Kristine Þorsteinsson

mbl.is 17. ágúst 2001 | Minningargreinar   

Kristine Þorsteinsson fæddist í Alversund í Noregi 26. júlí 1912. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 7. ágúst síðastliðinn. Foreldrar Kristine voru Håkon Glatved-Prahl, f. 1875, d. 1958, og Martha Glatved-Prahl, f. 1891, d. 1973, fædd Nordhagen. Systkini Kristine eru Nanna Ebbing, látin, Marie Weltzin, Wenche Holm og Håkon Glatved-Prahl.

Kristine giftist 26. júlí 1935 Ólafi Þ. Þorsteinssyni lækni, f. 19. ágúst 1906, d. 21. maí 1989. Börn þeirra eru:

 • 1) Helga Ólafsdóttir bóndi á Höllustöðum, f. 30. október 1937, d. 23. maí 1988, gift Páli Péturssyni, alþingismanni og félagsmálaráðherra, seinni kona Páls er Sigrún Magnúsdóttir borgarfulltrúi.

Börn Helgu og Páls eru:

a) Kristín Pálsdóttir bóndi á Höllustöðum, sambýlismaður hennar er Birkir H. F. Freysson,
elsti sonur Kristínar er
Ólafur Þ Þorsteinsson og Kristine Þorsteinsson

Ólafur Þ Þorsteinsson og Kristine Þorsteinsson

 • Helgi Páll Gíslason og
  börn Kristínar og Birkis eru
 • Ólafur Freyr,
 • Hulda Margrét og
 • Bragi Hólm,

b) Ólafur Pétur verkfræðingur, kvæntur Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur,
dætur þeirra eru
 • Helga Kristín,
 • Hildur Þóra 
 • Katrín Unnur 

c) Páll Gunnar forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sambýliskona hans er Signý Marta Böðvarsdóttir,
sonur Páls Gunnars úr fyrri sambúð er
 • Sigurður Páll.

2) Hákon Ólafsson forstjóri Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, f. 21. september 1941, kvæntur Sigríði Rögnu Sigurðardóttur fulltrúa hjá RÚV.
Börn Hákonar og Sigríðar Rögnu eru: 
 • a) Kristín Martha verkfræðingur,
 • b) Sigurður Óli hagfræðingur, sambýliskona hans er Sveinbjörg Jónsdóttur, þeirra börn eru Sigríður Ragna og Jón Helgi og
 • c) Hrefna Þorbjörg nemi.

Kristine stundaði nám í hjúkrunarfræði við Haukeland sjúkrahúsið í Bergen, þar sem hún kynntist Ólafi eiginmanni sínum árið 1933, en hann var þar við framhaldsnám í læknisfræði. Árið 1936 fluttu þau til Íslands og bjuggu fyrst í Reykjavík, en fluttu í ársbyrjun 1942 til Siglufjarðar, þar sem Ólafur var yfirlæknir um áraraðir. Kristine var virk í félags- og góðgerðarmálum á Siglufirði, meðal annars félagi í Kvenfélagi sjúkrahússins og Systrafélagi Siglufjarðarkirkju. Hún sat í sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju um árabil og var formaður hennar lengst af. Kristine fluttist til Reykjavíkur haustið 1989.

Útför Kristine fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Yndisleg kona er horfin af heimi. Ég átti því láni að fagna að eiga hana að tengdamóður. Kynni okkar stóðu næstum hálfa öld og bar aldrei skugga á elskusemi hennar í garð minn eða minna.

Kristín var af norsku bergi brotin. Hún átti til mikils hæfileikafólks að telja þar sem bæði voru listamenn, vísindamenn og athafnafólk í frændgarði.

Faðir hennar Håkon var athafnamaður og hvers manns hugljúfi. Móðirin Martha var glæsilegur skörungur og félagsmálafrömuður. Móðurfaðir Kristínar var Johann Nordhagen, listmálari og grafíker í Ósló, en meðal móðursystkina má nefna Aslaugu Nordhagen kunnan listmálara, Rolf Nordhagen prófessor í grasafræði við Óslóarháskóla og Olav Nordhagen verkfræðing sem stóð fyrir endurgerð Niðarósdómkirkju og er grafinn þar fyrir kirkjudyrum.

Kristín ólst upp við góð kjör á óðali föðurættar sinnar í Alversund, í skjóli mikilhæfra foreldra og í hópi mannvænlegra systkina. Að loknu námi á heimaslóðum nam hún við klausturskóla í Belgíu og hóf síðan hjúkrunarnám. Á Haukeland sjúkrahúsinu í Bergen hitti hún ungan íslenskan lækni Ólaf Þ. Þorsteinsson sem þar stundaði framhaldsnám. Þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband 26. júlí 1935. Að lokinni dvöl í Kaupmannahöfn og Vínarborg, en þar nam Ólafur einnig, fluttu þau til Íslands og Ólafur hóf störf á Landspítalanum.

Það hafa verið mikil viðbrigði fyrir Kristínu að yfirgefa fólk sitt og ættland og flytja í framandi umhverfi, en lipurð hennar og ljúf skapgerð varð til þess að fólk Ólafs varð strax hennar fólk og henni var hvarvetna vel fagnað.

Það var einkennandi fyrir feril Kristínar að hvar sem hún kom eignaðist hún tryggðarvini enda laðaði hún fólk að sér með viðmóti sínu og glæsileik.

Heimili þeirra Ólafs varð fljótlega mikil miðstöð Norðmanna sem hér bjuggu og eftir að norska herdeildin kom hingað í stríðinu urðu ýmsir úr þeim hópi vinir þeirra hjóna, svo sem skáldið Nordal Grieg.

Árið 1942 fluttu þau til Siglufjarðar þar sem Ólafur tók við læknisstarfi. Gegndi hann starfi yfirlæknis til sjötugs og hafði lækningastofu nær því til æviloka.

Heimili þeirra stóð á Hólavegi 4. Þar ríkti gestrisni og hlýja og þar var ætíð gott að koma.

Kristín studdi mann sinn í erilsömu starfi og skapaði fjölskyldunni gott heimili. Hún var frábær húsmóðir og hannyrðakona og prýddi heimili sitt og sinna með fögrum saumaskap.

Kristín tók mikinn þátt í félagsstörfum, m.a. var hún mikill drifkraftur í Kvenfélagi Sjúkrahúss Siglufjarðar en það félag safnaði fé til tækjakaupa fyrir Sjúkrahúsið og til að prýða það og hlynna að sjúklingum. Þá tók hún virkan þátt í safnaðarstarfi, sat lengi í sóknarnefnd og var formaður hennar um allmörg ár. Lét hún sér mjög annt um Siglufjarðarkirkju og átti mikinn þátt í að prýða hana.

Börn þeirra tvö, Helga fædd 1937 og Hákon fæddur 1941, uxu þar úr grasi og áttu ánægjulega æsku. Samheldni og ástúð ríkti með þeim alla tíð og gagnkvæm tryggð foreldra og barna.

Ég kom fyrst á heimili þeirra 1955 sem verðandi tengdasonur. Mér var tekið svo sem ég gat framast óskað þá og ætíð síðan.

Mér var lærdómsríkt að kynnast þeim hjónum, bæði voru þau samvalin. Ólafur vitur og dulur skapfestumaður, Kristín glaðvær og bætti allt í kringum sig með lipurð og elskusemi.

Síðan liðu mörg og góð ár. Samgangur var mikill milli þeirra á Siglufirði og okkar á Höllustöðum. Framan af dvöldum við ætíð um jól hjá þeim á Siglufirði en þegar börnum okkar Helgu fjölgaði komu þau til okkar um jól og áramót. Einnig var það föst venja að Kristín og Ólafur komu til okkar á hverju ári í mars og dvöldu í hálfan mánuð. Ólafur las þá skipulega læknatímaritið en Kristín sinnti barnabörnunum sem öll fengu mikla ást á afa og ömmu.

Það var okkur öllum mikið reiðarslag þegar Helga þurfti að berjast við krabbamein. Hún lést vorið 1988 og þá var harmur í húsum. Annað áfall kom ári síðar en þá lést Ólafur. Kristín var nú orðin ein eftir á Siglufirði.

Þótt á Siglufirði hefði hún fest sterkar rætur urðu kringumstæður til þess að hún flutti suður. Bjó hún fyrst á Grandavegi en eftir að hún varð fyrir áfalli dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Eir og naut þar góðrar umönnunar. Afkomendur hennar sýndu henni einstaka ræktarsemi og henni var mikil gleði og tilbreyting að árlegum utanlandsferðum með Hákoni syni sínum og Sigríði Rögnu Sigurðardóttur konu hans.

Á þessu sumri var áform þeirra að fara til Noregs, heimsækja æskustöðvar hennar og ættingja og sigla síðan norður fyrir Noreg. Sú för var ekki farin. Kristín var kvödd til annarrar ferðar. Heilsu hennar hrakaði og hún lést 7. ágúst.

Í huga okkar aðstandenda hennar ríkir þakklæti og minning mun lifa um góða, skemmtilega og elskulega konu.

Páll Pétursson.
-------------------------------------------------

Kynni okkar Kristine hófust fyrir rúmum 11 árum þegar ég giftist dóttursyni hennar, Ólafi Pétri, sumarið 1990. Ég kunni strax einkar vel við Kristine eða ömmu Sigló eins og hún var kölluð. Hún var ávallt létt í lund, átti auðvelt með að ræða við fólk og gladdi þá sem hún hafði samskipti við með spaugsemi sinni.

Við hjónin bjuggum á fyrstu árum hjúskapar okkar í Kaupmannahöfn, en komum til Íslands í sumar- og jólaleyfum. Fyrsta verk Óla Péturs eftir komuna til landsins var ávallt að heimsækja ömmu sína á Grandaveginn þar sem hún átti þá heima, enda voru þau mjög náin. Hún fylgdist vel með daglegum framgangi litlu fjölskyldunnar ytra og var stöðugt í huga okkar. Hún tók alltaf einkar vel á móti okkur er við komum til Íslands og nutum við samverustundanna með henni. Sumarið 1991 áttum við því láni að fagna að dvelja með ömmu Sigló á æskustöðvum hennar í Alversund við Bergen, þar sem haldið var ættarmót í tilefni 100 ára fæðingarafmælis móður hennar. Hittum við þá systkini hennar fjögur og fjölskyldur þeirra. Voru móttökurnar í Noregi frábærar og eigum við ljúfar minningar frá þessum dögum og er það ekki síst ömmu Sigló að þakka.

Haustið 1993 fluttum við til Íslands og heimsóknirnar á Grandaveginn urðu tíðari. Elsta dóttir okkar hafði sérlega gaman af því að hitta langömmu sína og bað oft pabba sinn um að komið yrði við hjá henni á leiðinni heim úr leikskólanum. Sumarið 1994 fékk Kristine áfall sem breytti tilveru hennar. Hún bjó á hjúkrunarheimilinu Eir eftir það. Þrátt fyrir áfallið hélt amma Sigló góða skapinu. Hún fann leið til þess að eiga tjáskipti við fólkið sem hún umgekkst og var óspör á bros og uppörvandi látbragð. Náði hún á þann hátt góðu sambandi við umhverfi sitt og þá ekki síst við langömmubörnin sem hændust að henni.

Ég geymi hjá mér minninguna um ömmu Sigló, dugmikla konu, sem kunni að njóta líðandi stundar og sem gladdi samferðafólk sitt með lífsgleði og hlýju viðmóti.

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir.
----------------------------------------------------

Siglfirðingar voru lánsamir þegar Ólafur Þ. Þorsteinsson varð sjúkrahúslæknir á Siglufirði árið 1942 og fluttist til bæjarins ásamt eiginkonu sinni, Kristine Glatved-Prahl, og börnunum Helgu og Hákoni. Þessi glæsilegu hjón unnu Siglufirði og vildu hag byggðarinnar sem mestan. Þetta skynjuðu og reyndu Siglfirðingar og veittu þeim skýran þakklætisvott að verðleikum er Ólafur var gerður heiðursborgari á árinu 1976 þegar hann lét af störfum sem yfirlæknir sjúkrahússins.

Læknishúsið á Hólavegi 4 þótti stórt á sínum tíma og var reisulegt og bar sérstakan virðuleikablæ. Heimilið var fallegt og þar bjó menntað og víðreist fólk sem hafði breiða, alþjóðlega sýn á lífið og tilveruna. Ég var einn þeirra sem áttu því sérstaka láni að fagna að alast upp í næsta nágrenni við fjölskylduna á Hólavegi 4 og var á uppvaxtarárunum tíður gestur á heimili þeirra. Þangað þótti okkur strákunum, félögum Hákonar, gott að koma og við nutum glaðværðar og einstakrar gestrisni húsmóðurinnar, Kristine. Hún virtist alltaf geta gefið sér tíma til að spjalla við okkur um hvaðeina, leiðbeina okkur í leik, jafnvel taka þátt í honum með okkur og ekki gleymdi hún að bera í okkur gómsætar veitingar. Ekki skemmdi norskur hreimur hennar fyrir. Hann lét alltaf sérlega blíðlega í eyrum.

Kristine átti rætur að rekja til bóndabæjar við Alversund, skammt norðan við Bergen í Noregi, og fyrir tilstuðlan hennar fór ég þangað til heimsóknar í minni fyrstu utanlandsferð, þá 15 ára gamall, með Hákoni syni hennar. Þar bjuggu á þeim tíma foreldrar Kristine, Håkon Gladved-Prahl og móðir hennar, Martha, auk sonar þeirra Håkon ásamt fjölskyldu hans. Á bænum var auk landbúnaðar rekin kexverksmiðja sem mér þótti ekki skemma fyrir búskapnum. Martha móðir Kristine er mér sérstaklega minnisstæð fyrir atorku sína og eljusemi sem ég kynntist nokkuð þegar hún fór með okkur í skoðunarferð um fjöll og firnindi Noregs komin nálægt áttræðu, að mig minnir. Og hún var stolt af því að vera norsk, það fann ég greinilega.

Kristine var líka stolt af því að vera af norsku bergi brotin, eins og henni var í blóð borið, og þær mæðgur, hún og Martha, voru vafalaust um margt líkar. En Kristine var jafnframt mikill og traustur Siglfirðingur og hún setti sannarlega svip sinn á fjörðinn. Á kveðjustund er mér ofarlega í huga þökk fyrir vináttu og tryggð Kristine við foreldra mína, einkum móður mína. Hún var einstök og verður seint fullþökkuð.

Ég flyt Hákoni og öðrum aðstandendum Kristine innilegustu samúðarkveðjur frá fjölskyldu minni.

Bogi Nilsson.
-------------------------------------------------

Að koma inn á heimili Kristine og Ólafs læknis á Siglufirði var alltaf bundið tilhlökkun og gleði. Þetta glæsilega heimili þeirra hjóna bar merki mikillar smekkvísi og menningaráhrifa annarra landa sem kallaði alltaf fram sérstaka stemmningu þegar komið var þar í heimsókn. Kristine, fædd og uppalin i Noregi, hafði tekið með sér muni og siði heiman frá sér sem minntu hana sterkt á sitt eigið heimili, enda sjaldan tækifæri á þeim tíma að hitta foreldra sína og systkini þegar um svo langan veg var að fara. Þótt hún talaði sjaldan um það saknaði hún þess alltaf undir niðri hversu langt var á milli þeirra og sjaldan tækifæri til að hitta fjölskylduna í Noregi. Hún hélt því alltaf góðu sambandi við þau með bréfaskriftum og fylgdist alla tíð vel með því sem systkinin og fjölskyldur þeirra höfðu fyrir stafni.

Þótt Kristine væri af norskum ættum var hún mikill Íslendingur í sér, eða kannski væri réttara að segja Siglfirðingur í sér. Hún starfaði af miklum krafti að margvíslegum líknar- og framfaramálum í bænum, sérstaklega eftir að börnin voru farin að heiman og meiri tími aflögu til annars en heimilisstarfa. Þegar hún tók sér eitthvað fyrir hendur voru hlutirnir teknir föstum tökum og sífellt leitað úrræða til að finna sem besta og skjótasta úrlausn allra mála, þótt sumum þætti bjartsýnin vera fullmikil á köflum. Hún átti líka mjög auðvelt með að umgangast fólk og fá það til liðs við sig þegar mikið lá við, enda fékk hún miklu áorkað með hjálp góðra samstarfsmanna.

Eftir að Kristine og Ólafur flytjast til Siglufjarðar er óhætt að segja að þau hafi sett svip sinn á bæinn hvort á sinn hátt. Þau voru að mörgu leyti mjög ólík, hann rólegur og frekar alvörugefinn, en hún glettin og fjörleg í fasi. Það var líka þessi blanda af alvöru og glettni, sem setti svip á heimilið og olli oft óvæntum og skemmtilegum uppákomum. Kristine hafði óskaplega gaman af að leika sér að skemmtilegum orðum og orðatiltækjum eða segja frá atburðum eða tiltækjum sem hún hafði heyrt eða verið sjálf þátttakandi í. Hún sagði líka skemmtilega frá og hafði ég alltaf jafngaman af sögunum þótt þær væru ekki alltaf nýjar af nálinni.

Á stundum fannst Ólafi hún ganga fulllangt í því sem hún tók sér fyrir hendur, en hafði þó undir niðri gaman af öllu saman, a.m.k. eftir á. Einhverju sinni voru þau á ferðinni milli Reykjavíkur og Siglufjarðar og stoppuðu við hótelið á Blönduósi. Fyrir utan stendur lítill hópur Grænlendinga og dettur Kristine þá í hug að það væri tilvalið að reyna að spreyta sig á þeim tveimur til þremur orðum sem hún hafði lært nýlega í málinu. Þetta voru kannski ekki þau fáguðustu orð sem finnast í grænlenskri tungu, en hún gat ekki setið á sér að prufa.

Ólafur bað hana fyrir alla muni að sleppa þessari vitleysu, en hún mátti til með að sjá hvernig til tækist. Eftir stutta stund heyrast mikil hlátrasköll og handapat frá Grænlendingunum sem skemmtu sér hið besta. Kristine var skemmtuninni og nokkrum grænlenskum orðum ríkari þegar hún kom til baka. Ólafur vildi aftur á móti sem fyrst hraða sér af stað áður en henni dytti eitthvað nýtt í hug.

Ólafur og Kristine voru mikið vinafólk foreldra minna og samgangur mikill. Ég átti því láni að fagna að vera í fóstri hjá þeim nokkrum sinnum þegar ég var stráklingur, stundum nokkrar vikur í senn yfir vetrartímann þegar foreldrar mínir voru fjarverandi úr bænum. Þetta voru alltaf skemmtilegir tímar, eitthvað nýtt uppi á teningnum á hverjum degi, sem við höfðum gaman af að rifja upp eftir á. Það kom líka fyrir að fleiri voru í vistun hjá þeim á sama tíma og gátu þá ærslin farið úr böndunum inn á milli svo að Ólafi varð nóg um, þótt hann léti annars fátt raska ró sinni.

Kristine var ættuð frá Alversund, norðan við Bergen í Noregi. Hún var hjúkrunarkona að mennt og starfaði við það á Haukeland-sjúkrahúsinu í Bergen þegar hún kynntist Ólafi Þ. Þorsteinssyni. Ólafur starfaði í Bergen sem læknir um eins árs skeið að loknu sérfræðinámi í Austurríki áður en hann fluttist heim til Íslands ásamt Kristine, en þau höfðu gift sig stuttu áður. Hún hafði oft gaman af að segja frá því hvernig þeirra fyrstu kynni bar að.

Hún hafði einhverju sinni þurft að leggjast inn á spítalann vegna smáaðgerðar. Í því sambandi hafði skurðlæknirinn haldið á henni í fanginu á milli herbergja. Henni fannst mikið til koma og hún fór að grennslast fyrir um hver þessi maður væri og fór eftir það að veita honum nánari athygli. Seinna komst hún að því að þetta var ekki algengt en þó ekkert einsdæmi, en þá höfðu þau fellt hugi saman og giftu sig síðan í Noregi áður en þau fluttu til Íslands um 1938. Eftir stutta viðdvöl í Reykjavík settust þau að á Siglufirði, þar sem þau bjuggu allan sinn búskap.

Eftir að Kristine fluttist til Íslands vann hún lítið við hjúkrunarstörf en helgaði sig alfarið heimilinu. Þau eignuðust tvö börn, Helgu, sem giftist Páli Péturssyni á Höllustöðum, og Hákon, sem er giftur Sigríði Rögnu Sigurðardóttur. Helga lést árið 1988 langt um aldur fram og var það þeim mikið áfall. Eftir fráfall Ólafs 1989 flytur Kristine til Reykjavíkur, en verður nokkru eftir það fyrir áfalli sem batt hana við hjólastól alla tíð síðan.

Við þetta áfall missti hún líka hæfileikann til að tjá sig með orðum, sem hafði verið henni svo mikilvægur alla tíð. Það urðu því alltaf þung spor að heimsækja hana á hjúkrunarheimilið Eir, þótt gaman væri að hittast og rifja upp liðna tíma og sjá hvernig glettnin ólgaði ennþá undir niðri. Vegna búsetu minnar í Bergen síðustu 15 árin hefur orðið langt á milli heimsókna en minningin lifir um kæra og eftirminnilega konu. Við Edda sendum ættingjum Kristine okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Hafliði Hafliðason, Bergen.
---------------------------------------------

"Hún hugsaði með hjartanu." Þessi orð voru viðhöfð um hana Kristine Þorsteinsson þegar ævi hennar, merkur æviferill, var rifjaður upp eftir andlát hennar 7. ágúst 2001.

Við hjónin vorum svo lánsöm að fá að kynnast Kristine og eiga með henni samfylgd síðustu tuttugu og fimm árin. Kynnin hófust þegar við héldum í fyrsta sinn til Siglufjarðar og heimsóttum Þormóðs ramma fagra fjörð. Það var fallegur haustdagur og fjörðurinn skartaði sínu fegursta. Staðurinn var sóttur heim með þann möguleika í huga að sækja um Siglufjarðarprestakall sem þá var laust til umsóknar ásamt nokkrum öðrum prestaköllum. Starfsfólk Siglufjarðarkirkju og sóknarnefndarfólk tók á móti okkur opnum örmum. Svo einstakar voru móttökurnar að það vafðist ekki fyrir okkur að Siglufjörður væri rétti staðurinn til að hefja starfsferil innan kirkjunnar.

Formaður sóknarnefndar þá og um mörg ókomin ár var Kristine Þorsteinsson en hún var ein af fyrstu konum hér á landi til að gegna stöðu formanns sóknarnefndar í svo fjölmennu prestakalli sem Siglufjörður var. Reyndist hún nývígðum og óreyndum prestinum traustur ráðgjafi.

Kristine sem var fædd í Alversundi í Noregi kom til Íslands eftir að hafa gengið að eiga Ólaf Þorsteinsson lækni sem hafði verið við framhaldsnám í Noregi en Ólafur var síðan ráðinn yfirlæknir við Sjúkrahúss Siglufjarðar. Eftir að þau hjón fluttu til Siglufjarðar helguðu þau staðnum krafta sína í nærri hálfa öld.

Það átti vel við Kristine að að búa á Siglufirði, sem um árabil var að svo mörgu leyti norrænn bær, þá er silfur hafsins mótaði allt atvinnulíf á staðnum. Kristine sem aldrei fór í manngreinarálit, var allra, ræddi gjarnan við menn á förnum vegi og mikið yndi hafði hún af því að ræða við samlanda sína.

Eitt aðalhugðarefni hennar var kirkjan hennar, Siglufjarðarkirkja, og safnaðarstarfið. Að málefnum kirkjunnar vann hún ávallt af heilum hug. Hún átti fastmótaða trú á þann sem kom og brúaði heimana, á þann sem kom til að gera lífið þess virði að því væri lifað. Með einstakri manngæsku sinni og glaðværð skapaði hún og mótaði farsælt líf hjá fjölskyldu sinni og hjá þeim er hún tengdist á leið sinni um lífsins braut.

Félagsmálastörfin vann hún af einstakri ræktarsemi og einlægni. Hún vann að uppbyggingu Sjúkrahúss Siglufjarðar með því að stofna og vera virkur þátttakandi í starfsemi Kvenfélags Sjúkrahúss Siglufjarðar. Einnig tók hún virkan þátt í starfsemi Systrafélags Siglufjarðarkirkju auk starfa sinna sem sóknarnefndarformaður.

Í kirkjunni átti hún sitt fasta sæti. Hún ræktaði trú sína og byggði hana upp. Orðin sem letruð eru á prédikunarstól Siglufjarðarkirkju er segja "Sá sem hefur soninn hefur lífið" voru henni hugleikin. "Verið gjörendur orðsins," segir önnur ritningargrein. Sá boðskapur varð að raunveruleika í öllu lífi Kristine. Það geislaði af henni og alls staðar sem hún fór lagði hún gott til málanna.

Aldrei mun líða úr minni þáttur hennar við að koma upp glæsilegu safnaðarheimili á lofti Siglufjarðarkirkju. Lítið vildi hún gera úr sínum þætti sem fyrr og var treg til að flytja ávarp við vígslu safnaðarheimilisins á 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar 1982. Hún vildi ekki láta á sér bera, vildi ekki láta athygli annarra beinast að sér. Til stóð að heiðra hana með æðsta heiðursmerki Íslendinga fyrir vel unnin störf að kirkju- og félagsmálum. Ekki vildi hún að sér yrði hampað á þann hátt og þakkaði því gott boð.

Það er ekki oflof að segja að Kristine hafi markað farsæl og blessunarrík spor með lífi sínu. Þáttur hennar og eiginmanns hennar, Ólafs yfirlæknis, er merkur í sögu Siglufjarðar. Þau voru bæði á sinn hátt sannir heiðursborgarar kaupstaðarins.

Guð blessi minninguna um hana Kristine. Við Elín biðjum Guð að blessa fjölskyldu hennar og þann söfnuð sem hún unni svo mjög, Siglufjarðarsöfnuð.

Vigfús Þór Árnason - Páll Pétursson.