Jóhann Sv. Jónsson tannlæknir

mbl.is - 24. apríl 2021 | Minningargreinar

Jóhann Sv. Jónsson tannlæknir fæddist á Siglufirði 14. mars 1934. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði 11. apríl 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Tryggvi Jóhannsson skipstjóri og verkstjóri á Siglufirði, f. 27. júní 1906, d. 11. desember 1962, og Elín Flóventsdóttir, húsfreyja á Siglufirði, f. 17. júní 1903, d. 30. september 1980.

Bræður Jóhanns voru tveir;

  • Bragi Jóhannsson, veðurfræðingur, f. 2. janúar 1931, d. 28. janúar 2019, og
  • Héðinn Jónsson, frönskukennari í Menntaskólanum í Reykjavík, f. 15. september 1936. Héðinn er búsettur í Reykjavík.

Bræðurnir sóttu sér allir háskólamenntun erlendis, sinn í hverju landinu. Bragi lærði í Svíþjóð, Jóhann í Þýskalandi og Héðinn í Frakklandi.

Jóhann Sv. Jónsson

Jóhann Sv. Jónsson

Jóhann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1955 og hélt að því loknu til náms til München í Þýskalandi. Þar lærði hann tannlækningar við háskólann í München og lauk hann náminu árið 1961 og öðlaðist hinn 14. september 1961 leyfi til að stunda tannlækningar á Íslandi.

Þegar Jóhann var við nám í München kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Önnu Jóhönnu Jóhannsdóttur Hauk, meistara í fatasaumi, f. 18. nóvember 1934 í Þýskalandi. Jóhann og Anna giftu sig í Þýskalandi 5. september 1958.

Börn Jóhanns og Önnu eru:

  • 1) Bylgja Jóhannsdóttir, f. 28. desember 1961, búsett á Siglufirði. Fyrrverandi eiginmaður Bylgju er Pálmi Aðalbjörnsson, f. 21. febrúar 1960. Barn þeirra er Elín, f. 20. febrúar 1994, búsett í Reykjavík.

  • 2) Jón Tryggvi Jóhannsson, f. 23. ágúst 1964, og er hann giftur Fjólu Kristjánsdóttur, f. 6. desember 1965 og eru þau búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru: Aron Ármann, f. 21. september 1992, giftur Juliönu Nogueira, f. 26. september 1994, og eru þau búsett á Sólheimum í Grímsnesi, Jóhann Felix, f. 21. september 1992, í sambúð með Önnu Sunneborn Guðnadóttur, f. 28. maí 1992 og eru þau búsett í Reykjavík, Alex Harri, f. 21. ágúst 1997, búsettur í Reykjavík, og Andri Leó, f. 22. ágúst 2007.

Jóhann fluttist strax að loknu tannlæknanáminu í Þýskalandi með eiginkonu sinni til Siglufjarðar þar sem hann starfaði við tannlækningar allt þar til hann fór á eftirlaun árið 1995. Jóhann var heilsuhraustur alla tíð ef frá eru skildar örfáar vikur fyrir andlát hans. Hann var virkur í félagsstörfum á Siglufirði, sat í stjórn Íþróttabandalags Siglufjarðar um árabil og átti sæti í Heilbrigðisnefnd Siglufjarðar 1968-1983.

Hann var gjaldkeri í stjórn Tannlæknafélags Norðurlands 1976-1978. Jóhann var virkur félagi í Kiwanisklúbbnum á Siglufirði og var forseti Kiwanisklúbbsins Skjaldar 1977-1978 og svæðisstjóri Grettissvæðis Kiwanis á Norðurlandi vestra 1990-1991. Jóhann var mikill áhugamaður um stangveiði og sat í stjórn Stangveiðifélags Siglfirðinga um árabil frá árinu 1977.

Útför Jóhanns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 24. apríl 2021, klukkan 11.

Elsku besti pabbi minn er dáinn. Farinn yfir móðuna miklu og aldrei verður lífið aftur eins. Hann var kletturinn minn í lífinu.

Hann var alla tíð hraustur til heilsunnar og kenndi sér einskis meins nokkurn tímann þar til nákvæmlega fyrir tveimur mánuðum upp á dag. Þá fékk hann stóran blóðtappa í heilann sem lamaði hann hægra megin í líkamanum og missti hann einnig málið. Þegar á leið fór hann þó að geta sagt einhver orð, en hreyfigeta í handlegg og fæti kom ekki til baka. Þetta gerðist mjög skyndilega, því m.a.s. daginn áður en reiðarslagið dundi yfir fór hann sinn daglega rúnt á bílnum sínum í bæinn og keyrði um fallega fjörðinn sinn eins og vanalega.

Pabbi elskaði bæinn sinn Siglufjörð og nánast daglega var rúntað upp á Saurbæjarás eða fram að Hóli eða fram á fjörð og horft yfir bæinn eða yfir Siglunesið og dáðst að fegurðinni.

Pabbi tók alla tíð þátt í ýmsum félagsstörfum hér í bænum, var m.a. í Kiwanis um langt árabil og mætti þar nánast á alla fundi, starfaði í Vorboðakórnum, sem er kór eldri borgara hér í bæ, og í þessum tveimur félögum starfaði hann alveg fram að dánardegi eða þar til Covid-19 stoppaði allt.

Við pabbi vorum mjög náin alla tíð og eftir að aldurinn færðist yfir foreldra mína ákvað ég að flytjast hingað til Siglufjarðar til þess að vera þeim innan handar í ellinni. Hingað kom ég fyrst um sumarið 2013 og ílengdist svo meira og minna hér alveg til dagsins í dag og sé svo sannarlega ekki eftir því. Við áttum öll og ásamt elsku Pjakki hundinum dóttur minnar yndislegar stundir saman hér á Siglufirði. Dásamlegar minningar sem birtast okkur svo líka ljóslifandi á ljósmyndum sem ég tók töluvert af.

Pabbi var einstakur maður, góðhjartaður svo af bar og hjálpsamur og vildi öllum vel, og eiginlega sérstaklega þeim sem minna máttu sín í þjóðfélaginu

og er mér ávallt minnisstæður ákveðinn frasi sem hann sagði svo oft: „Það er ekkert ljótt við það að vera góður við aðra.“ Þessi orð heyrði ég oft frá honum og þetta lýsti honum alveg fullkomlega.

Pabbi stundaði lax- og silungsveiðar um árabil og elskaði að fara í veiðitúra, sérstaklega auðvitað í Fljótaána, en hann fór í endalaust marga veiðitúra hér og þar um landið. Veiddi hann mikið af bæði laxi og silungi og fékk nokkrum sinnum stóra verðlaunalaxa. Á yngri árum stundaði hann badminton af kappi og bæði hann og mamma stunduðu morgunsund snemma morguns alla daga um langt árabil hér í okkar frábæru sundlaug.

Þau ferðuðust töluvert mikið á yngri árum og stóðu Ameríkuferðir þeirra þar upp úr held ég, þar sem þau heimsóttu æskuvinkonu mömmu sem þar bjó.

Elsku pabbi minn, ég kveð þig hér með miklum söknuði og ég mun passa hana mömmu fyrir þig og dvelja hér á Siglufirði hjá henni áfram. Hún verður aldrei ein hér.

Minning þín mun alltaf lifa í hjörtum okkar allra og ég mun hugsa til þín á hverjum einasta degi.

Þú varst besti pabbi í öllum heiminum. Ég elska þig elsku pabbi minn.

Þín dóttir, Bylgja.
---------------------------------------------------------------

Elsku pabbi minn kvaddi að morgni dags hinn 11. apríl síðastliðinn. Pabbi hafði lifað góðu lífi og alltaf verið heilsuhraustur ef frá eru skildar síðustu vikurnar. Hann var með sína rútínu, skrapp í bæinn á bílnum sínum, hitti fólk og spjallaði og kom við í kaffi á nokkrum stöðum. Það var því úr karakter við hann að hann var allt í einu rúmfastur og gat nánast ekki tjáð sig og úr því sem komið var var það kannski bara gott að hann fékk að fara.

Þær minningar sem koma í huga minn eru flestar frá því að ég var polli heima á Sigló. Flestir dagar byrjuðu á morgunsundi og vínarbrauði. Ég man vel eftir því þegar pabbi byrjaði að spila golf frammi á Hóli. Kallinn keypti sér golfsett og ég og Jónas Skúla æskuvinur minn fengum alltaf að fara með. Þetta var mikið fjör en golfið heillaði pabba ekki. Sama sumar og pabbi byrjaði í golfinu urðu í raun straumhvörf í lífi hans því hann keypti sér veiðileyfi inni í Fljótaá og prófaði í fyrsta skipti að veiða á stöng í á.

Hann heillaðist strax af þessu sporti og golfkylfurnar fóru beint inn í geymslu og hafa ekki verið snertar síðan. Fyrst kunni pabbi ekkert að veiða og hann fékk aldrei lax heldur bara einhverjar silungslontur. Aðrir veiðimenn fengu alltaf einn og einn lax! Það varð því úr að pabbi bað Svavar á Kambi að koma með sér á svæði 1 í Fljótaánni og kenna sér galdurinn. Það var eins og við manninn mælt. Þeir fengu á sex tímunum fullt af bleikju og tvo laxa, 12 og 14 punda dreka. Pabbi var nú orðinn heltekinn af veiðibakteríunni og eftir þetta gat mamma í raun ekki skipulagt sumarfrí með honum svo heitið gæti því þetta snerist orðið alltaf um að hann yrði að vera heima á besta veiðitímanum.

Þegar ég var um 10 ára fór ég með nokkrum strákum niður á Öldubrjót að veiða. Þegar ég er að kasta út renn ég til og missi veiðistöngina mína í sjóinn og hún sekkur til botns. Stöngin var glæný og ég grét mig í svefn um kvöldið. Þegar ég vakna um morguninn trúi ég varla mínum eigin augum því veiðistöngin lá við hliðina á mér í rúminu mínu. Þá hafði pabbi farið niður á bryggju þegar ég var sofnaður og fiskað stöngina upp.

Pabbi var skapgóður að eðlisfari og studdi mig alltaf í því sem ég tók mér fyrir hendur en þegar ég tilkynnti honum að ég ætlaði ekki í MA heldur í Versló þá benti hann mér á að ég væri að rjúfa rótgróna fjölskylduhefð! Með sínu jafnaðargeði komst hann þó fljótlega yfir þetta og ég fór í Versló.

Við pabbi eyddum óteljandi mörgum klukkutímum saman við árbakkann á mínum yngri árum og þetta voru okkar mestu gæðastundir. Það er almennt eðli veiðimanna að vilja fá að hafa stöngina út af fyrir sig en ég og pabbi skiptumst alla tíð á að veiða saman á eina stöng og það var aldrei neitt vandamál nema kannski þegar ákveða þurfti hvor okkar ætti að byrja að kasta á Lönguflúðum á svæði 2.

Elsku besti pabbi, takk fyrir allar góðu stundirnar. Guð geymi þig.

Jón Tryggvi Jóhannsson.
------------------------------------------------------------

Margt kemur upp í hugann þegar bekkjarfélagar kveðja, nú síðast hann Jonni tannlæknir, fullu nafni Jóhann Sverrir Jónsson kominn á 88. ár og náði þannig góðum aldri. Við vorum 44 talsins sem útskrifuðumst saman frá MA vorið 1955 og skiptist hópurinn nokkuð jafnt milli mála- og stærðfræðideildar. Í stærðfræðideildinni voru þá m.a. tveir Siglfirðingar sem komu saman í skólann eftir landspróf, ásamt Jóhanni var það Gunnar H. Gunnlaugsson síðar þekktur skurðlæknir. Fylgdust þeir að sem herbergisfélagar í tvo vetur í heimavist MA.

Var einkar vingott með okkur, m.a. þegar við í 5. bekk vorum nágrannar í kytrum efst uppi á Suðurvistum í gamla skólahúsinu, sem nú er mannlaus hanabjálki. Jonni átti þá gott útvarpstæki og hlustaði mikið á dægurlög þess tíma sem endurspeglaðist m.a. í ágætri teikningu af honum í Carminu.

Einnig minnist ég tveggja bræðra Jóhanns sem útskrifuðust frá MA, Braga veðurfræðings sem varð stúdent 1951 og Héðins 1957, síðar frönskukennara. Foreldrar þeirra, Jón Tryggvi og Elín, voru alþýðufólk með metnað fyrir hönd sona sinna sem allir stóðu vel undir væntingum. Þannig var Jóhann farsæll námsmaður, jafnvígur á flestar greinar. Sérstaklega er mér minnisstæð gamansemi hans og viðbrögð í samræðum, oft úr óvæntri átt.

Leið meirihluta íslenskra stúdenta sem héldu utan í framhaldsnám lá á þessum árum til Frakklands eða Þýskalands að stúdentsprófi loknu. Jóhann lærði þannig tannlækningar í München og kynntist þar sinni þýsku eiginkonu. Ásamt henni hélt hann rakleitt til baka í heimabyggðina og gætti að tannheilsu Siglfirðinga alla sína starfsævi eins og aldrei hefði annað verið á dagskrá. Það má kalla að gjalda fósturlaunin. Leiðir okkar lágu síðan stöku sinnum saman á stórhátíðum stúdentsárgangsins, m.a. vorið 2015 á Akureyri á 60 ára afmælinu.

Glettni Jóhanns var þá enn söm við sig og við vorum sammæltir um að hvergi væri betra að vera en nyrðra og eystra.

Hjörleifur Guttormsson.