Anton V Jóhannsson kennari

mbl.is - 13. mars 2021 | Minningargreinar

Anton Jóhannsson fæddist 9. október 1930 á Siglufirði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Siglufirði 5. mars 2021.

Foreldrar Antons voru hjónin Sigríður Gísladóttir, f. 13. ágúst 1905, d. 17. febrúar 1998, og Jóhann Gunnlaugsson, f. 6. febrúar 1907, d. 26. mars 1944.

Útförin fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 13. mars 2021, klukkan 11.

Slóð á streymi: - https://youtu.be/LjEsV7ju0fo - Hlekk á streymi má finna á www.mbl.is/andlat/

Anton V Jóhannsson kennari - Þarna staddur við fossinn í Skógræktinni, sem var hans uppáhald (sk 2004)

Anton V Jóhannsson kennari - Þarna staddur við fossinn í Skógræktinni, sem var hans uppáhald (sk 2004)

Elskulegur frændi okkar er fallinn frá. Það situr eftir tómarúm sem við getum svo innilega fyllt með góðum minningum. Alltaf vorum við velkomin til ykkar mömmu þinnar á Hverfisgötunni og áttum þar margar góðar stundir. Elsku Toni frændi, þær hafa eflaust tekið á móti þér mamma og Sigga.

Hvíl í friði kæri vinur.

Margrét, Ómar og Óskar
--------------------------------------------------------

Frændi okkar Anton V. Jóhannsson lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar föstudaginn 5. mars 1921 eftir stutta legu, 90 ára að aldri.

Toni, eins og hann var ávallt kallaður, var fæddur á Siglufirði 9. október 1930. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Gísladóttur og Jóhanns Gunnlaugssonar, beggja ættaðra úr Skarsdal.

Toni stundaði almenn störf á Siglufirði með námi sínu þar til hann hafði lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands.

Að loknu kennaraprófi hóf hann kennslu við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Eftir nokkur ár varð hann kennari við Barnaskóla Vopnafjarðar. Næst tók Toni að sér stjórn heimavistarskóla að Steinsstöðum í Skagafirði.

Loks sneri hann aftur til heimastöðvanna og hóf kennslu að nýju á Siglufirði. Þar kenndi hann við góðan orðstír til loka kennslu- og starfsferils síns.

Toni þótti ávallt samviskusamur og góður kennari. Hann lagði rækt við að sinna nemendum sínum sem best og hjálpa þeim og hvetja til dáða. Hann var farsæll í starfi og naut trausts meðal nemenda og samstarfsmanna.

Tona var margt til lista lagt og kom hann víða við á sinni löngu starfsævi. Hann var kominn af góðum smiðum og var sjálfur afar handlaginn. Árum saman kenndi hann handmennt, sem hann hafði mikla ánægju af. Hann var hæglátur og rólegur maður með gott skopskyn, ávallt jákvæður, bjartsýnn og glaður í viðmóti.

Toni sinnti norrænu samstarfi mjög vel áratugum saman. Á efri árum tók hann saman við danska vinkonu sína, Inger Krogsgaard, sem þá var orðin ekkja. Þau bjuggu saman í mörg ár, á Siglufirði á sumrum og í Danmörku á vetrum. Inger er góð kona sem reyndist Tona afar vel. Hún á stóra fjölskyldu sem tók honum opnum örmum. Hann fór oft á fundi og samkomur hjá eldri borgurum í Danmörku og sagði þá ýmsar sögur frá Íslandi. Hann fékk góða áheyrn og iðulega var skálað í lokin að hætti Dana sem hann kunni vel að meta.

Skógrækt var eitt af hans fjölmörgu áhugamálum. Hann gerðist einn af forystumönnum við skógrækt í landi Skógræktarfélags Siglufjarðar í Skarðsdal.
Þar höfðu forfeður hans í báðar ættir búið. Nú er þessi unaðsreitur, sem þeir Jóhann Þorvaldsson og síðan Toni komu af stað og unnu að löngum stundum áratugum saman, orðinn mikil prýði í bæjarlandinu. Staður sem fjöldi íbúa og gesta nýtur á góðviðrisdögum.

Toni sat í fjölda nefnda á vegum Alþýðuflokks Siglufjarðar og var einnig á tímabili varamaður flokksins í bæjarstjórn. Hann var virkur félagi, m.a. ritari flokksins um árabil.

Toni var ákaflega hlýr og góður frændi okkur yngri frændum sínum. Hann var ávallt rólegur maður og vandaði sitt málfar og alla framkomu í hvívetna. Við kveðjum elskulegan frænda okkar með þakklæti og virðingu eftir ævilöng og góð kynni.

Gunnlaugur Sigurðsson, Jón Sigurðsson og fjölskyldur.
---------------------------------------------

Látinn er á Siglufirði Anton Jóhannsson. Anton starfaði við barnakennslu alla sína ævi en átti mörg áhugamál sem hann sinnti af einlægni og óeigingirni.

Fyrst ber að telja skógræktaráhugann en hann var formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar um árabil og gaf sig mjög að ræktunarmálum í Skarðdalsskógi og hélt þannig merki Jóhanns Þorvaldssonar á lofti eftir hans dag. Þá var Anton virkur í norrænni samvinnu og sinnti hann nokkuð vinabæjastarfi fyrir hönd heimabæjar síns.

Stjórnmál voru honum hugstæð og gaf hann sig mikið að starfi Alþýðuflokksins á árum áður og sat um skeið í bæjarstjórn Siglufjarðar. Síðast en ekki síst áttu saga staðarins og safnamál mikil ítök í Antoni. Það er á því sviði sem við undirrituð minnumst hans sérstaklega – og hvernig hann kom að uppbyggingu Síldarminjasafnsins.

Það var í gegnum flokkstarfið að Anton valdist til setu í þeirri nefnd bæjarins sem hafði með safnmál að gera og gegndi þar formennsku í nokkur ár. Það val byggðist á rótgrónum og einlægum áhuga hans á því að sjá safn rísa um sögu Siglufjarðar.

Ekki spillti það fyrir hugsjóninni að snemma var gamli Ísfirðingabraggi (Róaldsbrakki) friðlýstur í því skyni að hýsa safnið. Það var einmitt á Ísfirðingastöðinni sem Anton hafði unnið í síld sem ungur maður hjá Kristjáni Sigurðssyni á Eyri, planformanni.

Kristján var lengi einn helsti forvígismaður jafnaðarmanna á staðnum auk þess að þeir Anton voru bundnir sterkum fjölskylduböndum. Anton var einn þeirra sem unnu að björgun braggans sumarið 1985 þegar nokkrir bæjarbúar tóku til við að flikka upp á hann og mála þegar mikið lá við að forða honum frá niðurrifi.

Því lá það beint við að Anton gengi til liðs við hina nýju hreyfingu bæjarbúa í september 1989 þegar stofnað og skipulagt var áhugamannafélag til uppbyggingar safns. Og sá sem vanur var margs konar félagsstörfum var valinn til að sitja á gjaldkerastóli stjórnar.

Það var kannski þá sem framtíðin var ráðin í raun: áhugi, samstaða og einlægur vilji stjórnarmanna skapaði það traust sem sannfærði bæjarstjórnendur og almenna bæjarbúa um að safn um sögu Siglufjarðar hefði mikla þýðingu. Innan fáeinna ára, þegar mál voru komin á verulegan rekspöl, baðst Anton undan frekari störfum fyrir safnið til þess að geta helgað alla krafta sína hugsjóninni um skógræktina í Skarðdal.

Við undirrituð þökkum Antoni Jóhannssyni kærlega fyrir mikilvægt framlag hans til uppbyggingar Síldarminjasafns Íslands.

Anita Elefsen safnstjóri, Örlygur Kristfinnsson.