureyri. Þau bjuggu síðan á Sjávarborg í Skagafirði og fluttust síðar til Sauðárkróks, þar sm Jósep fæddist.

Til Siglufjarðar fluttust þau 1915. Hér starfaði Flóvent m.a. við verkstjórn, sat í bæjarstjórn í áratug og var slökkviliðsstjóri. Margrét starfaði að félagsmálum hér í firðinum um árabil. Jósep var næst yngstur fimm systkina. Þetta er ekki ítarleg skýrsla um uppruna Jóseps, en hún verður að nægja í bili. Ég undirritaður kynntist Jósep ekkert að ráði fyrr en við vorum báðir af unglingsaldri. Haustið 1936 vorum við samferða suður á Reykholtsskóla. Þar vorum við samtíða í tvo vetur.

Jósep Flóvens - Ljósmynd Kristfinnur

Jósep Flóvens - Ljósmynd Kristfinnur

Á slíkum stöðum fer ekki hjá því að kynni manna verði náin, ef þau þá verða nokkur á annað borð. Jósep var dökkur yfirlitum, lágvaxinn, en samsvaraði sér mjög vel. Hann var hlédrægur og hafði sig ekki í frammi á mannamótum umfram nauðsyn, en var hrókur alls fagnaðar í vinahópi. Kímnigáfa hans var sönn og bráðsmitandi, en græskulaus.

Frá þessum skólaárum okkar er margs að minnast, þótt fátt eitt verði tínt til hér. Þá leið ekki svo dagur að Jósep kitlaði ekki hláturkennd allra í návist sinni með góðri sögu, eða tiltekt. Stundum létti hann dagsins oki af okkur félögum sínum með því að seilast í fiðluna sína uppi á skáp og leika fyrir okkur. Leikni Jóseps í fimleikum varð að þjóðsögu á þessum árum í Borgarfirðinum. Þá var Jósep næstum fullmótaður sem fimleikamaður, auðkenndur af þeirri dirfsku, mýkt og lipurð, sem fáa prýddi betur.

Jósep var prúður í framgöngu og fáa vissi ég vinsælli í okkar hópi, enda held ég að hann hafi aldrei gert á hlut annars manns, en á hinn bóginn kærði hann sig ekki um ofríki annarra. Jósep ólst upp í Siglufirði þegar síldin var og hét. Hann tók þátt í því ævintýri eins og aðrir Siglfirðingar, vann við síld, lengi í síldarverksmiðjunni „Dr. Paul" og var bifreiðastjóri auk annarrar algengrar vinnu. Jósep lagði ekki niður fimleikaiðkun er hann kom úr Reykholti. Nú má segja að hann æfði reglulega hvern vetur og fram á sumar, þar til hann fluttist burt, fyrst með Birni heitnum Jónssyni frá Firði og síðan með Helga Sveinssyni.

Óhætt er að fullyrða, að á þessum árum, frá 1937 og fram yfir 1950 hafi fimleikaflokkur K.S. verið besti áhaldafimleikaflokkur landsins, og hlutur Jóseps með þeim drýgstu.

Jósep kvæntist 17. apríl 1948 Lovísu Snorradóttur, ættaðri frá Blönduósi, hinni ágætustu konu. Árið 1955 flytjast þau Jósep og Lovísa „suður". Jósep starfaði þar á Keflavíkurflugvelli um skeið, en síðustu 13—14 árin í fiskmjölsverksmiðjunni á Kletti. Jósep og Lovísu var ekki barna auðið, en syni Lovísu af fyrra hjónabandi, Viðari Benediktssyni, reyndist Jósep vel og með þeim varð góð vinátta.

Börn Viðars og Báru konu hans voru eins og afabörn Jóseps og hann sýndi þeim mikla umhyggju og ástúð, sem var endurgoldin. Þetta er aðeins fátækleg kveðja frá mér og öðrum félögum og vinum Jóseps hér í Siglufirði, úr verksmiðju, skóla, bílastöð, fimleikaflokki og lífsins ágæta skóla, með þakklæti fyrir góð kynni og þá dettur mér í hug góð vísa sem eitt sinn var vinsæl í vísnabókaviðskiptum okkar:

Allar stundir okkar hér er mér ljúft að muna. Fyllstu þakkir flyt ég þér fyrir samveruna. Lovísu, eftirlifandi konu Jóseps, og öðru venslafólki votta ég mína dýpstu samúð.

Bragi Magnússon Siglufirði
--------------------------------------------------

Hinn 11. maí lést á Landspítalanum í Reykjavík Jósep Flóvenz frá Siglufirði, 64 ára að aldri, en hann var fæddur 11. janúar 1914.

Foreldrar hans voru Flóvent Jóhannsson, fyrrum bústjóri og kennari á Hólum í Hjaltadal og kona hans Margrét Jósepsdóttir. Barn að aldri fluttist Jósep með foreldrum sínum til Siglufjarðar þar sem hann ólst upp ásamt fjórum systkinum sínum, en hann var þeirra næst yngstur. í Siglufirði stundaði Jósep nám í barna og unglingaskóla á vetrum og síðar í héraðsskólanum að Reykholti í Borgarfirði.

Á sumrin vann hann ýms störf heima á Siglufirði, fyrst í landi við útgerð föður síns og síðan í síldinni eins og flestir ungir Siglfirðingar á þeim tíma, enda var lífsstarf hans að meira eða minna leyti tengt þeirri atvinnugrein. Hann starfaði í fjölda ára hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í Siglufirði og víðar og síðustu fjórtán árin hjá Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunni h/f í Reykjavík. Árið 1948 kvæntist Jósep eftirlifandi konu sinni, Lovísu Snorradóttur frá Blönduósi, hinni mætustu konu.

Var hjónaband þeirra hið farsælasta. Jósep var mikill drengskaparmaður og tryggur vinur vina sinna. Hann var einstaklega hjálpfús og vildi hvers manns vanda leysa. Ætíð var hann glaðlegur í bragði og gæddur einstakri kímnigáfu. Ríkti jafnan gott andrúmsloft og gleði þar sem vegir hans lágu.

Jósep Flóvens var íþróttamaður góður. Einkum lagði hann mikla stund á áhaldaleikfimi og náði frábærum árangri á þeim vettvangi. Mun Jósep, ásamt Birni heitnum Jónssyni íþróttakennara, hafa verið meðal helstu brautryðjenda þessarar íþróttagreinar norðanlands, en Björn kynntist þessari íþrótt, er hann dvaldi í Þýskalandi snemma á fjórða áratug aldarinnar.

Nú þegar Jósep Flóvens er horfinn héðan sakna margir góðs vinar og góðs drengs. Við flytjum frú Lovísu og öllum öðrum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Frændur.