Sigurður Sigurðsson veitingamaður

mbl.is - 18. desember 2008 | Minningargreinar

Sigurður Sigurðsson, fyrrverandi veitingamaður, fæddist í Bjarghúsum í Vesturhópi í Vestur-Húnavatnssýslu 26. október 1931. Hann lést á heimili sínu, Gnoðarvogi 60 í Reykjavík, fimmtudaginn 11. desember 2008.

Foreldrar hans voru Sigurður Magnússon, múrarameistari á Siglufirði, f. á Þingeyrum í Sveinsstaðahreppi í A-Hún. 12. jan 1913, d. 8 ágúst 1996 og Bjarnveig Þorsteinsdóttir, f. á Efri-Þverá í V-Hún. 18. júní 1909, d. 11. mars 1984.

Systur Sigurðar eru

 • Hanna Stella Sigurðardóttir, skrifstofumaður á Siglufirði, f. 1935, d. 1996, maður hennar var Kristinn Georgsson fyrrv. slökkviliðsstjóri á Siglufirði;

 • Sigrún Sigurðardóttir læknamiðill, f. 1942, d. 2000, var gift Baldvini S. Ottóssyni, fyrrv. aðalvarðstjóra í Reykjavík, f. 1944, d. 2002;
Sigurður Sigurðsson - ókunnur ljósmyndari

Sigurður Sigurðsson - ókunnur ljósmyndari

 • Aðalheiður Ósk Sigurðardóttir lífeindafræðingur, f. 1947, gift Gunnari G. Sigvaldasyni matreiðslumeistara; Kristín Ingibjörg, geisla- og lífeindafræðingur, f. 1949, gift Ármanni Sverrissyni viðskiptafræðingi, f. 1956, þau eru búsett á Akureyri.

Sigurður kvæntist 1.8. 1953 Stefaníu Guðrúnu Þorbergsdóttur frá Reykjavík, f. 2.2. 1933, dóttur Þorbergs Ólafssonar, f. í Desey í Borgarfirði, 9.5. 1891, d. 9.10. 1981 og Jórunnar Önnu Jónsdóttur, f. í Öxl í Sveinsstaðahreppi í A-Húnavatnssýslu 2.5. 1899, d. 7.7. 1947.

Systkini hennar eru:
Hafsteinn, rakarameistari á Akureyri, f. 1934 og
Sigríður, fyrrv. bóksali á Akureyri, nú búsett í Reykjavík, f. 1934.
Börn Sigurðar og Stefaníu eru:

 • 1) Sigurður Þorberg Sigurðsson matreiðslumeistari, f. 10.3. 1956, sambýliskona Steinunn Sæmundsdóttir. Börn Sigurðar eru Sigurður Magnús flugrekstrarfræðingur, f. 20.8. 1976, maki Sandra Sif Morthens, f. 20.5. 1980, dóttir þeirra er Kristín Sædís, f. 8.11. 2007; Alma nemi, f. 20.9. 1985; Valdimar, f. 23.12. 1994; og Guðmundur Þórir, f. 13.12. 1997.

 • 2) Jórunn Anna Sigurðardóttir, f. 26.2. 1957. Börn Jórunnar eru: Stefanína Guðrún Ástþórsdóttir tanntæknir, f. 6.6. 1977, dætur hennar eru Kara Rún Margrét Júlíusdóttir, f. 15.4. 1998 og Tera Rún Jórunn Júlíusdóttir, f. 26.10. 2001; og Tómas Ingi Jórunnarson matreiðslunemi, f. 1.8. 1990.

Sigurður lauk gagnfræðaskólanámi á Siglufirði, fluttist 16 ára til Keflavíkur og vann hjá varnarliðinu um nokkurra ára skeið við matreiðslu og síðar stjórnun. Réði sig til sjós sem matreiðslumaður á Hekluna frá Reykjavík, kynntist þar konu sinni Stefaníu úti á miðju Atlantshafi.

Hann var ráðinn hótelstjóri á Hótel KEA og flytjast þau hjónin í kjölfarið til Akureyrar 1953. Árið 1960 er hann ráðinn bryti á skip Sambandsins og 1963 opnar hann við annan mann Kjörver á Akureyri. Við opnun Sjallans á Akureyri var hann ráðinn yfirveitingastjóri, síðar framkvæmdastjóri og vann þar í 17 ár.

Á Akureyri var hann félagi í Frímúrarareglunni og Lionsklúbbi Akureyrar. Flyst til Reykjavíkur og heldur áfram veitingarekstri í Glæsibæ í 7 ár, en síðustu starfsárin vann hann við innkaup og lagerhald hjá Hótel Loftleiðum. Sigurður verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Daginn sem þú féllst frá hafði ég á orði við son þinn, að ég væri þakklát Guði fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Mér finnst ég hafa verið bænheyrð að þú lifðir þó þetta lengi, þannig að ég fékk að njóta samveru þinnar í þessi rúm tvö ár frá því að við Siggi fórum að vera saman.

Í átta ár barðist þú við mjög alvarleg veikindi. Við sem lifum þig getum lært mikið af þér, hversu umburðarlyndur þú varst, tókst með æðruleysi og þolinmæði á við allt sem á dundi. Ekki heyrðist hósti né stuna frá þér og aldrei kvartaðir þú yfir hlutskipti þínu. Ljúfmennska þín var mikil. Alltaf hlýr og þakklátur fyrir allt, hversu lítið sem gert var fyrir þig.

Þú hafðir einstaka nærveru. Góðmennskan skein af þér og ávallt var bjart yfir þér. Þú varst trúaður og með kærleikann að leiðarljósi tókstu á við verkefnin í skólagöngu lífsins og lærðir að sætta þig við það sem þú gast ekki breytt. Tengdamamma hafði á orði að þú hefðir hjálpað henni að hjálpa þér í veikindunum og létt svo mikið undir, vegna þinnar einstöku skapgerðar. Þótt krafturinn væri oft alveg á þrotum tókst þér að rísa upp úr hverju áfallinu á fætur öðru.

Að mestu leyti hefur það verið vegna Deddýjar þinnar og okkar hinna sem þú staldraðir alltaf aðeins lengur við. Í tæp 60 ár hafið þið verið lífsförunautar. Hvergi vildi hún vera nema þér við hlið og af einstakri natni og ástúð annaðist hún þig.

Það var svo notalegt fyrir mig að fylgjast með ykkur. Í hljóðri þökk þinni og hæversku fann ég hvað hugur þinn sagði, þó svo ekki væru höfð um það mörg orð. Þannig er það með menn á þínum aldri, því tíðarandinn var slíkur í uppeldinu. Já, það er rétt sem konan þín sagði við prestinn við dánarbeð þinn: „Ég var bænheyrð með því að Guð gaf mér svona góðan mann.“ Dódó, þú varst henni alltaf góður og hugsaðir alla tíð vel um fjölskyldu þína.

Daginn sem þú kvaddir þennan jarðneska heim sá ég sýn fyrir hugskotssjónum mínum. Ég sá þig sitjandi á hesti, sem þeysti áfram. Þú sast hnarreistur í hnakknum og horfðir beint fram, glaður og ákafur. Hélst í beislið með vinstri hendi og bentir beint áfram með þeirri hægri. Tvær raðir engla, átta til tíu í hvorri röð, riðu þér við hægri hlið. Það glóði á þig og englana. Þetta var falleg sýn.

Þú varst náttúrubarn og hestamaður mikill. Ræktaðir fjölskylduböndin við föðurfólk þitt í Húnavatnssýslunni og hafðir hestana m.a. á Vatnsnesinu hjá Jóhannesi föðurbróður þínum á Ægissíðu. Sonur þinn fékk að fylgja þér í hestamennskunni og treysti þessi samvera feðgasamband ykkar um alla framtíð. Það er því ekkert skrítið að ég skuli hafa séð þig fara úr þessu jarðneska lífi, ríðandi á hesti, á vit nýrra heimkynna og æðri verkefna.

Takk fyrir góð kynni, elsku tengdapabbi minn. Ég minnist þín með bros á vör þegar ég hugsa til þín. Ég bið Guð að vernda og vaka yfir okkur öllum, Deddý þinni, Sigga og Jórunni, börnum þeirra og mökum og barnabörnum.

Steinunn Sæmundsdóttir.
-----------------------------------------------------

Elsku besti pabbi minn, nú er loks þinni baráttu lokið með sæmd og virðingu. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér og leiðbeindir mér með. Einnig vil ég þakka þér og mömmu fyrir uppeldið á Stefaníu dóttur minni og öll árin sem hún var hjá ykkur. Þú varst henni sem faðir og afi af bestu kærleiksgerð sem hægt er að finna í lífinu.

Elsku pabbi, ég hef oft hugsað um þig sem svo stóran og mikinn, hlýjan, hugsandi og fágaðan. Innsæið þitt fallega og framkoma voru einstaklega góð. Takk fyrir allt. 10. desember sl. töluðum við mikið saman og þú komst þannig að orði við mig, Jóa mín, ég sé hversu Tómas þinn hefur mikinn áhuga á að verða góður matreiðslumaður. Tómas er bæði snöggur og duglegur. Pabbi minn, þetta gladdi mig mikið í hjartastað.

Elsku pabbi, ég veit að allir taka vel á móti þér. Hvíl þú í friði. Ættingjar þakka öllum á Landspítalanum, læknum og hjúkrunarkonum, sérstaklega starfsfólki blóðskiladeildar og deildar 13E, fyrir góða umönnun.

Þín dóttir, Jórunn.
-------------------------------------------------

Nú kveð ég þig elsku afi með hlýju í hjarta. Ég er Guði svo þakklát að hafa fengið að vera samferða ykkur ömmu. Minning mín um þig er og verður alltaf svo falleg. Ég minnist þín með ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi:

 • Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
 • borgina hrundu sé við himin ljóma,
 • og heyri aftur fagra, forna hljóma,
 • finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.
 • Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
 • Minning þín opnar gamla töfraheima.
 • Blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu.
 • Brosin þín mig að betri manni gjörðu.
 • Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
 • Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
 • Elsku afi minn, hvíldu í friði. Þín

Alma Sigurðardóttir.
----------------------------------------------------------

Við fráfall Sigurðar Sigurðssonar veitingamanns er genginn mikill sómamaður, sem fjöldi fólks stendur í þakkarskuld við.

Þess vegna tek ég mér það bessaleyfi að rita í hans minningu nokkur síðbúin þakkarorð.

Það var fyrir meira en hálfri öld, sem Sigurður var hótelstjóri á Hótel KEA í nokkur ár og á þeim tíma, sem nokkrir kornungir hljóðfæraleikarar réðu sig í vinnu þar á bæ.

Var það mikið lán fyrir starfslið allt, hversu góður allur aðbúnaður var og vel um það hugsað. Átti Stefanía eiginkona Sigurðar sinn drjúga þátt í að gera vistina sem besta. Þar voru samhent hjón að verki.

Það hefur setið eftir í hugum okkar, sem vorum að byrja starfsferilinn, hversu dýrmætt það var að lenda hjá jafnfrábærum vinnuveitendum og Sigurði og Stefaníu. Um það höfum við oft rætt og sennilega aldrei þakkað þeim nógu vel fyrir okkur.

Í nafni okkar sendast hér alúðar- og samúðarkveðjur til fjölskyldu Sigurðar í þakklátri minningu um hann.

Hrafn Pálsson.
--------------------------------------------------

Elsku besti afi minn, ég vil þakka þér fyrir allt og allt.

Takk fyrir uppeldið, kærleikann, viskuna, hugulsemina, gleðina, minningarnar og umhyggjuna sem þú hefur veitt mér.

Ég vil einnig þakka þér, elsku afi minn, og amma mín, fyrir þann mikla stuðning og ást sem þið hafið veitt mér og börnum mínum.

Hafðu þökk fyrir allt sem þú gafst af þér í lifandi lífi.

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.
 • Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.

 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þínar stelpur; Stefanía Ástþórsdóttir, Kara og Tera.
----------------------------------------------------

Við kveðjum nú kæran mág og svila. Siggi var hæglátur maður og dulur, en kær vinur allra er honum kynntust. Alltaf vorum við velkomin á heimili hans og Deddýjar og vel tekið á móti okkur. Hann var Matreiðslumeistari með stórum staf og ófáar veislurnar sem hann töfraði fram.

Elsku Deddý, Siggi, Jórunn og fjölskyldur, ykkar missir er mikill, við vottum ykkur okkar innilegustu samúð og biðjum Guð að hugga ykkur á þessari sorgarstund.

Við viljum kveðja Sigga með þessu fallega ljóði.

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.
 • Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.

 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Blessuð sé minning Sigurðar. Hafsteinn og Ingibjörg.
---------------------------------------------------------------

Hinsta kveðja

Elsku besti afi, Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur kennt mér og hvatt mig til að læra í lífinu.

Hvíldu í friði, elsku afi minn.

Þinn  Tómas Ingi Jórunnarson.