Steingrímur Kristjánsson lyfsali

mbl.is - 30. janúar 2021 | Minningargreinar | 1057 orð | 1 mynd

Steingrímur Kristjánsson fæddist 21. okt. 1926 í Hafnarfirði. Hann lést þann 26. des. 2020 á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík.

Hann var sonur hjónanna Sigrúnar Gissurardóttur frá Gljúfurholti í Ölfushreppi, f. 28. mars 1908, d. 28. apríl 1991, og Kristjáns Steingrímssonar, bifreiðastjóra í Hafnarfirði, f. 25. september 1906, d. 15. okt. 1991. Systkini hans voru Margrét Ágústa Kristjánsdóttir, f. 3. mars 1934, d. 14. sept. 2000, og Gissur Júní Kristjánsson, f. 25. júní 1944.

Eiginkona hans var Ingibjörg Sigurlinnadóttir, f. 30. mars 1926, d. 21. mars 1986, dóttir Sigurlinna Péturssonar byggingarmeistara og myndlistarmanns, f. 12. des. 1899, d. 20. júní 1976, og Vilhelmínu Ólafsdóttur, f. 11. maí 1905, d. 18. mars 1983.

Kjörsonur þeirra er Kristján Steingrímsson, f. 4. nóv. 1958.

Steingrímur útskrifaðist sem stúdent frá MA 1946 og sem lyfjafræðingur frá Danmarks Farmaceutiske Højskole 1951. Hann var apótekari á Siglufirði frá 1963 til 1971 og stofnaði þá Árbæjarapótek og var þar apótekari til 1998 og viðloðandi apótekið meðan heilsa leyfði.

Steingrímur Kristjánsson apótekari - ljósmyndari ókunnur

Steingrímur Kristjánsson apótekari - ljósmyndari ókunnur

Útför hans fór fram í kyrrþey að hans ósk.

Látinn er í hárri elli góður starfsbróðir og félagi til magra ára, Steingrímur Kristjánsson apótekari.

Leiðir okkar Steingríms lágu fyrst saman árið 1957 í Apóteki Austurbæjar. Með okkur tókst strax gott samstarf, byggt á gagnkvæmu trausti. Síðla árs 1958 fór Steingrímur til starfa í Kaupmannahöfn, en kom aftur í nóvember árið eftir. Aftur skildi leiðir, er Steingrímur gerðist apótekari á Siglufirði árið 1963.

Það var ekki auðvelt að taka við apóteki á þessum árum, og hvað þá í dreifbýlinu. Lánsfé var af skornum skammti, en sú kvöð fylgdi oftast lyfsöluleyfinu, að kaupa varð vörubirgðir og allan búnað apóteksins og yfirleitt húsnæðið líka. Vinnutími var langur og viðveran algjör. Nóg var að gera, því oft var apótekið fyrsti staðurinn, sem leitað var til ef krankleika varð vart. Og ekki mátti bregða sér af bæ, nema staðgengill væri tiltækur.

Steingrímur flutti aftur suður, er hann fékk lyfsöluleyfið fyrir Árbæjarapóteki, sem hann stofnaði 1971.

Það var sérkennileg og heillandi veröld, sem lyfjafræðinemar ársins 1946 gengu inn í, er þeir komust í fyrsta sinn á „bak við“ í apóteki. Í augum viðskiptavinarins var apótekið aðeins afgreiðslustaður fyrir lyf, en á bak við var heil lyfjaverksmiðja. Meðfram veggjum voru skápar og hillur, með þéttröðuðum misstórum flöskum og krukkum, allt vel merkt. Sum glösin voru merkt með þremur krossum, en það þýddi að innihaldið gæti verið varsamt og önnur með hauskúpu og leggjum, sem þýddi yfirleitt bráðdrepandi. Og svo var það þessi sérstaka lykt, sem fylgdi apótekinu.

Apótekin blönduðu flest lyfin sjálf, samkvæmt Lögbókalyfjaskrám.

Nú er öðruvísi um að litast, allt kemur í innsigluðum umbúðum, tilbúnum til afhendingar, sem sjúklingurinn opnar síðan sjálfur. Kröfurnar til öryggis og gæða lyfjaframleiðslu eru orðnar svo miklar, að lyf eru nú aðeins framleidd í sérhönnuðum verksmiðjum.

Apótekarinn var í mjög sérstakri aðstöðu. Á honum hvíldi mjög víðtæk ábyrgð, sem sennilega er lítt skiljanleg nú. Í fyrsta lagi bar hann faglega ábyrgð á öllum lyfjum, sem blönduð voru í apótekinu og þar með jafnframt á verkum alls starfsfólksins. Hann bar fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum með öllum sínum eigum, jafnt íbúðarhúsnæði sem öðru, þótt hann réði í raun sáralitlu sem engu um afkomuna. Ríkisvaldið skammtaði honum tekjur með ákvörðunum um, hvaða vörur apótekið mætti hafa á boðstólum og á hvaða verði lyfin væru afhent til almennings.

Þegar Steingrímur kom aftur suður endurnýjuðust fyrri kynni í gegnum félagsstarf okkar apótekara og áttum við ekki síður góð samskipti á þeim vettvangi.

Og nú er hinsta kveðjustundin runnin upp. Að leiðarlokum kveð ég góðan dreng með þökk fyrir áratuga farsæla samfylgd. Blessuð sé minning hans.

Kristjáni og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Werner Rasmusson apótekari.
---------------------------------------------------------

Þá „lagði Steingrímur inn árarnar“ eins og sagt er hér í Færeyjum.

Steingrímur Kristjánsson var maðurinn hennar Ingibjargar Sigurlinnadóttur sem var systir föður míns, Ólafs Péturs.

Ætt hans og annan uppruna læt ég aðra um en hann byrjaði hér mér sem „Inga og Steini“ á Siglufirði en þar var Steingrímur lyfsali eða apótekari fram til 1971.

Steingrímur eins og ég kallaði hann þótt kannski hafi hann verið nefndur „Steini“ eins og ástkær sonarsonur kom inn í mitt líf þegar ég var um það bil 9 ára og átti heima í Garðahreppi að Hraunhólum en þar bjuggu auk foreldra minna afi minn og amma, Sigurlinni Pétursson húsasmiður, ættaður frá Látrum og kona hans Vilhelmína Ólafsdóttir úr Hafnarfirði. Steingrímur var úr Hafnarfirði og afi hafði leigt sig inn hjá Ólafi föður ömmu. Því er alls ekki ólíklegt að þau hafi bæði þekkt til Steingríms sem síðan „nældi sér í“ Ingu frænku mína. Við skulum bara gera ráð fyrir því.

Hann var fjallmyndarlegur, hár vexti og vel byggður í alla staði. Mér fannst hann alltaf heimsborgari og með yfirbragð menntamanns í jákvæðri merkingu þess orðs. Alltaf smart í tauinu.

Sem sagt þarna þegar ég var 9 ára kom hann inn í mitt líf og tók sér þar búsetu, er hér enn og verður áfram.

Kristján þeirra einkasonur einn minn allra besti vinur auk þess að vera frændi minn en við erum jú þremenningar. Geta má þess í framhjáhlaupi að „frændur“ á færeysku merkir „vinir“.

Æ síðan haft mikil og góð samskipti við Kristján frænda minn og vin. Aldrei var Steingrímur langt undan.

Vit hittumst á mannamótum, um jól, ármót og svo þegar ég tók hús á fólkinu hans eftir að ég fluttist til útlanda og lagðist í heimshornaflakk.

Hann var hlýlegur og nærgætinn í minn garð.

Það var oft gaman að tala við hann þótt ekki færi fyrir þannig stundum seinni árin en bæði kom ég ekki oft til landsins og Steingrímur hætti að vinna í apótekinu sem Kristján hafði að miklum hluta tekið við með árunum en það apótek var í Árbænum.

Kannski má segja að Steingrímur og Inga hafi verið „frumbyggjar“ þar þegar Árbæjarhverfið var að rísa úr grasi um 1971.

Það tekur alltaf í þegar nákomnir falla frá og týna tölunni. Líka þótt aldurinn hafi færst yfir.

Kristján sonur hans, hans mjög svo fína kona og börn hafa beinlínis tekið móður mína í fóstur eftir að ég fór af klakanum.

Hugsað um hana af mikilli natni og fáheyrðum kærleika. Reyndar mig líka. Eiginlega bara tekið okkur traustataki.

Þetta fólk er mér kært og súrt í broti á sjá á eftir Steingrími þótt aldurinn hefði færst yfir.

Ég votta Rögnu, Kristjáni, börnum og þeirra spúsum mína innilegustu samúð.

Steingrímur reyndist mér alltaf vel.

Jóhann Valbjörn Long Ólafsson.