Hulda Sigmundsdóttir

Morgunblaðið - 16. desember 1972

  • „Svo fylgir oss eftir á lestaferð ævilangri
  • hið ljúfa vor, þegar alls staðar sást til vega.
  • Því skín á hamingju undir daganna angri,
  • og undir daganna fögnuði glitrar á trega."

 Tómas Guðmundsson.
-----------------

Myrkur getur hann orðið, norðlenski veturinn, þeim sem þrá birtu vordaganna heitu hjarta. Ef til vill verður hann þó aldrei jafndimmur sem andspænis þeim gesti, er vér eigum öll vísan og gerir ekki boð á undan sér, en kemur einatt, þá síst skyldi. Mannsævin er svipul. Gróður jarðar fellir blóma sinn á haustdögum, en menn hníga í valinn jafnt í skammdegi sem við sumarsólstöður, jafnt vor sem haust.

Og fornt orð kveður, að enginn megi sköpum renna. Þegar harmafregnir berast, verður mönnum þó tregt tungu að hræra engu síður en Agli forðum. Oss gleymist tíðum í trega vorum og harmi sá sannleiki, sem Agli var hulinn, en Íslendingum fluttur eftir hans dag, og Hallgrímur orðaði með spurningunni sístæðu: „Dauði, hvar er nú broddur þinn?"

Hulda Sigmundsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Hulda Sigmundsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Hulda Sigmundsdóttir var fædd að Hólakoti á Höfðaströnd 17. október 1929, dóttir hjónanna Margrétar Erlendsdóttur Pálssonar, verslunarstjóra I Grafarósi og Hofsósi, og Sigmundar Sigtryggssonar Sigmundssonar, bónda í Gröf.

Barn að aldri fluttist hún með foreldrum sínum til Siglufjarðar og ólst þar upp.

Um tvítugt giftist hún Stefáni Friðbjarnarsyni, núverandi bæjarstjóra Siglfirðinga.
Börn eignuðust þau þrjú,

  • Sigmundur Friðbjarnason,
  • Kjartan Friðbjarnarson
  • Sigríður Friðbjarnardóttir.

Svo er hennar saga. Hún á heimili sitt á Siglufirði í tæpa fjóra tugi ára. Þar hleypur hún um í áhyggjulausum leik glaðra bernskudaga undir sívökulum verndarvæng einstaklega góðra foreldra. Þar eignast hún æsku vini og félaga á skemmtilegum skólaárum, og draumar og vonir og eftirvænting ljá þeim dögum þann blæ, sem bregður ljóma og lit á lífið æ síðan.

Þar giftist hún góðum dreng og æskuvini, og þar vaxa úr grasi börnin þrjú, hvert öðru myndarlegra og mannvænlegra. Siglufirði er sagan tengd. Siglufjörður er svið lífs hennar og starfs, fagurt svið og við hæfi: Kyrr og hæglát haustkvöld, gáskafullir vordagar með sumarið í hlýju fangi, heiðstirndar vetrarnætur og hvít mjöllin þekur gamalkunnan og vinalegan fjallahringinn, bjartar og heitar sumarnætur með sólblik um Nesnúp og Staðarhólshnjúk.

Þannig þyrpast myndimar fram í hugann, og þeim er gefið líf af lítilli hnátu í boltaleik heima hjá sér, fallegri stúlku á kvöldgöngu með unnusta sínum, myndarlegri húsmóður á glæsilegu heimili. Og svo er þessu lokið „á snöggu augabragði". Myndirnar verða ekki fleiri. Og þó. „Við áttum vor, sem aldrei liður hjá." Það vor verður aldrei frá oss tekið. Það býr með oss, „fylgir oss eftir á lestaferð ævilangri".

Og þess vegna „skín á hamingju" jafnvel í hinni dýpstu sorg, hinum sárasta harmi. Vér áttum vordagana með henni, sem gengin er, gleðistundirnar, þegar lífið brosti við fullt af fyrirheitum og vonum. Þær stundir verða aldrei frá oss teknar. Og ekki frá henni heldur. Hulda er að vísu horfin mannlegum sjónum, en minnumst þess, að ,,nú sjáum vér svo sem í skuggsjá í óljósri mynd, en þá augliti til auglitis". Og það er trúa mín, að eins og samúð vor, vina Stefáns og Sigmundar og fjölskyldu þeirra, vakir í tregafullum brjóstum, þannig muni og hlý ástúð hennar umlykja þau nú, engu síður en meðan hún sté enn heilum fæti á fold.

Ólafur Haukur Árnason.
-------------------------------------------

SINFÓNÍA lífs og dauða þagnar aldrei. Stundum er hún ómblíð, stundum ógnþrungin, en í þetta skipti voru tónarnir yfirþyrmandi er fréttin um andlát hinnar ungu, elskulegu konu barst mér laugardagsmorguninn þann 9. desember sl. Sorgþrungin staðreynd, en samt staðreynd, sem ekki verður umflúin. Sársaukafullur veruleiki fyrir fjölskyldu og vini hinnar látnu.

Hulda fluttist hingað barn að aldri með foreldrum sínum, Margréti Erlendsdóttur og Sigmundi Sigtryggssyni, verslunarmanni, valinkunnum sæmdarhjónum, bróður sínum, sr. Erlendi Sigmundssyni biskupsritara og uppeldissystrum sínum, Kristínu Rögnvaldsdóttur og Sigriði Sigurðardóttur.

Móður sína missti frú Hulda fyrir allmörgum árum og var það henni þungt áfall. Sigmund föður sinn annaðist hún sl. 15 ár með frábærri umhyggju, enda samband þeirra ætíð mjög innilegt. Fyrir stuttu síðan fór Sigmundur á elliheimili hér í bæ, 83ja ára að aldri, og verður nú að sjá á bak elskulegri dóttur, sem hamingjan virtist blasa við. Það má með sanni segja að enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Hulda var sérkennilega fríð kona, fínleg og ákaflega ljúf í viðmóti. Hún hafði ákveðnar skoðanir og þorði vel að láta þær í Ijós, þó ætíð væri með mannúð gert. Hún varð ung virkur félagi í Félagi ungra sjálfstæðismanna í Siglufirði og starfaði síðan lengi og vel í Sjálfstæðiskvennafélagi Siglufjarðar. Hulda var aðeins 43 ára að aldri er hún lést. Hún var gift Stefáni Friðbjarnarsyni, bæjarstjóra hér í bæ. Þau eignuðust 3 mannvænleg börn, sem öll eru við nám:

Sigmundur Stefánsson, sem stundar laganám við Háskóla Íslands,
Kjartan Stefánsson, sem stundar íslensku og sögunám við Háskóla íslands og
Sigríði, sem er í 5. bekk Verzlunarskóla íslands.

Hulda var einlæg, heil og trú, þar sem hún gekk að verki með huga eða hönd. Hún var, sem fyrr segir, einlæg í trú sinni á gildi sjálfstæðisstefnunnar, sem hún vann mikið allt frá unglingsaldri. Hún unni Siglufirði umfram alla aðra staði og mátti aldrei heyra hnjóðsyrði um hann. Engin gat verið betri föður sínum öldruðum, sem hún annaðist um árabil, umhyggjusamari eiginmanni sínum, er hún studdi með ráðum og dáð í starfi hans, eða umhyggjusamari börnum sínum, sem hún unni mjög.

En fyrst og fremst var hún einlæg i Guðstrú sinni. Sú trúarvissa hlýtur að vera aðstandendum huggun i miklum harmi og ábending um, að hún sé nú í mildri umsjá hans, sem öllum líknar að ævilokum og færir inn í framhaldslífið. Við hjónin þökkum henni vináttu liðinna ára, og biðjum Guð að taka þessa elskulegu konu í sinn náðarfaðm. Eiginmanni, börnum, svo og öðrum ástvinum biðjum við æðri máttarvöld að ljá styrk til að komast í gegn um þessa miklu raun.

Siglufirði í des. 1972 Óli J. Blöndal
_______________________

FRÁ Siglufjarðarkirkju verður í dag gerð útför frú Huldu Sigmundsdóttur, sem andaðist á Siglufirði hinn 9. desember 1972. Hulda Sigmundsdóttir var fædd hinn 17. október 1929 að Hólakoti við Hofsós. Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Erlendsdóttir og Sigmundur Sigtryggsson. Á barnsaldri fluttist Hulda með foreldrum sínum til Siglufjarðar, þar sem faðir hennar vann að verslunarstörfin  með stakri prýði allt fram á elliár, og er hann nú heiðursfélagi í Verslunarmannafélagi Siglufjarðar.

Margrét móðir Huldu er dáin fyrir allmörgum árum (1958). Á æskuárum í félagsstarfi   ungra sjálfstæðismanna hér á Siglufirði munu hafa hafist kynni Huldu af eftirlifandi manni sínum, Stefáni Friðbjarnarsyni, bæjarstjóra, sem leiddu til hjúskapar á árinu 1949, þó að þau hafi á unglingsárum áður verið samtíða í skóla.

Árið 1949 fæddist eldri sonur þeirra, Sigmundur Stefánsson, sem nú stundar nám I lögfræði við Háskóla íslands. Yngri sonur þeirra, Kjartan, fæddist 1951, og stundar hann nú nám í íslensku og sögu við Háskóla Íslands. Kjartan er kvæntur Guðrúnu Sigurðardóttur á Siglufirði og eiga þau einn son, Stefán, sem er eina barnabarnið, sem Huldu entist aldur til að kynnast og elska. Yngsta barn Huldu og Stefáns er Sigríður, fædd 1954, sem nú stundar nám í 5. bekk hagfræðideildar Verzlunarskóla íslands.

Að félagsmálum starfaði Hulda framan af í félagi ungra sjálfstæðismanna og síðar í sjálfstæðiskvennafélaginu á Siglufirði, og get ég borið vitni um, að í þeim félögum vann hún mikið og óeigingjarnt starf fram á síðustu stund. Þá var hún einnig virkur félagi í Kvenfélagi sjúkrahúss Siglufjarðar, en það félag hefir unnið stórvirki á sínu sviði hér á Siglufirði.

Aðalstarf Huldu, eins og svo margra góðra eiginkvenna og mæðra, var innan veggja heimilis hennar, þar sem hún lagði sig fram um að búa manni sínum og börnum, og nú hin síðari ári einnig öldruðum föður sínum, hlýtt og öruggt athvarf. Gestagangur var töluverður á heimili þeirra hjóna og er mér og konu minni ljúft að minnast alúðlegs viðmóts og örlátrar gestrisni Huldu við öll tækifæri, og veit ég, að fjölmargir hafa sömu sögu að segja. Hulda hafði viðkvæma lund, og varð ég þess var, að hún tók oft nærri sér það aðkast, sem eiginmaður hennar, Stefán bæjarstjóri, varð fyrir út af störfum sinum og stjórnmálum og bæjarmálum.

Mun það og hafa mætt á henni, einkum meðan börnin voru yngri, að útskýra fyrir þeim, að ekki mætti taka bókstaflega sum ummæli og blaðaskrif pólitískra andstæðinga um föður þeirra. Slíkt er hlutskipti þeirra kvenna, er eiga eiginmenn  sína i eldlínu stjórnmálanna, hvar í flokki, sem þeir annars standa. Eigi að síður gerði Hulda sér far um að fylgjast sem best með störfum manns síns, og hefir Stefán haft orð á því við mig oftar en einu sinni, að sér hefði reynst örðugt að valda þeim vanda, er iðulega lagðist á hann á erfiðum stundum, ef hann hefði ekki ævinlega og undir öllum kringumstæðum átt vísan óbrigðulan styrk og kjark frá henni.

Hin síðustu ár átti Hulda við að stríða sjúkleika, sem virtist ágerast. Ég held, að hún hafi óttast, að þessi sjúkleiki leiddi til þess, að hún mundi missa þrek til að veita ástvinum símum þá umhyggju og ástúð, sem henni fannst, að þeir ættu skilið af sér. Og því held ég, að tilhugsunin um það að geta ekki haldið áfram að gefa öðrum það, sem hún var ríkust af, kærleikann, hafi verið henni illbærileg eða jafnvel óbærileg. Þegar ástrik eiginkona og móðir fellur frá jafn skyndilega og hér varð raunin á, er harmur og söknuður nánustu aðstandenda sárari en hægt er að gera sér ljósa grein fyrir.

Við hjónin vottum þeim okkar dýpstu samúð.

Knútur Jónsson.