Kristín Pálína Ólafsdóttir

mbl.is 20. október 2012 | Minningargreinar

Kristín Ólafsdóttir fæddist á Siglufirði 24. júní 1932. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar á Siglufirði 7. október2012.

Foreldrar hennar voru Guðrún Halldórsdóttir, f. 10. sept. 1893, d. 23. maí 1970, og Ólafur Guðni Pálsson, f. 10. mars 1896, d. 1. apr. 1966.

Systkini hennar eru
Guðbjörg Hallgrímsdóttir, f. 1. apríl 1928, d. 8. okt. 1997 (sammæðra),
Konráð Páll Ólafsson, f. 11. júlí 1936, d. 25. maí 2011 (samfeðra), og
Sigríður Ólafsdóttir, f. 8. okt. 1937, d. 11. apr. 1986 (samfeðra).

Kristín giftist hinn 28. des. 1960 Ingólfi Steinssyni, hann lést 8. júlí 1981.
Börn þeirra eru:

 • 1) Guðrún Ólöf Pálsdóttir, f. 1955, maki Magnús Eiríksson og eiga þau þrjú börn og fimm barnabörn.

 • 2) Þröstur Ingólfsson, f. 1960, maki Guðfinna Skarphéðinsdóttir og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.

 • 3) Elínbjörg Ingólfsdóttir, f. 1964, maki Vigfús Markússon og eiga þau eitt barn.

 • 4) Esther Ingólfsson, f. 1972, maki Halldór Birgisson og eiga þau tvö börn.
Kristín Ólafsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Kristín Ólafsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Útför Kristínar verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, laugardaginn 20. október 2012, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma mín, loksins er þjáningum þínum lokið. Þú hefur fengið hvíldina sem þú varst farin að þrá. Ég á svo margs að minnast. Allar yndislegu stundirnar okkar þegar við komum á Sigló og öll símtölin okkar á kvöldin. Það voru ekki mörg kvöld sem við spjölluðum ekki saman. Þér fannst svo gaman og gott að fá fréttir af okkur Halldóri og ömmustelpunum þínum, Á

stu Björk og Bjarkeyju Líf. Í samtölunum okkar sagði ég þér frá því hvað þær voru að sýsla í skólanum og tómstundunum og ekki leið sá dagur að þú spyrðir ekki um Halldór og hvernig gengi á sjónum hjá honum.

Þú vildir fylgjast eins vel með okkur og þú mögulega gast. Ég fann hvað það var þér mikils virði að fá að fylgjast með á þennan hátt þar sem þú gast ekki komið til okkar, þetta var það sem komst næst því.

Þegar við komum í heimsókn í fjörðinn okkar fagra, var brunað beint á sjúkrahúsið til þess að knúsa ömmu Stínu. Oft var fartölvan með í för og þá gátum við sýnt þér myndir sem við fjölskyldan höfðum tekið. Þá gast þú séð með eigin augum hvað við fjölskyldan höfðum verið að fást við, fjöruga göngutúra með hundinn okkar Geysi eða spennandi og skemmtilega fótboltaleiki hjá Bjarkeyju Líf.

Í þessum Sigló-heimsóknum áttum við yfirleitt kvöldin tvær einar saman og þá gátum við spjallað og horft á sjónvarpið sem var þér afar kært að geta fylgst með. Þér fannst best ef sjónvarpsefnið var íslenskt og uppáhaldsþátturinn þinn og okkar beggja var Útsvar. Við sátum mörg kvöldin og horfðum saman á ýmsa þætti ef ég var í bænum, en annars horfðir þú á þá með Gunnólu. Mikið sem ég á eftir að sakna þín og allra yndislegu stundanna og símtalanna okkar, en ég veit að nú líður þér vel og pabbi tekur vel á móti þér. Ég mun hlýja mér við allar góðu minningarnar um þig.

Takk fyrir allt, elsku mamma mín. Ég kveð þig með þessu ljóði:

 • Er held ég enn á æskuslóð
 • úti er napurt og sól er sest
 • og er nóttin skellur á
 • verð ég magnlaus í myrkrinu
 • og minning þín er sterk sem bál.

 • Ó hve sárt ég sakna þín
 • sem lýstir mér inn í ljóðaheim
 • og lífs mér sagðir sögur
 • um landið okkar ljúfa
 • og lífsins leyndarmál.

 • En morgundaggar ég fer á fund
 • og finn þar huggun í dalsins kyrrð
 • og minningarnar lifna við
 • um sveitina, fólkið og fjöllin
 • sem fylgdu þér hvert fótmál.
 • Hvíl í friði, elsku mamma.

Þín dóttir, Esther.
--------------------------------------------

Elsku besta mamma mín hefur nú kvatt þennan heim. Orð eru fátækleg á þessari stundu. Mamma hefur alla tíð verið stór hluti af lífi mínu. Það eru fáir dagar sem við mamma höfum ekki notið samveru hvor annarrar nú seinni ár. Það er ákveðið tómarúm sem skapast hjá mér við fráfall móður minnar. Þessu tómarúmi finn ég mest fyrir á kvöldin, en það voru þær stundir sem ég eyddi með móður minni þar sem hún lá á sjúkrahúsinu sl. 15 ár.

Veikindin tóku sinn toll en hún barðist hetjulega og var ekki tilbúin að yfirgefa okkur fyrr en nú. Hún var upptekin af því að fylgjast með öllum afkomendum sínum og þegar ég gekk inn á stofuna hennar á kvöldin var fyrsta spurningin alltaf hvort ég hefði heyrt í einhverjum. Þá átti hún við fjölskylduna. Það gaf henni mikið að fá fréttir af krökkunum, hversu lítið sem það var. Það má eiginlega segja að hún hafi upplifað heiminn síðustu ár í gegnum okkur börnin og barnabörnin.

Hún fylgdist vel með öllum og var vel inni í því sem var að gerast hjá þeim. Afmæli voru t.d. nokkuð sem hún gleymdi aldrei, hvort sem það var hjá börnunum hennar eða langömmubörnum. Það eru forréttindi að fá að hafa mömmu sína næstum því í næsta húsi þegar maður er að ala upp börn og vinna úti. Þessara forréttinda naut ég og börnin mín líka. Þau voru mikið í pössun hjá ömmu og afa meðan hann var á lífi.

Stundum urðu þær stundir sem krakkarnir áttu að vera í pössun lengri en þær áttu að vera, aðallega hjá elsta barninu mínu. Það kom ósjaldan fyrir, þegar við hjónin vorum að sækja dóttur okkar, að hún vildi ekki koma með heim, það var svo gott að vera hjá ömmu og afa. Það gekk meira að segja svo langt að hún gerði sér upp veikindi í fótum til að mega sofa hjá ömmu og afa, það var jú ekki hægt að labba heim svona fótalúin!

Síðasta árið hennar í leikskóla samdi hún við afa sinn, sem þá var orðinn veikur, um að vera hjá þeim í pössun frekar en í leikskólanum. Synir mínir voru líka mikið í pössun eftir skóla hjá ömmu sinni. Það var notalegt að geta komið til ömmu og fengið hressingu eftir skóla og horfa á sjónvarpið. Síðustu árin sem móðir mín dvaldi heima hjá sér gerði heilsuleysið vart við sig. Hún átti erfitt með að komast ferða sinna og reyndi ég þá eins og ég gat að létta undir með henni. Í nokkur ár fór ég til hennar eftir vinnu og tók hana með á rúntinn um bæinn og svo heim til okkar í mat.

Þetta gaf henni mikið og hún varð ein af heimilisfólkinu á okkar heimili. Það kom líka fyrir að hún kæmi til okkar, með systkinum mínum, í sumarbústaðinn okkar um helgar. Hún hafði unun af því að breyta um umhverfi og fá að fylgjast með krökkunum busla í heita pottinum og skoða sig um í sveitinni. Með þessum orðum kveð ég elskulega móður mína og þakka henni allar samverustundirnar. Einnig vil ég þakka læknum, hjúkrunarfræðingum og öllu starfsfólki við Heilbrigðisstofnunina á Siglufirði fyrir frábæra umönnun móður minnar. Einnig þakka ég þeim fyrir skilning, þolinmæði og sveigjanleika vegna heimsókna minna utan hefðbundinna heimsóknartíma.

Guðrún Pálsdóttir.
------------------------------------------------

Mig langar í örfáum orðum að minnast Kristínar tengdamóður minnar eða Stínu eins og hún var alltaf kölluð. Stína var ein af þessum kjarnakonum sem fæddar eru á fyrri hluta síðustu aldar. Hún ólst upp í síldarbænum Siglufirði. Í uppvexti sínum kynntist hún blómaskeiði því sem síldin færði bæjarbúum og sjálf stóð hún ásamt hundruðum kvenna á síldarplaninu og saltaði í tunnur. Þegar síldin hvarf og blómaskeiðið rann sitt skeið varð henni ljóst að lífið er ekki alltaf dans á rósum.

Þegar við Guðrún hófum okkar búskap saman, í Reykjavík árið 1973, tókum við fljótlega þá ákvörðun að flytja til Siglufjarðar. Mér varð það fljótt ljóst að það voru gæfuspor fyrir okkur ungu skötuhjúin. Næstu árin sem á eftir fylgdu voru þau hjónin, Stína og Ingólfur, okkar stoð og stytta í uppeldi barna okkar. Þau voru alltaf reiðubúin að passa og hugsa um börnin þegar á þurfti að halda.

Eftir að tengdafaðir minn lést árið 1981 eyddi Stína æ meiri tíma með okkur fjölskyldunni. Við eigum nú margar ánægjulegar minningar frá þeim tíma. Stína var lífsglöð og kát þrátt fyrir að heilsan væri ekki alltaf góð og hún kæmist ekki allra ferða sinna án aðstoðar. Það var aðdáunarvert að sjá af hversu miklu æðruleysi og jafnaðargeði hún tók því að þurfa að vera rúmföst inni á spítala síðustu æviárin. Guðrún var hennar stoð og stytta í þeirri raun, heimsótti hana daglega og stytti henni stundir. Við Stína áttum ávallt góð samskipti og þeirra minnist ég nú með þakklæti og gleði í huga. Ég vil að lokum þakka Stínu samfylgdina.

Magnús Eiríksson.
----------------------------------------------------

Í dag kveð ég elsku ömmu mína. Amma var ein af lykilmanneskjunum í lífi mínu á mínum yngri árum. Ég var mikið í pössun hjá henni og afa, á meðan hann var á lífi, og svo seinna bara hjá ömmu. Þegar ég var byrjuð í skóla var það skylda mín að fara alltaf beint heim til ömmu og láta vita af mér, skila töskunni og svo mátti ég fara og leika við vini mína. Amma kenndi mér margt af því sem ég kann í dag; söngva, vísur, spil og kapla og gömlu góðu siðina eins og sláturgerð og laufabrauðsbakstur.

Hún var mikil spilamanneskja og eyddi ófáum dögum í eldhúsinu að leggja kapal og spila við okkur krakkana. Hún fór líka á milli húsa til vinkvenna sinna til að spila og spjalla. Amma var vel inni í öllum þjóðfélagsmálum enda hlustaði hún mikið á útvarp og horfði mikið á sjónvarp. Hún fylgdist vel með öllum sápuóperum og lifði sig inn í þær. Þetta stytti daginn mikið hjá henni sérstaklega síðustu árin hennar heima, þegar hún fór að fara minna út vegna heilsuleysis. Það var gaman að ræða við ömmu um öll heimsins mál þegar maður fór að komast til vits og ára.

Eftir að ég fluttist suður töluðum við oft saman í síma og gat ég spjallað við hana klukkutímum saman. Hún var oftast léttlynd og gat hlegið að vitleysunni í manni. Þannig hélt amma sambandi við umheiminn síðustu árin sem hún bjó heima, í gegnum síma. Hún gat eytt mörgum klukkutímum á dag í símanum þar sem hún talaði við vinkonur og ættingja. Þannig fengum við hin svo fréttir af stórfjölskyldunni.

Það einkenndi ömmu að hún þurfti alltaf að vita af sínum nánustu og vildi hafa þá sem næst sér. Hún átti það til að vera hrædd um okkur og sérstaklega ef við vorum að þvælast eitthvað á milli landshluta eða út fyrir landsteinana. Þetta fylgdi henni alla tíð og ef við vorum að ferðast þurfti alltaf að láta hana vita þegar allir voru lentir heilu og höldnu á áfangastað. Síðustu árin bjó amma á sjúkrahúsinu á Siglufirði. Líkaminn var búinn en hugsunin var skýr. Það gat vissulega tekið á hana að geta ekki gert hlutina sjálf og þurfa að reiða sig á aðra með alla hluti. Til að byrja með hélt ég áfram að tala við hana í síma meðan hún bjó á sjúkrahúsinu en svo minnkaði það smám saman. Léttleikinn og skrafgleðin létu undan.

Það er ekkert sældarlíf að eyða dögunum föst í rúminu jafnvel þótt maður hafi útvarpið og sjónvarpið til að stytta sér stundir. Amma átti barnaláni að fagna og vorum við börnin dugleg að heimsækja hana þegar við höfðum tækifæri til. Enginn var þó eins duglegur að sinna henni og móðir mín, elsta barnið hennar, sem fór til hennar daglega og stytti henni stundir. Allt fram á síðasta dag var amma vel með á nótunum. Hún mundi alltaf eftir öllum afmælum afkomenda sinna og var mjög umhugað um að afmælisgjöf frá henni kæmist til skila enda var amma gjafmild með eindæmum.

Það er huggun okkar harmi gegn að vita að nú er amma laus við kvalirnar sem lúinn líkaminn mátti þola. Vonandi er hún nú komin á góðan stað þar sem hún getur haldið áfram að fylgjast með okkur úr fjarlægð.

Hulda I. Magnúsdóttir.
-----------------------------------------------------

Við kveðjum hér elsku ömmu Stínu okkar með miklu þakklæti og minningum í hjarta okkar sem geymdar verða ævilangt.

 • Amma kær, ert horfin okkur hér,
 • en hlýjar bjartar minningar streyma
 • um hjörtu þau er heitast unnu þér,
 • og hafa mest að þakka, muna og geyma.
 • Þú varst amma yndisleg og góð,
 • og allt hið besta gafst þú hverju sinni,
 • þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,
 • og ungar sálir vafðir elsku þinni.
 • Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,
 • þær góðu stundir blessun, amma kæra.
 • Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá
 • í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Við söknum þín sárt. Hvíl í friði, elsku besta amma okkar.

Ásta Björk Halldórsdóttir og Bjarkey Líf Halldórsdóttir.
---------------------------------------------------------------------------

Elsku amma Stína. Megi Guð blessa minningu þína. Ég var mjög lánsamur að eiga þig fyrir ömmu, en þú varst mikil kjarnakona og reyndist mér afar vel. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín á Hólaveginn og heyra skemmtilegar sögur sem oftast voru sagðar við eldhúsborðið meðan við mauluðum eitthvert góðgæti og mamma setti í þig rúllur. Þaðan á ég margar góðar minningar.

Man alltaf eftir því hvað þú dýrkaðir og dáðir Hallbjörn Hjartarson, auk þess sem þættirnir Dallas, Glæstar vonir og Nágrannar skipuðu stóran sess í lífi þínu og það má segja að sá tími dagsins hafi verið þér heilagur. Stundum fengum við systkinin að fara upp á háaloft og ég man hvað mér þótti það spennandi og jafnvel smá dularfullt. Þar fengum við að skoða herbergið sem pabbi hafði verið í ásamt fullt af gömlu dóti.

Einnig man ég vel eftir því að hafa hlustað á Fugladansinn á 45 snúninga plötu sem spiluð var á spilara sem var í herberginu inn af ganginum á neðri hæðinni. Ég var á sextánda ári þegar þú varst flutt út á sjúkrahús og síðan eru liðin 14 ár. Það má í raun segja að það sé kraftaverk að þú skyldir ná því að verða áttræð núna í sumar og það lýsir því vel hversu mikil hetja þú varst. Eftir að ég kynntist Dísu þá komum við reglulega til að heilsa upp á þig ef við vorum stödd fyrir norðan á Sigló. Þú tókst henni mjög vel og núna í sumar eignuðumst við litla stúlku, hana Védísi Bellu. Ég er afar þakklátur að þú skyldir fá tækifæri til að kynnast henni. Ég lýk orðum mínum á sálmi sem mér finnst eiga vel við.

 • Lækkar lífdaga sól.
 • Löng er orðin mín ferð.
 • Fauk í faranda skjól,
 • fegin hvíldinni verð.

 • Guð minn, gefðu þinn frið,
 • gleddu og blessaðu þá,
 • sem að lögðu mér lið.
 • Ljósið kveiktu mér hjá.

(Herdís Andrésdóttir)

Jón Óðinn Reynisson.
-----------------------------------------------------

Elsku amma mín. Takk fyrir allar stundirnar sem við höfum átt saman frá því ég var lítill strákur að hífa mig upp í gluggakistuna hjá þér til að sjá út á götuna. Takk fyrir allar stundirnar þangað til ég heimsótti þig síðast með litla strákinn minn 23. september sl. Takk fyrir að passa mig svona mikið þegar ég var lítill. Takk fyrir að taka alltaf svona vel á móti mér. Takk fyrir að vera alltaf svona góð og þolinmóð við mig.

Takk fyrir að syngja fyrir mig Guttavísur og öll hin lögin. Takk fyrir að leyfa mér að gista stundum hjá þér. Takk fyrir að gefa mér súkkulaði, kex og bugles þegar ég vildi. Takk fyrir að horfa alltaf á stundina okkar og Tomma og Jenna með mér. Takk fyrir að leyfa mér alltaf að vinna í olsen olsen og veiðimanni. Takk fyrir alla jóla- og afmælispakkana. Takk fyrir að leyfa mér að koma með þér í heimsóknir. Takk fyrir að taka alltaf vel á móti mér og Bjöggu þegar við heimsóttum þig á sjúkrahúsið.

Takk fyrir öll skiptin sem þú ljómaðir þegar þú sást börnin okkar. Takk fyrir áhugann sem þú sýndir börnunum okkar. Takk fyrir hvað þú varst þolinmóð gagnvart látunum í honum Þorra okkar. Takk fyrir að leyfa Hönnu Guðrúnu að liggja hjá þér í rúminu. Takk fyrir allar minningarnar, kærleikann og samverustundirnar. Takk fyrir að hafa verið amma mín og að þykja alltaf vænt um mig. Takk fyrir allt sem ekki er þegar komið. Takk, takk, takk og ég elska þig amma mín.

Ingólfur Kristinn Magnússon.
------------------------------------------------------

Elsku amma.

Það er skrítið að hugsa til þess að nú sért þú farin frá okkur. Ég man þegar ég var að koma í heimsókn til þín á Hólaveginn þegar ég var smástelpa, þá áttir þú alltaf til kóngajarðarberjabrjóstsykur sem þú varst með í hvítri skál inni í stofu og mér þótti hann svo góður. Einnig fannst mér mikið sport að fá að fara upp á háaloft hjá þér og skoða herbergið sem pabbi minn átti þegar hann var lítill. Stundum fékk ég að fara í geymsluna og skoða allt dótið sem var þar og mér þótti það mjög spennandi.

Það var alltaf fastur liður þegar ég kom norður að fara í heimsókn til þín á sjúkrahúsið. Þú varst ótrúlega sterk og sýndir það árið 2009 þegar þú náðir þér upp úr veikindunum og ég var viss um að þú myndir gera það aftur. Þú varst alltaf jafn ánægð þegar ég, Kári og Sara Björk komum til þín í heimsókn og við gátum spjallað um allt og ekkert. Eitt sinn kom ég með iPadinn til þín og sýndi þér fullt af myndum af Söru Björk og þú skildir ekkert hvernig ég gæti verið að sýna þér þetta í gegnum „plattann“ eins og þú kallaðir það.

Núna ertu komin á góðan stað og laus við alla verkina sem eru búnir að hrjá þig í mörg ár og ég veit að þér líður vel.

 • Kallið er komið,
 • komin er nú stundin,
 • vinaskilnaðar viðkvæm stund.
 • Vinirnir kveðja
 • vininn sinn látna,
 • er sefur hér hinn síðasta blund.
 • Margs er að minnast,
 • margt er hér að þakka.
 • Guði sé lof fyrir liðna tíð.
 • Margs er að minnast,
 • margs er að sakna.
 • Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Takk fyrir allt, elsku amma.  Þín Kristín Inga.
----------------------------------------------------------------

HINSTA KVEÐJA
Elsku langamma, takk fyrir allt á þessum stutta tíma sem ég hafði með þér.

 • Vertu yfir og allt um kring
 • með eilífri blessun þinni,
 • sitji Guðs englar saman í hring
 • sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þín langömmustelpa, Sara Björk.