Einar Jónsson skipstjóri

mbl.is - 12. maí 2021 | Minningargreinar

Einar Jónsson fæddist á Siglufirði 8. janúar 1932. Hann lést 6. maí 2021.

Hann var sonur hjónanna Jóns Oddssonar, útvegsbónda á Siglunesi, og Báru Tryggvadóttur. Bróðir Einars er
Oddur Jónsson, f. 1930, d. 2016.

Einar kvæntist Helgu Jónsdóttur, f. 29.11. 1933 á Sauðanesi við Siglufjörð, d. 17.8. 1972. Foreldrar hennar voru Jón Ingvar Helgason, vélstjóri og bóndi á Sauðanesi, f. 1896, d. 1970, og Jóna Jónsdóttir, f. 1905, d. 1996.

Einar og Helga bjuggu lengst af í Grindavík í sinni búskapartíð en þar byggðu þau sér hús við Ásabraut.

Börn þeirra, fimm talsins, eru:

  • 1) Jóna Sigurborg f. 1954, maki Gunnar Stefán Ásgrímsson, d. 2008, þau eignuðust einn son.

  • 2) Jón Ingvar Jónsson, f. 1956, maki Bjarklind Kristinsdóttir, þau eiga tvo syni.

  • 3) Ólöf Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1957, hún á einn son.

  • 4) Meyvant J'onsson, f. 1958, maki Þórunn Ólafsdóttir, þau eiga þrjá syni.

  • 5) Gunnar Jónsson, f. 1959, maki Marta María Sveinsdóttir, þau eiga fjögur börn.
Einar Jónsson - ókunnur ljósmyndari

Einar Jónsson - ókunnur ljósmyndari

Einar ólst upp á Siglunesi og sótti barnaskóla á Siglufirði. Hann fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk þar prófi 1955. Hann hóf sjómennsku 12-13 ára gamall og var háseti og síðar stýrimaður og skipstjóri allt til ársins 1972. Þá hóf hann störf í landi, aðallega við smíðar, og vann lengi hjá Þórði Waldorf og síðar í Grindinni hf.

Í febrúar 1999 lenti Einar í alvarlegu vinnuslysi og í kjölfarið flutti hann í Víðihlíð í Grindavík.

Útför Einars verður gerð frá Grindavíkurkirkju í dag, 12. maí 2021, og hefst athöfnin klukkan 14
------------------------------------------------

Elsku pabbi, afi og tengdapabbi. Þá er kallið komið til sumarlands en eftir standa góðar minningar í hjörtum okkar um þann dugnaðarmann í hvívetna sem þú varst, sama hvað þú tókst þér fyrir hendur og voru mörg lífsins verk sem voru lögð í þínar hendur erfið sem ekki allir hefðu höndlað að leysa en með þínu æðruleysi og góðu skapgerð vannst þú þau verkefni með sóma.

Sjórinn átti hug þinn allan á meðan þér gafst tækifæri til að róa á miðin en þegar svo þú komst í land lá fyrir þér að fara í smíðavinnu og eigum við börnin þín þér margt að þakka þegar kom að því að laga og dytta að, sama hvort það var að klæða hús eða laga eitthvað minna og aldrei spurðir þú hvort þú ættir að hjálpa, þú, Einar minn, mættir bara með smíðabeltið og hófst handa og hér í Grindavík liggja mörg handverk eftir þig og varst þú eftirsóttur í smíðar vegna vandvirkni, allir vissu að þú lagðir þig fram í verkum þínum.

Elsku Einar minn, minningin um dugmikinn og hraustan mann sem sigraði dauðann í raun þrisvar sinnum mun lifa í hjörtum okkar og barnabörnin fá að heyra sjósögurnar af afa og þitt lífshlaup verður í huga okkar til minningar um þig, elsku Einar okkar. Hinsta kveðja frá okkur.

Gunnar Einarsson, Marta Sveinsdóttir og barnabörn.