Guðlaug Márusdóttir

mbl.is - 7. janúar 2021 

Guðlaug Márusdóttir fæddist 5. nóvember 1926. Hún lést 19. nóvember 2020.
Guðlaug var jarðsungin 5. desember 2020.

Margt sækir á hugann við andlát elsku frænku minnar og föðursystur, Guðlaugar Márusdóttur í Haganesi.

Hún sagðist hafa komið að mér í beisli og bundnum við steintröppurnar á Hvanneyrarbraut 32 á Siglufirði, þá líklega fjögurra ára. „Af hverju bindið þið barnið við tröppurnar?“ spurði hún og fékk þau svör að ég væri ódæll í meira lagi og sækti í að komast burtu og þá helst niður að sjó sem þótti ekki heppilegt.

„Ég tek hann með mér heim í Haganes,“ sagðist hún hafa sagt við foreldra mína og það sem Lauga frænka ákvað, bæði þá og síðar, stóð óhaggað. Þessi ráðahagur tel ég að hafi orðið mér til mikillar gæfu því næstu ár héldu mér engin bönd, strax og skóla lauk á vorin var ég þotinn inn í Fljót (Haganes) og var þar alla jafna fram yfir haustgöngur.

Guðlaug Márusdóttir  - Ljósmynd Steingrímur

Guðlaug Márusdóttir - Ljósmynd Steingrímur

Þarna fékk ég mína eldskírn, sem líklega hefur „sett á manninn mark“ umfram flest annað. Fátt var betra en að fá að atast við bústörf auk þess að stunda fyrirdrátt og dúntekju. Eiginmaður Laugu, Jón Kort, harðduglegur maður, var mér afar góður og marga leiðbeiningu fékk ég hjá honum sem hefur reynst vel í lífinu.

Á þessum árum bjó einnig hjá þeim föðursystir mín Sólveig með börnin sín og Jórunn móðir Konna ásamt Márusi afa mínum, þá orðinn blindur, sem ég var mjög hændur að.

Það var því marga munna að seðja auk þess sem gestagangur var umtalsverður því Landsímastöðin í V- Fljótum var í Haganesi. Það var því í mörg horn að líta hjá þessari dugnaðarfrænku minni enda hafði hún ráð við flestu. Mér er til dæmis í fersku minni baráttan við lúsina, en þá „óværu“ flutti ég með mér úr sundkennslu á Sólgörðum eitt vorið.

Úrræði eins og greiður, kambar og lúsaduft máttu sín einskis í baráttu við lúsina og þá var það að frænka greip til „þrautavara“ leiðarinnar og sauð allan minn fatnað í þvottapotti í margar klukkustundir og það dugði. Á þessum árum endurnýjuðu þau Konni og Lauga húsakost, auk þess sem hann starfaði bæði fyrir Rafveitur og Landsímann.

Þá sótti Lauga vinnu t.d. til Siglufjarðar þegar síldarsöltun var í gangi. Margt er mér minnisstætt um þessa kæru frænku mína. Það var stundum eins og hún hefði „sagnaranda“. Eitt sinn hringdi hún til mín þegar ég bjástraði við búskap í Eyjafirði og spurði hvort rétt væri að ég ætti enga snúningsvél?

Ég varð að viðurkenna að svo væri. Ekki leið langur tími þar til hún hringdi aftur og að nú skyldi ég fara inn í Véladeild KEA og tala þar við tiltekinn mann, sem myndi afhenda mér nýja snúningvél, sem mér tókst að endurgreiða um haustið. Svona var Lauga frænka mín. Mörgu fleiru gæti ég bætt við kærleik hennar í minn garð fyrr og síðar. Minnist sérstaklega þess er hún eitt sinn bauð til messu í Barðskirkju.

Við gengum tvö sem leið lá upp Flóann. Ég var hugfanginn af söng frænku. Á eftir var kirkjukaffi. Svo leiddumst við hönd í hönd sem leið lá niður í Langhús. Á miðri leið þaðan, við Vörðuna, settumst við niður, spjölluðum og virtum fyrir okkur eitt fegursta sköpunarverk Guðs, Fljótin, í allri sinni tign og fegurð. Innilegar þakkir kæra frænka mín.

Jónas Hallgrímsson. (Márussonar kæðskera)

Frétt Morgunblaðsins

Frétt sksiglo.is