Stefanía Guðrún Þorbergsdóttir

mbl.is - 19. janúar 2021 | Minningargreinar 

Stefanía Þorbergsdóttir fæddist í Reykjavík 2. febrúar 1933. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. janúar 2021.

Foreldrar hennar voru Jórunn Anna Jónsdóttir frá Öxl í A-Hún., f. 2.5. 1899, d. 7.7. 1947 og Þorbergur Ólafsson, fæddur í Desey í Borgarfirði 9.5. 1891, d. 9.10. 1981. Systkini Stefaníu eru Sigríður, fv. bóksali á Akureyri, nú búsett í Garðabæ, f. 1934 og Hafsteinn rakarameistari, áður búsettur á Akureyri, f. 1934, d. 2017.

Stefanía giftist Sigurði Sigurðssyni, f. 26.10. 1931, d. 11.12. 2008, veitingamanni frá Siglufirði, 1.8. 1953.
Börn Stefaníu og Sigurðar eru:

1) Sigurður Þorberg Sigurðsson, f. 10.3. 1956, matreiðslumeistari. Börn Sigurðar eru Sigurður Magnús, f. 20.8. 1976, framkvæmdastjóri flugrekstrar, giftur Söndru Sif Morthens, f. 20.5. 1980, markaðsstjóra, dætur þeirra eru Kristín Sædís, Karítas og Lilja; Alma, f. 20.9. 1985, sérfræðingur í varðveislu bygginga, gift Guðna Degi Kristjánssyni, f. 6.1. 1976, viðskiptafræðingi, sonur þeirra er Magnús Dagur; Valdimar, f. 23.12. 1994, í sambúð með Ingu Rán Ármann, f. 25.5. 1996, viðskiptafræðingi; Guðmundur Þórir, f. 13.12. 1997, nemi, í sambúð með Láru Leifsdóttur, f. 17.4. 1993, nema.

Stefanía Guðrún Þorbergsdóttir -- ókunnur ljósmyndari

Stefanía Guðrún Þorbergsdóttir -- ókunnur ljósmyndari

2) Jórunn Anna Sigurðardóttir, f. 26.2. 1957. Börn Jórunnar eru: Tómas Ingi Jórunnarson, f. 1.8. 1990, matreiðslumaður; Stefanía Guðrún Ástþórsdóttir, f. 6.6. 1976, tanntæknir, maki Fannar Karl Ómarsson, f. 15.4. 1985. Börn Stefaníu eru Kara Rún Margrét Júlíusdóttir nemi, sambýlismaður Arnór Daði Gunnarsson, barn þeirra er Malía Rós; Tera Rún Jórunn Júlíusdóttir nemi, sambýlismaður Kristinn Einar Guðmundsson. Börn Stefaníu og Fannars eru Katý Rún Harpa og Embek Karl.

Stefanía ólst upp á Suðurgötu 14 í Reykjavík. Eftir nám við Miðbæjarskólann starfaði hún við umönnun á hjúkrunarheimilinu Grund. Stefanía kynntist Sigurði á miðju Atlantshafinu er hún var farþegi um borð á Heklunni þar sem Sigurður vann sem matreiðslumaður. Þau hófu búskap í Reykjavík en fluttust til Akureyrar árið 1953 þar sem Sigurður hafði verið ráðinn hótelstjóri á Hótel KEA.

Stefanía starfaði við verslunarstörf og síðar í Sjálfstæðishúsinu þar sem þau hjónin störfuðu í 17 ár. Síðar fluttu Stefanía og Sigurður til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu sér fallegt heimili í Gnoðarvogi 60. Störfuðu þau saman við veitingarekstur í Glæsibæ en síðustu starfsárin starfaði Stefanía á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Eftir fráfall Sigurðar fluttist Stefanía í þjónustuíbúð á Hraunvangi í Hafnarfirði en síðasta ár sitt dvaldi hún á sínum gamla vinnustað, hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.

Stefanía verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í Reykjavík 19. janúar 2021 og hefst athöfnin kl. 13. Útförinni verður streymt, stytt streymi:

https://tinyurl.com/y5fw4282  Virkan hlekk á streymi má finna á: https://www.mbl.is/andlat 
------------------------------------------------------

Amma Stefanía, mín eina sanna topp-, elegant uppáhaldskona, fór í sitt fegursta ferðalag rétt eftir miðnætti 9. janúar. Að hafa fengið að fylgja ömmu í sína síðustu flugferð eru forréttindi. Þakklætið er mikið og sorgin sár.

Amma var jákvæð, skemmtileg og umvefjandi hlý Reykjavíkurmær sem mér og okkur öllum þótti svo mikið vænt um. Þær verða margar stundirnar í framtíðinni sem hugurinn á eftir að rata til ömmu. Samverustundirnar, faðmlögin, símtölin, djúpa röddin, hláturinn, húmorinn, hlýjan, þakklætið og kærleikurinn sem hún var svo örlát á.

Takk fyrir þig, elsku amma. Takk fyrir að kenna mér að taka lífið ekki of alvarlega, takk fyrir að sýna mér hvað jákvæðni fleytir manni langt og síðast en ekki síst, takk fyrir að leyfa mér að upplifa mikilvægi kærleikans.

Skál fyrir þér, drottningin mín.

Þín Alma.
-------------------------------------------

Elsku mamma mín, þá er stundin komin, hún er sár. Elsku mamma mín, takk fyrir allt og allt. Þú varst einstök elsku mamma, amma, langamma og langalangamma. Takk fyrir okkar tíma saman. Elska þig og bið að heilsa öllum, góða ferð.

Þín dóttir, Jórunn Anna Sigurðardóttir.
------------------------------------------------------

Elsku bestasta, fallegasta, yndislegasta sameiginlega atómið mitt, já þú amma mín. Mér/okkur hefur alltaf liðið þannig að við værum barasta eina og sama eindin.

Þetta er án efa það erfiðasta og óendanlega sársaukafyllsta sem ég hef hreinlega þurft að gera, alltaf hef ég kviðið fyrir þessu elsku amma mín að þú færir í fallega ferðalagið án mín.

Ég gæti skrifað heilu metsölubækurnar í mörgum bindum um þig sem ég elska, þær einkennast af gleði og hlátri sem nóg var af hjá þér stórkostlega dásemdin mín.

Takk fyrir uppeldið, takk fyrir kærleikann, takk fyrir viskuna, takk fyrir hugulsemina og umhyggjuna, takk fyrir minningarnar, takk fyrir þolinmæðina, takk fyrir skilyrðislausa ástina, takk fyrir þinn mikla stuðning, takk fyrir mig og alla mína og takk fyrir að vera alltaf gleðigjafinn minn.

Einnig vil ég þakka ykkur afa fyrir allt og allt, það getur enginn verið jafn heppinn og ég og mínir að fá að upplifa þetta sérstaka og einstaka samband eins og okkar var. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát, þakklæti já þú kenndir mér það og varst svo sannarlega sjálf alltaf svo þakklát. Hafðu þökk fyrir allt og allt sem þú gafst af þér í lifandi lífi elsku kletturinn minn.

Þar til við hittumst næst ...

Stefanía Guðrún Ástþórsdóttir.