Þórleif G. Alexandersdóttir

mbl.is - 31. mars 2021 | Minningargreinar

Þórleif Alexandersdóttir (Tóta) fæddist á Siglufirði árið 1940. Hún lést 22. mars 2021 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Siglufirði.

Foreldrar hennar voru Þórleif Valgerður Friðriksdóttir, f. 27.11. 1916, d. 3.11. 1994, og Alexander Ingimarsson, f. 15.2. 1917, d. 24.3. 2002. Systur hennar eru Lilja Ingrid (Dúfa), f. 1938, Unnur Helga, f. 1942 og Hólmfríður, f. 1948.

Hinn 20.6. 1964 giftist hún Daníel P. Baldurssyni, f. 3.10. 1942.
Börn þeirra eru:

1) Baldur Jörgen Daníelsson, f. 22.2. 1965, börn hans og fv. sambýliskonu, Birgittu Karlsdóttur, f. 5.7. 1966, eru:
 • Daníel Pétur, f. 22.11. 1988, eiginkona hans er Auður Ösp Magnúsdóttir, f. 6.9. 1990, börn þeirra eru
 • Anton Elías, f. 23.12. 2009 (sonur Auðar úr fyrra sambandi),
 • Katla Röfn, f. 23.8. 2013,
 • Rúrik Axel, f. 16.9. 2020, og
 • Sonja Rut, f. 24.6 1993.
Þórleif G. Alexandersdóttir - ókunnur ljósmyndari

Þórleif G. Alexandersdóttir - ókunnur ljósmyndari

2) Sigurbjörg Daníelsdóttir,
Börn þeirra eru:
f. 17.11. 1967, eiginmaður hennar er Halldór Ó. Sigurðsson, f. 14.10. 1964.
 • Sigurður Óskar, f. 21.8. 1996, og
 • Sandra Sif, f. 4.9. 1998.
3) Daníel Pétur Daníelsson,
f. 21.4. 1978.
Börn hans og fv. sambýliskonu, Jónu Guðnýjar Jónsdóttur, f. 25.9. 1966, eru:
 • Jörgen Jón, f. 16.9. 2008, og
 • Erpur Emil, f. 26.11. 2012.

Tóta ólst upp á Siglufirði og gekk í barna- og gagnfræðaskóla Siglufjarðar og fór síðar í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Á uppvaxtarárum sínum var hún í sveit yfir sumartímann á Höfða á Höfðaströnd sem var henni ætíð kær. Hún starfaði lengst af á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.

Útför hennar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 31. mars 2021, klukkan 14 og verður streymt á vefsíðunni:  https://youtube/N39nK-ub1VM  -

Minning um móður

 • Í hjarta mínu er lítið ljós,
 • sem logar svo skært og rótt.
 • Í gegnum torleiði tíma og rúms
 • það tindrar þar hverja nótt.

 • Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,
 • af mildi, sem hljóðlát var.
 • Það hefur lifað í öll þessi ár,
 • þótt annað slokknaði þar.

 • Og þó þú sért horfin héðan burt
 • og hönd þín sé dauðakyrr,
 • í ljósi þessu er líf þitt geymt,
 • – það logar þar eins og fyrr.

 • Í skini þess sífellt sé ég þig
 • þá sömu og þú forðum varst,
 • er eins og ljósið hvern lífsins kross
 • með ljúfu geði þú barst.

 • Af fátækt þinni þú gafst það glöð,
 • – þess geislar vermdu mig strax
 • og fátækt minni það litla ljós
 • mun lýsa til hinsta dags.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku hjartans mamma okkar, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Baldur Jörgen, Sigurbjörg, Daníel (Danni) Pétur og fjölskyldur.
------------------------------------------------------------------------------------

Elsku amma.

Takk fyrir að vera amma okkar.

Takk fyrir alla kakóbollana og knúsin.

 • Við söknum þín svo mikið.
 • Englar eins og þú:
 • Þú tekur þig svo vel út
 • hvar sem þú ert.
 • Ótrúlega dýrmætt eintak,
 • sólin sem yljar
 • og umhverfið vermir.
 • Þú glæðir tilveruna gleði
 • með gefandi nærveru
 • og færir bros á brá
 • svo það birtir til í sálinni.
 • Sólin sem bræðir hjörtun.
 • Í mannhafinu
 • er gott að vita
 • af englum
 • eins og þér.
 • Því að þú ert sólin mín
 • sem aldrei dregur fyrir.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þín langömmubörn, Anton Elías, Katla Röfn og Rúrik Axel.
--------------------------------------------------------------------

Nú þegar Tóta mágkona hefur kvatt viljum við, fyrir hönd okkar systkina Danna, minnast hennar. Hugurinn hvarflar heim til Siglufjarðar. Þar ólumst við upp við einangrun á vetrum er Skarðið lokaðist snemma vegna snjóa og við ys og þys síldaráranna á sumrum þar sem Tóta var ávallt ein af fljótustu síldarstúlkunum. Við, yngstu systkinin Anna Þóra og Eiríkur, vorum unglingar þegar Tóta kom inn í fjölskylduna. Grannvaxin, snaggaraleg, létt á fæti, glaðleg, hláturmild og hressileg í viðmóti, gjafmild og greiðvikin.

Við tvö þökkum henni og Danna af alhug einstakan stuðning, umhyggju og aðstoð einkum á menntaskólaárum okkar. Það verður seint að fullu metið.

Mér, Eiríki, vegalausum unglingnum, gekk Tóta í móðurstað með litlum fyrirvara þegar fauk í önnur skjól. „Það er bara ekkert annað í stöðunni,“ sagði hún af þeirri hlýju sem undir bjó. Ég varð strax einn af körlunum meðan Sigurbjörg og Baldur Jörgen skottuðust í kring og sköpuðu móður sinni ærin verkefni. Þegar karlarnir komu slorugir úr frystihúsinu hvein í tálknum og maður lærði fljótt hvert lagið skyldi hafa og einhvern veginn situr það í. Þarna átti ég góðar stundir. Eitt sinn reyndi ég að þakka umhyggjuna með stóru blómfangi sem óx í sumarnóttinni og yfir sunnudagssteikinni var svo sagt frá því að rolla hefði um nóttina komist í garð einn við Hafnargötuna.

Tóta ræktaði garðinn sinn í fleiri en einum skilningi. Hjá henni áttu börnin og síðar barnabörnin gott skjól og þau Danna var gott heim að sækja. Hún var mikil blómakona og með elju sinni kom hún upp einkar fallegum garði við heimili þeirra Danna og þar átti hún margar góðar stundir. Síðsumars fór hún einatt til berja og tíndi þar hraðar og meira en aðrir. Á vetrum gekk hún á skíðum, helst daglega þegar tíð var góð. Henni féll sjaldan verk úr hendi, var iðin við prjóna- og saumaskap og hvað annað sem til féll og söng í kirkjukór Siglufjarðarkirkju um 30 ára skeið. Tóta starfaði lengst af á Sjúkrahúsinu á Siglufirði þar sem hún síðar dvaldi um langt skeið.

Í alvarlegum veikindum Tótu undanfarin ár hefur Danni bróðir staðið við hlið hennar sem sá klettur sem vakinn og sofinn sá til þess að ekkert yrði óreynt í að endurheimta bata. Þau nutu góðrar aðstoðar barna sinna, barnabarna og fjölskyldunnar. Söknuður Danna er mestur því í honum átti hún sinn besta trúnaðarvin. Nú er hún róin á önnur mið þar sem þrautirnar eru að baki og djarfar af nýjum degi.

 • Lát huggast, þú ástvinur hryggur!
 • Nú hætti þinn grátur að streyma!
 • Því dauðinn er leið sú sem liggur
 • til lífsins og ódáinsheima

(Prudentius, þýð. Jón Helgason)

Við systkini Danna, fjölskyldur okkar allra og Mie þökkum samfylgdina og vottum Danna, Baldri Jörgen, Sigurbjörgu, Daníel Pétri og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Hvíli hún í friði.

Eiríkur Baldursson, Anna Þóra Baldursdóttir.
----------------------------------------------------------------

Í dag kveðjum við elsku Tótu. Þennan litríka karakter og kvenskörung.

Konu sem aldrei féll verk úr hendi og var áður en hún veiktist sú duglegasta og hressasta sem þekktist. Alltaf var hægt að leita til hennar og hjálpsemin var henni í blóð borin. Ef henni mislíkaði eitthvað var alveg öruggt að hún lét vita af því og hún lét sko allt flakka. Síðustu árin var hún eins og vængbrotinn fugl, gat ekki hlaupið út um mela og móa eins og hún var vön. Það var henni erfitt.

Nú getur hún gert þetta allt saman. Hefur fengið frelsið frá þessum líkama sem batt hana niður. Við erum þakklát fyrir að hafa átt hana að. Þakklát fyrir alla hjálpina og elskuna. Þakklát fyrir líf hennar og þakklát fyrir að nú getur hún breitt út vængina og verið hún sjálf. Náttúrubarnið sem undi sér best úti í garði og uppi í fjöllum.

 • Svo þerrirðu tár af þreyttum hvarmi
 • þelbetri engin kona vann.
 • Þú hugsaðir með þínum heita barmi,
 • hlúðir að gróðri og styrktir hann
 • með táplitlum, en þó traustum armi.
 • Þú tignaðir guð og kærleikann.
 • Þín góðvild, samúð og göfuglyndi
 • gleymist ei neinum, sem kynntist þér.
 • Í sólblævarþyt og vetrarvindi
 • vonglöð og örugg þú reyndist mér.
 • Í greipum dauðans, við draumsins yndi:
 • Jafn-dýrðleg allaf þín návist er.

(Þóroddur Guðmundsson frá Sandi)

Sendum aðstandendum öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu frábærrar konu.

Jóna Guðný og börn.