Ingvald Olaf Andersen

Morgunblaðið - 163. tölublað (14.07.2012) - Tímarit.is

Olaf Andersen var fæddur á Siglufirði 7. maí 1923. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 30. júní sl.

Foreldrar hans voru August Georg Rasmus Peter Andersen fæddur í Kaupmannahöfn 1886, d. 1970 og Kristín Kristinsdóttir Andersen fædd 1885, d. 1947.

Bjuggu öll árin á Siglufirði.

Alsystkini Ingvalds;

 • Jón Alfreð Andersen (Jón Andersen), f. 1910, d. 1989, 
 • Hedvig Hulda Andersen, f. 1914, d. 1991, 
 • Emil Helgi Andersen, (Emil Andersen) f. 1919, d. 1971,
 • Samfeðra eru
 • Hertha Sylvía Andersen, f. 1939.
 • Soffía Adda Andersen Georgsdóttir, f. 1941.
 • Sigríður María Bjarnrún Andersen, f. 1943.
 • Guðrún Inga Andersen, f. 1945.
 • Kristín Ardís Andersen, f. 1947.
 • Þórður Georg Andersen, f. 1950.
Ingvald Olaf Andersen - ókunnur ljósmyndari

Ingvald Olaf Andersen - ókunnur ljósmyndari

Invald Olaf giftist Málfríði Önnu Bjarnadóttur 1945.

Börn þeirra eru

 • Kristinn Ævar Andersen, f. 1947, kvæntur Aldísi Atldóttur. Á hann 3 börn, 5 barnab. og 1 barnabarn
 • Sigurveig Margrét Andersen, f. 1951. Gift Óla Ágústi Ólafssyni. Á hún 4 börn, og 12 barnabörn
 • Ragnar Hallgrímsson Andersen, f. 1952, d. 1953.
 • Birgir, f. 1954. Ólafur Sölvi Bjarni Andersen, f. 1958, kvæntur Svölu Dögg Þorláksdóttur. Á hann 2 börn og 1 barnabörn
  Stjúpdætur Ingvalds, dætur Önnu, eru
 • Guðmunda Guðrún, f. 1942, og
 • Sigríður Ragna, f. 1943. Ingvald

Olaf flutti til Vestmannaeyja 1952 frá Siglufirði. Hann var mest til sjós sem kokkur á hinum ýmsu bátum frá Siglufirði og Vestmannaeyjum. Hann var líka kokkur í landi á Hótel Berg og Hótel HB í Vestmannaeyjum. Síðustu árin sín bjó hann á Selfossi hjá dóttur sinni og tengdasyni Sigurveigu og Óla.

Fluttu þau síðan aftur til Eyja og flutti hann þá fljótlega á Dvalarheimilið Hraunbúðir.

Jarðarför Ingvalds Olafs fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 14. júlí 2012, kl. 14. Í dag kveð ég tengdaföður minn hann Ingvald Olaf Andersen, Inga á hótelinu eins og ég þekkti hann á árum áður. Hans er sárt saknað af okkur, þessa yndislega manns. Ég var búin að kynnast honum mörgum árum áður en ég varð tengdadóttir hans. Hann hjálpaði elstu dóttur minni mikið þegar hún var að stíga upp úr erfiðum veikindum sem þú þekktir líka af eigin raun, komst fram við hana af mikilli hlýju og væntumþykju. Takk, Ingi minn.

En svo kem ég inn í fjölskylduna þína fyrir 11 árum og það var eins og ég hefði alltaf verið með. Eitt sem var gaman var að þegar ég kom til þín í heimsókn gaspraði ég alltaf: „Hæ „bjútý beiker“ hvað er að frétta?“ og þá koma alltaf glott á karlinn. Hann Kiddi þinn á eftir að sakna þess að koma ekki í sjóaraspjall til þín og segja þér fréttir frá höfninni og rifja upp gamla tíma á hinum ýmsu bátum sem þið voruð á. Kiddi kom alltaf glaður og hress þegar hann kom frá þér. Þín verður sárt saknað.

Ég kveð þig, gamli vinur, nú eruð þið Anna þín saman, það er sem þú þráðir. Örugglega að rifja upp gamla góða tíma á Sigló og í Vestmannaeyjum. Aldís Atladóttir. Elsku afi minn, nú ertu kominn til ömmu sem þú hefur saknað svo mikið og ég efast ekki um að allir þínir ástvinir sem þú hefur saknað hafa tekið á móti þér hlýjum faðmi. Elsku afi, mikið sem ég sakna þín og það verður skrýtið að geta ekki farið í heimsókn á Elló í Eyjum og hitt þig.

Ég er mikið þakklát fyrir þann tíma þegar þú fluttir til okkar á Selfoss því þá fyrst fékk ég að kynnast þér og þínum eiginleikum vel. Þú varst alltaf eitthvað að grínast en svo gat maður talað við þig um allt og ég undra mig alltaf á því hvað þú gast munað margt fram að þínum síðustu dögum. Þegar ég hugsa um fyrstu minninguna mína um þig þá var það þegar ég kom til þín og ömmu upp á verbúðirnar í Eyjum og þú leyfðir mér að horfa á Ghostbusters og gafst mér nammi.

Það var alltaf svo gott að vera í kringum þig og ég veit og finn það svo sterkt inni í mér að þú munt fylgja mér og passa upp á afastelpuna þína. Þangað til næst, elsku afi, Þóra Margrét. Það fyrsta sem kemur upp í huga minn um afa er að hann var brandarakarl. Hann var einstaklega hress og skemmtilegur og hafði sérlega góða nærveru, var kærleiksríkur með hlýtt faðmlag.

Margar góðar minningarnar koma upp í huga minn og ég get ekki annað en brosað þegar ég hugsa til þess þegar afi fann lundapysju í garðinum hjá sér, heima í Vestmannaeyjum. Hann náði henni og hringdi svo í mig stoltur og sagði að krakkarnir mínir mættu fá hana. Þegar við komum til að sækja hana beið pysja litla inni í örbylgjuofni því afi átti engan kassa til að geyma hana í.

Það er svo margt tengt afa sem fær mig til að brosa, hann svaraði til dæmis ekki í símann á þeim tíma dags sem viss sápuópera var í sjónvarpinu, hann átti alltaf nokkra kassa af súkkulaði í skúffunni hjá sér sem hann gaf krökkunum mínum þegar við komum og þau ljómuðu öll yfir þessari miklu gjöf. Afa þótti einstaklega vænt um sitt fólk og hann kunni að meta þann tíma sem fjölskyldan og vinir gáfu sér til að heimsækja hann og verja með honum góðri stund.

Það var ávallt gott að koma til afa og við gátum spjallað um amstur daglegs lífs. Hann fylgdist vel með öllu sem afkomendur hans tóku sér fyrir hendur og sýndi stolt sitt og aðdáun í verki og orðum. Amma Svana sagði við mig fyrir nokkru að tilfinningarnar sem við fyndum þegar eldra fólk kveddi þennan heim einkenndust meira af söknuði en sorg. Við söknum þess að koma til afa og og finna faðmlag hans. Við söknum þess að hann muni ekki vera í Eyjum þegar við komum næst í heimsókn.

En við eigum ótal margar góðar minningar sem við munum geyma um ókomna tíð. Hvíl í friði, elsku besti afi minn. Það er gott að vita af þér í örmum ömmu á ný. Svanhildur Inga og fjölskylda. Mig langar að skrifa hér nokkur orð til þín, elsku besti afi minn. Ég á eftir að sakna þín svo mikið. Þegar ég sat hjá þér uppi á spítala síðustu daga þína hér hjá okkur rifjuðust upp margar fallegar minningar um þig og hana ömmu. Mikið var gott að geta sagt þér hvað ég elskaði þig mikið og hvað ég leit allaf upp til þín, ég grét en þú sagðir mér að þetta yrði allt í lagi.

Alltaf var svo gott að fá að koma til ykkar í Vegg og best var að fá að kúra á milli ykkar í litla hjónarúminu sem þið áttuð. Sumarið sem ég fékk að búa hjá ykkur ömmu á verbúðinni og hvað þið voruð alltaf natin og góð. Eftir að ég fullorðnaðist og átti mína drengi hvað þú, elsku afi minn, varst alltaf svo góður við þá. Þá vantar mikið núna þegar þú ert farinn frá okkur en ég veit að núna líður þér vel. Þú ert kominn til ömmu sem er búin að bíða þín í 10 ár. Elsku afi, hvíldu í friði og fallegar minningar lifa í hjarta mínu.

Nú sefur þú í kyrrð og værð og hjá englunum þú nú ert. Umönnun og hlýju þú færð og veit ég að ánægður þú sért. Ég kvaddi þig í hinsta sinn. Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Blessun drottins munt þú fá og fá að standa honum nær. Annan stað þú ferð nú á sem ávallt verður þér kær. Ég kvaddi þig í hinsta sinn. Ég kveð þig nú í hinsta sinn. Við munum hitta þig á ný áður en langt um líður. Sú stund verður ánægjuleg og hlý og eftir henni sérhvert okkar bíður. Við kveðjum þig í hinsta sinn. Við kvöddum þig í hinsta sinn. (Þursi, 1981.) Aðskilnaður okkar er aðeins tímabundinn, elsku afi minn.

Ég veit að þér líður mjög vel núna. Þín afastelpa, Kolbrún
---------------------------------------------------

mbl.is  7. maí 2013 | 

Ingvald Olaf Andersen fæddist á Siglufirði 7. maí 1923. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 30. júní 2012.

Útför Ingvalds Olafs fór fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 14. júlí 2012.

Elsku pabbi og tengdapabbi, í dag hefðir þú orðið 90 ára. Ó, hvað ég sakna þín mikið. Mér finnst að það vanti svo mikið í líf mitt. Ég man þagar ég hringdi í þig haustið 2004 og bauð þér að búa hjá okkur Óla Ágústi, við vorum búin að kaupa okkur parhús á Selfossi. Svarið kom ekki alveg strax, þú þurftir að hugsa málið, hvort þú ættir að yfirgefa eyjuna fögru. Það var eitt sem þú settir fyrir þig og það var hún Depla, kisan þín, þér þótti svo undurvænt um hana. Svo kom svarið; annaðhvort kæmuð þið bæði eða hvorugt.

Úr varð að þið fluttuð bæði í júlí 2005. Þetta voru góðir tímar, húmorinn hjá þér var stundum svolítill gálgahúmor en hvað, það var oft gaman hjá okkur. Svo kom að því að við vildum flytja til Eyja. Þér leist bara vel á það. Þá var Depla orðin veik svo hún fór til himna, og við fluttum. Fyrsta árið bjóstu hjá okkur en svo fluttir þú á Dvalarheimilið Hraunbúðir, þar leið þér vel elsku pabbi minn, því þar þekktir þú þig svo vel, varst svo mikið þar þegar mamma dvaldi þar.

Jæja, elsku pabbi minn, nú líður þér vel og ert búinn að hitta mömmu, Inga minn og alla aðra ættingja sem eru farnir. Hvíldu í friði elsku pabbi minn.

Þín dóttir og tengdasonur,

Sigurveig og Óli Ágúst.
-------------------------------------------------

http://www.heimaslod.is/

Ingvald Olaf Andersen matsveinn fæddist 7. maí 1923 á Siglufirði og lést 30. júní 2012 á Heilbrigðisstofnuninni.
Foreldrar hans voru August Georg Peter Andersen vélstjóri, vélsmiður á Siglufirði, f. 20. nóvember 1886 í Kaupmannahöfn, d. 1. febrúar 1970, og Kristín Kristinsdóttir Andersen, f. 15. nóvember 1885, d. 1947.

Ingvald lærði á matsveinanámskeiði í Eyjum.
Hann var sjómaður, matsveinn á skipum frá Siglufirði og Eyjum.
Þau Anna fluttu til Eyja 1952 og hann var hótelstjóri á Hótel H.B., síðan við kjötvinnslu hjá Kaupfélaginu 1955-1961. Þá varð hann matsveinn á Baldri VE til 1965.
Ingvald tók þá aftur við stjórn á Hótel H.B. og var þar til 1968, er hann tók við Hótel Berg og rak það til Goss.

Eftir Gos varð hann matsveinn um skeið á Lunda VE.
Hann var matsveinn á Keflavíkurvelli 1982 til 1985, en sneri þá til Eyja og var húsvörður í Vinnslustöðinni til 1994, er hann hætti störfum.
Þau Málfríður Anna giftu sig 1945, eignuðust þrjú börn og Ingvald fóstraði börn Önnu frá fyrra sambandi hennar.

Þau bjuggu í fyrstu á Vesturvegi 29, þá á Hásteinsvegi 7, á Hótel H.B., á Landamótum, í Helgafelli við Kirkjuveg 21 (Brynjólfsbúð), á Strembugötu 23, í Görðum við Vestmannabraut 32 til Goss.

Þau keyptu Vegg eftir Gos, bjuggu þar uns þau fluttust til Keflavíkur 1982 og bjuggu þar til 1985, er þau komu aftur og Ingvald varð húsvörður í Vinnslustöðinni og þar bjuggu þau til 1994.
Anna flutti að Hraunbúðum og lést 2002. Ingvald bjó að Eyjahrauni 1 1994 til 2005, er hann flutti til Sigurveigar dóttur sinnar á Selfossi. Þar bjó hann til 2010, er hann flutti með henni til Eyja og dvaldi í Hraunbúðum.
Málfríður Anna lést 2002 og Ingvald Olaf 2012.

I. Kona Ingvalds Olafs, (27. desember 1945), var Málfríður Anna Bjarnadóttir húsfreyja, f. 15. janúar 1923 á Siglufirði, d. 28. maí 2002 í Hraunbúðum.
Börn þeirra:
1. Kristinn Ævar Andersen sjómaður í Eyjum, f. 10. júní 1947 á Túngötu 31B á Siglufirði. Fyrrum kona hans Pálína Úranusdóttir. Kona hans Aldís Atladóttir.
2. Sigurveig Margrét Andersen húsfreyja, f. 9. október 1951 á Túngötu 31B á Siglufirði . Fyrrum maður hennar Rúnar Guðmundsson. Fyrrum maður hennar Ólafur Þór Ólafsson. Maður hennar Óli Ágúst Ólafsson.
3. Ólafur Sölvi Bjarni Andersen vélstjóri, býr í Kópavogi, f. 28. nóvember 1958 á Landamótum. Kona hans Svala Dögg Þorvaldsdóttir.
Börn Önnu og fósturbörn Ingvalds Olafs:
4. Guðmunda Guðrún Björgvinsdóttir hefur unnið ýmis þjónustustörf, matráðskona, býr á Ísafirði, f. 23. júní 1942 á Hlíðarvegi 21 á Siglufirði, ógift.
5. Sigríður Ragna Björgvinsdóttir sjúklingur, öryrki, býr á Litlu-Grund í Reykjavík, f. 6. október 1943 á Siglufirði, ógift.

Heimildir (Heimaslóð)