Tengt Siglufirði
mbl.is - 11. janúar 2021 | Minningargreinar
Sævar Guðmundsson fæddist á Siglufirði þann 12. júlí 1944 sonur Valgerðar Kristjönu Þorsteinsdóttur, verkakonu og húsmóður, f. 25. febrúar 1918 í Vík í Staðarhreppi, Skagafirði, d. 26. maí 1989 í Reykjavík, og Guðmundar Kjartans Guðmundssonar, sjómanns og verkamanns, f. 28. mars 1907 á Fjósum í Laxárdal, d. 22. ágúst 1957 á Siglufirði.
Systkini Sævars eru
Sævar kvæntist þann 26. desember 1964 Þóru Björgu Ögmundsdóttur, f. 16. júní 1944 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar eru Guðrún Jónsdóttir (1899-1992) húsmóðir og Ögmundur Ólafsson (1894-1995) vélstjóri á Litla-Landi í Vestmannaeyjum.
Dætur Sævars og Þóru Bjargar eru
Sævar ólst upp á Siglufirði en var sem barn í sveit á sumrum í Vesturdal í Skagafirði. Hann fór ungur á sjóinn, 15 ára varð hann sjómaður á síðutogara og stundaði sjómennsku um hríð. Seinna vann hann verkamannavinnu hjá fiskimjölsverksmiðjunni í Vestmannaeyjum, þar sem þau Þóra Björg kynntust og hófu búskap. Í nóvember 1965 fluttu þau hjónin upp á land, á Rauðalæk í Holtum, þar sem Sævar hafði fengið starf sem afgreiðslumaður hjá Kaupfélagi Rangæinga.
Hjá KR starfaði Sævar fyrst í versluninni en síðar á varahlutalagernum allt til ársins 1979 er hann fór aftur á sjóinn, síðan á millilandaskip og í febrúar 1980 til starfa hjá SG-einingahúsum á Selfossi og þá um vorið fluttu þau hjónin á Selfoss. Sævar hóf nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands árið 1982 og lauk sveinsprófi í húsasmíðum vorið 1984. Hjá SG-einingahúsum starfaði Sævar allt til ársins 2005 þegar hann varð að láta af störfum vegna veikinda.
Sævar lést á líknardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þriðjudaginn 29. desember.
Útför Sævars verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 11. janúar 2021, klukkan 14. Í ljósi aðstæðna verða aðeins nánustu aðstandendur viðstaddir athöfnina.
Ég kveð kæran tengdaföður minn og vin, Sævar Guðmundsson, hinsta sinni. Ekki hefði ég getað óskað mér betri tengdafjölskyldu sem ég hef verið hluti af frá því við Valgerður mín hófum okkar samveru fyrir tæpum fjörutíu árum. Sævar var ekki bara tengdafaðir minn heldur einnig mikill vinur. Stunduðum við m.a. fuglaveiðar saman í um áratug og áttum færabát og gerðum út eitt sumarið frá Þorlákshöfn. Hans lífssýn, sem var mér mikill lærdómur, var að treysta á sjálfan sig, kvarta ekki, vera eljusamur og staðfastur. Alla tíð var mjög kært á milli okkar. Sævar var húsasmiður að mennt, listasmiður, afar vandvirkur og útsjónarsamur. Margt lærði ég við að fylgjast með honum við verkin þegar tækifæri gafst.
Veikindi mörkuðu sín spor á líf Sævars síðustu fimmtán árin en árið 2005 fékk hann heilablóðfall og síðar önnur mein. Það var aðdáunarvert hvernig hann tókst á við áfallið á sínum tíma eftir að hafa misst allt tal, þurft að læra að nýju að flytja skýra hugsun yfir í mælt mál nánast frá grunni. Jákvæðni og æðruleysi einkenndu Sævar í því verkefni. Smiðurinn tengdafaðir minn þurfti aftur að læra að halda á hamri, þjálfa ýmsar hreyfingar, byggja upp líf sitt að nýju.
Hvernig hann tókst á við það kenndi mér margt um þrautseigju manns og hvað jákvæðni og bjartsýni hjálpar mikið. Ekki lögðu þau árar í bát hann og Þóra tengdamóðir mín þótt gæfi á. Ferðuðust innanlands með hjólhýsið sitt, sem var þeirra einna helsta áhugamál, sem og erlendis. Sævar var fagurkeri á listir og menningu og voru það honum og Þóru dýrmætar stundir þegar þau sóttu óperuna, tónleika eða fóru í leikhús og urðum við hjónin þess oft aðnjótandi að vera með þeim á þeim viðburðum. Nutu þau lífsins í kærleik sínum þeirra í millum og til afkomenda og fjölskyldna þeirra.
Með þökk er kvatt. Blessuð sé minning hans.
Halldór Páll.
---------------------------------------------
Þegar það síaðist loks inn hjá mér að í þetta sinnið væri afi líklegast að fara, gat ég ekki hugsað um annað en tjöruhreinsi. Hver átti nú að sjá til þess að dekkin mín væru tjöruhreinsuð áður en ég legði af stað norður?
Þrátt fyrir þessa vitneskju kom tímabil þar sem ég bjóst allt eins við kraftaverkasímtali. Að nú væri afa að batna. Því það gerði honum alltaf og það ætlaði hann sér örugglega líka í þetta skiptið, alveg fram á síðustu dagana. Afi hafði fleiri líf en kötturinn og afi var ofurhetja.
Afi sem kitlaði með skeggbroddunum þegar hann knúsaði þegar ég var lítil. Afi sem tuðaði og sagði jamm og jæja. Afi sem var alltaf að brasa – eða að horfa á íþróttirnar. Nema ef ég var í heimsókn, þá sat hann í stólnum sínum í stofunni og hlustaði á síbyljuna úr mér. Afi sem byggði smáhýsi handa okkur systkinunum. Ekki kofa, heldur lítið einbýlishús með gleri í gluggum og hurð með lás og lykli að. Afi sem flísalagði bílskúrinn í miðri krabbameinsmeðferð. Afi sem fékk símann hjá ömmu þegar ég hringdi frá Grímsey til þess að forvitnast um fiskerí, veiðarfæri og veðrið.
Afi sem kunni allt verklegt. Sem vissi með hverju ég ætti að smyrja saumavélina mína þegar ég átti ekki olíu á hana. Afi
sem valdi verkfæratösku í jólagjöf handa mér eitt árið. Amma laumaði styttu með. Afi sem sat í stólnum sínum og glotti, mest með augunum, á meðan það óð
á mér um lífið og tilveruna. Spurði mig svo um fiskerí og veiðarfæri. Afi sem talaði og hló svo mikið með augunum. Sem kvaddi mig á spítalanum með augunum. Afi sem hjálpaði
mér að skipta um perur í bílnum mínum fyrir svo rosalega stuttu síðan.
Elsku afi,
Það sem ég sakna þín og það sem ég á alltaf eftir að sakna þín. Samt sem áður er ég mjög þakklát að hafa fengið að hafa þig hjá mér í þessi 36 ár og fyrir að hafa alltaf verið í miklu sambandi við þig þann tíma. Ég er líka svo þakklát að hafa fengið að kveðja þig og faðma þig í síðasta skiptið eftir að hafa ekki faðmað þig síðan fyrir faraldurinn.
Þú kenndir mér dugnað, seiglu og gott vinnusiðferði. Þú kenndir mér að ég gæti allt sem ég ætlaði mér. Þú kenndir mér að ég gæti sjálf. Þú kenndir mér (hóflega) þrjósku. Það verður þó sennilega aldrei neinn jafnþrjóskur og þú.
Ég er viss um að langamma og systkini þín hafa tekið á móti þér hinum megin og ég veit að þú ert byrjaður að brasa.
Ég kveikti á kertunum á gamla englaspilinu á gamlárskvöld fyrir þig. Og hló skyndilega. Ég ætlaði nefnilega að ímynda mér þig sem engil. Afa engil. Þannig mynd kom ekki, ekki hefðbundin englamynd alla vega. Myndin sem kom upp í huga mér varst þú á vinnubuxunum fyrir framan Gullna hliðið að leggja hellur. Hvort sem það er verkið eða ekki og hvort hliðið er til staðar eða ekki er alveg víst að þú ert að brasa við eitthvað gagnlegt.
Elsku afi minn, þú verður alltaf besta ofurhetjan mín og mesti töffarinn. Einn daginn í fjarlægri framtíð hittumst við hinum megin en þangað til ætla ég að vanda mig og gera allt sem ég ætla mér. Að minnsta kosti gera mitt besta við það.
Þín dótturdóttir, Karen Nótt.