Sigurbjörg Jóhannsdóttir hjúkrunarkona

mbl.is 21. september 2004 | Minningargreinar 

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, kölluð Stella, fæddist 6. júní 1925 á Siglufirði. Hún lést á St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, laugardaginn 11. september 2004.

Foreldrar hennar voru Jóhann Sigurjónsson vélstjóri, f. 12. febrúar 1894, d. í sept. 1941 og Kristjana Halldórsdóttir, f. 10. október 1894, d. 18. ágúst 1970.

Stella átti einn albróður,

  • Matthías Jóhannsson, f. 23. júlí 1923, d. 8. september 1995
    og tvö sammæðra hálfsystkini;
  • Ingibjörgu Guðmundsdóttur, f. 25. júní 1912, d. 6. apríl 1999 og
  • Hámund Björnsson, f. 15. júní 1917, d. 9. nóvember 2002.

Stella giftist 23. desember 1972 Árna Guðjónssyni blikksmíðameistari, f. í Vestmannaeyjum 12. janúar 1934.

Sonur Stellu er

  • Kristján Jóhann Jónsson, f. á Siglufirði 10. maí 1949, maki Dagný Kristjánsdóttir, f. 19. maí 1949.
    Synir þeirra
  • Snorri Hergill Árnason, f. 19. desember 1974 og
  • Árni Árnason, f. 28. desember 1983.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir hjúkrunarkona - Ljósmynd Kristfinnur

Sigurbjörg Jóhannsdóttir hjúkrunarkona - Ljósmynd Kristfinnur

Stella lauk prófi frá Iðnskóla Siglufjarðar 1948. Hún lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands í mars 1955. Framhaldsnámi í skurðstofuhjúkrun við Landspítalann lauk hún 1956 og vann á skurðstofu Rikshospitalet í Ósló seinni hluta árs 1956.

Hún varð yfirhjúkrunarkona á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 1956-1960, vann á kvensjúkdómadeild Landspítalans 1960-1962, var yfirhjúkrunarkona á Sjúkrahúsi Akraness 1962-1967, á Reykjalundi 1967-1968, Hvammstanga 1968-1969 og endurhæfingardeild Borgarspítalans á Heilsuverndarstöðinni 1969-1974. Stella réðst til starfa við Blóðbankann árið 1974, varð hjúkrunar framkvæmdastjóri árið 1982 og vann þar samfellt til starfsloka 1994.

Útför Sigurbjargar Jóhannsdóttur verður gerð frá Hjallakirkju í Kópavogi í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, tengdamóðir mín, var alltaf kölluð Stella af þeim sem þekktu hana náið. Stellunafnið gaf faðirinn henni. Hún var oft alvarlega veik sem barn og var hvað eftir annað lögð inn á sjúkrahúsið.
Það var Kristjana, mamma hennar, sem vakti yfir henni, pabbinn gaf henni hins vegar veglegar gjafir þegar hann kom af sjónum og það var ekki sjálfsagt mál á kreppuárunum. Það var oft þröngt í búi hjá fjölskyldunni og þurfti mikla hugkvæmni til að gefa börnunum eitthvað að borða þegar verst var.

Jóhann var vélstjóri á línuveiðaranum Jarlinum sem sigldi með ísfisk til Bretlands á stríðsárunum. Jarlinn fórst í september árið 1941. Stella gat aldrei gleymt biðinni þá daga sem beðið var staðfestingar á því að skipið hefði farist. Þegar talað er um að Ísland hafi verið "norðan við stríð" sést mönnum yfir þær blóðfórnir sem íslenskir sjómenn færðu, fjöldi fátækra fjölskyldna missti feður og syni og heilu byggðarlögin voru í sárum.

Þegar Jóhann drukknaði fór eldri bróðirinn, Matthías, sem var bara unglingur, á sjóinn og varð fyrirvinna fjölskyldunnar. Stella lauk hins vegar skólanum og fór að vinna í mjólkurbúðinni á Siglufirði. Síldin var komin og Siglufjörður breyttist í gullgrafarabæ á meðan það var. Bærinn fylltist af ungu og lífsþyrstu aðkomufólki og með einum stráknum, sem kom um vorið en fór um haustið, eignaðist Stella son sinn Kristján Jóhann sem fæddist í maí 1949. Þegar hún fór suður til náms í Hjúkrunarkvennaskólanum var Kristjáni komið í fóstur hjá föðurfólki sínu austur á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal. Þar ólst hann upp og dafnaði vel.

Eftir útskriftina úr Hjúkrunarkvennaskóla Íslands 1955 menntaði Stella sig í skurðstofuhjúkrun og um haustið 1956 fóru hún og Silla vinkona hennar til Noregs til að vinna þar og mennta sig meira á Rikshospitalet í Ósló. Það var ennþá mikill skortur í Noregi, húsin köld, sjúkrahúsið vanbúið af tækjum og tólum og sjúklingarnir ekki beinlínis ofaldir. Hörmungar stríðsáranna voru ennþá ofarlega í hugum manna og allt þetta var mikil lífsreynsla fyrir ungar landsbyggðarstúlkur ofan af Íslandi.

Eftir að heim var komið vann Stella á mörgum sjúkrahúsum, oftast sem yfirhjúkrunarkona. Á þeim árum voru læknarnir þéraðir og ávarpaðir "doktorar" og þó að Stella sæi ekkert eftir þeim siðum fannst henni að heimur hefði farið heldur versnandi í heilbrigðiskerfinu. Sjálf lagði hún mikinn metnað í störf sín og vann þau af trúmennsku. Hún var bæði stéttvís hjúkrunarkona og leit á starfið sem hugsjón.

Sjúklingar hennar ortu til hennar ljóð, skrifuðu henni og heimsóttu hana og hún mundi eftir þeim. Hún var ósátt við það sem henni fannst vaxandi skriffinnska og kerfishugsun á sjúkrahúsunum og fannst að gamaldags hlýja og mannúð við sjúklingana væri á undanhaldi. Í ljósi þessa var það sérlega ánægjulegt hve þakklát hún var starfsfólkinu á St. Jósefsspítala sem annaðist hana síðustu vikurnar sem hún lifði.

Stella kynntist eftirlifandi manni sínum, Árna Guðjónssyni blikksmíðameistara, árið 1972 og þau giftu sig í árslok. Það reyndist mikið gæfuspor fyrir þau bæði. Saman bjuggu þau sér fallegt heimili, fyrst í Lundarbrekku 6 og síðan á Álfhólsvegi 129. Þangað var afskaplega gott að koma og þar voru barnabörnin Snorri og Árni sérstakir aufúsugestir, þar komu bróðurbörnin frá Siglufirði og þar komu vinir og kunningjar. Árni og Stella voru einstaklega samhent hjón í blíðu og stríðu eins og glöggt kom í ljós í hinum erfiðu veikindum hennar þar sem Árni vék ekki frá hennar hlið.

Stella, tengdamóðir mín, var útivinnandi nútímakona og töluverð skartkona. Hún spilaði Hauk Morthens og Ellýju Vilhjálms á grammófóninum sínum sem augljóslega var eitt mikilvægasta húsgagnið í stofu hennar þegar ég kynntist henni fyrst. Síðustu árin hafði hún oft tvo til þrjá fjölmiðla gangandi í íbúðinni og sú furðulega margröddun sem þá varð til virtist aldrei trufla hana. Hún var glaðlynd að eðlisfari, fríð kona og grannvaxin, fylgdist vel með tískunni og var alltaf glæsilega klædd og vel til höfð.

Hún ráðgaðist gjarna við okkur um það í hverju hún ætti að vera við ákveðin tækifæri en fór sjaldnast eftir því sem aðrir sögðu. Hún var örlát og fannst gaman að fá gjafir en þótti þó enn skemmtilegra að gefa öðrum. Hún skákaði kaupmönnum bæjarins í að lengja aðdraganda jólahátíðarinnar og gladdist eins og barn yfir snjöllum gjöfum sínum og gleði viðtakendanna. Það hafði sérstaka merkingu fyrir henni. Þó hún væri ekki há í loftinu var hún sterkur og eftirminnilegur persónuleiki sem við munum sakna sárt en við munum bera minningu hennar með okkur og þakklætið fyrir það sem hún gaf okkur.

Dagný Kristjánsdóttir.
--------------------------------------------------------

Það er erfitt að finna orð og setningar á þessari stundu. Það er einhvern veginn ekkert nógu gott, nógu merkilegt, nógu hlýtt til þess að lýsa minningum mínum um hana Stellu ömmu mína. Það er alls kostar ómögulegt að festa niður á blað nákvæmlega hvað það þýddi fyrir litla sál að eiga einkavinkonu, og hvað það þýddi fyrir fullorðinn mann að vita að það var alltaf einhver sem hugsaði stöðugt um velferð manns.

Amma var alltaf tilbúin til þess að gera allt fyrir mig og Árna bróður. Það er erfitt að velja eitthvað eitt til þess að segja frá, og ekki er hægt að þylja upp allt - þá yrði Morgunblaðið gefið út í 7 bindum - en það sem kemur fyrst upp í hugann var þegar ég var lítill strákur og átti að læra að hjóla. Amma og afi bjuggu þá í Lundarbrekkunni, og við pabbi vorum í heimsókn. Einhvern veginn hafði hjól með hjálpardekkjum ratað þangað líka, og mér var sagt að fara út að hjóla.

Eitthvað tók ég dræmt í það, þannig að amma bauðst til þess að koma með og hjálpa. Við fórum út og ég settist á hjólið. Síðan gerðist ekki neitt. Alls kostar óvanur þessum farkosti spurði ég ömmu hvernig þetta virkaði, og hún sagðist skyldu ýta mér af stað. Svo ýtti hún, ég rúllaði smáspöl og stoppaði. Ég skildi ekki neitt í neinu og tjáði ömmu það. Þá ýtti hún aftur, og fylgdi mér heldur lengra í þetta skiptið.

Ég skríkti af kátínu og sagði að þetta væri gaman, og bað ömmu um að gera meira. Þegar pabbi minn sagði mér söguna af þessu síðar sagði hann að amma hefði komið inn móð og másandi með mig kampakátan og sigri hrósandi yfir hjólreiðum mínum. Það var ekki fyrr en nokkru seinna sem ég fattaði til hvers pedalarnir voru. Þó var amma þarna, eins og alltaf, boðin og búin að standa við bakið á mér - þótt ég væri að gera tóma vitleysu.

Það er ómögulegt að finna orð og setningar sem geta komist utan um, geta fyllt upp í það sem vantar þegar Stella amma hefur kvatt þennan heim. Hún skilur eftir sig besta afa í heimi og fjölskyldu sem á eftir að sakna hennar ósköp mikið, minnast hennar og brosa. Hún skilur líka eftir sig ömmubarn sem hefur lært ansi mikið um lífið af hennar fordæmi.

Snorri Hergill.
-------------------------------------------

Þegar ég varð tvítugur fannst mér ég fyrst kynnast Stellu ömmu almennilega. Frá því að ég man eftir mér var hún alltaf fyrirmyndaramma sem var gift fyrirmyndarafa. Hún var með myndir sem maður málaði í öðrum bekk í grunnskóla uppi á vegg, hún var mjög góð við okkur bræðurna og átti sinn stóra stað í hjörtum okkar. En síðasta sumar kynntist ég nýrri hlið á henni Stellu ömmu.

Ég sat við eldhúsborðið eins og vanalega og í útvarpinu var einhver gömul vinaleg tónlist. Eins og ekkert væri eðlilegra tók hún þá ákvörðun að hætta að vera ömmuleg og spurði mig út í óömmulega hluti eins og kvennamál, þannig að ég ákvað að vera óbarnabarnalegur og svaraði því sem spurt var um og það er skemmst frá því að segja að á milli okkar skapaðist heilmikið slúðurbandalag.

Ég hef lokið fyrsta hluta minnar ævi og hún sínum síðasta og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast bæði ömmu minni og Stellu.

Árni Kristjánsson.
--------------------------------------------

mbl.is  22. september 2004 | Minningargrein

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, kölluð Stella, fæddist 6. júní 1925 á Siglufirði. Hún lést á St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, laugardaginn 11. september síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Hjallakirkju í Kópavogi 21. september.

Á þessum degi kveðjum við fyrrverandi samstarfsmann Sigurbjörgu Jóhannsdóttur. Sigurbjörg vann í Blóðbankanum frá árinu 1974 til ársins 1994 og stýrði blóðtökudeildinni til margra ára af miklum dug og myndarskap.

Öll munum við hve hlýleg hún var við blóðgjafana og talaði um þá sem "sína menn".

Í þann tíma þurfti oftar en ekki að kalla inn blóðgjafa með sérstaka fínflokkun, en fínflokkaðir eru þeir kallaðir sem eru flokkaðir umfram það sem venjulegt er. Ekki tók hún alltaf vel í slík verkefni og spurði okkur "hvort við héldum að hún byggi til slíka blóðgjafa".

Sú afstaða risti þó ekki dýpra en svo að innan skamms lét hún vita að búið væri að fá umbeðna blóðgjafa til að koma og tvo eða þrjá til viðbótar "svona til öryggis" eins og hún sagði.

Sigurbjörgu var það gefið að muna hvernig blóðgjafar féllu innan blóðflokka, nokkuð sem við látum tölvur gera í dag. Svo mikið helgaði hún sig sínu starfi.

Sigurbjargar minnumst við sem stórs persónuleika, hjartahlýrrar konu og góðs vinar.

Við minnumst hennar með hlýhug og þökkum samstarfið.

Árna og fjölskyldu sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Starfsfólk Blóðbankans.
------------------------------------------------------------------------

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, jafnan þekkt undir nafninu Stella, lést á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði þann 11.9. sl. á 79. aldursári. Stella var móðir bróðursonar míns og uppeldisbróður, Kristjáns Jóhanns Jónssonar. Vegna þessara tengsla kynntist ég Stellu vel þegar ég var barn að aldri og kynni okkar héldust æ síðan.

Vitrir menn hafa haldið því fram að enginn eigi neitt nema það sem hann er búinn að gefa. Ég er fyrir mitt leyti handviss um að þetta er rétt. Sumum gengur þó afar illa að skilja þetta meðan aðrir virðast alltaf hafa vitað það. Sumu fólki er það svo eðlilegt að gefa að það tekur ekki eftir því og veit oft ekki eftir á hverjum það gaf hvað. Það er ríkasta fólkið.

Enn þá man ég eftir jólagjöfunum frá Stellu. Eftir að Kristján Jóhann kom til okkar í Hrafnkelsdalinn dreif að okkur jólapakka í ríkara mæli en áður hafði tíðkast þar í sveit. Öll fengum við eitthvað. Ég man í dag lítið eftir því hvað var í þessum pökkum, utan bækurnar. Við drengirnir fengum bækur, spennandi og skemmtilegar unglingabækur, svo margar að við lágum og lásum sólarhringum saman. Þetta voru mín fyrstu kynni af bókajólum. Það er að líkindum erfitt fyrir fólk í dag, í öllu því afþreyingarfári sem nú dynur á þjóðinni, að ímynda sér hvílíkur gleðigjafi þessar bókasendingar voru í fámenninu í þessum afskekkta dal.

Mér er líka minnisstætt þegar Stella kom í heimsókn í dalinn að sumrinu. Ég sem var að alast upp með syni hennar en var henni óskyldur fann sömu væntumþykjuna umvefja okkur báða. Mér er svo minnisstæð þessi hjartahlýja kona sem hafði ferðast yfir þvert landið og borið með sér gjafir til mín, falleg leikföng eða spennandi bækur. Stella kunni vel að velja gjafir handa ungviðinu.

Seinna gerðist það, eitt sinn þegar ég var á heldur stefnulausu reki í lífsins ólgusjó, að ég sótti um skólavist við Menntaskólann á Laugarvatni til að ljúka þar stúdentsprófi. Ég fékk synjun og var heldur vondaufur um framgang minn á menntabrautinni. Einhvern veginn frétti Stella af þessu og tók málið í sínar hendur. Hún hringdi í skólameistarann og hætti ekki fyrr en hann gekkst inn á að veita mér skólavist. Ég fór austur um haustið og þaðan útskrifaðist ég svo vorið eftir.

Dvölin á Laugarvatni er ógleymanleg fyrir margra hluta sakir. Að henni bý ég meðan ég lifi. Ég er alls ekki viss um að Stella hafi nokkurn tíma gert sér grein fyrir því hvað hún gaf mér mikið með þessari afskiptasemi.

En Stellu þótti gaman að gefa og hún kunni að velja rétt það sem hún gaf, og stundum gaf hún án þess að muna nákvæmlega hver fékk hvað.

Ég kveð Stellu með þakklæti í huga og votta fjölskyldu hennar samúð mína. Blessuð sé minning hennar.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson.