Sigurður Helgi Valgarðsson

mbl.is - 18. janúar 2021 | Minningargrein

Sigurður Valgarðsson, (Siggi) fæddist á Siglufirði 11. ágúst 1933. Hann lést þ. 10. janúar 2021 á líknardeildinni í Kópavogi.

Foreldrar hans voru hjónin Fanney Björnsdóttir, f. 1904, frá Göngustaðakoti í Svarfaðardal og Valgarður Þorkelsson, f. 1905, frá Húnstöðum í Fljótum.

Hann var elstur 5 barna þeirra sem eru:

  • Óskar Henning, f. 1935,
  • Anna Sigríður, f. 1936,
  • Valgarður, f. 1945, og
  • Fanney, f. 1948, og er einstaklega fallegt samband á milli þeirra systkina.

Sigurður kvæntist Kristjönu Kjartansdóttur, f. 1937, leiðir þeirra skildi.
Börn þeirra eru

Sigurður Valgarðsson - ókunnur ljósmyndari

Sigurður Valgarðsson - ókunnur ljósmyndari

  • Valgarður, f. 1956,
  • Fanney, f. 1957,
  • Kjartan, f. 1962,
  • Dröfn, f. 1965,
  • Kolbrún, f. 1970.

Barna- og barnabarnabörn eru 31. Bróðir sammæðra er Þórður Jóhann, f. 1978.

Sigurður stundaði sjómennsku frá unga aldri og fór sína fyrstu sjóferð 6 ára gamall með föður sínum. Hann lærði til vélstjóra og sigldi víða um heim. Síðustu árin var hann vaktmaður á varðskipum frá Hafrannsóknastofnun. Hann var handverksmaður góður og hafði gaman af að smíða úr hvaða efnivið sem er.

Útförin fer fram frá kirkju Óháða safnaðarins í dag, 18. janúar 2021, klukkan 15.

Vegna samkomutakmarkana verða aðeins nánasta fjölskylda og vinir viðstödd.

Nú, þegar komið er að leiðarlokum, langar mig að minnast vinar míns, Sigurðar Valgarðssonar, í nokkrum orðum.

Sigurður var afi sonar míns, sem heitir einmitt Sigurður í höfuðið á báðum öfum sínum.

Siggi, eins og hann var jafnan kallaður, tók mér vel frá fyrsta degi og mér þótti hann skemmtilegur, afburðavel gefinn, fróður, víðsýnn og með einstaklega skemmtilega lífssýn.

Húmorinn var grásvartur og Siggi sagði skemmtilega frá. Ég fékk fréttir af börnum og barnabörnum, nágrönnum, systkinum og fjölskyldum þeirra en aldrei þó neinar langlokur heldur allt á skemmtilegum nótum.

Á árum áður kom ég við hjá Sigga á Þorláksmessu og við stungum úr nokkrum kaffibollum og röbbuðum um heima og geima. Hann reykti pípuna sína en ég gerði konfektbirgðum heimilisins góð skil. Siggi hafði lúmskt gaman af að ýja að því að ég væri nú ekki tággrönn en á svo skemmtilegan máta að ég bara hló og fékk mér annan mola. Að lokum rétti hann mér seðil til að kaupa jólagjöf fyrir sonarsoninn og sagði alltaf: „þúsundkall á kjaft“ og átti þar við öll ófermd barnabörn. Og þegar þetta tiltekna barnabarn hefði átt að fermast, en fermdist ekki, þá rétti hann mér samt fimmþúsundkall því allir fengu jafnt!

Hófgerði er vel skipulagt heimili þar sem munir sem Siggi smíðaði úr kopar prýddu hillur í eldhúsinu, svefnherbergið var fullt af bókum af öllu tagi og gamlar saumavélar voru þar einnig í röðum.

Það var alltaf gestkvæmt í Hófgerði. Þegar ég kom við var iðulega einn nýfarinn eða annar rétt ókominn. Þarna gerði líka köttur úr nágrenninu sig heimakominn og fékk fisk hjá Sigga.

Ég var í þeim hópi sem naut þeirrar virðingar að taka við bókum sem Siggi hafði keypt í Góða hirðinum og þær komu sannarlega úr ólíkum áttum, og fjölluðu um allt milli himins og jarðar að ég held.

Hann valdi bækurnar fyrir mig af kostgæfni en bækurnar voru tíndar ein í senn í tvo bunka. Ég fékk ævintýri, glæpasögur, einstaka bók um raungreinar og ástarsögur (sem hann hafði auðvitað ekki lesið en sagði: „Þú hefur gaman af þessu.“). Bækur um tækni, sjómennsku og heimsstyrjöldina síðari, frá sjónarhorni Sovétríkjanna, sem ég myndi ekki hafa vit á eða gaman af, voru settar í hinn bunkann.

Flestar enduðu þessar bækur aftur í Góða hirðinum, ekki lúslesnar allar af minni hálfu, en þetta var skemmtilegur siður og minningar sem mér þykir vænt um. Nú sit ég uppi með tvær bækur um Frímúrarahreyfinguna sem Siggi sagði mér að lesa og skila sér svo til baka. Það verður víst ekki af því en bækurnar skal ég lesa áður en yfir lýkur, honum til heiðurs.

Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Sigurði Valgarðssyni og kveð nú þennan heiðursmann með virðingu. Aðstandendum votta ég einlæga samúð.

Ragnheiður Sigurðardóttir.