Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir

mbl.is - 1. maí 2021 | Minningargreinar

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir fæddist á Siglufirði 2. júní 1937. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 20. apríl 2021.

Foreldrar Hönnu Sigríðar voru hjónin Guðrún Hafliðadóttir húsfreyja, f. 16.9. 1916, d. 1.1. 2000, og Ásgeir Gunnarsson vélstjóri, f. 21.4. 1912, d. 1. 11. 1985.

Hanna Sigga, eins og hún var alltaf kölluð, ólst upp á Siglufirði, næstelst í sjö barna systkinahópi.
Systkinin voru

 • Hafliði Sigurðsson, f. 24.6. 1932, d. 22.9. 2000,
 • Ásdís Björg Ásgeirsdóttir, f. 4.6. 1941, d. 25.11. 2013,
 • Gunnar Ásgeirsson, f. 20.11. 1942, d. 1.10. 2010,
 • Guðbjörg Ásgeirsdóttir, f. 11.7. 1945,
 • Pétur Ásgeirsson, f. 21.12. 1948, og
 • Jón Ásgeirsson, f. 31.10. 1954.
Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Hanna Sigríður var gift Sölva Guðnasyni, f. 27.10. 1935, d. 7.10. 2020. Hann var sonur hjónanna Guðna Brynjólfssonar, f. 18.5. 1903, d. 31.5. 1985, og Þórhildar Sölvadóttur, f. 29.2. 1912, d. 20.7. 1995

Börn Hönnu Sigríðar og Sölva eru fimm:

 • 1) Guðný Þórhildur Sölvadóttir, f. 14.9.1954. Eiginmaður hennar er Sverrir Jónsson og eiga þau þrjú börn.

 • 2) Guðrún Ásgerður, f. 18.12.1955. Eiginmaður hennar var Óttar Bjarkan Bjarnason en hann lést 31.1. 2009. Börn þeirra eru fjögur.

 • 3) Ásgeir Ingvar Sölvason, f. 8.4. 1960. Eiginkona hans er Erla Gunnlaugsdóttir og eiga þau fjögur börn.

 • 4) Guðni Margeir Sölvason, f. 8.4. 1960. Eiginkona hans er Júlía Birna Birgisdóttir og eiga þau fimm börn.

 • 5) Sölvi Sölvason, f. 6.5. 1971. Eiginkona hans er Sigríður Karlsdóttir og eiga þau þrjú börn.

Útför Hönnu Sigríðar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 1. maí 2021, og hefst athöfnin kl. 14.
----------------------------------

Elsku mamma.

Það eru margar minningar sem koma upp þegar ég hugsa til baka. Þú varst sannkölluð ættmóðir í stóra hópnum þínum sem þú fylgdist svo vel með. Og nutum við góðs af því að vera í mikilli nálægð við ykkur. Krakkarnir okkar áttu sitt annað heimili hjá ykkur á Laugarveginum, þú varst alltaf til taks fyrir þau og fylgdist náið með þeim, það var alltaf hægt að fara til ömmu og fá eitthvað gott að borða eða nýbakað.

Ógleymanlegar eru allar ferðirnar sem við fórum saman bæði innanlands og utan. Sérstaklega er mér minnisstæð síðasta ferðin okkar á áttræðisafmælinu þínu þegar við fórum um Austfirði þar sem þú áttir ættir þínar að rekja.

Þú hafðir alltaf sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar og oft urðu fjörugar umræður í eldhúsinu á Laugarveginum þegar við komum í síðdegiskaffið. Það verður skrítið að geta ekki komið við og borið undir þig þau málefni sem eru hverju sinni í leik og í starfi.

Það var alveg í þínum stíl eins og þú kenndir mér að standa við það sem maður segir, þegar þú sagðir við dánarbeð pabba „ég kem fljótt til þín“.

Takk fyrir allt.

Þinn sonur, Sölvi.
---------------------------------------------------

Í dag fylgi ég tengdamóður minni, Hönnu Siggu, til grafar en hún lést 20. apríl síðastliðinn, einungis sex mánuðum á eftir manni sínum, Sölva Guðnasyni, sem lést 7. október 2020. Það kom eiginlega ekkert á óvart að stutt yrði á milli þeirra hjóna því þau fóru þannig í gegnum lífið, sem spannaði 66 ár, saman alla tíð, samhent og samstíga í stafni á fjölskylduskútunni. Ég vil tileinka tengdaforeldrum mínum báðum þessar minningar, þar sem ég hef verið þeim samhliða í nær 40 ár sem er langur tími og margs að minnast.

Hanna Sigga og Sölvi voru mikið fyrir sig og sína, heimakær og sjálfum sér nóg. Fjölskyldan var þeim mikilvæg og heima á Laugarvegi 46 var miðstöð hennar þar sem allir komu við, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn nú seinni árin.

Ég var 22 ára þegar ég kom inn í fjölskylduna. Mér var vel tekið og bjuggum við Ásgeir hjá þeim fyrstu mánuðina áður en við fluttum í eigið húsnæði. Í gegnum árin höfum við fjölskyldan átt mikla samleið með Hönnu Siggu og Sölva og við hvert skref í lífi okkar og barna okkar hafa þau verið stór hluti og mikilvægur. Mér er efst í huga þakklæti fyrir allt sem þau gerðu fyrir okkur og gáfu okkur í veganesti sem ungri fjölskyldu að hefja sinn búskap og á vegferð okkar öll árin.

Hanna Sigga var alltaf með kaffi og bakkelsi og urðu engiferkökurnar „hennar einkenni“, því þær töldust ekki til jólasmákökubakstursins, heldur voru þær það sem börnin öll ólust upp við að fá hjá ömmu Siggu á Laugarveginum alla daga. Ég fékk handleiðslu við heimilishaldið og baksturinn frá tengdamömmu og tók upp þann sið að baka engiferkökurnar á mínu heimili til þess að eiga alltaf eitthvað með kaffinu. Hanna Sigga gerði líka eitt til margra ára, sem mér hefur alltaf þótt mjög skemmtilegt.

Hún hélt litla dagbók, þar sem hún skráði veðrið þann daginn, daglega og ýmislegt annað sem henni þótti vert að nefna þann daginn. Þetta gerði hún til svo margra ára og gat svo sagt okkur allt um veðrið þennan dag fyrir ári síðan og aftur um nokkur ár. Tengdamóðir mín var líka einstaklega skemmtilega pólitísk, blá í gegn allt sitt líf og voru umræðurnar oft mjög fjörugar þegar leið að kosningum, það verður missir að hennar atkvæði við næstu kosningar.

Sölvi tengdapabbi var mjög handlaginn maður og var það fátt sem hann gat ekki lagað eða hreinlega búið til sjálfur ef því var að skipta. Alla tíð var hann að gera eitthvað heima við hjá sjálfum sér eða hjá einhverju okkar. Hann tók líka svo mikinn þátt í öllu með strákunum sínum, bæði hvað varðaði áhugamál þeirra og lagfæringar á bílum þeirra og tækjum. Sölvi var fastur fyrir og ákveðinn en fór alltaf vel í hlutina þannig að það var gott að eiga hann að.

Ég bar mikla virðingu fyrir tengdaforeldrum mínum og þakka þeim alla þá umhyggju og hlýhug sem þau hafa sýnt okkur fjölskyldunni alla tíð. Það mun taka okkur tíma að venjast þeirri tilhugsun að nú sé enginn til að taka á móti okkur á Laugarvegi 46 en minningin lifir í hjörtum okkar.

Hafið þökk fyrir samfylgdina.

Erla Gunnlaugsdóttir.
------------------------------------------------------

Í dag kveð ég elsku ömmu mína, Hönnu Siggu, eða ömmu Siggu eins og við krakkarnir kölluðum hana. Það eru svo ótalmargar minningar sem koma upp í hugann enda hef ég verið svo heppin að alla mína tíð hefur samband okkar ömmu verið gott og sterk tengsl okkar á milli. Það eru allar stundirnar í eldhúskróknum á Laugarveginum sem standa upp úr og þeirra mun ég sakna gríðarlega, alltaf áttum við skjól þar, bæði sem börn og í seinni tíð.

Piparkökur voru bakaðar allan ársins hring, þær og djúsglas einkenndu barnæskuna. Þegar líða fór á fullorðinsárin var það kaffibolli og eldheitar pólitískar umræður. Ég sagði það nú oft að það rynni blátt blóð í æðum hennar ömmu því heitari sjálfstæðiskonu hef ég ekki fyrr hitt og skoðunum hennar var ekki haggað. Það voru forréttindi að hafa alist upp í mikilli nánd við ömmu og afa og aldrei leið langt á milli hittinga eða símtala. Það er skrítið að hugsa til þess að ekki verði skotist heim á Laugarveg í kaffi eða hádegishitting á næstunni.

Það var stórt skarð sem afi skildi eftir sig fyrir rúmum sex mánuðum og nú er það skarð orðið mun stærra. Hann hefur eflaust verið farið að lengja eftir spúsu sinni og hugga ég mig við það að þau séu sameinuð í sumarlandinu.

Það gefur mér ró í hjartað að hafa fengið að vera hjá þér, elsku amma mín, síðustu dagana þína hér. Ég kveð þig með miklum söknuði en eins og ég hvíslaði að þér „þá sjáumst við seinna yfir kaffibolla“.

Þín Hanna Sigga.
-------------------------------------------------

 • Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
 • Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
 • Hún ávallt er vörn þín, þinn skjöldur og hlíf.
 • Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf.
  (Ómar Ragnarsson)
  -------------------------------------------------------------

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir.

Elsku amma mín, komið er að kveðjustund okkar. Mikið sem ég er þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Sem lítil stelpa var ég svo heppin að alast upp tveimur húsum frá ykkur afa, þannig að maður var iðulega að kíkja inn í alls konar gotterí og bakkelsi. Það jafnaðist ekkert á við kökurnar þínar, það var alveg sérstakt hvernig þér tókst að gera bestu kökurnar, þú sagðir nú oft að ekki væri sama hvaða hráefni væri notað.

Varð mér hugsað til stundarinnar sem við áttum saman nú síðast í desember; sátum í eldhúskróknum að spjalla og þú biður mig að rétta þér uppskriftabókina þína. Svo byrjar þú að lesa upp fyrir mig úr uppskriftabókinni en ég hugsa að þú hafir innst inni verið að segja mér að fara baka. Hvorug okkar bakaði þessi jól en ég skal lofa að bæta úr því næstu jól.

Síðustu ár reyndust þér erfið elsku amma og allra mest síðasta hálfa árið eftir að afi kvaddi okkur. Nú eruð þið sameinuð á ný og ég veit að hann hefur tekið vel á móti Hönnu sinni.

 • Við lífsins stiga ætlum að þramma
 • og þar með okkur verður þú
 • okkar elsku besta amma.
 • Okkur þykir lífið svo skrýtið
 • og margt er svo flókið í heiminum nú.
 • Þá er alltaf gott að vita
 • að okkur getur hjálpað þú.
 • Þú alltaf í huga okkar ert.
 • Þú hjörtu okkar hefur snert
 • með góðmennsku og hjartavernd.
 • Hér og nú ertu heimsins besta amma nefnd.
 • Þú ert sem af himnum send.
  (Katrín Ruth Þ. 1979)

Elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín.

Þín Ása Guðrún (Ása Gunna).
------------------------------------------------------------

Elsku amma mín, þvílík forréttindi sem það voru að eiga þig að og að mitt annað heimili var Laugarvegur 46. Það klikkaði nánast aldrei þegar maður kom hlaupandi upp stigann þá varst þú með svuntuna á þér í óðaönn í bakstri eða matargerð og það er nú bara svoleiðis að það kemur enginn til með að toppa þig í þeim málum. Ljúft að hugsa til þess þegar maður fékk heitar nýbakaðar piparkökur sem voru þær bestu í heimi og kalda mjólk með.

Mér fannst fátt skemmtilegra en að fá að stússast með þér og kenndir þú mér svo ótalmargt. Skiptin eru óteljandi þar sem ég fékk að hjálpa þér í eldhúsinu og fannst mér það geggjað, sérstaklega þegar eitthvað stóð til og við vorum að skreyta kökur. Þú lagðir mikla áherslu á það hversu mikilvægt það væri að standa sig vel í skólanum og þú varst alltaf svo áhugasöm um hvernig gengi og svo innilega ánægð þegar vel gekk og átti það við um allt sem ég tók mér fyrir hendur.

Gleymi ekki þegar við fórum á bókasafnið saman og tókum allar Heiðubækurnar svo ég gæti æft mig að lesa fyrir þig. Okkur fannst virkilega gaman að fara í búðir saman að kaupa föt og skó, það var líka óskrifuð regla að þegar ég keypti mér eitthvað nýtt þá kom ég og sýndi þér það og sagðir þú gjarnan „já þetta er sko ekkert slor“. Þvílík ævintýri öll ferðalögin sem við fórum í saman, sumarbústaðaferðirnar, útilegurnar, jólaferðirnar til Reykjavíkur og allar hinar ferðirnar, en 70 ára afmælisferðin þín til Köben stendur upp úr.

Ég hef alltaf litið svo mikið upp til þín elsku amma, þú varst alltaf svo ekta, tvínónaðir ekki við hlutina, hafðir sterkar skoðanir sem þú fórst ekki leynt með, varst alltaf til staðar og mikill húmoristi.

Við gátum ekki eytt jafn miklum tíma saman síðustu ár og við vorum vanar að gera en hringdum mjög reglulega í hvor aðra og áttum svo miklar gæðastundir saman þegar ég kom á Sigló. Við gátum eytt mörgum tímum saman að ræða um allt og ekkert og gera allt og ekkert, við áttum alveg einstakt samband, fyrir það er ég þakklát.

Takk fyrir allt, elsku amma mín, ég á eftir að sakna þín mikið.

Þín Þórhildur Sölvadóttir.