Guðrún Ansnes

mbl.is 25. janúar 2021 | Minningargrein

Guðrún Ansnes fæddist á Siglufirði 5. mars 1934. Hún lést á heimili sínu 23. desember 2020.

Hún var dóttir Þorvaldar Ansnes, f 29. júní, 1910, d. 1971, og Sólveigar Bjarnadóttur, f. 24. maí 1909, d. 1983.

Guðrún átti tvo bræður, þeir voru

  • Hörður Ansnes, f. 11. janúar 1932, d. 1938, og
  • Bjarni Hörður Ansnes, f. 24. júlí 1940.

Hinn 25.04. 1954 giftist Guðrún Harry Steinsson, f. 27. september 1933, d. 17. janúar 2003. Börn þeirra eru

  • Esther Judith Steinsson, f. 23.05. 1953,
  • Sólveig Steinsson, f. 15.11. 1954,
  • Halla Steinsson, f. 12.01. 1956,
  • Valdís Harrysdóttir, f. 20.12. 1959,
  • Inger Steinunn Steinsson, f. 28.12. 1963,
  • Anna Rut Steinsson, f. 09.02. 1968,
  • Þorvaldur Ansnes Steinsson, f. 15.07. 1969.
Guðrún Ansnes - ókunnur ljósmyndari

Guðrún Ansnes - ókunnur ljósmyndari

Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey.

Það var fyrir rúmum fimmtíu árum að ég hitti Guðrúnu Ansnes fyrst, Núru eins og hún var alltaf kölluð. Þá að stíga í vænginn við elstu dóttur hennar, Esther.

Það átti eftir að verða litríkur tími og ógleymanlegur.

Í áranna rás bættust margir í tengdabarnahópinn því þessi mæta kona átti sex dætur og einn son.

Hún var gift sjómanni og þess vegna vön að sjá um hlutina.

Núra var glæsileg, sjálfstæð, opin, kát og hress, vel að sér í flestu, þekkti stóran hluta heimsins og gat sagt ótal sögur frá furðulegustu stöðum, svo sem siglingum gegnum Panamaskurðinn eða Beirút 1975 þar sem henni var hent út af Holiday-Inn-hótelinu öryggisins vegna þegar borgarastríðið hófst í þeirri fögru borg og hótelið stóð eftir eins og gatasigti, eða bara prakkarastrik frá Siglufirði, Vík og Reykjavík á hennar uppeldisárum.

Við sátum mörg kvöld í Kaupmannahöfn þegar hún millilenti þar fyrir eða eftir samveru með Harry hvar svo sem hann var í heiminum þá stundina, meðan við Esther bjuggum í borginni á námsárunum, og gaf hún að venju greinargóða lýsingu á hinum ýmsu stöðum og staðháttum, en hann var oftast á erlendum skipum.

Ferðirnar og samveran áttu eftir að verða fleiri í gegnum þau dásamlegu ár sem hennar naut við.

Börn, barnabörn og tengdabörn bjuggu oftar en ekki úti um allt, í Noregi, París, Jakarta í Indónesíu, á mörgum stöðum í Svíþjóð og Danmörku, Perugia á Ítalíu eða Barcelóna, tengdasonur frá Southlake í Texas sem kynnti hana fyrir sínu fólki, svo eitthvað sé nefnt.

Hún lætur eftir sig helling af börnum og barnabörnum.

Okkur öll naut hún þess að hitta, hvar og hvenær sem var, hún var næstum eins og söngkver, tók oft fram gítarinn og söng eitthvað gamalt og gott þar sem það átti við þá stundina með kröftugum undirtektum viðstaddra.

Hún var einstök við að fá hópinn saman og þá skipti engu hvort barnið var stálpað eða ekki, allir fengu sömu áheyrn og allir voru jafn spennandi að fylgjast með.

Eins og eitt hennar barnabarna sagði, amma Núra er eilíf, og það er eitt af mörgu sem þessi magnaða kona gerði, hún leyfði okkur að kíkja aðeins inn í eilífðina, með allri sinni bjartsýni og jákvæðni um komandi framtíð.

Núra varð einn af mínum tryggustu og bestu vinum og fæ ég seint þakkað að hafa fengið að vera samferða henni frá því að ég kom að þessari fjölskyldu.

Svo lengi sem við lifum munum við minnast hennar og rifja upp allt það sem við áttum með þessari kjarnakonu.

Jóhann Einarsson.