Tengt Siglufirði
mbl.is - 11. maí 2013 | Minningargreinar
Margrét Arnheiður Árnadóttir Laugarvegi 35, Siglufirði, fæddist að Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal 10. febrúar 1923. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 2. maí 2013.
Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Jóhannesdóttir, f. 21.10. 1899, d. 8.7. 1971, og Árni Valdimarsson, f. 20.10. 1894, d. 31.1. 1959.
Systkini hennar:
Um tvítugsaldur fluttist Margrét til Siglufjarðar þar sem leiðir hennar og Þórðar Þórðarsonar, f. 14.12. 1921, d. 22.11. 1992, vélstjóra frá Siglunesi lágu saman.
Þau gengu í hjónaband 14.12. 1946 og bjuggu á Siglufirði allan sinn búskap. Þau eignuðust sjö börn. Þau eru:
Margrét naut hefðbundinnar barnaskólafræðslu á Dalvík auk náms við Húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum. Margrét stýrði stóru heimili af rausn og myndarskap. Þegar börnin uxu úr grasi vann hún utan heimilis við síldarverkun og aðra fiskvinnslu. Hún tók drjúgan þátt í margs konar félagsstarfi á Siglufirði. Hún var söngelsk og söng í mörgum kórum í gegnum tíðina.
Útför Margrétar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 11. maí 2013, kl. 14.
Undanfarna daga hef ég verið að reyna að finna fyrstu minningar mínar um hana móður mína elskulegu. Mamma hefur alltaf verið til staðar. Eins og sólin eða tunglið.
Alltaf á sínum stað. Stóð ætíð sína plikt. Kannski man ég hana fyrst þegar hún var að baða okkur systurnar í bala á eldhúsgólfinu á Túngötunni eða þegar systir mín fæddist eða þegar hún var að sauma á okkur systur og punta eða var það þegar hún bjargaði flotta þeytispjaldinu? Ég veit hins vegar hvar minningarnar urðu til. Það var á Siglufirði, fyrst á Túngötunni og síðar Laugarveginum í rúm 65 ár.
Mamma kom úr sveit, fegurstu sveit á Íslandi hvorki meira né minna. Svarfaðardalurinn var paradís á jörðu í hennar augum og fólkið sem þar bjó besta fólkið í allri veröldinni. Hún naut ekki mikillar skólagöngu, fór fljótt að vinna og var eftirsótt við að beita. Það var akkorðsvinna, sem átti vel við þessa duglegu jafnréttissinnuðu og kraftmiklu konu. Þessi skerpa, hugrekki, metnaður og kjarkur bar mömmu til Siglufjarðar þar sem hún hitti pabba. Hún lagði mikið upp úr að við kynntumst dalnum fallega. Tímarnir á Dalvík voru dásamlegir. Móðurfólkið var glaðsinna, hreinskiptið starfsamt, traust, raungott, sanngjarnt og nægjusamt nákvæmlega eins og mamma.
Mamma átti einstaklega góða lund og sá einhvern veginn oftast ljósu hliðar tilverunnar. Hún dvaldi ekki við mistökin heldur reyndi að gera gott úr skellunum. Ég heyri enn hláturinn hennar og sé andlitið og augun ljóma. Söngur var hennar líf og yndi. Ógleymanlegt var tímabilið þegar Demetz kom norður og var að leiðbeina og þjálfa meðal annars söngfólk á Siglufirði. Hún söng Verdi þann vetur yfir þvottinum, pottunum og bara öllu. Svo var það saumaklúbburinn, pólitíkin og trúin.
Þau áttu alltaf bíl. Í minningunni fóru þau hverja helgi með krakkaskarann yfir Skarðið. Hún lagði mikið uppúr svona ferðalögum. Þá nestaði hún liðið með dýrðarinnar góðgæti. Ég man hvað hún var sæl þegar einhver karl í Ólafsfirði leit inn í bílinn hjá pabba, horfði á mömmu og spurði hvort hún væri elsta dóttir hans. Henni fannst alltaf jafnfyndið þegar sú saga var sögð. Svo var farið í berjamó að hennar undirlagi og sultað, saftað og búið í haginn.
Mamma horfði sjaldnast til baka heldur fram á við. Hún gat verið heima þar til fyrir fáeinum árum þegar nærminnið sveik og elli kerling sótti að. Hún gat það með
hjálp vinanna á Laugarveginum og ómældri aðstoð og styrk yngstu systur minnar, Margrétar Steinunnar. Fyrir alla þá fórnfýsi og elsku er ég þakklát. Eftir það
átti hún skjól á sjúkradeildinni á Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Starfsfólkið þar bar hana á höndum sér og er ég þeim þakklát fyrir hve vel
þau reyndust henni og okkur öllum, sem unnum þessari konu. Til hinstu stundar hélt hún reisn sinni, gleðinni og þeirri náttúrugreind sem hún fékk í vöggugjöf. Hún
náði því að komast á tíræðisaldurinn með glæsibrag. Dauðastríðið var stutt, snarpt og fallegt, nákvæmlega eins og hún var. Ég á eftir að
sakna hennar mjög en veit að hún er á góðum stað verkjalaus með stálminni.
Blessuð sé minning Margrétar Arnheiðar Árnadóttur.
Árdís.
------------------------------------------------
mbl.is/minningar
Hún sleit barnsskónum í Svarfaðardal hún tengdamamma. Hún átti góða æskudaga við kærleiksríka forsjá. Enginn veraldlegur auður var í búi en ríkidæmi þeirra verðmæta sem mölur og ryð fá ekki eytt.
Stúlkan unga tekur snemma til hendinni við hvað eina sem sinna þarf á stóru heimili. Dalurinn og víkin eru vettvangur uppvaxtarára. Við bryggjuna lærir hún til verka við beitningar og dugar svo vel að hún slær öllum við sem slíku sinna. Enda kemur að því að hún er ráðin sem landmaður á bát sem rær frá Siglufirði, þá um tvítugsaldur.
Þar ráðast örlög. Vélstjórinn ungi frá Siglunesi, sem ekur um á mótorhjóli klæddur leðurjakka og siglir um á hraðbát úr mahóní verður æ oftar á vegi hennar. Ástin tekur völdin og hugir mætast. Ég er viss um að Gréta og Þórður voru fallegasta parið á Siglufirði í þá daga.
Þau byggðu sér hús við Laugarveginn og börnin sem Guð gaf urðu sjö talsins. Þau giftu sig daginn sem Þórður átti 25 ára afmæli og skírðu fyrsta barnið sitt um leið. Samhent og einhuga hjón skapa sér og sínum gæfu og gagn. Börnin eru stolt þeirra og sigurlaun lífsins. Hann smíðar dúkkurúmin af lipurð og kunnáttu, hún saumar mjúka kroppa og festir á postulínshausa, dúkkurnar fá sérsaumuð spariföt og rúmfötin eru blúndulögð.
Slík jólagjöf vekur fögnuð sem gleymist aldrei. Sunnudagsbíltúrar í Fljótin í berjamó eru fastir liðir og heimahagar bóndans á Siglunesi eru fullir af ævintýrum. Holl hvatning góðra foreldra hefur þá þungamiðju að sækja sér góða menntun og vinna vel úr sínu og fallega hafa börnin borið því vitni í gegnum tíðina, öll sem eitt.
Bóndinn dregur björg í bú, af sjó og landi. Trillan við bryggju og síldarárin hvetja dugandi mann til athafna. Húsmóðirin stýrir búi af rausn og myndarskap. Þau hjónin vinsæl og virt af samborgurum sínum.
Og á sinni tíð var ég leiddur ljúfri hendi elstu dóttur þessara sæmdarhjóna inn í þessa veröld. Gréta brosir við mér með glettni í augum þar sem ég stend feiminn á dyrapallinum og ég finn að ég er velkominn. Jafnvel þó ég sé kominn til að fara á brott með yndislegustu stúlku veraldar sem er dýrasta lánið í lífi mínu. Og ég eignast trölltrygga vináttu þessarar einstöku konu sem fáum árum seinna varð tengdamóðir mín. Mín gleði verður hennar og hennar mín.
Í gegnum tíðina fæ að njóta visku hennar og hyggindi og ótrúlegan dugnað á stóru heimili. Konu með svuntu og þvottaklemmur í vasa og stóran bala við snúru í sunnan þey og hvítur þvottur bærist í blænum við siglfirska sól. Brosandi kemur hún inn og töfrar fram veislu og húsið fyllist af glaðværð og dillandi hlátri. Hún er síkát og kvartar aldrei. Svo sest hún með prjónana eftir uppvaskið. Allt leikur í höndum hennar og vandvirknin einstök. Þá á eftir að mæta á kóræfingu hjá kirkjukórnum. Sú þjónusta er henni einkar kær. Og svo eru fundir í Slysavarnafélaginu eða Sjálfstæðisflokknum.
Ung hafði hún farið í vist til föðursystur sinnar á Kjalarnesi og heyrt Ólaf Thors flytja ræðu. Hugsjónir hans og eldmóður hrifu þannig að dugði fyrir lífstíð. Ekkert aumt má hún sjá og leggur þeim lið sem eiga undir högg að sækja, næm og skilningsrík, sterk og dugandi. Heilsteypt, réttsýn og hugsandi mannvinur.
Árin líða og börnin hverfa til ábyrgðar hinna fullorðnu. Barnabörnin líta dagsins ljós og amma Greta er æðislegasta amma í öllum heiminum sem leikur við hvurn sinn fingur og miðlar ómælt af visku og kærleik. Hún hefur líka stálminni og man alla afmælisdaga og sendir kveðjur og gjafir.
Þórður féll frá árið 1992. Sorg og söknuði mætir Gréta af styrk og æðruleysi. Bænir til þess sem yfir öllu vakir eru eins vísar og sjávarföllin og blessun þeirra eru henni margstaðfest reynsla.
Hún bjó ein á Laugarveginum á meðan heilsan leyfði. Það var gerlegt vegna stuðnings Margrétar yngstu dóttur hennar og góðra granna sem vöktu yfir velferð hennar.
Nú hefur hún kvatt lífið þessi góða kona og það er eitt af stærstu þakkarefnum tilverunnar að hafa átt samleið með slíkri sem hún var.
Það er kalt vorið á Norðurlandi þetta árið en sumarið bíður handan við hornið. Líf Grétu var sumrinu líkt. Bjart og hlýtt og fullt af gleði og góðvild. Birta hins eilífa sumars umvefur hana nú við himneska endurfundi í dýrðarríki Drottins.
Guð blessi minningu mætrar konu.
Jón Þorsteinsson.
----------------------------------------------------
Elsku amma, þær eru margar samverustundirnar á Siglufirði og hér í Kópavoginum, sem okkur systkinin langar að þakka þér fyrir, þegar komið er að leiðarlokum hjá þér. Móttökurnar á Sigló öll sumur og páska, alltaf opin faðmur, brosið þitt og ótakmarkað hjartaplássið. Við reyndum alltaf að vera tímanlega og ekki seint á ferðinni því þú hafðir alltaf áhyggjur þangað til allir voru komnir í hús. Þú varst óþreytandi við að lesa fyrir okkur og syngja með okkur því söngurinn var þér svo mikilvægur enda söngstu í kirkjukórnum.
Svo kenndir þú okkur ótal bænir sem var farið með á hverju kvöldi því trú þín á Guð var svo sterk. Þú varst sterkur persónuleiki með skoðanir á flestu, bæði mönnum og málefnum, en kátínan og húmorinn voru alltaf til staðar og mikið hlegið og þú varst ein af þeim sem geta alltaf gert grín að sjálfum sér. Þú þreyttist heldur aldrei á að hvetja okkur og segja okkur hvað við værum frábær og gætum gert allt sem við vildum í lífinu. Að hafa þekkt þig er okkur gott veganesti. Takk fyrir allt elsku amma.
Þín barnabörn, Þórunn og Þórður.
------------------------------------------------
Þessi litla minnisvísa um tímann minnir okkur á, að hvað sem við gerum, segjum eða erum, þá er tíminn óumbreytanlegur og hann gengur sinn veg jafnt og þétt óháð öllu sem á sér stað hjá okkur mönnunum. Ekkert breytir tímans rás. Börn fæðast, ástvinir deyja og það er það eina sem við vitum um framgang lífsins.
Nú hefur hún Gréta lokið sínum tíma hjá okkur og er runnið hennar æviskeið. Hún lifði og dó með reisn, hennar sterki persónuleiki og létta lund fylgdi henni til hinstu stundar. Það er alltaf erfitt að sjá á eftir þeim sem manni þykir vænt um og einhvern veginn þá er brottfarartíminn sjaldnast rétti tíminn, en „sólin gengur sína leið“ eins og segir í minnisvísunni og ekki í mannlegu valdi að stjórna því. Eftir standa minningarnar og þær á hver og einn með sjálfum sér.
Og minningarnar streyma fram. Fyrstu kynni mín af Grétu voru þegar ég fór í fyrsta skipti norður á Siglufjörð með Albert eiginmanni mínum fyrir ca. 40 árum síðan. Ég varð strax heilluð af þessari brosmildu og geðgóðu konu. Þarna stóð hún í eldhúsinu, reiddi fram kaffi, kökur og alls kyns sætabrauð sem hefði sómt sér vel í flottri fermingarveislu. Milli þess sem hún setti kræsingar á borðið sagði hún okkur brandara og sló á lærið og hló með. Þetta var snemma vors, Gréta var kaffibrún og Albert sagði af því tilefni:
Mikið ertu brún Gréta, ertu búin að vera á skíðum? Já svaraði Gréta, ég er búin að vera fram á dal á hverjum degi og þú ættir að sjá á mér magann og eftir fylgdi skellihlátur. Ég sé hana með prjónana sína, alltaf að prjóna á einhvern í hennar stóra barna- eða barnabarnahópi. Ég sé hana í garðinum huga að blómunum sínum og ég sé hana með brúnkökuna sem hún bakaði handa fuglunum, þeir vilja frekar brúna en hvíta sagði hún og hló.
Gréta var ein af þeim sem aldrei féll verk úr hendi. Ég sé brosið hennar fallega fyrir mér, eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt sagði Einar Benediktsson, það mætti halda að hann hafi þekkt hana Grétu.
Jákvæðni var Grétu í blóð borin hún átti auðvelt með að sjá bjartari hliðar lífsins, hún var hjálpsöm og hjartahlý, alltaf tilbúin að gefa af sér. En hún fór ekki varhluta af sorginni, þurfti að horfa á eftir Þórðunum sínum tveimur, báðum löngu fyrir aldur fram, eiginmanni og barnabarni. Við þessi áföll bognaði Gréta en hún brotnaði ekki. Áföll koma, ég fæ minn skammt eins og aðrir sagði hún við mig þegar ég vottaði henni samúð vegna Þórðar Willards.
Á kveðjustund er þakklæti efst í huga, þakklæti fyrir það ríkidæmi að hafa kynnst Grétu og átt hana að vini. Það er hverjum manni gæfa að hafa kynnst konu eins Grétu. Við sem þekktum hana erum gæfusöm.
Við Albert vottum öllum börnum Grétu, fjölskyldum þeirra og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.
Ragna Valdimarsdóttir.
-----------------------------------------------
mbl.is - 21. maí 2013 | Minningargreinar | 463 orð | 1 mynd
Margrét Arnheiður Árnadóttir
Margrét Arnheiður Árnadóttir, Laugarvegi 35, Siglufirði, fæddist á Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal 10. febrúar 1923. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 2. maí 2013.
Útför Margrétar fór fram frá Siglufjarðarkirkju 11. maí 2013.
Hann var einskonar paradís barna og unglinga, Suðurbærinn á Siglufirði á 6. og 7. áratugnum. Stórir eftirstríðsárgangar, sem kunnu listina að leika sér, jafnt innan dyra sem utan, nóg við að vera, hvort sem var í víðáttumiklu skíða- og skautalandi vetrarríkisins eða ævintýraheimi síldarævintýris sumranna. Lögmál giltu fá og einföld: ekki stela, ekki brúka munn, ekki meiða, ekki stefna sér í hættu og annað í þeim dúr. Lögmálin voru öll sveigjanleg að hinum ýmsu aðstæðum og umburðarlyndi gagnvart afbrigðum umtalsvert.
Í þessari frelsisparadís ríkti einveldi. Einveldi mildi, umhyggju og kærleika, og í hásætinu sátu mæður og ömmur og sáu til þess að þetta hreyfilistaverk gengi dags daglega án skakkafalla. Í hverju húsi var móðir og e.t.v. amma, sem auk þess að sjá um hús og heimili, sauma ótrúlega fjölbreytilegan fatnað á okkur unga fólkið og elda ofan í okkur fæði, sem hæfði höfðingjum, pössuðu upp á okkur og sáu til þess að allir skiluðu sér heilir heim á endanum.
Mamma mín og Gréta Árna tilheyrðu þessum einstaka hópi, sem seint verður metinn að verðleikum. Ekki ætla ég að telja upp allar hinar konurnar á Hávegi, Suðurgötu og Laugarvegi, svo nokkrar séu göturnar nefndar, en allar voru þær einstakar.
Ekki veit ég hvað veldur, en allir þeir Dalvíkingar, sem ég hefi kynnzt um ævina, hafa verið glaðværir, jákvæðir og skemmtilegir – og flestir ef ekki allir hafa verið meira eða minna skyldir Grétu Árna, en ég minnist hennar ekki í öðru ástandi en með breitt bros á vör og tindur í augum eða dillandi af heilbrigðum, einlægum hlátri, sem kom beinustu leið frá hjartanu.
Þær hittust kannski ekki svo oft, einvaldarnir í Suðurbænum, til þess held ég þær hafi verið of önnum kafnar við að sinna allri þeirri ómegð, sem valsaði um í þýfi og högum þar syðra. Hitt veit ég, að á milli þeirra ríkti innileg vinátta, samhygð og traust, sem entist ævina á enda. Síðustu mánuðina, sem mamma lifði, þurfti ekki annað en nefna nafn Grétu Árna, þá færðist breitt bros yfir andlit hennar. Þær voru saman í saumaklúbbi, og sem barn þótti mér með ólíkindum að jafn margar konur skyldu geta hlegið jafn oft og jafn lengi og jafn hátt á einu og sama kvöldinu. Og hlátur Grétu er mér minnisstæðastur, að öðrum ólöstuðum, skær, dillandi, einlægur og stundum illstöðvandi.
Þannig mun ég minnast Grétu Árna, konu Þórðar frænda míns í Hrímni. Mikil forréttindi voru okkur börnunum boðin, sem ólumst upp í nærveru og umhyggju þessa fólks.
Blessuð sé minning þeirra allra, og blessuð sé minning Grétu Árna.
Börnum hennar og öðrum aðstandendum votta ég samúð mína.
Jósep Ó. Blöndal.