Jón Heimir Sigurbjörnsson flautuleikari

mbl.is - 30. mars 2021 | Minningargreinar 

Jón Heimir Sigurbjörnsson flautuleikari fæddist á Siglufirði 31. odktóber 1946. Hann lést 21. mars 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörn Frímannsson, verkamaður á Siglufirði, f. 26. apríl 1917 í Fljótum, Skagafirði, d. 16. nóvember 2005, og kona hans Ragnheiður Pálína Jónsdóttir, f. 5. desember 1919 á Siglufirði, d. 21. nóvember 1998.

Systur Jóns Heimis eru

 • Jósefína Sigurbjörnsdóttir, f. 17. október 1943,
  Þórkatla Sigurbjörnsdóttir, f. 31. október 1946, og
  Helga Sv. Sigurbjörnsdóttir, f. 19. ágúst 1957.

Börn Jóns Heimis eru:

Jón Heimir Sigurbjörnsson - ókunnur ljósmyndari

Jón Heimir Sigurbjörnsson - ókunnur ljósmyndari

1) Ragnheiður,
f. 29. janúar 1970, hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð. Maður hennar er Stefan Möller og börn þeirra eru
 • Carl-Johan og
 • Ina Desirée.

Móðir Ragnheiðar er Sigríður Árnadóttir, f. 23. apríl 1949 og er búsett í Svíþjóð.
Foreldrar Sigríðar eru Árni Rögnvaldsson, f. 11. september 1915, og kona hans Jónína Antonsdóttir, f. 16. maí 1920.

2) Arnar Heimir
, f. 14. nóvember 1973, garðyrkjufræðingur í Danmörku. Kona hans er María Birna Arnardóttir.
Börn Arnars eru
 • Katrín Valdís,
 • Gauti Heimir,
 • Ívar Franz og
 • Ida Guðrún.

Móðir Arnars er Valdís Antonsdóttir, f. 18. júní 1948 og er búsett í Danmörku. Foreldrar Valdísar eru Anton Gunnar Axelsson, flugstjóri og flugkennari, f. 12. júlí 1920, og kona hans Jenný Jónsdóttir, f. 5. mars 1922.

Eftirlifandi eiginkona Jóns Heimis er Nína Goncharova, f. 23. maí 1949. Þau voru búsett í Kópavogi.
Sonur hennar er

 • Roman Goncharov, búsettur í Sankti Pétursborg. Eiginkona hans er Viktoria Goncharova og synir þeirra eru Aleksei og Arseniy.

Samhliða námi við Gagnfræðaskóla Siglufjarðar nam Jón Heimir þverflautuleik hjá Sigursveini D. Kristinssyni við Tónlistarskóla Siglufjarðar á árunum 1959-1961. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Averil Williams 1962-1965. Þá hélt hann utan til náms og lauk prófi frá Guildhall School of Music and Drama í London árið 1968, hjá Geoffrey Gilbert og Douglas Whittaker.

Jón Heimir kom víða við á löngum og farsælum tónlistarferli. Hann starfaði í Sinfóníuhljómsveit Íslands 1968-2000, lengst af sem fyrsti flautuleikari. Einnig lék hann með Kammersveit Reykjavíkur frá stofnun 1975-1985 og var félagi í Blásarakvintett Tónlistarskólans í Reykjavík.

Hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík og var auk þess kennari við tónlistarskólana í Kópavogi og Garðabæ, Tónlistarskóla Sigursveins D. Kristinssonar, hjá Barnaskólum Reykjavíkur ásamt Laugarnes-, Árbæjar- og Breiðholtsskóla. Þá var hann skólastjóri Tónlistarskóla Siglufjarðar og stundakennari þar eftir starfslok í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Enn fremur lék Jón Heimir á fjölda hljóðritana með ýmsum hópum og listamönnum.

Útför Jóns Heimis verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 30. mars 2021, og hefst athöfnin klukkan 13. Í ljósi aðstæðna verða eingöngu nánustu ástvinir viðstaddir. Athöfninni verður streymt og má nálgast streymið á:

Elsku afi okkar. Okkur finnst við þurfa að kveðja þig of snemma. Það er ekki létt að þurfa að kveðja þig núna en við eigum ótal margar fallegar minningar alveg frá því að við vorum lítil.

Okkur mun alltaf þykja vænt um öll símtölin þín frá þér á Íslandi og til okkar í Danmörku. Við vorum öll fjögur í nánu og góðu sambandi, stundum fannst okkur þú hringja of oft en nú situr eftir söknuðurinn og óskin eftir því að þú hringir aftur til okkar. En í stað þess, afi, munum við ylja okkur við dásamlegar minningar sem við elskum.

Afi, þú varst hreinlega dásamlegur afi, alltaf til staðar og við gátum verið við sjálf alltaf. Takk fyrir allt það sem að þú kenndir okkur, umhyggjuna og kærleikann.

Minning þín er ljós í lífi okkar allra.

Þín Katrín Valdís, Gauti Heimir, Ívar Franz og Ída Guðrún.
---------------------------------------------------------------------

Kær frændi, Jón Heimir Sigurbjörnsson, er nú fallinn frá. Jón Heimir fæddist og ólst upp á Siglufirði. Þar átti hann góðan uppvöxt og naut hæfileika sinna hvort sem var skíðaiðkun eða tónlist. Hann þótti hæfileikaríkur og sérstaklega efnilegur skíðamaður. Ég kom því á framfæri þegar kynningarmynd frá íþróttahreyfingunni var sýnd í Skógaskóla á sjöunda áratugnum að afreksskíðamaðurinn í myndinni sem renndi sér svo fimlega í bröttum brekkum Siglufjarðar væri nafni minn og náfrændi.

Ég hef alltaf haft ástæðu til þess að vera stoltur af frænda mínum. Ekki síðri var hann sem tónlistarmaður. Jón Heimir stundaði tónlistarnám á Siglufirði og þótti framúrskarandi. Hann var aðeins 16 ára þegar hann hóf síðan tónlistarnám í Tónlistarskóla Reykjavíkur og lauk því námi sem í boði var hér á landi. Fyrir hvatningu og stuðning hóf hann í framhaldinu nám í hinum virta Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum, þá aðeins 18 ára. Þaðan útskrifaðist hann með láði aðeins 21 árs gamall.

Flautan var hans hljóðfæri og átti hann glæstan feril sem flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands til starfsloka og í Kammersveit Reykjavíkur og Blásarakvintett Tónlistarskóla Reykjavíkur. Auk þess að flytja tónlist sinnti hann tónlistarkennslu um áratugaskeið. Þessi hæfileikaríki maður var hæverskur og hlédrægur en sem listamaður gerði hann vægðarlausar kröfur til sjálfs sín. Það hefur efalaust tekið sinn toll af honum frænda mínum.

Jón Heimir var öðlingur, traustur og góður vinur vina sinna. Hann var hrókur alls fagnaðar í hópi vina og okkar frænda frá Siglufirði sem höfum verið svo lánsamir að rækta frændskap og halda hópinn. Jón Heimir hafði frábæra frásagnar- og kímnigáfu. Frásagnir hans voru oftar en ekki af ýmsu sem hann hafði ratað í. Hann hafði lag á því að gera hrakförum og vandræðum sem hann hafði lent í góð skil og kryddaði sögurnar með þeim hætti að þær voru ógleymanlegar. Hann var einstakur sögumaður. Skemmtikraftur af guðs náð.

Ég sendi eiginkonu Jóns Heimis, henni Nínu, börnum hans, barnabörnum, systrum og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Jón H.B. Snorrason.
-----------------------------------------------------

Kynni okkar Jóns Heimis Sigurbjörnssonar hófust haustið 1975 þegar ég var svo heppinn að fá hann sem flautukennara. Allt frá því að hann kom heim frá námi í London hafði ég dáðst að spilamennsku hans og þessum fallega tóni sem hann laðaði fram. Það var því sambland tilhlökkunar og kvíða þegar ég fór í fyrsta flaututímann til átrúnaðargoðsins. Jón var ljúfmenni en tók kennsluna alvarlega.

Verkefni fyrstu kennslustundarinnar var ekki flókið en afar mikilvægt, einungis að blása í munnstykkið. Næstu vikuna stóð ég fyrir framan spegil og blés. Í næstu kennslustund sá Jón þó nokkrar framfarir en samt átti ég að æfa mig fyrir framan spegilinn næstu viku líka. Þetta var skemmtilegur vetur sem við áttum saman í Tónskóla Sigursveins í Hellusundinu. Það var því talsvert áfall fyrir mig þegar ég frétti að Jón væri að flytja til æskustöðvanna á Siglufirði og ég fengi annan kennara. Þrátt fyrir að ég nyti kennslu Jóns einungis í einn vetur hófst þarna ævilöng vinátta sem ég met mikils. Jón Heimir var skemmtilegur heim að sækja og með ríka kímnigáfu.

Jón átti oft í baráttu við hljóðfærið. Tónninn klingdi ekki eins og hann vildi. Hann prófaði munnstykki úr gulli og silfri en fæst þeirra stóðust kröfur Jóns Heimis. Hann fór hin seinni ár að smíða sín eigin og hringdi þá iðulega í mig, bauð mér í heimsókn til að prófa smíðina. Það voru afar skemmtilegar stundir og mikið pælt í flautum og munnstykkjum. Frá því að vírusinn fór að herja á okkur höfum við eingöngu talast við í síma. Hann sagði mér frá veikindum sínum sem virtust alvarleg en þó var hann fullur bjartsýni. Ég þakka Jóni Heimi vináttu í öll þessi ár og sendi Nínu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hans.

Jón Guðmundsson.
------------------------------------------------

Við Jón Heimir tókum fyrst tal saman morgunstund eina haustið 1962 vestur í Háskólabíói, ungir tónlistarnemar að hlusta á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta var myndarlegur, látlaus og skemmtilegur strákur, við náðum strax vel saman og urðum vinir ævilangt. Hann var 16 ára, nýkominn frá Siglufirði til að læra á þverflautu í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Á heimaslóð þótti Jón skara fram úr jafnt í skíðabrekkunum sem á tónlistarsviðinu og var sendur suður með svarta tékkneska tréflautu í farteskinu. Hann sýndi strax óvenjulega hæfileika á flautuna og tróð þegar á 2. námsári upp sem einleikari með hjómsveit skólans í svítukafla eftir Händel. Kennari hans var Averil Williams, þá leiðandi flautuleikari í SÍ og kennari við TR. Þau Jón höfðu mikið dálæti hvort á öðru og héldu sambandi þar til Averil dó 2018.

Nokkrum árum síðar lágu leiðir okkar Jóns saman í London þar sem við vorum við nám. Hann nam hjá bestu flautukennurum Englands á þeim árum. Fyrst við Guildhall-skólann hjá Geoffrey Gilbert sem mótað hafði rjómann af enskum flautuleikurum, m.a. William Bennett og sir James Galway. Síðar var Jón í einkatímum hjá Douglas Whittaker sem hann heillaðist mjög af sem flautuleikara. Heimkominn frá námi árið 1968 beið Jóns starf 1. flautuleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Því ábyrgðarstarfi náði hann að gegna með sóma og oft með glæsibrag í meira en þrjá áratugi, auk þess sem hann kenndi við ýmsa af helstu tónlistarskólum landsins.

Margt var brallað á Lundúnaárunum. Við þefuðum uppi áhugahljómsveitir vítt og breitt um bæinn til að fá hljómsveitarreynslu. Ekki voru þær ekki allar af hæsta gæðaflokki! Það voru hins vegar tónleikarnir í Royal Festival Hall og víðar, sem við sóttum stíft. Oftast vorum við duglegir að æfa okkur, einkum Jón, en sem betur fer höfðum við vit á að gefa okkur líka tíma til að njóta lífsins lystisemda í stórborginni. Í skólafríum, sérstaklega í „spring-breikinu“ þegar vorið kom, ráfuðum við um garða, stræti og torg, drukknir af vori, æskufjöri og stundum einhverju öðru líka.

Þetta voru friðsælir tímar og glæpatíðni lægri en nú gerist. Við félagarnir gátum þvælst um borgina jafnt á nóttu sem degi, líka þau hverfi sem höfðu miður gott orð á sér. Enginn gerði tilraun til að berja okkur eða ræna enda litum við svo sem ekki út fyrir að luma á miklum fjármunum. Ekki segi ég að aldrei hafi slest upp á vinskapinn. Jón gat verið erfiður í skapi og það gat ég líka. En oftast var hann manna skemmtilegastur, húmoristi og sögumaður góður.

Einhvern tíma þegar Jóni fannst framfarirnar á flautuna ekki ganga nógu hratt fyrir sig kastaði hann fram absúrdískri stöku:

 • „Fór til London að leika lag –
 • en enginn vildi heyra það –
 • Jæja –
 • það verður þá bara að hafa það.“

Víst áttum við Jón Heimir skemmtilega tíma saman í London á 7. áratugnum þegar The Beatles og Rolling Stones fóru með himinskautum án þess að við tækjum eftir því. Við vorum með hugann við annað. „Ljúfir dagar líða fyrst“ sagði Virgil. Hafðu þökk fyrir samfylgdina, kæri vinur.

Þórir Þórisson.