Kristín Rögnvaldsdóttir

mbl.is 11. desember 2010 | Minningargreinar 

Kristín Rögnvaldsdóttir fæddist á Torfhóli í Hofshreppi í Skagafirði 24. ágúst 1922. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 29. nóvember 2010.

Foreldrar hennar voru Jóhanna Björg Aðalsteinsdóttir, f. 29. mars 1892 á Húnsstöðum í Holtshreppi í Skagafirði, d. 18. nóvember 1989, og Rögnvaldur Jónsson, f. 25. mars 1890 á Torfhóli í Óslandshlíð í Skagafirði, d.13. desember 1938.

Kristín var tekin í fóstur af Guðbjörgu Stefánsdóttur frá Hólakoti í Hofssókn og hjónunum Margréti Erlendsdóttur og Sigmundi Sigtryggssyni.

Þau fluttust til Siglufjarðar árið 1933.

Systkini hennar voru

 • Ragna Rögnvaldsdóttir, látin,
 • Axel Rögnvaldsson, látinn,
 • Pálmi Rögnvaldsson og
 • Ingvaldur Rögnvaldsson.
 • Fóstursystkini hennar voru
 • Erlendur Sigmundsson,
 • Hulda Sigmundsdóttir og
 • Sigríður Sigurðardóttir
  sem öll eru látin.
Kristín Rögnvaldsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Kristín Rögnvaldsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Kristín kvæntist Baldri Ólafssyni múrarameistara frá Siglufirði, f. 13. mars 1925, d. 6. desember 1967.
Foreldrar Baldurs voru Þorfinna Sigfúsdóttir, f. 3. maí 1903, d. 4. febrúar 1990, og Ólafur Vilhjálmsson, f. 25. mars 1898, d. 30. janúar 1947.

Börn Kristínar og Baldurs eru:

 • Guðbjörg Baldursdóttir, f. 1943, gift Sveinbirni Vigfússyni og eiga þau þrjú börn.

 • Bryndís Baldursdóttir, f. 1945, gift Gunnari Steinþórssyni og eiga þau þrjú börn,

 • Guðrún Margrét, f. 1947, gift Viktori Ægissyni og eiga þau þrjú börn,

 • Ólafur, Baldursson f. 1952, hann á tvo syni, móðir þeirra er Margrét Jónasdóttir,

 • Brynhildur Baldursdóttir, f. 1961, gift Jóhanni Ottesen og á hún einn son, faðir hans er Björn Hannesson.
  Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin eru 12.

Kristín vann við síldarsöltun eins og flestar ungar stúlkur gerðu á Siglufirði á þessum tímum, dvaldi síðan einn vetur í Reykjavík þar sem hún var í vist hjá Soffíu Guðlaugsdóttur leikkonu. Eftir lát Baldurs vann hún við verslunarstörf, fyrst í Bókaverslun Hannesar Jónassonar og síðar í verslun Kaupfélags Eyfirðinga á Siglufirði. Kristín var til margra ára virkur félagi í Kvenfélaginu Von á Siglufirði.

Útför Kristínar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 11. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku amma mín, mig langar að minnast þín með nokkrum orðum.

Hugurinn reikar til baka til allra góðu stundanna sem við höfum átt saman frá því ég var lítil stelpa. Ég man eftir sumrunum, ég vildi alltaf fara til ömmu á Sigló í öllum fríunum. Oftast kom ég ein fljúgandi frá Akureyri en líka með foreldrum mínum. Það var alltaf svo gaman og gott að koma til þín, ég fékk að sofa uppi í hjá þér og ekkert jafnaðist á við að fá „ömmugraut“ og lummurnar þínar, sem enginn gerði eins og þú. Það var alltaf svo notalegt að vakna hjá þér á sunnudagsmorgnum við messu í útvarpinu og finna lyktina af lambalæri í ofninum, en þetta er liðin tíð í dag.

Á föstudagskvöldum gerðum við okkur dagamun, ég man alltaf eftir því að ég rölti niður í Nönnubúð þar sem ég átti alltaf að kaupa það sama, kók, nammi og dömuvindla (annars reyktir þú ekki). Ég man líka alltaf eftir þér í glugganum á Hvanneyrarbrautinni að kíkja eftir því hvort við værum að koma til Sigló eða veifa til okkar þegar við vorum að fara heim til Akureyrar. Það var alveg fastur punktur þegar við keyrðum inn á Siglufjörð; skyldi amma vera í glugganum?

Amma mín, þú kenndir mér margt, þú vildir hafa allt í röð og reglu og það var ekki sama hvernig gengið var frá hlutunum. Það varð allt að vera alveg akkúrat. Þú vildir alltaf vera fín og vel tilhöfð og fylgdist svo vel með öllu. Þú fylgdist vel með knattspyrnu hvort sem það var hér heima, enski boltinn eða ítalski og varst með alla leikmenn á hreinu. Einnig kappakstri og formúlunni. Þetta fannst mér alltaf svolítið skemmtilegt.

Það var góður tími sem við áttum saman sumarið eftir að ég lauk menntaskóla og kom og vann á sjúkrahúsinu á Sigló. Ég fékk að búa hjá þér. Þá spjölluðum við mikið saman um gamla daga þegar þú vannst í síldinni, um afa og svo margt, margt fleira. Við vorum mjög nánar og góðar vinkonur þegar heilsa þín leyfði og við gátum rætt allt.

Eftir stúdentspróf var ég að velta því fyrir mér að fara út til náms en þér leist ekkert á það, vildir frekar að ég færi beint í HÍ. Þú varst ekki róleg ef barnabörnin þín voru á miklum ferðalögum erlendis. Lengst af fylgdist þú vel með Baldri bróður og öllum hans ferðum um heiminn og hvar hann var staddur í heiminum hverju sinni í gegnum póstkortin sem hann sendi þér.

Við spjölluðum alltaf reglulega saman í síma meðan heilsa þín leyfði og hringdum oft hvor í aðra en sl. þrjú ár hefur það ekki verið hægt þar sem bæði heyrn þinni hrakaði og heilsu.

Ævi þín var ekki auðveld, þú varðst ekkja um fertugt með fimm börn, þó svo að þau tvö elstu hafi verið farin að heiman. Þá fórst þú út á vinnumarkaðinn og vannst mikið alla þína tíð, m.a. í bókaverslun Hannesar Jónassonar og síðar hjá KEA.

Síðastliðin þrjú voru þér erfið þar sem þú dvaldist á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar en við góða umönnun. Ég var svo glöð í sumar þegar við mæðgurnar komum til Siglufjarðar og þú þekktir mig með nafni og líka hana litlu Guðbjörgu Lind mína.

Elsku amma mín, ég geymi minninguna um þig alla tíð. Hvíl í friði.

Huld.
----------------------------------------------------------

Við kveðjum hana elsku ömmu okkar með söknuði og það eru margar minningar sem koma upp í hugann þegar við hugsum til ömmu Stínu á Sigló.

Minnisstæð eru kvöldin hjá ömmu í eldhúsinu á Hvanneyrarbrautinni þar sem amma var með útsýni út á fallega fjörðinn, þar sátum við systurnar við gluggann og horfðum út, sáum bátana koma inn og hlustuðum á hana segja skemmtilegar sögur. Einnig þegar við keyrðum inn fjörðinn þegar við komum að heimsækja hana, þá biðum við eftir að finna gluggann hennar því hún beið alltaf eftir okkur til þess að taka á móti okkur veifandi.

Amma Stína var dugnaðarforkur, góð, glæsileg og hjartahlý kona. Var vel þekkt meðal fólks í bænum og vildi öllum vel. Hún elskaði punt og skraut og gátum við eytt stundunum saman í að skoða allt dótið hennar, hvort sem það var inni í stofu eða inni á baðherbergi, alls staðar var fallegt skraut. Hún hafði einnig gaman af því að hafa sig til, alltaf með nýlagt hár, bar bleikt naglalakk og bleikan varalit, því uppáhaldsliturinn hennar var bleikur.

Elsku amma okkar, við þökkum þér fyrir samfylgdina og við munum geyma allar góðu minningarnar í hjarta okkar.

 • Vertu blessuð, elsku amma,
 • okkar hugsun með þér fer
 • yfir hafið hinum megin
 • horfnir vinir fagna þér.
 • Þó við dóminn skapa ei skiljum,
 • skýrist margt við kærleiks yl.
 • Lítil barnssál líka getur
 • leitað, saknað, fundið til.

(Höf. óþ.)

Hvíldu í friði, elsku amma okkar.

Kristín (Stína) og Viktoría Unnur.
----------------------------------------------------

Stína frænka var okkur afar kær allt frá bernsku. Hún var fóstursystir mömmu og mikill samgangur var á milli heimila okkar þegar við vorum börn á Siglufirði. Góðvild hennar hefur fylgt okkur alla tíð og við átt athvarf hjá henni þegar leiðin hefur legið á heimaslóðir.

Á þessari stundu leitar því hugurinn til baka, allt til þess tíma er afi og amma bjuggu í Eyrargötu 27 en Stína fluttist með þeim til Siglufjarðar árið 1933 ásamt langömmu en til hennar kom Stína ung í fóstur. Í Eyrargötunni ríktu kyrrð og hefðir gamla tímans, þar var setið án malanda þegar messa var og fylgst af athygli með lestri framhaldssögunnar á kvöldin, en útvarpið var í senn aðalsamband við umheiminn og menningarafþreying þess tíma. Svo var það Lesbók Morgunblaðsins sem aldrei var hent og geymd sem gersemi. Stína var mjög minnug á þennan tíma og var því gaman að rifja upp eitt og annað sem var farið að fyrnast eða við ekki vissum. Það studdi við bernskuminningarnar og setti ýmislegt í skýrara ljós.

Stína var hávaxin og myndarleg kona, einstaklega glaðlynd, brosmild og hjálpsöm. Þess vegna var þægilegt og afslappandi að vera í návist hennar. Í heimsóknum til hennar löngu eftir að við urðum fullorðin fannst okkur eins og hún liti enn á okkur sem sömu krakkana og forðum og það var afskaplega notaleg tilfinning. Hún fylgdist einnig vel með börnum okkar og þau minnast hennar með hlýhug en heimsókn til hennar var fastur liður í ferðum til Siglufjarðar. Stína fór ekki varhluta af mótlæti í lífinu. Eiginmanninn,

Baldur Ólafsson múrarameistara, missti hún á besta aldri. Baldur sem okkur fannst hreystin uppmáluð, mikill skíða- og útvistarmaður, lést af völdum hjartaáfalls aðeins 43 ára gamall. Eftir andlát Baldurs fór Stína að vinna utan heimilis, aðallega við verslunarstörf. Það voru töluverð viðbrigði fyrir hana og síðustu starfsárin voru henni ekki auðveld enda var hún ekki heilsuhraust. Stína kvartaði samt ekki undan hlutskipti sínu og bar sig vel og fylgdist vel með mönnum og málefnum. Hún naut mikils barnaláns og prýddu myndir af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum borð og veggi hjá Stínu og var hún afar stolt af þeim.

Við systkinin og fjölskyldur okkar kveðjum Stínu með þökk og eftirsjá og vottum börnum hennar og fjölskyldum þeirra samúð okkar.

Sigmundur, Kjartan og Sigríður.
---------------------------------------------------

 • Kallið er komið,
 • komin er nú stundin,
 • vinaskilnaðar viðkvæm stund.
 • Vinirnir kveðja
 • vininn sinn látna,
 • er sefur hér hinn síðasta blund.

(Valdimar Briem.)

Minningabrotin koma fram í hugann við andlát Kristínar Rögnvaldsdóttur eða Stínu eins og hún var jafnan kölluð. Hún var kona móðurbróður okkar, Baldurs Ólafssonar, sem var okkur systkinum afar kær. Hann dó langt um aldur fram og var það mikill og sár missir fyrir Stínu og börnin hennar fimm. Það er dýrmætur arfur að eiga slíku barnaláni að fagna sem þeim hjónum auðnaðist, börnin, tengdabörn og barnabörnin hafa verið hennar styrkur í öll þau ár sem liðin eru frá láti Baldurs. Hún var líka mjög stolt af sínum mannvænlega hópi. Í hennar vistarverum mátti sjá myndir af þeim allt í kringum hana.

Allt frá því að við systkinin fórum að muna eftir okkur hefur Stína verið mikilvægur hlekkur í okkar stórfjölskyldu. Minningar okkar um hana eru ljúfar, hún var okkur alla tíð afar góð, allt frá því að við skokkuðum út á Hvanneyrarbraut til frænda þá tók hún okkur alltaf opnum örmum. Allar götur síðan er við komum sem gestir í fjörðinn kæra fagnaði hún okkur af sömu ljúfmennskunni. Mökum okkar og börnum tók hún jafnvel og vildi ávallt vita um þeirra hagi. Fyrir það viljum við þakka og fyrir áralanga vináttu sem aldrei hefur borið skugga á.

Blessuð sé minning mætrar konu. Börnum, tengdabörnum og öðrum afkomendum vottum við okkar dýpstu sambúð.

Sólveig Helga Jónasdóttir, Ásgeir Jónasson og fjölskyldur.