Flosi Sigurbjörnsson

 Morgunblaðið - 23.05.1986)

Flosi Sigurbjörnsson cand. mag. lést í Landakotsspítala 15. maí 1986. Eftir erfiða glímu við óvæginn sjúkdóm, sem háð var af æðruleysi og þrautseigju, hefur enn einn ágætur vinur minn orðið að lúta í lægra haldi.

Flosi fæddist 13. nóvember 1921 að Stöð í Stöðvarfirði í SuðurMúlasýslu. Foreldrar hans voru Sigurbjörn Guttormsson, prests að Stöð Vigfússonar, og Sigurbjörg Jónsdóttir, bónda á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði Jónssonar.

Árið 1953 giftist Flosi Jónu Kristjánsdóttur húsmæðrakennara frá Dalvík og eignuðust þau tvö börn, Sigurbjörgu, húsfreyju á Hjaltastað á Fljótsdalshéraði, og Þóri, sem á heima í Reykjavík. Hjálmar Stein eignaðist Flosi fyrir hjónaband. Flosi fylgdist sívökulum augum með sínum nánustu og bar velferð þeirra ævinlega fyrir brjósti. Umhyggja hans var í samræmi við lífsskoðun hans. Hún mótaðist af andúð á ranglæti en samúð með öllum sem þurftu hjálpar við.

Flosi ólst upp hjá foreldrum sínum við algeng störf en hleypti heimdraganum 16 ára að aldri, fór í Eiðaskóla og útskrifaðist þaðan vorið 1939. Haustið 1941 tók hann gagnfræðapróf við menntaskólann á Akureyri og brautskráðist stúdent frá þeim skóla 1945. Að loknu stúdentsprófi settist hann í Háskóla íslands og lauk þaðan kandidatsprófi í íslenskum fræðum 1951.

Flosi Sigurbjörnsson - Ljósmynd Kristfinnur

Flosi Sigurbjörnsson - Ljósmynd Kristfinnur

Síðan lá leiðin norður til Siglufjarðar. Þar kenndi hann við gagnfræðaskóla kaupstaðarins til vorsins 1963 en þá fluttist hann til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni og hóf kennslu við gagnfræðadeild Vogaskólans í Reykjavík og starfaði þar til ársins 1978.

Frá því ári og allt til dauðadags var hann íslenskukennari í Menntaskólanum við Sund. Þegar Flosi var að alast upp var ekki mulið undir íslenska alþýðu. Hún bjó við kröpp kjör og ungir menn úr alþýðustétt urðu að brjótast til mennta eins og sagt er. En Flosi var þó ekki fátæklega að heiman búinn.

Úr föðurgarði hafði hann það veganesti er varð honum drjúgt til velfarnaðar á lífsleiðinni, ást á arfi Íslendinga, landinu, fornsögunum og kvæðum góðskáldanna. í Menntaskólanum á Akureyri hefur jafnan verið lögð mikil rækt við íslensk fræði og féll sú menntastefna í góðan jarðveg hjá Flosa. Þurfti því engan að undra að hann kaus sér þá fræðigrein að ástundunarefni þegar hann hóf nám í Háskóla íslands.

Flosi var ágætur námsmaður, orðlagður latínugráni í menntaskóla og jafnvígur á ólíkustu greinar, svo sem stærðfræði og stíl. Hann hafði einstaklega gott vald á íslenskri tungu, enda fór svo að auk kennslustarfsins varð hann eftirsóttur til að lesa yfir og færa til betra máls texta af margvíslegu tagi. Örugg leiðsögn hans og næmur smekkur á því sviði brást aldrei. Flosi var samviskusamur og duglegur kennari, nákvæmur í vinnubrögðum og umhyggjusamur um nemendur sína.

Honum var kappsmál að glæða áhuga þeirra og virðingu fyrir íslenskri tungu og mér er kunnugt um að margir þeirra telja sig eiga honum þakkarskuld að gjalda. Flosi var hógvær maður og hæglátur hversdagslega, innhverfur að eðlisfari og sagði fáum hug sinn allan. A hinn bóginn glaður og reifur á mannfundum og hafði gaman af að hitta fólk, spjalla, spila og dansa. Hef ég fáa menn þekkt sem nutu þess betur að grípa í hljóðfæri og taka lagið eða láta fjúka í kviðlingum í völdum vinahópi, enda var hann ágætlega hagmæltur, kunni ógrynni af kvæðum, vísum og spaugilegum sögum og sagði skemmtilega frá.

Sem fyrr segir var Flosi hæglátur maður og seinn til kífs, en fastur fyrir og einarður ef því var að skipta. Hann var ekki allra, en tryggur vinur vina sinna. Þeirra manna er ég hef þekkt var hann allra öfundlausastur og kröfugerðarmaður enginn. Lífsþægindasjónarmið voru honum alla ævi órafjarri. Hann naut lífsins í einfaldleik þess, í önn dagsins og yndi góðra samfunda. Hans munaður fólst ekki síst í því að fara austur á land á sumrin, einkum eftir að Sigurbjörg dóttir hans settist þar að, renna fyrir silung eða róa til fiskjar ef færi gafst.Hann var náttúrubarn að eðlisfari og unni mjög æskustöðvum sínum. Oft sagði hann: Mér finnst ég enn eiga heima fyrir austan.

Hinn 17. júní 1953 gekk Flosi að eiga skipstjóradóttur frá Dalvík, Jónu Kristjánsdóttur húsmæðrakennara, glaðværa dugnaðar- og ágætiskonu. Þeim varð tveggja barna auðið. Sigurbjörg dóttir þeirra er húsfreyja á Hjaltastað í Hjaltastaðaþinghá í Norður-Múlasýslu, gift Ófeigi Pálssyni bónda þar.

Sonurinn Þórir er stúdent frá MS., nú starfsmaður hjá Pósti og síma. Áður en Flosi kvæntist eignaðist hann son, Hjálm, sem er viðskiptafræðingur að mennt og framkvæmdastjóri saumastofunnar Tinnu hf. í Kópavogi. Sigurbjörg kom um langan veg til að sitja við sjúkrabeð föður síns og öll voru þau óþreytandi í umhyggju sinni meðan á veikindum Flosa stóð uns yfir lauk.

Á heimili Jóns og Flosa hefur alla tíð ríkt góðvild, glaðværð og fádæma gestrisni. Vinahópur þeirra minnist nú þakklátum huga ógleymanlegra gleðistunda meðan allt lék í lyndi. Við Rannveig og börn okkar kveðjum Flosa að leiðarlokum með sárum söknuði. Þó er okkur efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt hann að vini. Við fráfall hans verður okkur ennþá ljósara en áður hve mjög hann hefur auðgað minningar okkar. Aðstandendum öllum sendum við samúðarkveðjur.

Ingólfur A. Þorkelsson
------------------------------------------------------------------

Flosi Sigurbjörnsson  --  Allt hefur upphaf og endi. Það var haust þegar Flosi Sigurbjörnsson kom í Menntaskólann á Akureyri. Það voru mikil viðbrigði að fara úr sveit, úr fámenninu í MA. Þetta var líklega ekki ósvipað því sem gerðist fyrir þúsund árum, þegar ungir og vaskir sveinar hleyptu heimdraganum og lögðust í víking, en nú var vopnaburðurinn auðvitað annar — menn reyndu ekki að sigra andstæðinginn, vaxa af öðrum heldur að vaxa af sjálfum sér, að vera „sjálfum sér líkur", segir í Pétri Gaut en það „er að lifa með anda annarra og auðgast af honum" eru orð Einars Benediktssonar.

Einmitt. Flosi kom í menntaskólann og fann þar starfsvettvang við sitt hæfi. Þótt efni til skólavistar væru sjálfsagt af skornum skammti, kom Flosi samt og sigraði. í lok stríðsins, þegar Flosi hafði hlotið stúdentspróf sitt, var fáum fært að fara til útlanda til náms. Því hlaut Flosi að hefja nám við Háskólann hér, því að áfram vildi hann. Hann valdi sér íslensk fræði. Enginn efaðist um að Flosi gat valið sér aðrar greinar til náms, hann var jafnvígur á margar og stóð hugur hans einna helst til náms í náttúrufræðigreinum, en af því gat ekki orðið og nám í íslensku, sögu og bókmenntum varð fyrir valinu.

Það að kenna íslensku þýðir ekki einungis að kenna tunguna hreina og nakta, heldur líka og um leið og það á ekki einungis við um íslensku, að leiðbeina öðrum og þá í þeim skilningi að hjálpa hinum unga, að glæða þroska hans, fínna honum dýpri rök í lífinu. Og svo varð það starf Flosa að verða kennari ungra manna, það varð lífsstarf hans. Hann kenndi að mestu íslenska tungu og hana er hægt að kenna a.m.k. á tvennan hátt, tunguna sem einangrað fyrirbrigði eða tunguna sem nið aldanna, sögu forfeðranna eða hluta af okkar eigin lífi.

Í þessu fólst starf Flosa og fáa hefi ég þekkt sem ófu betur saman tunguna og þjóðarsöguna. Flosi var í senn nákvæmur kennari, skilningsríkur og duglegur. Hann þekkti sjálfur þá leið að marki að ná árangri í námi og hann þekkti svo vel gildi námsins fyrir manninn. í starfi margra er hulin gríma, tjaldið við vegg starfsins. Þegar þetta tjald er dregið frá kemur maðurinn í ljós. í manninum búa tveir eðlisþættir, að vera ranglátur eða réttlátur. Auðvitað rækta menn sína þætti svo sem jörð gefur en sjálfur ræður maðurinn vextinum, því að hugefli manns er rótin.

Og Flosa var réttlætið runnið í merg og bein. Það kom alltaf fram á varir hans hvað rétt var að gjöra gagnvart ungum sem öldnum. Hann vissi ætíð hvað var réttlátt, það óx í honum, það gæddi líf hans frjói ástar og virðingar. Þegar litið er  yfir stórt svið og við sjáum jörð og himin í einni sjónhending er ekki ólíklegt að mörgum fallist hendur yfir þeim ósköpum sem yfir geta dunið. En ef allir leggjast á eitt að hlúa að og rækta manninn í sjálfum sér þá er von, von um bjart sólskin.

Þessi orð verða mér efst í huga þegar minningin um Flosa líður mér fyrir hugskotssjónum. Hann var ræktandinn, sáðmaðurinn sem gekk út á akurinn eins og við en kunni að staldra við og gera betur, fræ hans bar ávöxt vegna þess að að því var hlúð og það var vökvað. Það er ætíð merki þess sem trúir á hið góða í manninum. Megi fjölskyldunni og vandamönnum vegna vel því það er fagurt að skilja eftir góðar minningar og verður alltaf besta kveðjan.

Gunnar Finnbogason
--------------------------------------------------

Fyrir níu árum varð Flosi Sigurbjörnsson samstarfsmaður okkar í MS og kom þá inn í hóp sem í nokkur ár hafði þjálfast saman í því að fylgjast vel að í kennslu. Slíkt er alltaf vandi en Flosi féll strax vel inn í hópinn og átti þar heima ekki síður en ungu mennirnir, enda hafði hann það til brunns að bera sem prýða má samkennara. Hann var ósérhlífinn, samningalipur og til í að prófa nýtt námsefni. Sem kennari var Flosi velviljaður nemendum sínum og lagði þeim aldrei neitt illt til. Þegar samræðum um skólamál lauk og umræðuefni urðu „gálausari" var síður en svo komið að tómum kofunum hjá Flosa.

Þegar rætt var um liðna tíð var hann ættfróður og kunni margar sögur og vísur um skringilega atburði og furðulegt fólk; þegar rætt var um samtíðina var hann sömuleiðis vel með á nótunurn og lagði sitt til málanna. Hér verða ekki rakin æviatriði eða ættir. Þessi orð eru aðeins til minningar um Flosa sem góðan og gegnan starfsbróður og til þess að votta fjölskyldu hans og ættingjum samúð okkar á kveðjustundinni.

Íslenskukennarar Menntaskólans við Sund.
---------------------------------------------------------

Einkennilegur tómleiki fyllir vitund okkar þegar samferðamenn hverfa af sjónarsviðinu. Við stöndum agndofa og neitum að trúa því. Við vissum að Flosi hafði ekki gengið heill til skógar undanfarið ár. Við fylgdumst með honum úr fjarlægð og vonuðum það besta. Þegar við lítum til baka finnum við hvað Flosi var einstaklega kurteis og þægilegur maður. Hann talaði áberandi fallega íslensku enda íslenskukennari. Hann var hæglátur en gat verið drepfyndinn þegar sá gállinn var á honum.

Þó heilmörg ár skilji okkur systkinin að kenndi hann okkur öllum ýmist í gagnfræðadeildum Vogaskóla eða Menntaskólanum við Sund. Hann miðlaði okkur af þekkingu sinni á sinn rólega en markvissa hátt. Pabbi og Flosi voru báðir Austfirðingar af svipuðum slóðum og við bjuggum í sama fjölbýlishúsi þar til sum okkar flugu úr hreiðrinu. I haust hittum við Jónu og Flosa í sjötugsafrnæli. Hann leit ekki út fyrir að kenna sér meins og lék á als oddi.

Hann mælti fyrir minni afmælisbarnsins og rifjaði upp græskulaust gaman frá æskuárum þeirra fyrir austan. Hann sagði svo skemmtilega frá að allir veislugestir hrifust með og hlógu dátt. Þannig munum við Flosa, glaðan, reifan og með gott hjartalag. Með þessum fátæklegu orðum kveðjum við Flosa Sigurbjörnsson. Við vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð.

Blessuð sé minning hans.
Jóna Sigríður, Hanna Steinunn, Pétur, Helga Hrönn og Gunnar Þorri Þorleifsbörn.
---------------------------------------------------------

í dag verður til moldar borinn frá Langholtskirkju í Reykjavík frændi minn, Flosi Sigurbjörnsson, 64 ára gamall. Hann beið ósigur fyrir þeim sjúkdómi sem sagt er að þriðji hver Íslendingur taki einhvern tímann á æviferli sínum. Eins og Flosi var skapi farinn bar hann þjáningar sínar með karlmennsku og gekk af æðruleysi á vit örlaga sinna. Það er ekki lengra síðan en nú á páskum að við tókum í spil þar sem hann dvaldist á Sjúkrahóteli Rauða krossins.

Þótt þjáður væri og svo grátt leikinn af sjúkdómnum að hann gat varla setið var hugurinn allur við spilin og leikgleðin og kappið hið sama og fyrr. Þannig gekk Flosi að hverju starfi og hverjum leik alla tíð. Flosi var af austfirsku bergi brotinn, fæddur í Stöð í Stöðvarfirði.

Móðir  Flosa, Sigurbjörg, var dóttir Jóns bónda á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði og konu hans, Oddnýjar frá Kolmúla í Reyðarfirði. Sigurbjörg stundaði nám í Kvennaskólanum á Blönduósi á fyrsta áratug aldarinnar og kenndi síðan á nokkrum stöðum á Austfjörðum fram til ársins 1918 að hún giftist prestssyni í Stöð. Sigurbjörg var ágætlega gerð kona, vel gefin til munns og handa, söngelsk og lék á gítar og færði upp leikrit með nemendum sínum. Hún var vel skapi farin, hafði einstaklega fagra rithönd og var því öllum þeim kostum búin sem góðan kennara prýða.

Sigurbjörn, faðir Flosa, var sonur séra Guttorms Vigfússonar, prests í Stöð. Hann var af kunnri austfirskri prestaætt. Móðir Sigurbjörns, kona séra Guttorms, var Þórhildur Sigurðardóttir, bónda á Harðbak á Sléttu. Sigurbjörn var búfræðingur frá Hvanneyri en heim kominn frá námi og raunar fyrr stundaði hann nokkuð kennslu í Stöðvarfirði samhliða búskap og margháttuðum störfum fyrir sveit sína og var m.a. í stjórn verkalýðsfélags Stöðfirðinga. Sigurbjörn var vel gefinn maður, hið mesta snyrtimenni, jafnlyndur og glaðsinna.

Þau Sigurbjörg giftust 1918, sem fyrr segir, bjuggu fyrst í sambýli með séra Guttormi en reistu síðan nýbýlið Háteig í landi Stöðvar. Þau eignuðust fjögur börn. Þrjú þeirra komust upp: Álfhildur, sem nú er látin, en bjó síðast á Höfn í Hornafirði, Flosi, sem hér er kvaddur, og Stefanía, búsett á Eskifirði. Þau systkin hafa öll borið svipmót menningarheimilisins í Stöð. Flosi var einn margra Austfirðinga sem stunduðu framhaldsnám í Menntaskólanum á Akureyri á fimmta áratugnum.

Á haustdögum 1942 beið ég, sem þessar línur rita, þess með eftirvæntingu að taka á móti væntanlegum herbergisfélaga og stórfrænda á bryggjunni á Akureyri, en þangað norður bar mig fyrr þetta haust. Ekki man ég lengur hvernig það atvikaðist að við leigðum saman herbergi upp á 4. hæð í húsi Kaupfélags Eyfirðinga við Hafnarstræti veturinn 1942-43, ég í 3. bekk MA en hann í 4. bekk.

Flosi hafði þá tekið sér árshvíld frá námi svo að við höfðum ekki hist frá því ég tíu ára gamall kom í heimsókn til afa okkar í Stöð sem meðreiðarsveinn föður míns. Þessi fyrsti kynnisvetur okkar Flosa er mér mjög minnisstæður fyrir margra hluta sakir. Til dæmis áttum við næsta eftirminnileg og sérstæð jól saman. Við vörðum jólafríinu báðir í það að liggja í hettusótt en karlmönnum með þann kvilla getur reynst hættulegt að vera mikið á ferli.

Fyrir einhvern misskilning láðist frændum okkar og félögum að vitja okkar sjálfa jólahátíðina og við, einir manna í þessari miklu byggingu, símalausir og bjargarlausir, sultum heilu hungri frá aðfangadagskvöldi til aðfaranætur annars í jólum. Slík atvik verða skemmtileg eftir á. Þennan vetur kynntist ég mannkostum Flosa. Hann var afbragðsfélagi, drenglundaður, trúr og tryggur og mátti ekki vamm sitt vita. Hann var skemmtinn, fróðleiksfús, hjálpsamur og greiðvikinn en kappsfullur að hverju sem hann gekk og enginn vingull í skoðunum.

Hann var afburðanámsmaður og ekki fór hjá því að ég nyti þess, eftir því sem efni stóðu til, hversu vel hann kunni að haga námi sínu. Hann kunni að skilja hismi frá kjarna í hverri grein og hygg ég að honum hafi verið allar námsgreinar næstum því jafntiltækar. En honum kippti í kynið og valdi því máladeildina. Stúdentsprófi lauk hann með hárri einkunn, nam síðan íslensk fræði við Háskóla íslands og tók kandidatspróf 1951 með sögu að kjörsviði.

Fjallaði ritgerð hans um Guðmund biskup „hinn góða". Um suma er sagt að hjá þeim hafi menntun og gáfur ekki fengið að njóta sín. Slík orð eiga þó tæpast við um Flosa því hann gerði það að ævistarfi að kenna íslenskum ungmennum móðurmálið. Hafa margir nemendur borið lof á kennslu hans. Það leikur hins vegar ekki á tveim tungum að slík var grundvallarþekking hans á íslensku máli, sögu og bókmenntum, að hann hefði sómt sér vel í sæti rannsakanda og vísindamanns. En hvað sem líður aleflingu andans og athöfn þarfri þá var Flosi líka lífsnautnarmaður.

Hann naut þess að lifa lífinu og hlýtur það að vera „auðlegð á vöxtum í guðanna ríki". Hann unni öllu sem fagurt er og lyftir andanum upp yfir amstur daganna. Hann kunni og hafði gaman af að skemmta sér og gera sér dagamun, enda höfðingi heim að sækja og hélt eftirminnilega upp á merkisafmæli sín. En gleðin átti sér þau takmörk er hæfðu skapgerð hins samviskusama og dygga manns. I sumarleyfum sínum fór Flosi jafnan austur á land. Þar held ég hann hafi kunnað best við sig. Stundum reri hann á báti frá Stöðvarfirði eða létti undir með dóttur og tengdasyni við búskapinn á Hjaltastað nú seinni árin.

Í hittifyrra lágu leiðir okkar saman austur á Héraði. Meðal annars fórum við eftir hlemmivegi Fljótsdalsheiðar og inn undir Snæfell. Þá kom berlega í ljós hversu nátengdur Flosi var náttúrunni. Þar fannst mér hann eiga heima en hvergi annars staðar. Þá um haustið kenndi hann banameins síns svo að þetta var síðasta ferðin okkar saman.

Árið 1953 giftist Flosi Jónu Kristjánsdóttur húsmæðrakennara frá Dalvík og eignuðust þau tvö börn, Sigurbjörgu, húsfreyju á Hjaltastað á Fljótsdalshéraði, og Þóri, sem á heima í Reykjavík. Hjálmar Stein eignaðist Flosi fyrir hjónaband. Flosi fylgdist sívökulum augum með sínum nánustu og bar velferð þeirra ævinlega fyrir brjósti. Umhyggja hans var í samræmi við lífsskoðun hans. Hún mótaðist af andúð á ranglæti en samúð með öllum sem þurftu hjálpar við.

Tryggð hans, ræktarsemi og frændrækni var aðdáunarverð og kunni hann því illa ef slíkt var ekki endurgoldið. Hann var róttækur í skoðunum og réttlætiskenndin rík. Slíkum mönnum er fengur að hafa kynnst. Megi minningin um góðan föður og maka deyfa sorg og söknuð ástvina hans.
Ég þakka frænda mínum fyrir samveruna og óska honum góðrar ferðar yfir landamærin.

Þórhallur Guttormsson
---------------------------------------------------------------

Minning:FIosi Sigurbjörnsson menntaskólakennari Fæddur 13. nóvember 1921 Dáinn 5.maí  1986

Það hlýtur að hafa verið vorið 1946 að ég kynntist Flosa Sigurbjörnssyni fyrst. Ekki man ég okkar fyrstu kynni því að mynd hans er löngu runnin inn í heildarmynd unglingsáranna, hann er óaðskiljanlegur hluti þeirra, án upphafs og endis. Flosi lauk stúdentsprófi frá » Menntaskólanum á Akureyri vorið 1945 og kom til náms í Háskóla íslands þá um haustið. Bróðir minn og hann höfðu verið miklir vinir á menntaskólaárunum, þó að ekki væru þeir saman í bekk.

Þegar Flosi kom suður til náms kom það því eins og af sjálfu sér að hann varð heimagangur hjá foreldrum mínum og hann batt yináttubönd við alla fjölskylduna. Ég var ekki heima þennan fyrsta vetur, en um vorið þegar ég kom heim má segja að nýr maður hafi bæst í fjölskylduna, svo náin voru vináttuböndin. Kynni okkar Flosa voru ekki náin nema í nokkur ár. Áhugamálin breyttust, starfsvettvangur okkar tengdist íítt. Þar að auki var lengi langt á milli okkar. Þegar við urðum síðar nágrannar gat vináttan ekki orðið sú sama og áður, en ekki átti Flosi sök á því. Hins vegar var vinátta hans við foreldra mína alltaf söm og jöfn.

Við systkinin erum honum ævinlega þakklát fyrir þá hlýju sem hann sýndi þeim og þeirri umhyggju sem hann jafnan sýndi móður okkar og náði raunar út yfir gröfogdauða.

Flosi fæddist 13. nóvember 1921. Foreldrar hans voru Sigurbjörn Guttormsson bóndi að Stöð i Stöðvarfirði og síðar verkamaður á Stöðvarfirði og Sigurbjörg Jónsdóttir kona hans.

Eg kynntist foreldrum hans aldrei, en síðar hef ég átt því láni að fagna að kynnast fjölmörgum ættingjum hans, bæði fyrir austan og hér syðra, og veit ég að þar fara traustir menn þar sem þeir frændur eru. Hugur Flosa stóð snemma til langskólanáms. En á þeim árum þegar eðlilegast hefði verið að hann hæfi framhaldsnám voru aðstæður hans og raunar þjóðfélagsins í heild, þannig að litlar líkur voru til að draumar hans gætu ræst.

Hann gafst þó ekki upp, braust til náms að mestu af eigin rammleik og lauk menntaskólanámi 1945 og cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum 1951. Sína stærstu sigra vann Flosi í námi. í raun og veru var það andstætt öllum efnahagslegum rökum að hann skyldi geta lokið menntaskólanámi og síðar háskólanámi. Hann hafði svo fátt í höndunum til þess að svo gæti orðið. Enda gat námið ekki orðið samfellt. Allt nám var honum með afbrigðum létt en brauðstritið tók meira af tíma hans.

Að námi loknu hóf hann kennslu eins og alltaf hafði staðið til. Hann kenndi um árabil við Gagnfræða- * skóla Siglufjarðar. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur og kenndi hann fyrst við Vogaskólann. En mörg síðustu árin var hann kennari við Menntaskólann við Sund. Þeir sem þekktu Flosa best áttu von á að hann helgaði sig vísindarannsóknum á sínu sviði. Ekki af því að hann flíkaði því svo mjög að hann hefði áhuga á því, heldur af hinu að ljóst var að hann var afar vel til þess fallinn.

En hann kaus að leggja aðaláherslu á kennsluna og er það að sjálfsögðu engu veigaminni þáttur. En vera má þó að nokkru hafi einnig ráðið skapgerð hans, en fátt var honum ógeðfelldara en að ota sjálfum sér. Það hlaut að verða honum fjötur um fót í heimi þar sem flestir reyna hver sem betur getur að troða sér fram yfir aðra. En fáum mönnum er betra að vera nálægt en þeim sem ekki taka þátt í þeim leik. Flosi var einn þeirra manna.

Flosi giftist árið 1953 Jónu Kristjánsdóttur hússtjórnarkennara frá Dalvík. Þeim varð tveggja barna auðið og eru þau bæði uppkomin. Sigurbjörg er húsfreyja að Hjaltastað f Útmannasveit og Þórir er póstmaður í Reykjavík. Fyrir hjónaband átti Flosi son, Hjálm Steinar, sem nú er kennari qg framkvæmdastjóri í Reykjavík. Ég sendi Jónu, börnunum og barnabörnunum samúðarkveðjur mínar og fjölskyldu minnar á þessari sorgarstundu.

Flosi lést fyrir aldur fram, aðeins 64 ára að aldri. Ég átti alltaf von á að við gætum ræktað fornan félagsskap þegar um hægðist hjá okkur báðum. Nú hafa atvik hagað því svo að það getur ekki orðið. En ég þakka Flosa samfylgdina að leiðarlokum.

Árni Benediktsson