Sigrún Ásbjarnardóttir

mbl.is - 22. janúar 2021 | Minningargreinar 

Sigrún Ásbjarnardóttir fæddist í Kambfelli í Eyjafirði 18. október 1927. Hún lést 5. janúar 2021 á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Sigrún var dóttir hjónanna Ásbjarnar Árnasonar, f. 1.maí 1880 á Melum í Fnjóskadal, d. 12. apríl 1962, og Gunnlaugar Gestsdóttur, f. 26. nóvember 1894 í Reykhúsum í Eyjafirði, d. 19. nóvember 1981.

Sigrún var sjöunda í röð tíu systkina, alsystkini voru

 • Hólmfríður, f. 13.2. 1915, d. 6.2. 1998,
 • Bára, f. 18.10. 1917, d. 14.3. 1998, þá
 • Kristbjörg, f. 9.3. 1930, d. 9.6. 2020, og yngstur var
 • Valgeir, f. 14.8. 1936, d. 5.9 2011.
  Samfeðra voru
 • Magðalena, f. 1.9. 1900, d. 11.3. 1987,
 • Árni, f. 6.7. 1905, d. 29.5. 1985,
 • Ingólfur, f. 21.4. 1907, d. 26.7. 1993, Hulda, f. 28.2. 1908, d. 10.5. 2003,
 • Jóhannes, f. 26.10. 1911, d. 30.8. 2005.
Sigrún Ásbjarnardóttir - ókunnur ljósmyndari

Sigrún Ásbjarnardóttir - ókunnur ljósmyndari

Sigrún giftist 18. júní 1946 Ásgeiri J. Björnssyni, kaupmanni frá Siglufirði, f. 22.1. 1925, d. 24.4. 2015.

Sigrún fór ung í fóstur til Árna bróður síns og Maríu konu hans sem þá ráku kúabúið á Hóli í Siglufirði. Þessi dvöl reyndist Sigrúnu heillarík, en þar fann hún sinn lífsförunaut en Ásgeir var þá ráðsmaður á búinu. Þau giftust 1946 og fljótlega þar á eftir fluttu ungu hjónin í Eyjafjörðinn að Knarrarbergi þar sem þau bjuggu í fimm ár. Þaðan fluttu þau aftur til Siglufjarðar og byggðu sér hús á Hafnargötu 22 þar sem þau bjuggu samfellt í fimmtíu ár. Á efri árum fluttu þau svo til Akureyrar.

Sigrún fór í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og lærði vefnað og aðra handavinnu, sem alla tíð var hennar líf og yndi. Hún sótti fjölda námskeiða í handmennt og hafði unun af því að læra meira á því sviði. Hún vann á Saumastofunni Salínu á Siglufirði í nokkur ár auk þess að aðstoða Ásgeir í versluninni.

Ásgeir og Sigrún eiga fjögur börn:

 • 1) Jónína Gunnlaug Ásgeirsdóttir, f. 17.2. 1949, gift Magnúsi Guðbrandssyni, þau eiga fjögur börn:
 • Guðbrand, kvæntur Katrínu Bryndísi Sigurjónsdóttur og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn.
 • Ásgeir Rúnar, barnsmóðir Hulda Ósk Ómarsdóttir, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn.
 • Anna Júlía gift Sigurði Alfreðssyni þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. Kristinn, barnsmóðir María Fjóla Björnsdóttir og eiga þau þrjú börn.

 • 2) Gunnar Björn Ásgeirsson, f. 12.8. 1960, kvæntur Ellen Hrönn Haraldsdóttur, þau eiga tvær dætur: Sigrúnu Andreu, sambýlismaður Baldur Ingi Haraldsson og eiga þau eina dóttur. Elínu Lilju, sambýlismaður Elmar Baldursson, þau eiga tvo syni.

 • 3) Ásbjörn Svavar Ásgeirsson, f. 13.4. 1963, kvæntur Sigríði Sunnevu Pálsdóttur, og eiga þau þrjú börn: Hauk Hlíðar, sambýliskona Birgitta Birgisdóttir. Heru Sigrúnu og Fannar Pál.

 • 4) Rósa Ösp Ásgeirsdóttir, f. 25. maí 1967, gift Unnsteini Ingasyni og eiga þau tvö börn: Önnu Karen, sambýlismaður Arnar Freyr Bjarnason, og Ásgeir Inga, sambýliskona Heiðbjört Einarsdóttir.

Sigrún verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, 22. janúar 2021, klukkan 13.30. Streymt verður frá útför, stytt slóð:

https://tinyurl.com/y6k47h4a - Virkan hlekk má nálgast á: * https://www.mbl.is/andlat

„Í rökkri minninganna munum við mætast á ný,“ Kahil Gibran.

Þú varst sjöunda af tíu börnum afa, fimm systkinin talsvert eldri og fimm alsystkinin. Þið hélduð þétt saman, sérstaklega þið þrjú yngstu, ferðuðust saman, hélduð afmælin ykkar hvert hjá öðru og hittust reglulega þótt þið byggjuð ekki á sama stað lengst af. Eftir að þið pabbi fluttuð aftur til Akureyrar sáust þið oftar, þá var glatt á hjalla og ósjaldan gripið í spil og þar sem þið voruð fimm skiptust þið á að leggja ykkur.

Þú hafðir unun af því að vera úti í náttúrunni, veiddir eins og enginn væri morgundagurinn í Miklavatni eða á bryggjunni í Haganesvík, pabbi taldi það ekki eftir sér að skutla þér í Fljótin, þá leit hann við í Nýjabæ meðan þú barðir vatnið. Á haustin fóruð þið í berjamó, þú varst eldfljót að tína, notaðir báðar hendur og það var saftað, sultað og fryst.

Fimmtudagar voru fundardagar, þá var oft glatt á hjalla á Hafnargötunni þegar saumaklúbburinn eða Línuhópurinn komu eða þú fórst út á kvenfélags- eða slysavarnafundi.

Heimilið þitt bar vitni um natni og umhyggju og óteljandi handavinnustundir, útsaumur af öllum gerðum, þú elskaðir að læra nýjar aðferðir, prjónelsi á okkur krakkana, þig sjálfa og síðar barnabörnin að ógleymdum öllum fötunum sem þú saumaðir á mig. Ég þurfti ekki annað en opna pöntunarlista þess tíma og segja „mig langar í svona“ og það var saumað, fram á nótt, ef því var að skipta, en alltaf varstu í eldhúsinu þegar við vöknuðum að morgni tilbúin í nýjan dag.

Garðurinn var engin undantekning, rósirnar sunnan við hús og matjurtirnar á bak við hús og öll suðrænu blómin sem þú ræktaðir í stofunni, allir smáköku-dunkarnir sem bakað var í fyrir jólin og þeir límdir aftur en við fundum ráð við því, en þegar þú merktir jólaísinn sem sviðasultu sást þú við okkur.

Þú sast aldrei auðum höndum en varst um leið alltaf til staðar fyrir okkur, lagðir okkur lífsreglurnar með hægð og hlýju.

Þú kenndir mér margt, en margt ætlaði ég að læra síðar, því miður, ekki hvað síst í handavinnunni, ofurnákvæm, með millimetrana í augunum, ég erfði það ekki.

Þið pabbi voruð alltaf eitt, stóðuð saman í blíðu og stríðu í sextíu og níu ár og í dag er bóndadagurinn og afmælisdagur pabba, þú ert sjálfsagt búin að sjóða hangikjötið og útbúa þorrahlaðborð í hádeginu í tilefni dagsins og þar sem þið hafið sameinast á ný trúi ég að þið grípið í spil eða fáið ykkur snúning.

Elsku mamma, þú varst orðin þreytt og því hvíldinni fegin, ég kveð þig með broti úr ljóði eftir vin ykkar Bjarka Árnason.

 • Dagur er liðinn og dögg skín á völl
 • dularfull blámóða sveipast um fjöll
 • lækurinn hjalandi hoppar á stein
 • hjúfrar sig fugl á grein.

 • Þreyttur frá deginum hraða ég ferð
 • heim þig að finna svo glaður ég verð
 • njótum við saman við náttgala klið
 • næðis í kyrrð og frið.

Takk fyrir allt mamma mín, þín Rósa.
----------------------------------------

Elsku mamma, það voru forréttindi að alast upp hjá foreldrum eins og ykkur pabba.

Við erum fjögur systkinin og ólumst upp við mikinn kærleik, virðingu og reglusemi.

Þú varst lengst af heimavinnandi og það má alveg segja að þú hafir svo sannarlega verið miðpunktur og hjarta heimilisins, vakandi og sofandi yfir prakkarastrikum okkar.

Oftar en ekki þurftir þú að ræða málin við okkur og ekki varstu vön að skipta skapi, heldur voru hlutirnir leystir í rólegheitum við eldhúsborðið.

Bæði heimilið og heimilisfólkið bar þess vel merki hversu natin þú varst við heimilisstörfin og einstaklega flink hannyrðakona, myndir, púðar, teppi og margt fleira prýddi heimilið svo ekki sé minnst á allan fatnaðinn sem þú bæði saumaðir og prjónaðir á okkur systkinin og svo barnabörnin.

Ég minnist þess er ég kom heim með Blazer-jakka keyptan í Karnabæ að þér fannst tilefni til að spretta honum upp og laga verksmiðjufráganginn.

Iðulega kíktir þú á saumaskapinn á fatnaði sem hafði verið keyptur og oftar en ekki þurfti að betrumbæta flíkina.

Hafnargata 22 var svo sannarlega griðastaður okkar fjölskyldunnar og vina þótt oft væri mikill gestagangur og kom þar enginn að tómum kofunum þar sem ömmusnúðar, soðið brauð, kleinur og kaffi virtust vera til í óendanlegu magni.

Tímann nýttir þú vel. Frístundir notaðir þú mikið í handavinnu sem þú hafðir líf og yndi af og þó að þú gætir setið ein tímunum saman við hannyrðir varstu líka mikil félagsvera og man ég þá sérstaklega eftir hlátrasköllum innan úr stofu þegar þið vinkonurnar voruð með saumaklúbba og ekki má nú gleyma megrunarklúbbnum Línunni! Þá fyrst var nú glatt á hjalla og mikið hlegið og gert að gamni sínu og hefur þú oft rifjað þessa tíma upp með mikilli gleði.

Þú varst mikill náttúruunnandi enda alin upp í sveit og hafðir þú sérlega gaman af því að rækta ýmiss konar jurtir, grænmeti og blóm, tína ber, fara í veiði og njóta þín í náttúrunni með pabba og okkur systkinunum.

Þið pabbi voruð aldrei upptekin af veraldlegum hlutum eða neinu slíku, þið virtust vera svo meðvituð um það, að þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta allt um hamingjuna, umburðarlyndi og náungakærleikann og að allir væru alltaf að gera sitt besta, enda sáuð þið aldrei neitt nema gott í öllum.

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að hafa þig þetta lengi og að börnin okkar hafi fengið að kynnast þér svona vel og geta tekið þitt góða fordæmi með sér út í lífið.

Ég og fjölskylda mín kveðjum yndislega móður, tengdamóður og ömmu.

 • Snert hörpu mína, himinborna dís,
 • svo hlusti englar guðs í Paradís.
 • Við götu mína fann ég fjalarstúf
 • og festi á hann streng og rauðan skúf.

 • Úr furutré, sem fann ég út við sjó,
 • ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
 • Í huganum til himins oft ég svíf
 • og hlýt að geta sungið í þá líf.

(Davíð Stefánsson)

Hvíl í friði.  Ásbjörn Svavar Ásgeirsson.
-------------------------------------------------

Elsku Sigrún amma kvaddi okkur þann 5. janúar sl. og var jarðsett í dag, 22. janúar, á afmælisdegi Ásgeirs afa sem hefði orðið 96 ára.

Það sem þið voruð yndisleg bæði tvö og nú veit ég að ykkur líður báðum vel að vera sameinuð á ný.

Alveg er ég viss um að afi hefur tekið á móti þér með opinn faðminn.

Ég á eftir að sakna þess að geta knúsað þig. Amma gaf allra bestu knúsin enda fékk maður að minnsta kosti fjögur knús bæði þegar maður kom í heimsókn og svo líka þegar maður fór.

Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar okkar saman og hvað þú varst alltaf dugleg og áhugasöm að fylgjast með okkur systkinunum, hvað við værum að gera og hvetja okkur áfram og hrósa, þú varst alltaf svo jákvæð.

Ég er bæði heppin og þakklát fyrir að hafa verið skírð í höfuðið á þér og fá að bera nafn jafn yndislegrar manneskju og þú varst.

Elsku amma, ég bið að heilsa afa, sakna ykkar alltaf.

Langar að láta þetta kvæði fljóta með sem afi fór svo oft með fyrir okkur þegar við systkinin vorum yngri.

 • Gaman væri að gleðja hana ömmu
 • og gleðibros á vanga hennar sjá,
 • því amma hún er mamma hennar mömmu
 • og mamma er það besta sem ég á.

 • Í rökkrinu hún segir mér oft sögur,
 • svæfir mig er dimma tekur nótt,
 • syngur við mig kvæði fögur,
 • þá sofna ég bæði sætt og vært og rótt.

(Böðvar Guðmundsson)

Hera Sigrún Ásbjarnardóttir.
--------------------------------------------------------

Takk elsku amma fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, alla ástina og umhyggjuna sem þú gafst mér, einnig vil ég þakka þér fyrir að vera alltaf til staðar þegar ég þurfti á þér að halda. Ekki hefur alltaf verið létt að hafa einn orm sem stoppaði aldrei, ég var inn um allt og upp um allt en sama þótt ég hafi brotið og bramlað þá spurðir þú bara á rólegum nótum „er ekki betra að vera í boltaleik úti?“ Þú hafðir óendanlega mikla þolinmæði gagnvart mér og ekki bara mér heldur líka þessum prjónum sem þú varst alltaf með í hendinni, enda á Ellen dóttir mín fullt af fötum sem þú prjónaðir á mig sem barn.

En það síðasta sem þú prjónaðir og gafst mér var ponsjó, húfa og vettlingar sem mig langaði svo í, þetta var ekki léttasta uppskriftin sem þú hefur fengið enda skildi enginn hvernig ætti að gera þetta, sama hvernig þú spurðir enda raktirðu þetta líka rosalega oft upp, en þú gafst heldur aldrei upp og á endanum fattaðir þú þennan snúning, en þegar kona var í heimsókn hjá þér og spurði mig hver gerði svona fallegt handverk og ég svaraði stolt „amma“ og leit á þig þá sagðir þú „og hvað er ég gömul?“ og ég glotti og sagði kortér í 100 í stað þess að segja 85, og þú gast gast endalaust gert grín að þessu og hlegið með mér.

Aldrei gleymi ég hvað þú naust þín vel í garðinum heima á Sigló, öll út í mold og skælbrosandi og hlæjandi, og afi ekkert skárri, blístrandi af gleði.

Þegar ég var yngri og að háma í mig nammið sem afi átti, sagðir þú oft að ég væri ekkert voðalega ólík föður mínum því þegar hann var lítill þá þurftir þú að skrifa svið á ísboxin því annars var ísinn búinn fyrir Þorláksmessu því þeir bræður voru ekki lengi að átta sig á því ef það var kominn ís í kistuna.

Að vita að þú hafir ekki verið hrædd við hvíldina gaf mér auka kraft, kraft sem ég hélt að væri ekki til. Takk enn og aftur amma fyrir allt sem þú hefur kennt mér og gert.

Þú ert stjarnan mín bjarta. Ég elska þig og mun sakna þín.

Þín nafna, Sigrún Andrea Gunnarsdóttir.