Tengt Siglufirði
Mjölnir 22. desember 1976
Guðrún Hansdóttir f. 20. febrúar 1889. - d 9. ágúst 1976
Samkvæmt lífsins lögmálum fæðast menn, lifa sín
bernsku og þroskaskeið, fullorðinsár, og ef heilsa og þróttur leyfa, elliárin, uns lífið slokknar. Því falla burtu úr samfylgdinni um lífsins veg fleiri eða færri á
ári hverju, sem orðið hafa okkur, sem eftir stöndum, góðir vinir, nánir, kærir og eftirminnilegir, sem við eigum þökk að gjalda. í ágústmánuði s.l. andaðist
í Sjúkrahúsinu, Siglufirði, Guðrún Hansdóttir, Hvanneyrarbraut 62, þá 87 ára að aldri.
Það vildi svo til, að við hjónin vorum þá stödd í fjarlægu landi og gátum því ekki fylgt þessari góðu vinkonu. síðasta spölinn; ég vil því nú, þótt nokkuð sé umliðið, minnast hennar með fáeinum kveðjuorðum.
Það eru liðin um 30 ár síðan við hjónin byrjuðum búskap okkar; þá voru húsnæðisvandræði eins og nú, en fáum dytti í hug nú að taka sér bólfestu í lélegum síldarbragga að haustlagi, eins og við og fleiri gerðum þá. En úr þessu rættist fyrir okkur; með vorinu eignumst við litla íbúð í nýju verkamannabústöðunum við Hvanneyrarbraut, urðum þar ein af fimm fjölskyldum í sama enda. Allra þeirra fjölskyldna er okkur kært að minnast, því að sambúðin þar var því líkust, að ein fjölskylda væri.
Meðal þeirra fimm fjölskyldna. var Sigurður Ásgrímsson, kona hans Guðrún Hansdóttir og sonur þeirra, Arnfinnur Hans Sigurðsson, og einnig dóttir þeirra hjóna, Júlíana Margrét og hennar fjölskylda.
Þau hjónin Sigurður og Guðrún voru þá um sextugt, hún aðeins innan við, en bæði hress og alorkusöm. Við veittum fljótt athygli þessari hæglátu en dugnaðarlegu konu, sem gekk að vinnu sem ung væri, t. d. í síldarsöltun á sumrin. Og sú tilfinning, að þar væri góð kona og myndarleg húsmóðir, fékk staðfestingu í þeirri 10 ára sambúð sem við og börn okkar áttum með þessu fólki.
Þolinmæði og umburðarlyndi Guðrúnar sýndi sig best í því, að aldrei man ég til að hún mælti reiði eða styggðarorðum til krakkanna, sem á tímabili munu hafa verið 10 talsins þar í endanum, og því oft galsi og læti í stigum og á göngum. Að koma inn til hennar Guð^ rúnar var eins og að koma til móður sinnar, blíða og gestrisnin sat þar í öndvegi. Hún var sönn ímynd hinnar sívinnandi alþýðukonu, hæg og hljóðlát, laus við að ota sér fram og láta á sér bera, en alltaf tilbúin að rétta hjálpandi hönd, þar sem með þurfti.
Guðrún og Sigurður áttu alla sína búskapartíð heima á Siglufirði og voru virt hjón og vel látin af öllum. Sigurður lést fyrir rúmu ári, en Guðrún, eins og áður er sagt, í ágúst s. 1. og hafði þá um árabil dvalið á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, lengst af rólfær, en farin að heilsu. Við hjónin minnumst hennar með þökk og virðingu fyrir þau góðu kynni, sem við áttum við hana. Blessuð sé minning hennar.