Friðrik Ingvar Stefánsson fv. bóndi

Friðrik Ingvar Stefánsson fv. bóndi  í Nesi í Haganeshreppi, Skagafirði, síðar á Siglufirði, f. 13.9.1897, d. 16.11. 1976.  (Friðrik Stefánsson Bakka á Siglfirði)

Fyrri kona hans var Guðný Kristjánsdóttir frá Knútsstöðum í Aðaldælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, f. 24. ágúst 1895, d. 9. september 1928

Seinni kona hans var Margrét Marsibil Eggertsdóttir f. í Sandgerði 23. apríl 1903 - d. 9. júlí 1985

Börn Friðriks og Guðnýjar Kristjánsdóttir

Börn Friðriks og Margrétar Marsibil, öll fædd í Bakka á Siglufirði:

  1. Guðný Una Friðriksdóttir f. 19. apríl 1931,-  d. 13. nóvember 1932.
  2. Guðný Ósk Friðriksdóttir f  6. júní 1932 -  d. 26. september 2015
  3. Guðbjörg Oddný Friðriksdóttir f. 10. apríl 1936.
  4. Eggert Ólafsson, f. 16. október 1942 - d. 24. júlí 2015. fóstursonur Margrétar og Friðriks, sonur Jónu Friðriksdóttur.
    ------------------------------------------------------
Friðrik Stefánsson í Bakka

Friðrik Stefánsson í Bakka

Mjölnir - 22. desember 1976

Friðrik Stefánsson f. 13. sept. 1897 - d. 26. nóvember 1976

Friðrik Stefánsson í Bakka andaðist í Sjúkrahúsinu 26. nóv. s.l. Hann hafði átt við meiri og minni vanheilsu að stríða síðustu mánuðina, enda orðinn lúinn og slitinn maður. Ég minnist Friðriks fyrst fyrir um 30 árum, þegar ég um tíma vann í Tunnuverksmiðjunni gömlu, hann var þar í hópi hinna starfsvönu verkamanna og síðar urðum við oftar starfsfélagar á öðrum vinnustöðum, síldarplönum og víðar.

Ég varð eins og flestir, sem honum kynntust, góður kunningi hans; hann var glaðlegur og bjó yfir kímni og hnyttni í tilsvörum, sem kom flestum í gott skap, en hafði þó sínar ákveðnu skoðanir og meiningu um hin alvarlegri mál. Meðan ég átti heima í verkamannabústöðunum við Hvanneyrarbraut, áttum við oft samleið og töluðum þá oft um landsins gagn og nauðsynjar, um hagsmunamálin og fleira því um líkt.

Skoðanir okkar féllu oftast saman í þeim efnum. Friðrik var góður verkmaður og kunni jafn vel til verka á sjó og landi; var sjómaður á yngri árum, en síðar beykir á ýmsum söltunarstöðvum og í tunnuverksmiðjunni flesta vetur. Hann mundi því vel tímana tvenna í atvinnuþróun þessa staðar og kunni frá mörgu að segja, bæði hvað hann sjálfan snerti á sjómennskuárunum, og einnig vinnubrögðum og breyttum aðstæðum verkamanna.

Frásagnir hans voru alltaf kryddaðar kímni og skopi, sem honum var svo lagið að beita í talsmáta sínum, áheyrendum til skemmtunar. Hann var frjálslyndur og róttækur í skoðunum og stéttvís verkamaður, en sóttist ekki eftir vegtyllum á félagsmálasviði. Lífsbarátta verkamannsins var oft ærið hörð á þeim árum, sem Friðrik hafði fyrir stærstum barnahópi að sjá; lífsþægindi voru ekki þekkt þá að ráði, hvorki á heimilum verkamanna né vinnustöðvum, og mæddu erfiðleikar þá ekki síður á húsmæðrum en hús bændum.

Eftirlifandi eiginkona Friðriks, Margrét Eggertsdóttir, dvelur nú á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, en hún hefur svo lengi ég man til átt við heilsufarserfiðleika að stríða, en samt reyndist hún bónda sínum stoð og stytta, svo sem hún frekast mátti. Margrét er indæl og vel gefin kona og myndarleg húsmóðir, meðan heilsa og kraftar leyfðu. Við hjónin vottum henni og öðrum vandamönnum innilega samúð.

Blessuð veri minning hins látna.
Einar M. Albertsson
------------------------------------

Friðrik Stefánsson, tengdafaðir minn var einstakur persónuleiki, góðmennskan í hámæli, samhliða stríðni og orðheppni og rökfastur gagnvart öllum sem nálægt honum voru, og ávalt brosandi, er við lá. Hann var einn af díxil mönnunum sem tók þátt í Síldarævintýrinu á sumrin, en vann svo við smíði síldartunna á veturna.

Hann var einnig starfsmaður SR um tímabil í Mjölhúsi SR46 - Hann átti lítinn árabát, sem hann lét borðhækka og ég kom fyrir í bátnum lítilli bensínvél sem ég hafði eignast fyrir lítið. Bátinn skírðum við Guðrún. Við, lögðum kola og rauðmaganet á vorin, skutum okkur fugl til matar, sem og ég einsmall, ásamt því að fara með fjölskyldu mína og vini einnig, í smá skemmtiferðir á vorin þegar logn og blíða hafði tekið við af stormasömum vetrum.

Og einnig stundaði Friðrik sem fyrrverandi bóndi, kindabúskap ásamt syni sínum Stefáni, sér til ánægju og matar, en saman áttu þeir nokkrar rollur. Þessum búskap vildi ég þó sem minnst af taka þátt í, en hjálpaði þó oft til við heyskapin, er tími gafst frá minni hefðbundnu vinnu.

Ein setning: Frábær maður og góður tengdafaðir.

Blessuð sé minning hans, Steingrímur Kristinsson.  

Friðrik Stefánsson og Margrét Marsibil Eggertsdóttir í Bakka á Siglufirði -- Indæl hjón og ástkær, tengdaforeldrar ljósmyndarans og eiganda síðunnar hér.

Friðrik Stefánsson og Margrét Marsibil Eggertsdóttir í Bakka á Siglufirði -- Indæl hjón og ástkær, tengdaforeldrar ljósmyndarans og eiganda síðunnar hér.