Sigríður María Bjarnrún Andersen (Sirrý)

Sigríður Andersen - Mbl.is  23. ágúst 2017 | Minningargreinar.

Sigríður Andersen (Sirrý) fæddist á Siglufirði 15. október 1943. Hún lést á líknardeildinni í Kópavogi 16. ágúst 2017.

Foreldrar hennar voru Margrét Jónsdóttir Andersen, f. 19. mars 1910, d. 10. ágúst 1989, og Georg Andersen, f. 20. nóvember 1886, d. 1. febrúar 1970.

Systkini samfeðra:

 • Jón Alfreð Andersen, f. 1910, d. 1989,
 • Hedvig Hulda Andersen, f. 1914, d. 1991,
 • Emil Helgi Andersen, f. 1919, d. 1971,
 • Ingvald Olaf Andersen, f. 1923, d. 2012.
  Systkini sammæðra:
 • Agnar Bjarg Jónsson, f. 1937.
  Alsystkini:
 • Hertha Sylvía Andersen, f. 1939,
 • Soffía Adda Andersen, f. 1941, d. 2016,
 • Guðrún Inga Andersen, f. 1945,
 • Kristín Ardís Andersen, f. 1947, og
 • Þórður Georg Andersen, f. 1950.
Sigríður Andersen - ókunnur ljósmyndari

Sigríður Andersen - ókunnur ljósmyndari

Sigríður ólst upp til 15 ára aldurs á Siglufirði, en flutti þá til Reykjavíkur til hjónanna Magnúsar og Ágústu, eða Manga og Gústu eins og þau voru kölluð.

Sigríður giftist Valdemar Friðrikssyni árið 1961, þau skildu.
Börn þeirra eru:

 • Kristín Margrét, f. 5. júní 1961, gift Jóni Jónssyni,
  synir þeirra er
 • Bjarki Þór, og
 • Friðrik, f. 1. desember 1963,
  börn hans eru
 • Pétur Bergvin og
 • Rósa María.

Sigríður giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Rögnvaldi Bergvin Gíslasyni, f. 19. ágúst 1943, hinn 8. nóvember 1969.
Eignuðust þau tvö börn saman, þau

Rögnvald, f. 27. ágúst 1969, giftur Þórunni I. Einarsdóttur,
börn Rögnvaldar eru
 • Svandís Alexía,
 • Daníel Már og
 • Sigríður Anita, og
 • Lilja Rós, f. 3. október 1975, sambýlismaður hennar er Sigurður A. Hrafnkelsson,
  dætur þeirra eru
 • Þórlaug María og
 • Berglind Ósk,
  en fyrir á Lilja einnig dótturina
 • Guðfinnu Rós.
  Fyrir á Rögnvaldur tvö börn, þau eru
 • Rósu Ágústu, f. 24. júní 1964, og
 • Valgeir Sigurð, f. 4. júlí 1966.

Útför Sigríðar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 23. ágúst 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elskuleg eiginkona mín og móðir okkar er látin.

Henni var margt til lista lagt og eru þessi minningarorð engan veginn tæmandi um lífsferil hennar.

Margt stendur upp úr og má þar helst nefna óbilandi styrk, þrautseigju, góðvild og reisn sem hún bar alla sína ævi. Alla tíð vildi hún sinna náunganum og tók gjarnan aðra fram yfir sjálfa sig

Helstu áhugamál hennar voru ýmiss konar hannyrðir. Þar geta fáir fetað í fótspor hennar. Hún saumaði út, heklaði það sem henni datt í hug og prjónaði hvert listaverkið á eftir öðru. Það er örugglega hægt að fullyrða að hver einasti fjölskyldumeðlimur eigi eina eða fleiri heklaða eða prjónaða flík eftir hana. Hún prjónaði einnig heilmikið fyrir prjónaverslun og ófá heimfarasettin hefur hún prjónað.

Hún hélt fallegt heimili og gæði baksturs og eldamennsku voru henni eðlislæg. Hver man ekki ómótstæðilegu brauðterturnar hennar, kryddkökuna, súkkulaðikökuna og ömmupönnsur? Ef einhver var lasinn læknaði blómkálssúpan hennar allt, nú eða kjötsúpan sem var guðdómleg.

Ferðalögin voru ófá og fór hún víða, bæði innanlands og erlendis. Fjöldann allan af veiðiferðum fór hún með Rögnvaldi eiginmanni sínum og standa þar upp úr margir góðir dagar þar sem þau veiddu í soðið í Laxá á Ásum, í Þingvallavatni og Elliðavatni.

Einnig lögðu þau oft land undir fót og fóru þar á meðal til Danmerkur og Spánar.

Á sínum efri árum fóru þau einnig með börnum sínum og barnabörnum utan og má þar nefna Þýskaland, Spán, Afríku, Portúgal, Kanarí, Tenerife og Bandaríkin.

Þú hafðir mikið dálæti á tónlist, þar stóð einna helst Elvis Presley upp úr og kannski ekki tilviljun að dánardagur ykkar beggja skyldi vera 16. ágúst. Lagið Siglufjörður með Eyþóri Inga þótti þér afar vænt um sem og bæinn.

Nú mun ósk þín um að lagið verði flutt í jarðarför þinni verða að veruleika.

Vitneskju þeirri sem bankaði upp á hjá okkur fjölskyldunni í vor um ólæknandi veikindi, þín elsku eiginkona og móðir, var erfitt að kyngja. Enginn trúði því að Sirrý mín og móðir okkar gæti mögulega orðin svona lasin, bara allt í einu, að eitthvað svona myndi koma fyrir þessa sterku manneskju.

Næstu dagar, vikur og mánuðir voru erfið fyrir okkur öll. Allt gerðist þetta svo hratt. En fyrir þig, sterku manneskjuna sem þú varst, reyndum við hin að halda höfði og fylgja þér og reisn þinni alla leið, allt til endaloka þinna.

Við áttum ekki von á því að missa þig svona fljótt, við vildum öll hafa þig lengur hjá okkur, héldum í rauninni að þú yrði dálítið lengur.

Þú vissir í hvað stefndi, þú varst undirbúin og þú náðir að kveðja okkur öll með fallegum orðum og innilegu knúsi. Núna ertu farin á betri stað og finnur ekki lengur til.

Við vitum að þú vakir yfir okkur. Þú munt ávallt fylgja okkur í hjörtum okkar og huga og við munum tendra ljós um minningu þína um aldur og ævi. Og mamma, þetta verður allt í lagi eins og þú sagðir sjálf stuttu áður en yfir lauk.

Elsku eiginkona mín og móðir okkar.

Hvíldu í friði, minning þín lifir.

Rögnvaldur Gíslason,

Kristín, Friðrik, Rögnvaldur og Lilja Rós.
------------------------------------------------------

Ástarvakning

 • Að elska og þrá
 • að vakna úr dá
 • að elska er gott
 • þín vitund fær vott.

 • Að missa er verra
 • þín tár þarf að þerra
 • vertu þinn herra, þín frú
 • ástin er ávallt trú.

 • Gefðu því allt
 • já ávallt þú skalt
 • elskaðu mig
 • því ég elska þig.

Friðrik.
--------------------------------------------------

Kveðja til Mömmu

 • Hvernig þú prjónaðir þig
 • í gegnum líf þitt
 • með mikilli list.
 • Hvernig þú lofaðir mig
 • og uppfylltir líf mitt
 • ég stórt hef misst.
 • Þinn styrkur, þín von, þín trú
 • hjá mér, ég veit þú munt vernda
 • ömmugullin þín þrjú.
 • Styrkleika og þrótt þinn, mín kæra frú
 • mátt þú láta hjá mér lenda
 • ég þigg hann með þökkum nú.
 • Of fljótt frá okkur varstu tekin
 • elsku mamma, mig langar svo að segja margt
 • ást og hlýju þú eftir þig lætur.
 • Þú verður ávallt að verðleikum metin
 • fallegar minningar og ómetanlegt prjónaskart
 • ég mun alla tíð hafa á því gætur.
 • Þú kvaddir heiminn og okkur öll
 • með styrk og mikilli reisn
 • með fögrum orðum líkt og drottning í höll.
 • Þú kvaddir mig

  I love you ég kveð þig elsku mamma

Þín Rós.