Helga Ólafsdóttir bóndi á Höllustöðum

Tíminn - 28. maí 1988

Helga Olafsdóttir Fædd 30. október 1937 Dáin 23. maí 1988

Í dag er Helga Ólafsdóttir húsfreyja á Höllustöðum kvödd hinstu kveðju frá sóknarkirkju sinni að Svínavatni. Við sviplegt fráfall hennar verður syrgjendum og vinum stirt um stef, enda þótt helfregnin hafi ekki komið á óvart. Við undrumst enn þau örlög, sem því fólki eru sköpuð, sem hrifið er burt í blóma lífsins frá hálfnuðu verki.

En í eftirsjá okkar eftir þeirri samveru, sem við fórum á mis við, er þó gott að eiga einungis bjartar minningar um þá konu, sem háði sitt erfiða dauðastríð af sömu reisn og einkenndi hana alla ævi. Helga Ólafsdóttir átti því láni að fagna að flytjast úr föðurgarði með betra veganesti en almennt gerist. Í ljúfum uppvexti mótaðist jákvæð lífsafstaða hennar, siðferðisþrek og sjálfstraust, sem gerði henni kleift að gefa af sjálfri sér og eiga farsæl og frjó samskipti við annað fólk.

Helga Ólafsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Helga Ólafsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Hún ólst upp á menningarheimili, sem á allan hátt var veitandi gagnvart umhverfi sínu. Hún naut góðrar menntunar og ræktaði strax með sér þá innri menningu, sem best dugði á vegferð hennar. Að afloknu stúdentsprófi voru henni allir vegir færir og hún átti á flestu völ. Hún kaus að ganga á vit ævintýrisins gegn ríkjandi hefðum og venjum þess tíma. Ásamt brúðguma sínum valdi hún að ævistarfi atvinnugrein, sem þá þegar þótti dauðadæmd, en hefur samt sem áður verið fýsilegur kostur þeim, sem ekki sækjast eftir verðmætum, er mölur og ryð fá grandað.

Með þeirri ákvörðun sýndi hún kjark og sjálfstæði, sem ávallt átti eftir að einkenna hana. Við komu hennar þótti mér sem Blöndudalur víkkaði og breytti um svip. Hún tókst á við verkefni sín af dirfsku og dugnaði og ræktaði sinn garð af stakri ábyrgðartilfinningu. Fyrstu árin helgaði hún heimilinu alla krafta sína og uppskar að launum farsælt fjölskyldulíf og barnalán. Hún sigraðist á öllum erfiðleikum með þrautseigju og hugkvæmni og óx af hverri raun. Hún hafði farsæla umgengnishæfileika og persónutöfra, sem gerðu hana eftirsótta í hverjum félagsskap.

Hún átti jafn auðvelt með að blanda geði við landfeður sem almúgafólk og ekki varð séð, að hún gerði sér mannamun í því sambandi. Sakir réttlætistilfinningar sinnar hafði hún þó afdráttarlausar skoðanir á mönnum og málefnum og átti kjark og hreinskilni til að láta þær í ljósi. Auk forystuhæfilíka hafði hún einnig til að bera auðmýkt gagnvart almættinu og ræktarsemi, sem ljóslega birtist í starfi hennar í sóknarnefnd. Vart miðaldra stóð hún aftur frammi fyrir vali, er bóndi hennar var að hefja stjórnmálaferil sinn.

Hún kaus að hvetja hann til dáða og greiða veg hans, enda þótt það hefði í för með sér fjarvistir hans frá búinu, sem hún veitti forstöðu langtímum saman. Ötul gekk hún í þau erfiðisverk, sem hvað minnst eru metin á Íslandi, og sinnti þeim af sömu reisn sem öllu öðru, því þetta var hennar val. í mótvindi sem meðbyr varð hún bónda sínum sá bakhjarl sem mest og best dugði honum. Og nú er hún horfin úr vorum hópi. í hljóðri þökk er gott að geta tekið undir bróðurkveðju Heiðreks Guðmundssonar:

 • Oftast fórstu í fararbroddi,
 • flóknar þrautir gastu leyst.
 • Sjálfum þér með hug og höndum
 • hefur þú minnisvarða reist.

 • Þar er stíllinn stór í sniðum,
 • stafagerðin skýr og hrein.
 • - Því er ekki á þínu leiði
 • þörf að reisa bautastein.

Pétur Pétursson á Höllustöðum
-------------------------------------------------------------

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma, og að deyja hefur sinn tíma. . Að gráta hefur sinn tíma, og að hlæja hefur sinn tíma. Helga á Höllustöðum, ein úr 30 ára stúdentshópnum frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, er horfin úr þessum heimi. Mikill harmur er kveðinn að bónda hennar, Páli skólabróður okkar, því samfylgd þeirra var orðin löng, allt frá fyrstu árunum í MA, auk þess sem þau hjón voru samrýnd og samtaka, þótt bæði hefðu þau skoðanir sem þau létu í ljós óhikað.

Það var engin hálfvelgja á hlutunum á Höllustöðum frekar en kaffinu hennar Helgu. Gott var að koma að Höllustöðum og eiga þau að vinum, og þangað höfum við átt marga ferðina.

Helga Ólafsdóttir er fædd 30. október 1937, einkadóttir hjónanna Ólafs Þorsteinssonar yfirlæknis og Kristínar Þorsteinsson hjúkrunarkonu, fæddri Glatvedt-Prahl frá Alversund á Hörðalandi í Noregi, sem bæði lifa dóttur sína. Yngri er Hákon verkfræðingur í Reykjavík.

Helga gekk í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 17. júní 1958. 26. júlí 1959 gekk hún að eiga Pál Pétursson, bónda á Höllustöðum í Blöndudal, þar sem þau hafa síðan búið af dugnaði og myndarskap.

Helga og Páll eiga þrjú mannvænleg börn,

 • Kristínu, bónda á Höllustöðum, sem fædd er 1960,
 • Ólaf Pétur verkfræðing, sem stundar framhaldsnám í Kaupmannahöfn, fæddan 1962, og
 • Pál Gunnar, sem stundar háskólanám og fæddur er 1967.

Fyrst komum við að Höllustöðum sumarið 1959. Þá var Páll bóndi að byggja þeim bæ. Síðan höfum við komið að Höllustöðum marga ferðina. Undir haust 1973 komum við þangað sem oftar. Við höfðum það á orði við Helgu og Pál, hvort þau vantaði ekki kaupamann. Undir vor hringdi Helga til Akureyrar og spurði, hvort kaupamaðurinn gæti ekki komið í sauðburð þá um vorið. Eggert, sonur okkar, var síðan á Höllustöðum átta sumur samfleytt.

Segir það meira en mörg orð um heimilið á Höllustöðum. öll vor í maí fórum við að Höllustöðum og áðum í Bólugili, og í septemberlok sóttum við kaupamanninn í Blöndudalinn. Iðulega þess á milli lá leiðin til Höllustaða til i Helgu og Páls. Gott var þar að koma og gaman að ræða við þau hjón um menn og málefni. Þetta var ekki þegjandalegur hópur, og ekkert mannlegt var okkur óviðkomandi.

Gamansemi var Helgu eðlileg, og tal hennar var laust við allt víl. Hún var mikill uppalandi og hafði gott lag á börnum, aðsópsmikil og bjó yfir reisn alla tíð. Það er styrkur fyrir Pál að eiga nú mannvænleg börn og Helga Pál, son Kristínar, sem hann sjálfur kallaði ljós í húsi. Síðasti fundur okkar með þeim Helgu og Páli var í marsmánuði í Osló, þar sem þá var haldið þing Norðurlandaráðs, en á þau þing var Helga vön að fylgja manni sínum. Engan bilbug var á Helgu að finna. Hún tók þátt í öllu til jafns við aðra.

En vegir guðs eru órannsakanlegir. Helga hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir þeim sjúkdómi sem engum eirir. En kjarkur hennar var mikill. Hún var hetja til hinstu stundar. Helga var vinur vina sinna, og gott var að eiga hana að vini. Við þökkum þrjátíu ára vináttu og sendum Páli, börnunum, Ólafi og Kristine og Huldu, húsfreyju á Höllustöðum, kveðjur og vottum þeim dýpstu samúð okkar.

Kaupmannahöfn, 25. maí 1988 Gréta og Tryggvi.
-----------------------------------------------------

Lát hennar barst norður, þegar hvítasunnuhátíð var að ljúka og Siglfirðingar að ljúka fyrsta hluta 70 ára afmælishátíðar kaupstaðarins. Það fór ekki framhjá nágrönnum foreldra Helgu, heiðurshjónanna Kristine og Ólafs P. Þorsteinssonar, að stundin óumflýjanlega var skammt undan. Þau héldu til Höllustaða til að vera hjá barnabörnum sínum.

Helga fæddist á Siglufirði 30. 10. 1937. Hún ólst upp hér ásamt Hákoni bróður sínum á sérstöku menningarheimili foreldra sinna, sem í margra huga er hluti af Siglufirði.
Ólafur faðir hennar var við framhaldsnám í skurðlækningum í Noregi og kynntist hann þar sinni ágætu konu Kristine sem við hlið hans byggði hið fallega menningarheimili, mótað af víðsýni, menntun og þroska. Ólafur var yfirlæknir Sjúkrahúss Siglufjarðar frá 1942 til 1976 eða tæp 35 ár.

Bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkti á fundi 29. október 1976 að gera hann að heiðursborgara fyrir frábær störf í þágu bæjarfélagsins. Kristine Þorsteinsson lét félagsmál mikið til sín taka og þótt hún væri norsk fædd er hún hinn mætasti Siglfirðingur, var m.a. ein duglegasta driffjöðurin í Kvenfélagi Sjúkrahússins og mörgum öðrum félögum. Málefni Siglufjarðarkirkju lét hún sig líka miklu varða og var formaður sóknarnefndar í mörg ár.

Þetta heimili sem ég hef lítillega lýst mótaði Helgu í æsku. Sagt er að umhverfið móti manninn. Siglufjörður er umlukinn fjöllum á þrjá vegu, en opinn til hafs í norðurátt. Oft blæs köld norðanáttin inn fjörðinn okkar og andstæða hennar er hlýr samhugur fólksins sem byggir bæinn, þátttaka í gleði og sorg hver annars. Eftir að Helga lauk skólanámi á Siglufirði, fór hún í Menntaskólann á Akureyri eins og svo mörg önnur ungmenni gerðu frá Siglufirði, og lauk þaðan stúdentsprófi 1957.

Í skólanum á Akureyri kynnist hún Páli Péturssyni frá Höllustöðum í Húnavatnssýslu, þau hófu strax búskap, byggðu nýbýli á Höllustöðum og giftu sig 1959.

Páll og Helga eignuðust þrjú mannvænleg börn,

 • Kristínu 6.08. 1960,
 • Ólaf Pétur 12.03. 1962 og
 • Pál Gunnar 15.09. 1967.

Fljótlega hlóðust mörg trúnaðarstörf í sveitinni á Pál Pétursson og síðan 1974 hefur hann setið á Alþingi. Má nærri geta að oft hefur starfsdagur Helgu verið langur við umsjón bús og barna þegar heimilisfaðirinn var fjarri. Seinni árin hafa þau einnig haldið heimili í Reykjavík um þingtímann. Bústörfin á Höllustöðum hefur Kristín tekið að sér, þar sem hún býr með syni sínum Helga Páli.

Ólafur Pétur og Páll Gunnar fóru í Menntaskólann á Akureyri og síðan í háskólanám. Það varð hlutskipti Helgu að eiga mann sem kallaður var til ábyrgðarstarfa fyrir land og þjóð. Þeim konum sem slíkt hlutskipti fá verða seint þökkuð þeirra störf. Ég veit að ég mæli fyrir munn margra þegar ég þakka fyrir fórnfús störf Helgu vegna ábyrgðarstarfa Páls. Á þessari sorgarstundu mega fátækleg orð sín lítils, en mér koma í hug orð Björns Halldórssonar:

 • Já, sefist sorg og tregi,
 • þér saknendur við gröf,
 • því týnd er yður eigi
 • hin yndislega gjöf:

 • Hún hvarffrá synd og heimi
 • til himins - fagnið því, -
 • svo hana Guð þar geymi
 • og gefi fegri á ný.

Útför Helgu verður í dag frá Svínavatnskirkju, þar sem Helga var í sóknarnefnd. Megi algóður Guð á þessari stundu styrkja ástvini hennar, sem við sendum innilegar samúðarkveðjur.

Auður og Sverrir Sveinsson
------------------------------------------------
Tíminn 1. júní 1998

Helga Olafsdóttir Höllustöðum.

Ennþá er samur blærinn meðal bjarka,
bústað á þröstur enn í fylgsnum skóga.
Dalurinn geymir út til endimarkailminn
frá sumri því, er blóm lét gróa.
(Sigurður Jónsson frá Brún) 

Vinkona mín Helga Ólafsdóttir er látin. Hún var jarðsett laugardaginn 28. maí í fjölskyldugrafreitnum á Guðlaugsstöðum í Blöndudal. Þessa daga leita minningar óvenju sterkt á hugann. Það er vor og sólin skín á sveitina okkar. Aflgjafi lífsins er hún, blessuð sólin, þó hún megni ekki að vekja hana Helgu, sem sefur svo vært. Helfregnin, sem kom eins og svart ský á björtum morgni, verkaði á okkur sem lost, Hversdagslegir hlutir verða einskis verðir. Það sem miður fer í daglegu amstri skiptir ekki máli. Við erum með hugann hjá fjölskyldunni á Höllustöðum.

Guð blessi þau öll og styrki. Svo vel þekkti ég Helgu, að ég veit að þaðan sem hún horfir til okkar og sér tárin, sem falla, vill hún þerra þau. Hún vill ekki að hér ríki sorg. I jarðnesku lífi hennar var gleði og birta. Hún var hetja til hinsta dags. Hún flutti alltaf með sér góðan anda, hún Helga hafði svo hreina sál. Ung og bjartsýn horfðu þau til framtíðarinnar Helga og Páll, þegar þau að loknu námi settu saman bú á Höllustöðum. Þar áttu þau fagurt heimili og dýrmæt ár, myndarleg börn og vel gefin, sem bera einkenni foreldranna og merki heimilisins vel.

Þau eru hreinskiptin og glaðlynd. Stormar mannlífsins hafa nætt um Höllustaðaheimilið af og til, en mér hefur stundum fundist hægt að líkja því við hreiður, sem hefur verið valinn staður svo góður að ekkert nær að skaða það. Svo vel tókst þeim með hreiðrið sitt Höllustaðahjónum. t)g leitun mun vera á betra og samhentara fjölskyldulífi. Trúi ég það muni létta þeim öllum mikinn missi. Hún Helga okkar lifir þó hún sé látin. Guði sé þökk. Við kveðjum hana og þökkum henni samveruna af alhug og biðjum guð að blessa hana.
Tíminn líður hratt og fyrr en varir hittumst við öll hinum megin.

Bryndís